Félagsmálaráðuneyti

316/2003

Reglugerð um rétt sjálfstætt starfandi einstaklinga til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði. - Brottfallin

316/2003

REGLUGERÐ
um rétt sjálfstætt starfandi einstaklinga
til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

I. KAFLI
Gildissvið og orðskýringar.
1. gr.
Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um rétt sjálfstætt starfandi einstaklinga til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði.


2. gr.
Orðskýringar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
A. Sjálfstætt starfandi einstaklingur: Sá sem starfar við eigin rekstur, í eigin nafni eða í sameignarfélagi sem ekki er sjálfstæður skattaðili, í því umfangi að honum eða félagi er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

B. Viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra: Fjárhæðir sem fjármálaráðherra ákveður árlega sem lágmarksviðmiðun fyrir reiknað endurgjald í tilteknum starfsgreinum sem settar eru með heimild í 59. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með síðari breytingum, sbr. 7. gr. laga nr. 152/2002.


II. KAFLI
Almenn skilyrði til greiðslna frá Atvinnuleysistryggingasjóði.
3. gr.
Almenn skilyrði.

Rétt til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt reglugerð þessari eiga sjálfstætt starfandi einstaklingar sem uppfylla eftirtalin skilyrði:

1. Eru orðnir 16 ára að aldri en yngri en 70 ára.
2. Hafa stöðvað rekstur, sbr. IV. kafla.
3. Hafa óbundna heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi.
4. Eru búsettir hér á landi eða hafa fengið leyfi til atvinnuleitar í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu.
5. Hafa á síðustu tólf mánuðum áður en þeir stöðvuðu rekstur eða urðu atvinnulausir staðið mánaðarlega í skilum með greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi í a.m.k. þrjá mánuði áður en rekstur stöðvaðist, en hlutfallslega lengur hafi tekjur af rekstri verið lægri en viðmiðun reiknaðs endurgjalds í hlutaðeigandi starfsgrein samkvæmt ákvörðun fjármálaráðherra.
6. Hafa í upphafi tímabils sem þeir eru án atvinnu verið skráðir atvinnulausir í þrjá daga samfellt.
7. Eru reiðubúnir að ráða sig til allra almennra starfa eða hefja sjálfstæðan rekstur.
8. Hafa ekki tekjur eða tekjuígildi af rekstri, sbr. þó 14. gr.
9. Hafa ekki hafið störf sem launamenn.

Hafi sjálfstætt starfandi einstaklingur fengið samþykki ríkisskattstjóra fyrir því að greiða tryggingagjald vegna reiknaðs endurgjalds einu sinni á ári (ársmaður), skal hann hafa greitt tryggingagjaldið vegna rekstrarársins á undan áður en umsókn hans um greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði er afgreidd hjá úthlutunarnefnd.


4. gr.
Skráning.
Skráning fer fram hjá svæðisvinnumiðlun eða þeim aðila sem svæðisráð hennar hefur falið að annast skráningu.


III. KAFLI
Ávinnsla réttar til greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði.
5. gr.
Fullt starf.
Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem greiðir mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein telst vera í fullu starfi.


6. gr.
Hlutastarf.
Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem greiðir mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein telst vera í hlutastarfi. Starfshlutfall hans ákvarðast af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sjóðfélaga og viðmiðunarfjárhæðar.


7. gr.
Skilyrði fyrir lágmarksgreiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði.
Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem telst án atvinnu á rétt á lágmarksgreiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði hafi hann á síðustu tólf mánuðum áður en hann stöðvaði rekstur eða varð án atvinnu staðið mánaðarlega í skilum með greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi fyrir fullt starf, sbr. 5. gr., í þrjá mánuði áður en rekstur stöðvaðist.

Hafi sjálfstætt starfandi einstaklingur verið í hlutastarfi, sbr. 6. gr., skal hann hafa greitt tryggingagjald og staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi hlutfallslega lengur en skv. 1. mgr. til að öðlast rétt á lágmarksgreiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði.


8. gr.
Skilyrði fyrir hámarksgreiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði.
Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem telst án atvinnu á rétt á hámarksgreiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði hafi hann staðið mánaðarlega í skilum með greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi fyrir fullt starf, sbr. 5. gr., á síðustu tólf mánuðum áður en rekstur stöðvaðist.


9. gr.
Útreikningar á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði.
Hafi sjálfstætt starfandi einstaklingur ekki verið í sama starfshlutfalli á síðustu tólf mánuðum áður en hann stöðvaði rekstur skal við útreikninga á rétti hans miða við meðaltal starfshlutfalls í þá mánuði sem staðið var í skilum með tryggingagjald og staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi á umræddu tímabili. Enn fremur skal reikna greiðslur hlutfallslega miðað við fjölda mánaða þegar staðið var í skilum með tryggingagjald og staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi á síðustu tólf mánuðum áður en rekstur stöðvaðist. Hlutaðeigandi skal þó ætíð fullnægja skilyrði fyrir lágmarksgreiðslu skv. 7. gr.

Hafi sjálfstætt starfandi einstaklingur verið bæði í rekstri og launavinnu á síðustu tólf mánuðum áður en hann varð án atvinnu skal leggja saman starfshlutfall hans sem launamanns við starfshlutfall hans sem sjálfstætt starfandi í hverjum mánuði. Óheimilt er að miða við hærra starfshlutfall en 100%.

Þrátt fyrir ákvæði 1.-2. mgr. er óheimilt að miða greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði við hærra starfshlutfall en sem nemur því starfshlutfalli sem sjálfstætt starfandi einstaklingur er reiðubúinn að ráða sig í. Umsækjandi skal tilgreina í umsókn það starfshlutfall sem hann er reiðubúinn að ráða sig í. Greiðslur vegna barna skerðast ekki.


10. gr.
Skólanám.
Skólanám í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997, og reglugerðar þessarar telst vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en einstaklingur varð án atvinnu. Sama á við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli einstaklingur önnur skilyrði laganna um ávinnslu réttar til greiðslna. Einstök námskeið teljast ekki til skólanáms.

Þegar sjálfstætt starfandi einstaklingur hefur lokið námi eða einsýnt þykir að hann hafi hætt námi skal meta skólanám hans skv. 1. mgr. sem þrettán vikur til viðbótar vinnuframlagi hans. Hafi sjálfstætt starfandi einstaklingur átt geymdan bótarétt samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar fær hann greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði í samræmi við það að því undanskildu að starfstími hans eftir að hann hóf störf að nýju gefi tilefni til annars.

Leggja skal fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um að sjálfstætt starfandi einstaklingur hafi verið skráður í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi ástundun.


11. gr.
Upplýsingaskylda.
Umsækjandi skal tryggja að allar nauðsynlegar upplýsingar fylgi umsókn hans um greiðslur atvinnuleysistrygginga svo unnt sé að meta rétt hans til greiðslna samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997, og reglugerð þessari.

Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem á rétt til greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði skal gefa skráningaraðila upplýsingar hafi breytingar orðið á högum hans er geta varðað rétt hans til greiðslu úr sjóðnum frá því að hann skráði sig síðast.


IV. KAFLI
Stöðvun sjálfstæðrar starfsemi.
12. gr.
Stöðvun rekstrar.
Sjálfstætt starfandi einstaklingur telst hafa stöðvað rekstur hafi hann tilkynnt til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra að hann hafi stöðvað rekstur og að öll starfsemi hafi verið stöðvuð. Þegar meta skal hvort starfsemi hafi verið stöðvuð skal líta til hreyfinga í virðisaukaskattsskrá ríkisskattstjóra. Heimilt er að taka tillit til hreyfinga í virðisaukaskattsskrá vegna eignasölu enda hafi sjóðfélagi lagt fram yfirlýsingu þess efnis að hann hyggist hætta rekstri.

Enn fremur telst sjálfstætt starfandi einstaklingur hafa stöðvað rekstur hafi hann tilkynnt skráningarnúmer sitt af skrá, sýnt fram á að atvinnutæki hafi verið seld eða afskráð, reksturinn framseldur öðrum eða hafi verið tekinn til gjaldþrotaskipta.


13. gr.
Staðfesting um stöðvun rekstrar.

Sjálfstætt starfandi einstaklingur skal láta fylgja umsókn sinni um greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði staðfestingu um að hann hafi stöðvað rekstur skv. 12. gr. Staðfestingin skal fela í sér:

a. yfirlýsingu hlutaðeigandi um að öll starfsemi hafi verið stöðvuð og ástæður þess, og
b. afrit af tilkynningu til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra um að rekstur hafi verið stöðvaður eða vottorð frá skattyfirvöldum um að skráningarnúmer hans hafi verið tekið af skrá.


14. gr.
Samdráttur í rekstri.
Hafi sjálfstætt starfandi einstaklingur áunnið sér rétt til greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997, og III. kafla reglugerðar þessarar en reksturinn síðan dregist saman þannig að tekjur hlutaðeigandi verða lægri en hámarksgreiðslur atvinnuleysistrygginga er úthlutunarnefnd heimilt að greiða mismun atvinnuleysistrygginga sem hlutaðeigandi ætti rétt á skv. 10. gr. væri hann með öllu án atvinnu og mismun tekna hans. Hið sama á við missi sjálfstætt starfandi einstaklingur launavinnu en heldur áfram rekstri.

Umsókn skal fylgja staðfesting skattyfirvalda um að sjálfstætt starfandi einstaklingi sé heimilt að greiða svo lágt reiknað endurgjald vegna rekstrar samkvæmt gildandi reglum um reiknað endurgjald.

Ákvæði 13. gr. laga nr. 12/1997 gildir um sjálfstætt starfandi einstakling sem sækir um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu að því er varðar hlutastörf sem samsvara allt að mismuninum á fullu starfi og því starfshlutfalli er hann gegnir skv. 7. gr.


V. KAFLI
Ýmis ákvæði.
15. gr.
Eftirlit.
Vinnumálastofnun annast eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar í umboði stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs.


16. gr.
Viðurlög.
Brot á ákvæðum þessarar reglugerðar skal fara með skv. 15. og 27. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997.


17. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 2. mgr. 1. gr. og 30. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Enn fremur fellur úr gildi reglugerð um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga úr Atvinnuleysistryggingasjóði, nr. 740/1997.


Félagsmálaráðuneytinu, 11. apríl 2003.

Páll Pétursson.
Hanna Sigr. Gunnsteinsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica