Samgönguráðuneyti

295/1994

Reglugerð um fjarskiptabúnað og fjarskipti íslenskra skipa. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um fjarskiptabúnað og fjarskipti

íslenskra skipa.

EFNISYFIRLIT:

I. KAFLI.

Almennar kröfur.

1. Skilgreiningar og orðaskýringar

2. Almenn ákvæði

3. Skipting hafsvæða

4. Teikningar, skoðun og útgáfa skírteina

5. Eftirlit og viðhald

6. Tæknikröfur, gerðarsamþykktir

II. KAFLI.

Fjarskiptabúnaður farþega-, flutninga- og fiskiskipa

með skrásetningarlengd 24 metra og lengri.

7. Fjarskiptabúnaður almennt

8. Öll skip skulu búin eftirfarandi tækjum án tillits til hafsvæða

9. Fjarskiptabúnaður skipa á hafsvæði A1

10. Fjarskiptabúnaður skipa á hafsvæðum A 1 og A2

11. Fjarskiptabúnaður skipa á hafsvæðum A 1, A2 og A3

12. Fjarskiptabúnaður fyrir skip, sem sigla á öllum hafsvæðum

13. Staðsetning fjarskiptabúnaðar og fyrirkomulag

14. Hlustvarsla

15. Starfsmenn sem annast fjarskipti

16. Fjarskiptadagbók

17. Færanlegar fjarskiptastöðvar og ratsjársvarar

18. Neyðarbaujur

19. Orkugjafar

20. Ratsjár og miðunarstöðvar

III. KAFLI.

Fjarskiptabúnaður þilfarsskipa og opinna skipa

með skrásetningarlengd minni en 24 metrar.

21. Fjarskiptabúnaður fyrir skip á hafsvæði A1

22. Fjarskiptabúnaður fyrir skip á hafsvæðum A1 og A2

23. Fjarskiptabúnaður fyrir skip á hafsvæðum A3 og A4

24. Staðsetning fjarskiptabúnaðar og fyrirkomulag

25. Starfsmenn sem annast fjarskipti

26. Hlustvarsla

27. Orkugjafar

28. Skip sem hafa haffæri til siglinga á hafsvæði A1 frá 1. apríl til 30. september.

IV KAFLI.

Gildistaka o.fl.

29. Gildistaka o.fl.

I. KAFLI

Almennar kröfur.

1. gr.

Skilgreiningar og orðaskýringar.

1.1 Alþjóðasamþykktir þær, sem getið er um í þessum reglum eru: Alþjóðasamningur um öryggi mannslífa á hafinu (SOLAS), ásamt viðaukum, Alþjóðafjarskiptasamþykktin/Alþjóðaradioreglugerðin (RR) og Alþjóðasamþykkt um öryggi fiskiskipa (Torremolinos 1977), ásamt viðaukum.

1.2 Siglingasvæði: Siglingasvæðin eins og þau eru útskýrð í reglugerð þessari og gefin eru út samkvæmt skilgreiningum Alþjóðasiglingamálastofnunar (IMO) í SOLAS.

1.3 Íslenskt skip: Skip, sem skráð er í íslenska skipaskrá samkvæmt lögum um skráningu skipa nr. 115/ 1985.

1.4 Nýtt skip: Skip sem hafin er smíði á eftir gildistöku reglugerðar þessarar.

1.5 Gamalt skip: Skip sem ekki er nýtt.

1.6 Alþjóðafjarskiptaþjónusta: Fjarskiptaþjónusta milli fjarskiptastöðva, sem eru staðsettar hver í sínu landi eða tilheyra hver sínu landi.

1.7 Farstöðvaþjónusta: Fjarskiptaþjónusta milli farstöðva og landstöðva eða milli farstöðva.

1.8 Sjófarstöðvaþjónusta: Farstöðvaþjónusta milli strandstöðva og sjófarstöðva eða milli sjófarstöðva. Farstöðvar björgunarbáta geta einnig tekið þátt í þessari þjónustu.

1.9 Sjófarstöð (skipsstöð): Farstöð í sjófarstöðvaþjónustunni um borð í skipi, sem er ekki að staðaldri fyrir akkeri eða bundið við bryggju. Björgunarbátar teljast ekki skip í þessu sambandi.

1.10 Strandstöð: Landstöð í sjófarstöðvaþjónustunni.

1.11 Hafnarstöð: Landstöð í hafnarþjónustu fyrir skip.

1.12 Skipajarðstöð: Færanleg jarðstöð í gervihnattasjófarstöðvaþjónustu, sem staðsett er um borð í skipi.

1.13 Almenn þráðlaus fjarskipti: Fjarskipti sem tengjast hvers kyns rekstri, önnur en neyðar-, háska- og öryggissendingar.

1.14 Stöðug hlustvarsla: Fjarskiptavakt skal ekki rofin nema þegar móttökugeta skipsins er trufluð í stuttan tíma vegna eigin viðskipta, eða þegar reglubundið viðhald eða skoðun fer fram á búnaði.

1.15 Öryggistilkynningar til sjófarenda: Aðvaranir varðandi siglingar og veðurfar. Veðurspár og aðrar áríðandi upplýsingar sem sendar eru og varða öryggi skipa.

1.16 INMARSAT (International Maritime Satellite Organization): Alþjóðastofnun um notkun gervitungla í siglingum.

1.17 COSPAS/SARSAT: Kerfi gervihnatta á pólferlum, sem taka á móti merkjum frá neyðarsendum (EPIRB, ELT, PLT) á tíðnunum 406 og 121,5 MHz og endursenda þau til sérstakra viðtökustöðva á jörðu, sem staðsetja þau og aðvara leitar- og björgunarstöðvar.

1.18 Alþjóðleg NAVTEX-þjónusta: Útsending og sjálfvirk prentviðtaka á öryggistilkynningum til sjófarenda (sbr. gr. 1.15) á samræmdum tímum á ensku máli, á 518 kHz.

1.19 Radíótelex: Þráðlaus prentfjarskipti (NBDP).

1.20 Stafrænt valkall (DSC, Digital Selective Calling): Tækni, sem nýtir sér stafræna kóða er gera fjarskiptastöðvum kleift að opna fyrir viðtæki um borð í skipi eða skipum og miðlar upplýsingum til þeirra, auk þess að uppfylla viðeigandi tilmæli Alþjóðaráðgjafanefndarinnar um þráðlaus fjarskipti (Radio Consultative Committee (CCIR)).

1.21 Hópkallkerfi: Hópkall þegar kallað er samtímis á fyrirfram ákveðinn hóp skipa.

1.22 Handvirkur neyðarsendir: Neyðarsendir, sem ræstur er handvirkt, en sendir út sjálfvirkt neyðarmerki á 406 og/eða 121.5 MHz til staðsetningar í neyðartilfellum (EPIRB).

1.23 Frífljótandi neyðarbauja: Bauja með neyðarsendi, sem ræsist sjálfvirkt og sendir út sjálfvirkt neyðarmerki á 406 og 121.5 MHz til staðsetningar í neyðartilfellum, eftir að hafa flotið upp frá sökkvandi skipi (EPIRB).

1.24 Færanleg metrabylgjustöð (handstöð): Lítil talstöð í sjófarstöðvaþjónustunni til fjarskipta um borð í skipi, eða milli skips og björgunarbáta í sambandi við notkun þeirra eða æfingar með þeim, eða til fjarskipta milli skipa.

1.25 Neyðarorka: Neyðarraforka sú sem hægt er að keyra inn á netkerfi skipsins þegar aðalorkugjafar bregðast.

1.26 Varaorka: Vararaforkugjafi sem séð getur fjarskiptatækjum fyrir raforku í ákveðinn tíma til neyðarfjarskipta þegar aðal- og neyðarraforkugjafar bregðast.

2. gr.

Almenn ákvæði.

2.1 Reglugerð þessi gildir fyrir öll íslensk skip.

Auk þess skulu öll íslensk skip, sem falla undir ákvæði alþjóðasamþykkta, er fjalla um fjarskipti skipa og Ísland hefur fullgilt, fullnægja reglum þeirra samþykkta.

2.2 Fyrir gömul skip gilda kröfur um tækjabúnað samkvæmt reglugerð nr. 813/1981 með áorðnum breytingum fram til 1. febrúar 1999, að viðbættum þeim kröfum í reglugerð þessari, sem fram koma í gr. 8.4, 8.5, 17.3, 20.1, og 20.2.

2.3 Skip, sem smíðuð eru fyrir 1. febrúar 1995, skulu uppfylla kröfur um tækjabúnað samkvæmt þessari reglugerð eða eldri reglugerð nr. 813/1981, með áorðnum breytingum, til 1. febrúar 1999.

2.4 Skip, sem smíðuð eru eftir 1. febrúar 1995 skulu uppfylla allar viðeigandi kröfur þessarar reglugerðar.

2.5 Við endurnýjun á tækjum eða breytingar á skipulagi um borð í skipi, gilda ákvæði þessarar reglugerðar varðandi viðkomandi tæki eða fyrirkomulag eins og um nýtt skip væri að ræða.

2.6 Ekkert ákvæði reglugerðarinnar skal koma í veg fyrir að skip, björgunarbátar eða fólk í neyð noti hvaða aðferðir sem völ er á, til að vekja á sér athygli eða gefa upp staðarákvörðun og leita aðstoðar.

3. gr.

Skipting hafsvæði.

3.1 Kröfur um fjarskiptabúnað til að annast fjarskipti samkvæmt 7. gr. miðast við siglingasvæði skipa eins og þau eru skilgreind í IV. kafla SOLAS, ásamt viðbótum frá 1988. Jafnframt skulu öll skip sem sigla á hafsvæði A1 og A2 búin tækjum til sjálfvirkrar tilkynningarskyldu (STK) frá og með 1. febrúar 1999. Veita má undanþágu frá þessu ákvæði til skipa sem einungis sigla tímabundið inn á svæðið.

3.2 Hafsvæði A1: Er hafsvæði sem takmarkast af langdrægi strandstöðvar til talfjarskipta og viðvarana með stafrænu valkalli (DSC) á metrabylgju (VHF).

3.3 Hafsvæði A2: Er svæði utan við hafsvæði A1, sem takmarkast af langdrægi strandstöðvar til talfjarskipta og viðvarana með stafrænu valkalli (DSC) á millibylgju (MF).

3.4 Hafsvæði A3: Er svæði utan hafsvæða Al og A2, sem takmarkast af langdrægi kyrrstæðra INMARSAT-gervihnatta til sendinga viðvarana, þ.e. milli 70°N og 70°S.

3.5 Hafsvæði A4: Er svæði utan hafsvæða A1, A2 og A3.

4. gr.

Teikningar, loftnet, skoðun og útgáfu skírteina.

4.1 Teikningar, sem sýna staðsetningu og fyrirkomulag fjarskiptabúnaðarins með skýringum um tegund og framleiðanda, ásamt teikningu af fyrirkomulagi loftneta, skal senda Siglingamálastofnun ríkisins til samþykktar. Siglingamálastofnun lætur Fjarskiptaeftirliti ríkisins í té afrit af þeim upplýsingum og teikningum.

4.2 Fjarskiptaeftirlit ríkisins gefur út leyfisbréf fyrir notkun fjarskiptatækja og hefur eftirlit með þeim. Siglingamálastofnun ríkisins gefur út þau skírteini, sem krafist er fyrir skip, er falla undir gildandi alþjóðasamþykktir um öryggi mannslífa á hafinu (SOLAS) og alþjóðasamþykkt um öryggi fiskiskipa (Torremolinos), þegar hún hefur tekið gildi.

4.3 Skoðun.

4.3.1 Skoðun fjarskiptabúnaðar skal fara fram árlega og hefur Fjarskiptaeftirlit ríkisins yfirumsjón með framkvæmd hennar. Heimilt er að fela öðrum að annast skoðun, enda uppfylli þeir kröfur samgönguráðuneytis um menntun og þjálfun starfsmanna svo og kröfur um nauðsynlegan tækjabúnað. Að skoðun lokinni skal gefa út öryggisvottorð fyrir fjarskiptabúnaðinn sem gildir í 12 mánuði í senn, enda verði á tímabilinu engar veigamiklar breytingar gerðar á búnaðinum, en þá fari fram endurskoðun. Þó má gildistíminn vera 14 mánuðir, fari skoðun fram tveimur mánuðum fyrir tilsettan tíma.

4.3.2 Skoðunaraðili skal senda Fjarskiptaeftirliti ríkisins og Siglingamálastofnun ríkisins afrit af skoðunarskýrslum yfir búnað þann sem reglurnar fjalla um, strax að lokinni skoðun.

4.3.3 Skoðunarmenn fjarskiptabúnaðar skulu að lokinni skoðun færa niðurstöður í eftirlitsbók skipsins.

4.4.4 Skipstjóra ber skylda til að fylgjast með því hvenær öryggisvottorð fellur úr gildi og sjá um að skoðun fari fram til endurnýjunar þess.

4.4.5 Skipstjóri eða staðgengill hans skal vera viðstaddur þegar skoðun fer fram.

5. gr.

Eftirlit og viðhald.

5.1 Búnaður skal vera hannaður og byggður þannig að hægt sé að skipta honum út, eða einstökum einingum hans, án þess að umtalsverðra endurstillinga sé þörf.

5.2 Þar sem því verður við komið skal búnaður vera þannig uppsettur að auðvelt sé að komast að honum til eftirlits og viðhalds.

5.3 Starfrækslu- og viðgerðahandbækur fjarskiptabúnaðar skulu vera um borð. Einnig varahlutir og verkfæri, eftir því sem við á.

5.4 Til eru þrjár mismunandi viðhaldsaðferðir:

1. Tvöföldun búnaðar.

2. Viðhald í landi.

3. Viðhald um borð.

Skip, sem er með haffærisskírteini eða önnur jafngild alþjóðleg skírteini til siglinga á hafsvæði A1 og/eða A2, getur valið eina eða fleiri af ofannefndum aðferðum. Skip sem einnig er með haffærisskírteini eða önnur jafngild alþjóðleg skírteini til siglinga á hafsvæði A3 og/eða A4 skal velja a.m.k. tvær ofangreindra aðferða, það er:

A. Tvöföldun búnaðar ( 1 ) ásamt viðhaldi í landi (2).

B. Tvöföldun búnaðar ( 1 ) ásamt viðhaldi um borð (3).

C. Viðhald í landi (2) ásamt viðhaldi um borð (3).

Val á viðhaldsaðferðum skal tilkynnt Siglingamálastofnun ríkisins eða Fjarskiptaeftirliti ríkisins.

5.5 Tvöföldun búnaðar.

5.5.1 Skip sem hafa haffærisskírteini til að sigla eingöngu á hafsvæði A1, uppfylla skilyrði um tvöföldun búnaðar með viðbótarmetrabylgjustöð samkvæmt gr. 8.1 og 21.1.

5.5.2 Skip sem hafa haffærisskírteini til að sigla eingöngu á hafsvæðum A1 og A2, uppfylla skilyrði um tvöföldun búnaðar með viðbótarmetrabylgjustöð samkvæmt gr. 8.1 og viðbótarmillibylgjustöð samkvæmt gr. 10.2 og 22.2.

5.5.3 Skip sem hafa haffærisskírteini til að sigla á hafsvæði A1, A2 og A3 uppfylla kröfur um tvöföldun búnaðar með viðbótarmetrabylgjustöð samkvæmt gr. 8.1 og annaðhvort millibylgju-/stuttbylgjustöð samkvæmt gr. 11.2.1, sem uppfyllir öll skilyrði gr. 14.4.3 eða INMARSAT skipajarðstöð samkvæmt gr. 11.3.1. Hægt skal vera að setja í gang neyðarsendingar með millibylgju-/stuttbylgjustöðinni eða skipajarðstöðinni frá þeim stað sem skipinu er venjulega stjórnað.

5.5.4 Skip sem hafa haffærisskírteini til að sigla á öllum hafsvæðum uppfylla kröfur um tvöföldun búnaðar með sama viðbótarbúnaði og krafist er í gr. 5.5.3 að því undanskildu að skipajarðstöð má ekki notast til tvöföldunar.

5.5.5 Skip sem einungis fara stöku sinnum á hafsvæði A4 mega, ef þau eru búin millibylgju-/stuttbylgjustöð samkvæmt gr. 11.2.1, nota skipajarðstöð samkvæmt gr. 11.3.1 til að uppfylla skilyrði um tvöföldun búnaðar.

5.5.6 Ofangreindur búnaður skal tengdur sér loftnetum og þannig frá honum gengið að hann sé tilbúinn til tafarlausrar notkunar.

5.5.7 Hægt skal vera að reka ofangreindan búnað frá varaorkugjafa eða varaorkugjöfum skipsins samkvæmt gr. 19 og 27.

5.6 Viðhald í landi: Viðhald í landi skal tryggt þannig að öruggt sé að skip leggi aldrei úr höfn án þess að öllum kröfum 7. gr. um virkni búnaðar sé fullnægt.

5.7 Viðhald um borð: Sá sem annast viðhald um borð þarf að hafa til þess tilskilin réttindi. Viðkomandi þarf að uppfylla þær menntunarkröfur sem settar eru fram í Alþjóðaradíóreglugerðinni og tilmælum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar .

5.8 Tryggja skal að fjarskiptabúnaði þeim sem krafist er samkvæmt þessari reglugerð sé haldið svo við að hann svari kröfum um aðgengi og virkni samkvæmt reglugerð þessari og að hann svari kröfum staðla er lúta að vinnsluhæfni slíks búnaðar.

6. gr.

Tæknikröfur, gerðarsamþykktir.

6.1 Allur sá fjarskiptabúnaður sem reglugerð þessi fjallar um skal vera gerðarsamþykktur af Fjarskiptaeftirliti ríkisins eða hafa hlotið gerðarsamþykki, sem byggist á samevrópskum tæknireglugerðum (CTR) eða CEPT ákvörðunum og nýtur almennt viðurkenningar í Evrópu.

II. KAFLI

Fjarskiptabúnaður farþega-, flutninga- og fiskiskipa

með skráningarlengd 24 metrar og lengri.

7. gr.

Fjarskiptabúnaður almennt.

Með fjarskiptabúnaði skipa skal vera hægt að framkvæma eftirfarandi:

7.1 Senda neyðarskeyti til lands með að minnsta kosti tveimur aðskildum og sjálfstæðum aðferðum, sem hvor um sig notar mismunandi fjarskiptakerfi.

7.2 Taka á móti neyðarskeytum frá landi.

7.3 Senda og taka á móti neyðarskeytum frá skipum.

7.4 Senda og taka á móti skeytum varðandi samræmingu leitar og björgunar.

7.5 Senda og taka á móti skeytum á björgunarstað.

7.6 Senda og taka á móti merkjum til staðsetningar, samkvæmt gr. 20.1 og 20.2.

7.7 Senda og taka á móti upplýsingum varðandi öryggi á sjó.

7.8 Annast almenn fjarskipti við strandstöðvar og önnur fjarskiptakerfi í landi.

7.9 Annast almenn fjarskipti við önnur skip.

8. gr.

Öll skip skulu búin

eftirfarandi tækjum án tillits til hafsvæða.

8.1 Metrabylgjustöð fyrir eftirfarandi rásir:

Rás 16 ( 156.800 MHz), rás 6 ( 156.300 MHz), rás 13 ( 156.650 MHz), auk rása til almennra fjarskipta og sendi á rás 70 (156.525 MHz) með stafrænu valkalli (DSC). Má vera sambyggt í einni stöð.

8.2 Varðviðtæki fyrir stafrænt valkall á rás 70. Skal vera sér tæki.

8.3 Ratsjársvara á 9 GHz (3 cm, X-band) samkvæmt gr. 17.3. Gildir ekki fyrir fiskiskip undir 45 metrum.

8.4 NAVTEX-viðtæki frá og með 1. ágúst 1995. Fari skip út fyrir þjónustusvæði NAVTEX skulu þau að auki búin tækjum til prentfjarskipta á stuttbylgju (radiótelex). Séu skip eingöngu á svæði sem INMARSAT gervihnöttur nær til (milli 70°N og 70°S) mega þau nota fjarskiptabúnað frá INMARSAT hópkallkerfinu í stað prentfjarskipta á stuttbylgju (radíótelex) til viðtöku öryggistilkynninga til sjófarenda. Farþega- og flutningaskip skulu búin NAVTEX-viðtæki frá og með gildistöku reglugerðar þessarar.

8.5 Frífljótandi COSPAS/SARSAT neyðarbauju á 406/121.5 MHz eða frífljótandi INMARSAT neyðarbauju á 1.6 GHz séu þau eingöngu á svæðum sem INMARSAT gervihnettir ná til frá og með 1. ágúst 1995. Farþega- og flutningaskip skulu búin frífljótandi neyðarbauju frá og með gildistöku reglugerðar þessarar.

8.6 Til 1. febrúar 1999 eða annarrar dagsetningar sem ákveðin kynni að verða, varðviðtæki fyrir kall- og neyðartíðnina 2182 kHz ásamt tæki til að senda vekjaramerki á 2182 kHz. Krafan um það síðarnefnda gildir ekki sé eingöngu siglt á hafsvæði A1.

8.7 Neyðarbauju fyrir gúmmíbjörgunarbáta á tíðnunum 121.5 og 406 MHz. Sjá gr. 18.2.

9. gr.

Fjarskiptabúnaður fyrir skip á hafsvæði A1.

9.1 Skip, sem eingöngu sigla á hafsvæði A1, skulu búin fjarskiptatækjum samkvæmt 8. gr.

10. gr.

Fjarskiptabúnaður fyrir skip á hafsvæðum A1 og A2.

10.1 Auk þess sem krafist er í gr. 8 skulu skip sem sigla eingöngu um hafsvæði A 1 og A2 vera búin:

10.2 Millibylgjustöð, sendi og viðtæki fyrir neyðar- og öryggisfjarskipti á tíðninni 2182 kHz og sendi fyrir stafrænt valkall (DSC) á tíðninni 2187.5 kHz. Má vera sambyggt í einni stöð.

10.3 Varðviðtæki fyrir stafrænt valkall á tíðninni 2187.5 kHz. Skal vera sér tæki.

10.4 Eitt af eftirfarandi til sendingar neyðarskeyta:

- Frífljótandi COSPAS/SARSAT neyðarbauju 406/121.5 MHz. Má vera sú sem krafist er í gr. 8.5.

- Frífljótandi INMARSAT neyðarbauju 1.6 GHz. Má vera sú sem krafist er í gr. 8.5.

- Stuttbylgjustöð með stafrænu valkalli (DSC).

- INMARSAT-skipajarðstöð.

10.5 Eitt af eftirfarandi til almennra fjarskipta:

- Millibylgjustöð, sendi og viðtæki á tíðnisviðinu 1605 - 4000 kHz. Má vera sambyggð stöðinni í gr. 10.2.

- Stuttbylgjustöð, sendi og viðtæki á tíðnisviðinu 4000 - 27000 kHz. Má vera sambyggð söðinni í gr. 10.2.

- INMARSAT-skipajarðstöð. Má vera sú sama og er í gr. 10.4.

11. gr.

Fjarskiptabúnaður fyrir .skip á hafsvæðum A1, A2 og A3.

11.1 Auk þess sem krafist er í gr. 8, skulu skip sem eingöngu sigla um hafsvæði A1, A2 og A3 vera búin:

11.2.1 Millibylgju-/stuttbylgjustöð, sendi og viðtæki fyrir neyðar- og öryggisfjarskipti á öllum neyðartíðnum í tíðnisviðinu 1.6 - 27.5 MHz fyrir tal, stafrænt valkall (DSC) og prentfjarskipti (radíótelex). Má vera sambyggt í einni stöð.

11.2.2 Varðviðtæki fyrir stafrænt valkall á neyðartíðnunum 2187.5 og 8414.5 kHz og að auki a.m.k. einni af stuttbylgjuneyðartíðnunum 4207.5, 6312, 12577 eða 16804.5 kHz. Skal vera sér tæki.

11.2.3 Millibylgju-/stuttbylgjustöð, sendi og viðtæki fyrir almenn tal- og prentfjarskipti (radíótelex). Má vera sama og krafist er í gr. 11.2.1.

11.2.4 Eitt af eftirfarandi til sendinga neyðarskeyta:

- Frífljótandi COSPAS/SARSAT-neyðarbauju 406/121.5 MHz. Má vera sú sem krafist er í gr. 8.5.

- Frífljótandi INMARSAT-neyðarbauju 1.6 GHz, sé skip eingöngu á svæði sem INMARSAT gervihnöttur nær til. Má vera sú sem krafist er í gr. 8.5.

- INMARSAT skipajarðstöð.

Eða að öðrum kosti:

11.3.1 INMARSAT skipajarðstöð, sendi og viðtæki fyrir neyðar- og öryggisfjarskipti með telex og að auki almenn telex- og/eða talfjarskipti.

11.3.2 Millibylgjustöð, sendi og viðtæki fyrir neyðar- og öryggisfjarskipti á tíðninni 2182 kHz og sendi fyrir stafrænt valkall (DSC) á tíðninni 2187.5 kHz. Má vera sambyggt í einni stöð.

11.3.3 Varðviðtæki fyrir stafrænt valkall á tíðninni 2187.5 kHz. Skal vera sér tæki.

11.3.4 Eitt af eftirfarandi til sendinga neyðarskeyta:

- Frífljótandi COSPAS/SARSAT-neyðarbauju 406/121.5 MHz. Má vera sú sem krafist er í gr. 8.5.

- Frífljótandi INMARSAT-neyðarbauju l.6 GHz. Má vera sú sem krafist er í gr. 8.5.

- Stuttbylgju með stafrænu valkalli (DSC).

- Viðbótar INMARSAT-skipajarðstöð.

12. gr.

Fjarskiptabúnaður fyrir skip, sem sigla á öllum hafsvæðum.

12.1 Auk þess sem krafist er í gr. 8, skulu skip sem sigla um öll hafsvæði, A 1, A2, A3, A4, vera búin:

12.2 Millibylgju-/stuttbylgjustöð, sendi og viðtæki fyrir neyðar- og öryggisfjarskipti á öllum neyðartíðnum í tíðnisviðinu 1.6 - 27.5 MHz fyrir tal, stafrænt valkall (DSC) og prentfjarskipti (radíótelex). Má vera sambyggt í einni stöð.

12.3 Varðviðtæki fyrir stafrænt valkall á neyðartíðnunum 2187.5 og 8414.5 kHz og að auki a.m.k. einni af stuttbylgjuneyðartíðnunum 4207.5, 6312, 12577 eða 16804.5 kHz. Skal vera sér tæki.

12.4 Millibylgju-/stuttbylgjustöð, sendi og viðtæki fyrir almenn tal- og prentfjarskipti (radíótelex). Má vera sama og gr. 12.2.

12.5 Frífljótandi COSPAS/SARSAT-neyðarbauju 406/121.5 MHz. Má vera sú sem krafist er í gr. 8.5.

13. gr.

Staðsetning fjarskiptabúnaðar og fyrirkomulag.

13.1. Allur fjarskiptabúnaður skal:

13.1.1 Þannig staðsettur að notkun hans sé ekki trufluð af völdum vélbúnaðar, rafbúnaðar eða öðru og að ekki verði skaðleg víxlverkun við annan búnað.

13.1.2 Þannig staðsettur að öryggi hans sé tryggt og að hann sé ávallt aðgengilegur til tafarlausrar notkunar.

13.1.3 Varinn gegn skaðlegum áhrifum vatns, mikilla hitasveiflna og annarra umhverfisaðstæðna.

13.1.4 Hafa góða, varanlega raflýsingu sem er óháð aðal- og neyðarraforku skipsins til að lýsa upp stjórntæki fjarskiptabúnaðarins, þannig að þægilegt sé að vinna við hann.

13.1.5 Greinilega merktur kallmerki, skipaskrárnúmeri og öðrum kóðum sem eru notaðir í tengslum við hann.

13.2 Notkun öryggisrása á metrabylgju skal vera aðgengileg í brú frá þeim stað sem skipinu er venjulega stjórnað. Þar sem nauðsyn krefur skal vera hægt að hafa samband frá brúarvængjum og má nota til þess handstöðvar.

13.3 Eingöngu eftirfarandi fjarskiptabúnaður má vera staðsettur á þeim stað sem skipi er venjulega stjórnað:

13.3.1 Metrabylgjustöð, sem notist vegna öryggis siglingar.

13.3.2 Einfaldur, fljótvirkur búnaður til að senda neyðarskeyti með þeim fjarskiptatækjum sem krafist er.

13.3.3 Búnaður, sem sýnir viðtöku neyðarskeyta og áríðandi öryggistilkynninga (NAV-TEX, varðviðtæki, INMARSAT).

13.4 Allur annar fjarskiptabúnaður skal staðsettur þannig að framangreindar kröfur séu uppfylltar. Sé hann staðsettur í stýrishúsi skal honum þannig fyrir komið að fjarskipti trufli ekki stjórn skips og öfugt.

13.5 Viðurkennd klukka skal vera fest þannig að allur talnaflöturinn sjáist frá umsjónarstaðnum fyrir fjarskiptastöðina.

13.6 Leiðbeiningar, sem gefa skýra mynd af ferli neyðarfjarskipta, skulu vera vel sjáanlegar frá umsjónarstað fjarskipta.

14. gr.

Hlustvarsla.

14.1 Sérhvert skip á sjó skal halda stöðuga hlustvörslu eftir útsendingum á öryggistilkynningum fyrir sjófarendur á viðeigandi tíðnum þar sem slíkum upplýsingum er útvarpað til þess svæðis sem skipið siglir um. Einnig skal hlustað eftir viðskiptalistum strandstöðva.

14.2 Til 1. febrúar 1999 eða annarrar dagsetningar sem ákveðin kynni að verða af öryggisnefnd sjófarenda (MSC) skal hvert skip á hafi úti halda stöðuga hlustvörslu á kall og neyðartíðninni fyrir metrabylgju, rás 16 (VHF). Hlustað skal á þeim stað sem skipinu er venjulega stjórnað frá.

14.3 Til 1. febrúar 1999 eða annarrar dagsetningar sem ákveðin kynni að verða af öryggisnefnd sjófarenda (MSC), skal hvert skip, sem skyldugt er að hafa varðviðtæki á kall- og neyðartíðninni 2182 kHz, hafa stöðuga hlustvörslu á nefndri tíðni. Hlustað skal á þeim stað sem skipinu er venjulega stjórnað frá.

14.4 Sérhvert skip á sjó skal halda stöðuga hlustvörslu:

14.4.1 Á metrabylgjurás 70 (VHF) fyrir stafrænt valkall (DSC), sé skipið búið fjarskiptabúnaði fyrir metrabylgju.

14.4.2 Á neyðar- og öryggistíðninni 2187.5 kHz fyrir stafrænt valkall, sé skipið búið fjarskiptabúnaði fyrir millibylgju (MF).

14.4.3 Á neyðar- og öryggistíðnunum 2187.5 kHz og 8414.5 kHz fyrir stafrænt valkall og að auki á að minnsta kosti einni eftirtalinna neyðar- og öryggistíðna 4207.5 kHz, 6312 kHz, 12577 kHz eða 16804.5 kHz með tilliti til tíma sólarhrings og staðsetningar skipsins, sé skipið búið fjarskiptabúnaði fyrir millibylgju/stuttbylgju (MF/HF). Halda má vakt þessa með viðtökuskanna.

14.4.4 Eftir neyðarskeyti frá landi til skips um gervihnött, sé það búið INMARSAT skipajarðstöð.

15. gr.

Starfsmenn sem annast fjarskipti.

15.1 Skip, sem eru eingöngu innan hafsvæðis A1, skulu hafa um borð a.m.k. einn starfsmann með takmarkað fjarskiptamannsskírteini (Restricted Operator's Certificate).

15.2 Skip, sem sigla utan hafsvæðis A1, skulu hafa um borð a.m.k. tvo starfsmenn með almennt fjarskiptamannsskírteini (General Operator's Certificate).

15.3 Menntunarkröfur til þeirra sem annast fjarskipti skulu vera í samræmi við IMO Ályktun A 703 (17) og greinar 55 og 56 í Alþjóðaradíóreglugerðinni.

15.4 Þeir sem annast fjarskipti mega einnig gegna öðrum stöðum um borð. Ef annast þarf neyðarfjarskipti skal sá sem þau annast eigi hafa með höndum önnur störf meðan á þeim stendur.

16. gr.

Fjarskiptadagbók.

16.1 Fjarskiptadagbók skal staðsett við fjarskiptastöð og skal vera aðgengileg skoðunarmönnum fjarskiptabúnaðar.

16.2 Eftirfarandi skal fært í dagbók:

16.2.1 Allt varðandi neyðar- og öryggisfjarskipti.

16.2.2 Upplýsingar varðandi viðhald fjarskiptatækjanna og hleðslu vararafhlaðna fjarskiptabúnaðar.

16.2.3 Skoðanir fjarskiptabúnaðar.

17. gr.

Færanlegar fjarskiptastöðvar og ratsjársvarar.

17.1 Að minnsta kosti þrjár færanlegar metrabylgjustöðvar (handstöðvar) skulu vera til reiðu á hverju farþegaskipi, hverju flutningaskipi sem er 500 brúttórúmlestir eða stærra og fiskiskipi 45 metrar og lengra. Að minnsta kosti tvær færanlegar metrabylgjustöðvar (handstöðvar) skulu vera til reiðu á hverju flutningaskipi sem er minna en 500 brúttórúmlestir og fiskiskipi sem er 24 metrar og lengra. Stöðvarnar skulu geymdar á stað þar sem auðvelt er að nálgast þær og ávallt vera fullhlaðnar.

17.2 Heimila má notkun færanlegra metrabylgjustöðva (handstöðva), sem komið hafa í skip fyrir gildistöku þessarar reglugerðar, til 1. febrúar 1999, enda þótt þær standist ekki að fullu kröfur um vinnsluhæfni.

17.3 Að minnsta kosti einn ratsjársvari skal vera staðsettur á hvorri hlið allra farþegaskipa og allra flutningaskipa sem eru 500 brúttórúmlestir eða stærri og fiskiskipa sem eru 45 metrar og lengri. Að minnsta kosti einn ratsjársvari skal vera staðsettur um borð í hverju flutningaskipi, sem er minna en 500 brúttórúmlestir. Ratsjársvörunum skal komið fyrir á þannig stöðum að mjög fljótlegt sé að koma þeim fyrir í hverskyns björgunarbát öðrum en þeim gúmmíbjörgunarbát eða flekum sem krafist er samkvæmt SOLAS III. kafla, reglu 26.1.4. Að öðrum kosti skal einum ratsjársvara komið fyrir í hverjum björgunarbát, öðrum en þeim sem krafist er samkvæmt SOLAS III. kafla, reglu 26.1.4.

18. gr.

Neyðarbaujur.

18.1 Gúmmíbjörgunarbátar skipa, sem skylt er að hafa slíka báta, skulu búnir bauju sem sendir frá sér neyðarmerki á tíðnunum 121.5 og 406 MHz. Baujurnar þurfa ekki að vera fleiri en 5 um borð í sama skipi, en þar sem fjöldi gúmmíbjörgunarbáta fer fram úr 5, skulu umbúðir þeirra, sem búnir eru baujum, vera greinilega merktar. Baujunum skal pakkað í bátana um leið og þeir eru afhentir til notkunar og skulu þá settar í þær nýjar rafhlöður.

18.2 Heimilt er að veita undanþágu frá því að neyðarbauja í gúmmíbjörgunarbátum sendi á tíðninni 406 MHz. Sendir hún þá eingöngu á 121.5 MHz. Flutningaskip sem búin eru ratsjársvörum samkvæmt gr. 8.3 og 17.3 eru undanþegin kröfum um neyðarsenda í gúmmíbjörgunarbátum.

18.3 Um staðsetningu frífljótandi bauja með neyðarsendum fyrir 406/121.5 MHz:

18.3.1 Neyðarbaujan skal vera á stað þar sem auðvelt er að nálgast hana.

18.3.2 Baujan skal vera tilbúin til losunar með handafli og skal einn maður geta borið hana til björgunarbáts.

18.3.3 Baujan skal geta flotið frjáls, ef skipið sekkur og fara sjálfkrafa í gang þegar hún er komin á flot.

18.3.4 Unnt skal vera að setja neyðarsendinn í gang með handafli.

18.3.5 Leiðbeiningum, á íslensku, um notkun neyðarbaujunnar skal komið fyrir á áberandi stað, á eða við baujuna.

19. gr.

Orkugjafar.

19.1 Þegar skip er á hafi úti skal ætíð vera fyrir hendi næg raforka til að starfrækja fjarskiptabúnaðinn og hlaða þá rafgeyma sem notaðir eru sem varaorkugjafar fyrir hann.

19.2 Á öllum skipum skal vera varaorkugjafi eða varaorkugjafar fyrir fjarskiptabúnaðinn, þannig að hægt sé að starfrækja neyðar- eða öryggisfjarskipti þótt aðal- og neyðarorkugjafar skipsins bregðist.

Samtímis skal varaorkugjafi eða varaorkugjafar sjá eftirfarandi tækjum fyrir nægjanlegri orku: Metrabylgjustöðinni (VHF), sem krafist er í gr. 8.1, og, eftir því sem við á, í samræmi við tækjakröfur miðað við hafsvæði sem siglt er á, annaðhvort millibylgjustöð (MF), sem krafist er í gr. 10.2, eða millibylgju- /stuttbylgjustöð (MF/HF), sem krafist er í gr. 11.2.1, eða INMARSAT skipajarðstöð, sem krafist er í gr. 11.3.1, og að auki neyðarlýsingu fyrir fjarskiptabúnaðinn og siglingatæki sem tengd eru honum, að tímalengd ekki skemur en:

19.2.1 Eina klukkustund fyrir skip sem byggð eru 1. febrúar 1995 eða síðar.

19.2.2 Eina klukkustund fyrir skip sem byggð eru fyrir 1. febrúar 1995, sé neyðarorkugjafi í fullu samræmi við allar viðeigandi kröfur SOLAS II-1 kafla reglu 42 eða 43, þ.m.t. kröfur um að sjá fjarskiptabúnaðinum fyrir orku.

19.2.3 Sex klukkustundir fyrir skip sem byggð eru fyrir 1. febrúar 1995, sé neyðarorkugjafinn ekki fyrir hendi eða ekki í fullu samræmi við viðeigandi kröfur SOLAS II-1 kafla, grein 42 eða 43, þ.m.t. kröfur um að sjá fjarskiptabúnaðinum fyrir orku.

19.2.4 Varaorkugjafinn eða varaorkugjafarnir þurfa ekki að geta séð bæði millibylgjustöð og stuttbylgjustöð fyrir orku á sama tíma.

19.3 Varaorkugjafi eða varaorkugjafar skulu vera aðskildir frá rafkerfi skipsins og þeirri orku sem knýr skipið áfram.

19.4 Þar sem hægt er að tengja, auk metrabylgjustöðvarinnar, tvö eða fleiri fjarskiptatæki samkvæmt gr. 19.2 við varaorkugjafann, skal vera hægt að sjá þeim samtímis fyrir nægjanlegri orku í þann tíma sem tilgreindur er í gr. 19.2.1, 19.2.2 og 19.2.3.

19.5 Nota má varaorkugjafann eða varaorkugjafana til að sjá fyrir raflýsingu, sem krafist er samkvæmt gr. 13.1.4.

19.6 Þar sem varaorkugjafi eða varaorkugjafar eru hlaðanlegur rafgeymir eða rafgeymar:

19.6.1 Skal vera búnaður til að hlaða rafgeymana sjálfvirkt og skal hann geta endurhlaðið þá þannig að þeir skili þeim lágmarksafköstum sem krafist er innan 10 klukkustunda.

19.6.2 Skal ganga úr skugga um afköst rafgeymis eða rafgeyma með viðeigandi aðferðum á minnst 12 mánaða fresti.

19.7 Uppsetning og staðsetning rafgeymanna skal vera þannig að tryggt sé að:

19.7.1 Viðhald þeirra og öryggi sé eins og best verður á kosið.

19.7.2 Hitastig rafgeymanna haldist innan þeirra marka sem framleiðandi setur, hvort sem þeir eru undir álagi eður ei.

19.7.3 Þegar rafgeymarnir eru að fullu hlaðnir, geti þeir að minnsta kosti séð fyrir orku þann lágmarkstíma sem krafist er við öll veðurskilyrði.

19.8 Sé þörf á óhindruðu upplýsingastreymi frá siglingatækjum skipsins eða öðrum búnaði til fjarskiptabúnaðar, sem krafist er samkvæmt þessum kafla, til að tryggja að hann starfi hnökralaust, skal gera þær ráðstafanir sem tryggja að honum sé séð fyrir stöðugu streymi slíkra upplýsinga þótt aðalraforkugjafar skipsins bregðist.

20. gr.

Ratsjár og miðunarstöðvar.

20.1 Öll skip, er falla undir II. kafla þessarar reglugerðar, skulu búin ratsjám. Frá 1. febrúar 1995 skulu þau búin ratsjám sem geta unnið á 9 GHz tíðnisviði (3 cm, X-band).

20.2 Skip, sem eru 10.000 brl. eða stærri, skulu búin tveimur ratsjám sem hvor um sig getur unnið sjálfstætt. Frá 1. febrúar 1995 skal a.m.k. önnur ratsjáin geta unnið á 9 GHz tíðnisviði.

20.3 Fram til 1. febrúar 1999 skulu farþega- og flutningaskip, 1600 brl. eða stærri, fiskiskip 75 m og lengri og skip í eigu íslenska ríkisins, búin radíómiðunarstöð fyrir tíðnisviðin 1605-2850 kHz.

20.4 Fiskiskip 45 metrar og lengri skulu búin miðunarstöð fyrir metrabylgju, sem a.m.k. getur miðað á 121.5 MHz.

III. KAFLI

Fjarskiptabúnaður þilfarsskipa og opinna skipa

með skráningarlengd minni en 24 metrar.

21. gr.

Fjarskiptabúnaður fyrir skip á hafsvæði A1.

21.1 Metrabylgjustöð fyrir eftirfarandi rásir:

Rás 16 ( 156.800 MHz), rás 6 ( 156.300 MHz), rás 13 ( 156.650 MHz), auk rása til almennra fjarskipta.

21.2 Fjarskiptabúnaður vegna sjálfvirkrar tilkynningaskyldu (STK). Eigi síðar en 1. febrúar 1999.

21.3 Viðtæki til móttöku veðurfregna.

21.5 Neyðarbauja fyrir gúmmíbjörgunarbáta á tíðnunum 121.5/406 MHz. Sjá gr. 18.2.

22. gr.

Fjarskiptabúnaður fyrir skip á hafsvæðum A1 og A2.

22.1 Auk þess sem krafist er í gr. 21, skulu skip sem sigla um hafsvæði A1 og A2 vera búin:

22.2 Millibylgjustöð, sendi og viðtæki fyrir neyðar- og öryggisfjarskipti á tíðninni 2182 kHz og stafrænt valkall (DSC) á tíðninni 2187.5 kHz.

22.3 Frífljótandi COSPAS/SARSAT-neyðarbauja á 406/121.5 MHz. Eigi síðar en 1. febrúar 1999.

22.4 Til 1. febrúar 1999, eða annarrar dagsetningar sem ákveðin kynni að verða, varðviðtæki fyrir kall- og neyðartíðnina 2182 kHz ásamt tæki til að senda vekjaramerki á 2182 kHz.

22.5 NAVTEX-viðtæki eigi síðar en 1. ágúst 1995. 22.6 Einni færanlegri metrabylgjustöð (handstöð).

23. gr.

Fjarskiptabúnaður fyrir skip á hafsvæðum A3 og A4.

23.1 Skip sem hafa haffæri til siglinga á hafsvæðum A3 og A4 skulu búin fjarskiptatækjum í samræmi við viðeigandi kröfur í II.kafla reglugerðar þessarar.

24. gr.

Staðsetning fjarskiptabúnaðar og fyrirkomulag.

24.1 Fjarskiptabúnaður skipa, sem einungis sigla á hafsvæði A1, skal vera í stýrishúsi. Verði því ekki við komið, skal hann staðsettur í efri hluta skips.

24.2 Skip, sem sigla út fyrir hafsvæði A 1, skulu uppfylla eftirfarandi kröfur:

24.3 Talstöðin skal þannig staðsett í efri hluta skipsins, að hún sé sem best varin fyrir hávaða sem gæti truflað rétta móttöku. Þar sem talstöð er ekki í brú skal vera fyrir hendi tvíátta samband á milli brúar og talstöðvar og skal það virka óháð öðrum samböndum um borð.

24.4 Leiðbeiningar, sem gefa skýra mynd af ferli neyðarfjarskipta, skulu vera vel sjáanlegar frá umsjónarstað fjarskipta.

24.5 Talstöðin skal hafa orkugjafa sem annaðhvort er rafhlaða og hleðst upp frá skipsrafmagni eða af neyðarrafli sem er keyrður óháð aðalvél. Orkugjafinn skal staðsettur í efri hluta skips. Þegar skip er á sjó skal orkugjafinn geta keyrt talstöð og neyðarlýsingu samfleytt í 6 klukkustundir. Orkugjafann skal eingöngu nota við lögskyldar talstöðvar og neyðarlýsingu. Þegar orkugjafinn er rafhlöður skulu þær ávallt hafðar í hleðslu er skip er á sjó og skulu vera mælar sem sýna hleðslu þeirra.

24.6 Um staðsetningu frífljótandi neyðarbauju skal fara samkvæmt gr. 18.3.

25. gr.

Starfsmenn, sem annast fjarskipti.

25.1 Skip, sem eru eingöngu innan hafsvæðis A1, skulu hafa um borð a.m.k. einn starfsmann með takmörkuð réttindi talstöðvarvarðar (Restricted Radiotelephone Operator's Certificate).

25.2 Skip, sem sigla eingöngu á hafsvæðum A1 og A2, skulu hafa um borð a.m.k. einn starfsmann með almennt talstöðvarvarðarskírteini (General Radiotelephone Operator's Certificate).

25.3 Skip, sem mega sigla út fyrir hafsvæði A2, skulu hafa a.m.k. tvo starfsmenn með almennt fjarskiptamannsskírteini (General Operator's Certificate).

25.4 Menntunarkröfur til þeirra sem annast fjarskipti skulu vera í samræmi við IMO Ályktun A 703 (17) og greinar 55 og 56 í Alþjóðaradíóreglugerðinni.

26. gr.

Hlustvarsla.

26.1 Skip og bátar sem hafa metrabylgjustöð skulu halda samfellda hlustun á kall- og neyðartíðninni 156.800 MHz (rás-16) á þeim stað um borð, sem skipinu er venjulega stjórnað. Hlustun má rjúfa þegar talstöð er notuð til fjarskipta á annarri rás og annað viðtæki er ekki til staðar.

26.2 Skip, sem búin eru millibylgjustöð eða sambyggðri millibylgju-/stuttbylgjustöð, skulu halda samfellda hlustun á kall- og neyðartíðninni 2182 kHz, á þeim stað sem skipi er venjulega stjórnað, með notkun hátalara eða annars útbúnaðar. Viðtæki sem notað er skal vera faststillt á 2182 kHz, eða þannig byggt að það skipti strax yfir á þá tíðni, ef einhver fjarskipti eiga sér þar stað.

27. gr.

Orkugjafar.

27.1 Þegar skip er á hafi úti skal ætíð vera fyrir hendi næg raforka til að starfrækja fjarskiptabúnaðinn og hlaða þá rafgeyma sem notaðir eru sem varaorkugjafar fyrir hann.

27.2 Á öllum skipum skal vera varaorkugjafi eða varaorkugjafar fyrir fjarskiptabúnaðinn, þannig að hægt sé að starfrækja neyðar- eða öryggisfjarskipti þótt aðal- og neyðarorkugjafar skipsins bregðist.

Varaorkugjafi eða varaorkugjafar skulu samtímis geta séð eftirfarandi tækjum fyrir nægjanlegri orku: Metrabylgjustöðinni (VHF), sem krafist er í gr. 21.1, millibylgjustöðinni, sem krafist er í gr. 22.2, neyðarlýsingu fyrir fjarskiptabúnað og siglingatæki sem tengd eru honum, í 6 klukkustundir samfleytt með fullu álagi. Oheimilt er að tengja við varaorkugjafa skipsins önnur tæki en þau, sem getið er í þessari grein.

27.3 Varaorkugjafi eða varaorkugjafar skulu vera aðskildir frá rafkerfi skipsins og þeirri orku sem knýr skipið áfram.

27.4 Þar sem varaorkugjafi eða varaorkugjafar eru hlaðanlegur rafgeymir eða rafgeymar: 27.4.1 Skal vera búnaður til að hlaða rafgeymana sjálfvirkt og skal hann geta endurhlaðið þá þannig að þeir skili þeim lágmarksafköstum sem krafist er innan 10 klukkustunda.

27.4.2 Skal ganga úr skugga um afköst rafgeymis eða rafgeyma með viðeigandi aðferðum á minnst 12 mánaða fresti.

27.5 Uppsetning og staðsetning rafgeymanna skal vera þannig að tryggt sé að:

27.5.1 Viðhald þeirra og öryggi sé eins og best verður á kosið.

27.5.2 Hitastig rafgeymanna haldist innan þeirra marka sem framleiðandi setur, hvort sem þeir eru undir álagi eður ei.

27.5.3 Þegar rafgeymarnir eru að fullu hlaðnir, geti þeir að minnsta kosti séð fyrir orku þann lágmarkstíma sem krafist er við öll veðurskilyrði.

28. gr.

Skip sem hafa haffæri til siglinga á hafsvæði A1 frá 1. apríl til 30. september.

28.1 Skip, sem hafa einungis haffæri til siglinga á hafsvæði A1 frá 1. apríl til 30. september, skulu búin:

28.2 Metrabylgjustöð fyrir eftirfarandi rásir:

Rás 16 ( 156.800 MHz), rás 6 ( 156.300 MHz), rás 13 ( 156.650 MHz) auk rása til almennra fjarskipta.

28.3 Fjarskiptabúnaði vegna sjálfvirkrar tilkynningaskyldu (STK). Eigi síðar en 1. febrúar 1999.

28.4 Viðtæki til móttöku veðurfregna.

28.5 Fjarskiptabúnaðurinn skal staðsettur í stýrishúsi, en verði því ekki við komið, skal hann staðsettur í efri hluta skips eða lúkars.

IV. KAFLI.

Gildistaka o.fl.

29. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt lögum um eftirlit með skipum nr. 35/1993 öðlast þegar gildi.

Samgönguráðuneytið, 11. maí 1994.

Halldór Blöndal

Ragnhildur Hjaltadóttir


Þetta vefsvæði byggir á Eplica