Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

28/1999

Reglugerð um þátttöku Tryggingarstofnunar ríkisins í kostnaði við almennar tannlækningar. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um þátttöku Tryggingastofnunar ríkisins

í kostnaði við almennar tannlækningar.

1. gr.

                Samkvæmt reglum þessum skal þátttaka Tryggingastofnunar ríkisins í kostnaði við nauðsynlegar tannlækningar eftirtalinna einstaklinga vera sem hér segir:

1.             100%:                     Elli- og örorkulífeyrisþegar sem eru langsjúkir og dveljast á sjúkrastofnunum eða í þjónustuhúsnæði aldraðra.

2.             75%:       Elli- og örorkulífeyrisþegar sem njóta tekjutryggingar.

                                Börn, 17 ára og yngri, sbr. þó 2. gr. gjaldskrár nr. 166/1992.

3.             50%:       Elli- og örorkulífeyrisþegar sem njóta ekki tekjutryggingar.

2. gr.

Sjúkratryggð börn, 17 ára og yngri, skulu hafa einn ábyrgðartannlækni sem annast allar nauðsynlegar almennar tannlækningar þeirra. Heimilt er, vegna ófyrirsjáanlegra atvika, að leita aðkallandi aðstoðar annars en ábyrgðartannlæknis. Ábyrgðartannlæknir getur verið hvort heldur er skólatannlæknir eða einkatannlæknir.

3. gr.

Tryggingastofnun ríkisins tekur þátt í tannlækningum barna og unglinga 17 ára og yngri öðrum en gullfyllingum, krónu- og brúargerð, sbr. 2. tl. 1. gr. Heimilt er á hverju almanaksári að taka þátt í kostnaði sjúkratryggðra við skoðun, eftirlit og fræðslu, röntgenmyndir, flúormeðferð, tannhreinsun og aðra sambærilega meðferð samkvæmt því sem hér greinir, enda teljist viðkomandi ekki í sérstakri áhættu vegna munnsjúkdóma:

1.             Skoðun, eftirlit og fræðsla; ein tímaeining alls.

2.             Röntgenmyndir; tvær myndir hið mesta.

3.             Flúormeðferð barna 12 ára og yngri; ein meðferð.

4.             Tannhreinsun barna 13 ára og eldri; tvær tímaeiningar hið mesta.

                                Heimilt er á hverju almanaksári að taka þátt í kostnaði sjúkratryggðra sem eru í sérstakri áhættu vegna munnsjúkdóma við skoðun, eftirlit og fræðslu, röntgenmyndir, flúormeðferð, tannhreinsun og aðra sambærilega meðferð samkvæmt því sem hér greinir:

1.             Skoðun, eftirlit og fræðsla; tvær tímaeiningar alls.

2.             Röntgenmyndir; fjórar myndir hið mesta.

3.             Flúormeðferð barna 12 ára og yngri; tvær meðferðir hið mesta.

4.             Tannhreinsun barna 13 ára og eldri; fjórar tímaeiningar hið mesta.

4. gr.

                Tryggingastofnun ríkisins tekur aðeins þátt í kostnaði við skorufyllur fullorðinsjaxla annarra en endajaxla og því aðeins að minna en tvö ár séu frá uppkomu viðkomandi tanna. Stofnunin tekur ekki þátt í kostnaði við endurgerð skorufylla.

                Tryggingastofnun er ekki heimilt að taka þátt í kostnaði við gerð fyllingar í tönn ef minna en tvö ár eru liðin frá því fylling eða skorufylla var sett í sama flöt tannarinnar.

5. gr.

                Tryggingastofnun ríkisins tekur þátt í kostnaði elli- og örorkulífeyrisþega vegna smíði gervigóma, heilgóma eða parta á sex ára fresti hið mesta og fóðrana þeirra á þriggja ára fresti hið mesta.

                                Heimilt er, þegar sérstakar ástæður krefja, að veita undanþágu frá þessu ákvæði að undangenginni umsókn. Skal ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins liggja fyrir áður en meðferð hefst.

                                Ekki er heimilt að taka þátt í kostnaði elli- og örorkulífeyrisþega vegna gullfyllinga, króna, brúa eða annarrar sambærilegrar meðferðar, svo sem tannplanta.

                                Heimilt skal þó, í undantekningartilvikum og að undangenginni umsókn, að taka þátt í kostnaði elli- og örorkulífeyrisþega við ísetningu tveggja tannplanta í ótenntan neðri góm enda hafi aðrir meðferðarmöguleikar áður verið útilokaðir að mati Tryggingastofnunar ríkisins.

6. gr.

                Reglugerð þessi er sett skv. 66. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993, sbr. síðustu mgr. 36. og 37. gr. s.l., og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 664/1996.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 1. janúar 1999.

Ingibjörg Pálmadóttir.

Davíð Á. Gunnarsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica