Landbúnaðarráðuneyti

219/1995

Reglugerð um lífræna landbúnaðarframleiðslu. - Brottfallin

Reglugerð

 um lífræna landbúnaðarframleiðslu.

Efnisyfirlit:

I. kafli.Almenn ákvæði

II. kafli.Framleiðslueftirlit

III. kafli.Framleiðslureglur- jarðrækt og garðyrkja

IV. kafli. Framleiðslureglur- búfjárrækt og fiskeldi

V. kafli. Geymsla, flutningur, pökkun og vinnsla

VI. kafli. Vörumerkingar

VII. kafli. Eftirlit með vottunarkerfum

VIII. kafli. Ýmis ákvæði

I. KAFLI 

 Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.

1.1. Reglugerð þessi tekur til hvers konar framleiðslu, vinnslu, flutninga, geymslu, pökkunar og dreifingar lífrænna landbúnaðarafurða. Ákvæði reglugerðarinnar gilda einnig um lífeflda landbúnaðarframleiðslu.

2. gr. 

 Markmið.

2.1. Í reglugerð þessari eru tilgreindar lágmarkskröfur sem gerðar eru til viðurkenndra lífrænna framleiðsluhátta við íslenskar aðstæður innan ramma grunnreglna Alþjóðasamtaka lífrænna landbúnaðarhreyfinga (IFOAM) 1994 og í samræmi við reglugerð ráðs Evrópusambandsins (ESB) nr. 2092/91 með áorðnum breytingum og tekið mið af Dagskrá 21, framkvæmdaáætlun Heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Ríó de Janeiró 1992 varðandi sjálfbæran landbúnað o.fl. Meginmarkmið reglugerðarinnar er að tryggja að við framleiðslu og markaðssetningu lífrænna landbúnaðarafurða sé fylgt markmiðum lífræns landbúnaðar.

3. gr. 

 Orðskýringar.

3.1. Merking orða í reglugerð þessari er sem hér segir: Aðlögun er breyting úr almennum landbúnaði í lífrænan. Almennur landbunaður er hvers konar búrekstur annar en lífrænn landbúnaður. Eftirlit er athugun á starfsemi til að ákvarða samræmi hennar við ákvæði þessarar reglugerðar. Faggilding er formleg viðurkenning Löggildingarstofunnar á því að vottunarstofa sé hæf til að vinna tiltekin verkefni.

Lífefldur landbúnaður er lífrænn landbúnaður sem stundaður er í samræmi við hugmyndir Rudolfs Steiners.

Lífrænar landbúnaðarvörur eru matvæli og aðrar búsafurðir sem framleiddar eru samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar.

Lífrænn landbúnaður er búskapur sem framleiðir afurðir samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar.

Lífrænt býli er lögbýli, hluti lögbýlis eða önnur afmörkuð búrekstrareining þar sem aðlögun að lífrænum landbúnaði er lokið og landbúnaðarráðuneytið hefur skráð það að undangenginni vottun og hefur leyfi til að nota lífrænt vörumerki.

Lífrænt býli í aðlögun er lögbýli, hluti lögbýlis eða önnur afmörkuð búrekstrareining sem verið er að breyta úr almennum landbúnaði yfir í lífrænan í áföngum samkvæmt aðlögunaráætlun vottunarstofu. Vottunarstofu er heimilt að leyfa lífrænu býli í aðlögun notkun lífræns vörumerkis í ákveðnum tilvikum.

Lífrænt vörumerki er vörumerki sem aðeins er heimilt að nota við markaðssetningu vottaðra lífrænna landbúnaðarafurða.

Starfsleyfi er formleg staðfesting landbúnaðarráðuneytisins á því að vottunarkerfil tiltekinnar vottunarstofu sé í samræmi við kröfur sem þessi reglugerð kveður á um.

Umsækjandi er aðili sem sækir um vottun á lífrænni landbúnaðarframleiðslu.

Vottun er formleg staðfesting á því að vara sé framleidd í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.

Vottunarkerfi er starfsreglur, framleiðslureglur og eftirlitskerfi tiltekinnar vottunarstofu.

Vottunarstofa er sjálfstæð, innlend stofnun, einstaklingur eða fyrirtæki, sem annast eftirlit og vottun.

II. KAFLI 

Framleiðslueftirlit.

4. gr. 

 Vottunarstofa.

4.1. Vottunarstofa, sem fengið hefur faggildingu og starfsleyfi samkvæmt VII. kafla þessarar reglugerðar, annast eftirlit, vottun og hefur eftirlit með notkun vottunarmerkis fyrir afurðir, sem markaðssettar eru með tilvísun til lífrænna framleiðsluaðferða.

5. gr.

Eftirlitsskylda.

5.1. Aðila, sem annast framleiðslu, geymslu, flutning, vinnslu og pökkun afurða sem að hluta eða öllu leyti eru úr lífrænt framleiddum hráefnum, og markaðssetur þær með tilvísun til lífrænna aðferða, er skylt að tilkynna um slíka starfsemi til viðurkenndrar vottunarstofu og sjá til þess að eftirlitskerfi það, sem um getur í 6.-8. gr. þessarar reglugerðar sé virkt í fyrirtæki hans eða býli. Ákvæði þetta tekur einnig til birgja og verktaka, sem sjá slíkum fyrirtækjum og býlum fyrir hráefni og unnum vörum, svo og til vinnslu sem fram fer á vottuðum býlum.

6. gr. 

 Umsókn um vottun.

6.1. Aðili sem sækir um vottun skal skila vottunarstofu skýrslu þar sem fram kemur:

-- ítarleg úttekt á framleiðslueiningunni, ásamt uppdrætti;

-- lýsing á húsakosti, tækjabúnaði, jarðnæði og sundurgreiningu þess þar með töldum afréttarlöndum, svo og afmörkun og fjarlægð framleiðslueiningar frá aðliggjandi framleiðslueiningum, þar sem almennur landbúnaður eða framleiðsla fer fram;

-- hvenær efni, sem bönnuð eru samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar, voru síðast notuð við ræktun eða framleiðslu;

-- skuldbinding umsækjanda þess efnis að haga framleiðslu og meðferð varanna í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.

6.2. Hafi umsækjandi ekki tekið upp að fullu lífrænar aðferðir skal umsókn hans fylgja átætlun um aðlögun framleiðslueiningar í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar, þar sem höfð er hliðsjón af lágmarks aðlögunartíma fyrir viðkomandi tegund framleiðslu.

7. gr. 

 Eftirlit.

7.1. Eftirlit með framleiðslueiningu skal framkvæmt a.m.k. einu sinni á ári. Það skal vera annarsvegar með tæknilegri hlið framleiðslunnar, þar sem hún er borin saman við framleiðslureglur, og hinsvegar með stjórnun framleiðslunnar, þar sem aðföng og afurðir eru borin saman. Óheimilt er að breyta sitt á hvað á milli almennra og lífrænna búskaparhátta á tilteknu býli eða ræktunarspildu. Heimilt er að taka prófsýni af afurðum til að kanna hvort í þeim séu óleyfileg efni samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar. Skylt er að taka slík sýni af framleiðslunni ef grunur leikur á notkun óleyfilegra efna eða afurða.

7.2. Framleiðandi skal veita eftirlitsmanni aðgang að geymslu- og framleiðslustöðum, ræktunarspildum, bókhaldi, fylgiskjölum og öðru sem máli skiptir vegna eftirlitsins.

7.3. Að lokinni hverri eftirlitsferð skal eftirlitsmaður semja skýrslu um niðurstöðurnar sem send er vottunarstofu, undirrituð af eftirlitsmanni vottunarstofunnar og ábyrgðarmanni framleiðslueiningarinnar.

8. gr. 

 Skýrsluhald.

8.1. Aðili, sem óskar vottunar eða hefur hlotið hana, skal halda skýrslur um framleiðslu sína, þannig að eftirlitsmanni sé unnt að greina:

-- landnýtingu, áburðarnotkun og tegundir uppskeru;

-- búfjárhald, fjölda einstakra tegunda og fóðrun þeirra;

-- vanhöld, lyfjanotkun og bólusetningar búfjár;

-- uppruna, samsetningu, magn og notkun aðfanga, þar með aðkeypt búfé;

-- samsetningu, magn og kaupendur afurða;

-- magn og tegundir afurða sem seldar eru beint til neytenda.

III. KAFLI

Framleiðslureglur- jarðrækt og garðyrkja.

9. gr. 

 Umhverfisaðstæður.

9.1. Ræktunarspilda hlýtur viðurkenningu í fyrsta lagi tveim árum eftir að þar var notaður tilbúinn áburður eða varnarefni sem óheimil eru við lífræna ræktun. Skal vera minnst tíu metra varðbelti á milli þessara spildna og þeirra sem ekki uppfylla skilyrði lífrænnar ræktunar. Beitiland telst lífrænt þegar a.m.k. tvö ár eru liðin frá því að tilbúinn áburður var síðast borinn á það, enda hafa önnur skilyrði verið uppfyllt, svo sem varðandi jarðvegs- og gróðurvernd.

9.2. Gera skal allar tiltækar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að mengun af slysni, svo sem vegna úðunar á aðliggjandi spildum eða jörðum, berist inn á ræktunar- eða beitilandið. Leiki grunur á mengunarhættu í matjurtagörðum, t.d. 25 metra eða minna frá vegi með 3 000 bíla eða meira á sólarhring, skal vottunarstofa láta taka jarðvegs- og uppskerusýni til rannsóknar.

9.3. Skilyrði þess að villt ber, jurtir, fjallagrös og þörungar geti talist lífræn er að tínsla fari fram a.m.k. 50 metra frá þjóðvegi. Skrá skal svæði þau sem tínsla fer fram á og þess skal gætt að uppskera slíkra villtra afurða skaði vistkerfið á engan hátt. Þá skal þess gætt að slík svæði séu í hæfilegri fjarlægð frá hefðbundnum landbúnaði eða þéttbýli svo að ekki sé hætta á mengun afurðanna. Nýti annar en eigandi eða umráðamaður auðlindina skal hann færa sönnur á afnotarétt sinn.

9.4. Óheimilt er að brenna hálm og annað lífrænt efni á ökrum. Þó er heimilt að eyða illgresi með loga. Leitast skal við að bæta gæði jarðvegs eftir föngum og koma í veg fyrir hvers konar jarðvegseyðingu í akurlendi, svo sem með sáðskiptum, niðurplægingu lífræns efnis og skjólbeltarækt, og í úthaga með lífrænum og vélrænum uppgræðsluaðgerðum. Sáðskiptaræktun skal vera sem fjölbreytilegust, það er matjurtir af ýmsu tagi, fóðurkál og fóðurrófur, korn, gras og belgjurtir eftir því sem aðstæður leyfa á hverri jörð.

9.5. Mælt er með orkusparandi hitunarkerfum í gróðurhúsum. Þar er bannað að auðga loft með koltvíoxíð. Þó er undanskilinn útblástur koltvíoxíðs frá olíukyndingartækjum og náttúrulegt jarðgas.

10. gr. 

 Sáðvara og annar jurtaefniviður.

10.1. Velja skal til ræktunar þær tegundir og stofna nytjajurta, sem henta best jarðvegi og veðurskilyrðum á hverjum stað og reynast hafa sem mesta mótstöðu gegn plöntusjúkdómum og skaðvöldum.

10.2. Eftir því sem tök eru á skal aðkeypt sáðvara og annar efniviður til ræktunar nytjajurta hafa lífræna viðurkenningu. Við val afbrigða skal erfðabreytileika viðhaldið eftir föngum. Óheimilt er að nota tegundir eða afbrigði með breyttum erfðavísum.

10.3. Aðeins er heimilt að húða fræ með varnarefnum sem tilgreind eru í viðauka II með reglugerð þessari. Færi framleiðandi sönnur á að ekki sé fáanlegt viðunandi húðað fræ samkvæmt þeim reglum eru undanþágur heimilar.

11. gr. 

 Áburðarnotkun.

11.1. Gerðar skulu áburðaráætlanir fyrir hvert lífrænt býli er stuðli að aukinni frjósemi jarðvegs nema náttúruverndarsjónarmið krefjist annars. Því skal séð til þess að nægilegt lífrænt efni sé í honum þannig að hlutfall gróðurmoldar viðhaldist eða aukist. Lífrænt efni framleitt á býlinu sjálfu skal vera undirstaða áætlunarinnar.

11.2. Aðeins er heimilt að nota þær áburðartegundir sem tilgreindar eru í viðauka I með reglugerð þessari. Meginreglan er að tilbúinn köfnunarefnisáburður er ekki leyfður, hann skal vera af lífrænum uppruna, og steinefnaáburð má aðeins nota í náttúrulegu formi sem viðbót en ekki í stað búfjáráburðar og endurunnins lífræns hráefnis. Í einstökum tilvikum getur þó vottunarstofa veitt undanþágur ef sönnur eru færðar á að þörf sé sérstakrar viðbótar næringarefna eða lífræns efnis. Þær undanþágur ná þó ekki til tilbúins köfnunarefnisáburðar.

11.3. Sýrustigi jarðvegs skal viðhaldið í samræmi við jarðvegsgerð og tegundir þeirra nytjajurta sem ræktaðar eru. Efni þau sem heimilt er að nota í þessum tilgangi eru tilgreind í viðauka I.

11.4. Þar eð allar áburðartegundir, einkum þær köfnunarefnisríku, geta verið mengunarvaldar, skal þess vandlega gætt við áburðardreifingu að ekki skaðist jarðvegur, grunnvatn, ár, lækir, vötn og jarðargróði né gæði afurða spillist. Dæmi um slíkt eru þungmálmar í hráfosfati og lyfjaleifar í búfjáráburði. Leiki grunur á skaðlegri mengun áburðarefna ber vottunarstofu að gera tillögur um úrbætur þar sem m.a. er miðað við að innihald þungmálma í jarðvegi megi ekki aukast með árunum. Eigi er heimilt að nota köfnunarefnisríkan áburð svo sem þvag, áburðarvatn og brenninetluseyði á vaxtarskeiði grænmetis að því marki að gæði uppskerunnar rýrni. Ennfremur getur vottunarstofa látið rannsaka grænmetissýni til að ákveða magn efna á borð við þungmálma og nítröt.

11.5. Meðferð og dreifing búfjár- og safnhaugaáburðar skal vera með þeim hætti að sem minnst af næringarefnum tapist og mengun haldist í lágmarki, sbr. 11.4. Heildarmagn búfjáráburðar sem borið er á ár hvert, bæði eigið og aðflutt, má ekki vera meira en fallið gæti til á býlinu með hæfilegri áhöfn búfjár í lífrænni framleiðslu. Þó er heimilt að víkja frá þessari reglu á garðyrkjubýlum, bæði í útiræktun og gróðurhúsum, að því hámarki sem vottunarstofa setur með tilliti til aðstæðna. Hámarksfjöldi búfjár skal miðast við einn fullvaxinn nautgrip eða 10 vetrarfóðraðar kindur á hvern hektara ræktaðs lands. Við ákvörðun hámarksbeitarálags í úthaga, bæði í heimalöndum og afréttum, fyrir hverja tegund búfjár, skal vottunarstofa hafa til hliðsjónar niðurstöður frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins og öðrum rannsóknaraðilum að teknu fullu tilliti til vistrænna takmarkana jarðvegs og gróðurs, veðurskilyrða og landnytja á viðkomandi jörð og afrétti sé hann nýttur. Vottunarstofa gefur fyrirmæli um hámarksnotkun búfjáráburðar á hektara fyrir hvert býli, svo sem með tilliti til uppruna og tegundar búfjáráburðar, rakainnihalds hans, geymslu, meðferðar, og hvort hann er notaður fyrir matjurtir eða fóðurjurtir. Óheimilt er að nota búfjáráburð úr verksmiðjubúum, svo sem frá búrhænsnum og kjúklingum og svínum í þrengslabúskap. Heimilt er að nota búfjáráburð frá kjúklinga- og svínabúum þar sem rúmt er á dýrunum, sbr. 21.2. Nota má áburð frá búfé í almennum landbúnaði, bæði af eigin búi og aðfluttan, á meðan á aðlögun stendur. Slíkan áburð er einnig heimilt að nota eftir að aðlögun er lokið á garðyrkjubýlum, bæði á útiræktun og gróðurhúsum.

11.6. Einnig er heimilt að nota annan lífrænan áburð svo sem seyru, endurunnið sorp og úrgang svo sem innyfli frá slátrun og fiskvinnslu í samræmi við viðauka I í reglugerð þessari og grunnreglur IFOAM, svo fremi að gætt sé heilbrigðisreglna í hvívetna til að koma í veg fyrir dreifingu sóttkveikja og sníkjudýra. Þó er bannað að nota áburð á matjurtir sem inniheldur saur. Vottunarstofa kveður nánar á um meðferð slíkra áburðartegunda, svo sem hitun í safnhaug og magn sem heimilt er að nota ár hvert á hektara og setur skorður gegn uppsöfnun þungmálma og annarra mengunarvalda í jarðvegi vegna notkunar slíks áburðar í samræmi við eftirtalin leyfileg hámarksgildi þungmálma reiknuðum í þurrefni:

 

í jarðvegi

í lífrænum áburði

kvikasilfur

1 mg/kg

2 mg/kg

blý

100 mg/kg

250 mg/kg

kadmíum

2 mg/kg

10 mg/kg

nikkel

50 mg/kg

100 mg/kg

króm

150 mg/kg

1000 mg/kg

kopar

50 mg/kg

400 mg/kg

sínk

150 mg/kg

10 000 mg/kg

12. gr. 

 Sjúkdómavarnir.

12.1. Óheimilt er að nota önnur varnarefni gegn plöntusjúkdómum og skaðvöldum en þau sem tilgreind eru í viðauka II í reglugerð þessari. Þau skulu aðeins notuð ef nauðsyn krefur þar eð sjúkdómavarnir skulu fyrst og fremst vera fyrirbyggjandi og byggja á góðri jarðrækt, sáðskiptum, hæfilegri áburðarnotkun og vali tegunda og afbrigða sem henta umhverfinu í viðkomandi sveit. Heimilt er að beita lífrænum vörnum, svo sem með því að sleppa ákveðnum skordýrum í gróðurhús og ef þörf krefur getur vottunarstofa heimilað sótthreinsun jarðvegs með heitu vatni eða gufusuðu. Því aðeins er heimilt að nota úðunartæki sem notuð hafa verið fyrir óheimil efni að tækin séu vandlega hreinsuð fyrir notkun.

13. gr. 

 Illgresisvarnir.

13.1. Hefta skal útbreiðslu illgresis með fyrirbyggjandi ræktunartækni, svo sem hentugum sáðskiptum, og með ýmsum hentugum vélrænum aðferðum svo sem með notkun herfa, hreykiplóga, bursta, logatækja og heits vatns. Óheimilt er að nota öll tilbúin efni gegn illgresi.

14. gr. 

 Vaxtaretni.

14.1. Öll tilbúin efni sem örva eða draga úr vexti plantna eru óheimil í lífrænni ræktun.

15. gr. 

 Plastnotkun.

15.1. Óheimilt er að nota PVC plast. Heimilt er að nota trefjadúka og plast til þess að breiða yfir garðlönd og plast utan um votheysrúllur ef tegundirnar polyethylene og polypropylene eða aðrar þeim skyldar eru notaðar. Ollu úrgangsplasti skal safnað saman og það sent í endurvinnslu.

16. gr.

Geymsla matjurta.

16.1. Hvers konar efnameðferð og geislun matjurta til að auðvelda geymslu þeirra er bönnuð, þar með meðferð gegn spírun. Undanþegin þessu banni er tempruð loftræsting í geymslum með breyttum hlutföllum súrefnis, koltvíoxíðs og köfnunarefnis.

17. gr. 

 Sérákvæði um lífeflda jarðrækt.

17.1. Lífefld (biodynamic) úðunarefni og safnhaugahvatar (500-508) eru veigamiklir þættir í lífefldum landbúnaði. Árleg notkun hvatanna, þróuð á hverju býli, skal vera í samræmi við leiðbeiningar Rudolfs Steiners að viðbættum niðurstöðum síðari rannsókna og reynslu. Við skipulagningu ræktunar, sáningu, útplöntun og uppskeru matjurta skulu sömuleiðis hafðar í heiðri grundvallarreglur lífefldrar ræktunar.

IV. KAFLI 

 Framleiðslureglur - búfjárrækt og fiskeldi.

18. gr. 

 Uppruni og viðurkenning.

18.1. Búfjárhald skal eftir föngum tengja jarðrækt og garðyrkju á lífrænum býlum. Eftir því sem tök eru á skal aðlaga allar búfjárgreinar á býlinu lífrænum stöðlum og skal öll áhöfnin vera viðurkennd þegar aðlögunarskeiðinu líkur. Búfjárafurðir skulu hljóta lífræna vottun þegar öll ákvæði lífrænna staðla hafa verið uppfyllt, þar með talin ákvæði um fóðrun og búfjárvernd, í einn mánuð fyrir mjólk og egg og í eitt ár eða allt framleiðsluskeiðið fyrir kjöt og fiskeldisafurðir.

18.2. Búféð skal fætt og alið á býlinu sjálfu. Þó er heimilt að kaupa gripi með ákveðnum skilyrðum. Þannig er heimilt að flytja kynbótagripi frá býlum í hefðbundnum búskap að hámarki samsvarandi 10% fullorðinna gripa á býlinu sjálfu. Slíka gripi má endurselja sem lífræna, bæði til lífs og kjötframleiðslu, eftir að öll ákvæði lífrænna reglna á búinu hafa verið uppfyllt í tvö ár fyrir nautgripi og hross og eitt ár fyrir sauðfé, geitfé, svín og alifugla. Hvað annað búfé varðar sem notað er við framleiðsluna er heimilt að kaupa að gripi, einkum lífkvígur vegna mjólkurframleiðslu, og kaupa má kálfa eins mánaðar og yngri, varphænur 10 vikna og yngri og dagsgamla unga til kjötframleiðslu, án fjöldatakmarkana. Undanþágur frá reglum um aðflutning búfjár getur vottunarstofa veitt í sérstökum tilvikum, t.d. þegar koma þarf upp nýjum bústofni á stuttum tíma svo sem vegna nýrrar búgreinar, verulegrar stækkunar bús eða eftir náttúruhamfarir og vegna töku bústofns eftir niðurskurð gegn smitsjúkdómum. Óheimilt er að kaupa gripi á búfjármörkuðum og þess skal gætt að kaupa aðeins gripi frá býlum þar sem heilsufar er gott. Heimilt er að gefa aðkeyptum gripum ormalyf um leið og þeir eru komnir heim á býlið. Í fiskeldi er heimilt að kaupa að lífrænt vottuð hrogn og seiði samkvæmt ákvörðun vottunarstofu í hverju tilviki.

18.3. Hvað aðkeypta gripi varðar gilda sömu reglur um vottun og tilgreindar eru fyrir búfé á býli í aðlögun, sbr. 18.1.

19. gr.

Skýrsluhald.

19.1. Allt búfé skal vera einstaklingsmerkt með öruggum hætti, svo sem með plötumerkjum og tattóveringu í eyru, brennimerki á horn, frostmerki á húð eða örmerki undir húð. Lömb skulu eyrnamörkuð, fyrstu dagana eftir burð, sbr. lög um afréttamálefni, fjallskil o.fl. nr. 6/1986 og reglugerð um búfjármörk nr. 579/1989. Nota skal eyrnamörk með sem fæst hnífsbrögð og leitast skal við eftir megni að valda sem minnstum sársauka þegar búfé er auðkennt með framangreindum aðferðum. Vottunarstofa gefur fyrirmæli um auðkenningu eldisfisks í lífrænni framleiðslu.

19.2. Haldnar skulu ítarlegar skýrslur um allt búfé hverrar búgreinar fyrir sig, þar með aðkeypt. Skal það skráð í búfjárskýrsluhaldi Bændasamtaka Íslands eða öðru sambærilegu sem vottunarstofa viðurkennir. Auk skýrsluhalds vegna ræktunarstarfs og varðveislu erfðafjölbreytni og sérstæðra eiginleika. skal skrá öll sjúkdómatilvik, lyfjanotkun og bólusetningar fyrir einstaka gripi á býlinu. Skulu eftirlitsmenn ætíð hafa aðgang að þessum skýrslum ásamt öðrum upplýsingum um búreksturinn.

20. gr. 

 Búfjárkyn og kynbætur.

20.1. Velja skal þau búfjárkyn sem eru aðlöguð aðstæðum á hverjum stað. Einnig skal meta þýðingu erfðabreytileika við val kyns og reyna eftir föngum að komast hjá rýrnun erfðaefnis. Varast skal að æxla saman búfé af mismunandi kynjum leiði það til burðarerfiðleika. Óheimilt er að nota búfjártegundir eða kyn með breytta erfðavísa.

20.2. Kynbætur skulu miðast við góða afurðasemi þar sem gætt er hófs í notkun aðfanga, að gripirnir henti vel umhverfi sínu, séu endingargóðir og skili gæðaafurðum. Kynbótamarkmið skulu ekki stangast á við eðlislægt atferli gripanna og þau skulu ekki byggjast á aðferðum sem gera búskap háðan mikilli tæknivæðingu og fjárfestingu. Þannig er flutningur fósturvísa ekki leyfður. Þá er óheimilt að samstilla gangmál með hormónum svo og að beita lyfjatækni til að auka frjósemi, flýta eða framkalla beiðsli og samstilla burð. Dýralæknum er þó heimilt að nota náttúrulegt prostaglandin til að framkalla fæðingu ef nauðsyn krefur, enda skal aldrei synja um nauðsynlega læknisaðgerð á grip sem líður þjáningu.

20.3. Sæðingar eru óæskilegar en þær eru leyfðar vegna erfiðleika við nautahald, takmarkana á flutningum kynbótagripa vegna sjúkdómavarna, í tengslum við varðveislu sjaldgæfra búfjárkynja og eiginleika þeirra eða vegna annarra ástæðna sem vottunarstofa tekur gildar.

20.4. Þótt gelding sé óheimil getur vottunarstofa leyft að nautkálfar, grísir og hross séu vanaðir þegar nauðsyn krefur. Aðeins er heimilt að gelda hrútlömb innan þriggja sólarhringa frá burði.

21. gr. 

 Umhverfi, húsakostur og búfjárvernd.

21.1. Búfé skal njóta eðlislægs atferlis eftir föngum og skal meðferð þess byggð á lífeðlisfræðilegum og siðfræðilegum grunni. Tryggja verður nægilega frjálsa hreyfingu, gott loft og dagsbirtu og vörn gegn of háu eða lágu hitastigi, úrkomu og vindum, eftir þörfum. Búfé skal hafa aðgang að nægu beitilandi á sumrin og njóta einnig útivistar á öðrum tímum árs að teknu tilliti til búfjártegundar, loftslags og annarra þátta sem máli kunna að skipta. Þó er heimilt að hýsa grísi og naut á eldisskeiði fyrir slátrun, þarfanaut allt árið og alifugla, gelti, hrúta, hafra og stóðhesta allan veturinn. Bannað er að halda alifugla í búrum.

21.2. Allt búfé skal ætíð hafa aðgang að góðu vatni og fóðri eftir þörfum, hvort sem það er haldið úti eða inni, í samræmi við lög um búfjárhald nr. 46/1991, lög um dýravernd nr. 15/1994 og reglugerðir við þau lög. Fjöldi gripa í hverri hjörð skal vera innan þeirra marka að atferli einstakra gripa fái notið sín. Því er vottunarstofu heimilt að ákvarða hámarks hópstærðir bæði innan húss og utan, einnig fyrir eldisfisk svo sem bleikju í litlum tjörnum eða kerjum. Við skiptingu búfjár einstakra tegunda í stíur eða hólf skal fullt tillit tekið til aldurs, stærðar og kyns gripanna, m.a. til að draga úr hættu á áreitni, einelti og misskiptingu fóðurs. Lágmarks legurými í húsi skal vera eftirfarandi:
Nautgripur, fullvaxinn 3,5 m2
Kálfur undir 100 kg lífpunga 1,5 m2 rými eykst um 0,5 m2 fyrir hver 100 kg lífþunga
Hestur, fullvaxinn 3,5 m2
Trippi 2,5 m2
Folald 2,0 m2
Gylta með grísum 5,0 m2
Gylta án grísa 3,0 m2
Göltur 6,0 m2
Grísir, fyrir hver 100 kg lífþunga 1,0 m2
Vetrarfóðruð kind 1,0 m2
Vetrarfóðruð geit 1,0 m2
Varphænsni á undirburði, hverjar 5 hænur 1,0 m2
Varphænsni á netgólfi, hverjar 6 hænur 1,0 m2
Holdakjúklingar, fyrir hver 18 kg lífþunga 1,0 m2

21.3. Þess skal gætt að gripir njóti heilbrigðs umhverfis þannig að unnt sé að komast hjá neikvæðum áhrifum á afurðirnar. Því skal forðast eftir föngum að nota byggingarefni og innréttingar sem geta haft eituráhrif, svo sem skaðlegar málningar og fúavarnarefni. Komið skal í veg fyrir slys á búfé með góðri hönnun, skipulagningu og viðunandi viðhaldi húsa og girðinga.

21.4. Gripahúsum skal haldið þurrum, hreinum og vel loftræstum, og dagsbirta skal tryggð með því að heildargluggaflötur nemi minnst 5-10% heildargólfrýmis í hverju húsi. Þegar eðlilegur tími dagsbirtu er framlengdur með rafljósum skal heildarbirtutími eigi vera lengri en 16 klukkustundir samfleytt og enda með dimmu tímabili. Í fiskeldi er heimilt að víkja frá þessari reglu. Forðast skal miklar hitastigssveiflur í gripahúsum.

21.5. Undirburður á gólf í gripahúsum skal helst vera af lífrænum uppruna, einkum hálmur, en einnig hey, svo og úrgangspappír, hefilspænir og sag sem laust er við mengandi eiturefni. Óheimilt er að láta búfé ganga á steingólfum eingöngu . Heimilt er að nota gúmmímottur á gólf þar sem nægur undirburður er ekki tiltækur og skulu motturnar vera úr endurunnu efni sé þess nokkur kostur. Í fjósum, hesthúsum og svínahúsum er aðeins heimilt að hafa grindur í flórum en vottunarstofu er heimilt að veita tímabundnar undanþágur fyrir stærri gólffleti á aðlögunartíma býlisins. Þá er vottunarstofu heimilt að veita leyfi til að hafa sauðfé og geitfé á gólfum með timburgrindum eða málmristum yfir veturinn, einkum þar sem fóðrað er á votheyi eða beitt er í fjöru, að því tilskyldu að öll kvendýr séu látin út dag hvern þegar veður leyfir eða látið er liggja við opið. Legurými geita skal vera upphækkað að hluta. Við mat á þörf fyrir grinda- eða ristargólf í gripahúsum skal vottunarstofa taka tillit til hins takmarkaða framboðs á hentugum undirburði í landinu, einkum vegna erfiðra skilyrða til kornræktar og útvegunar hálms. Á býlinu skal vera húsakostur sem heldur veðrum og vindum fyrir allt búfé. Útigangur hrossa er heimill á vetrum að því tilskyldu að tryggt sé gott skjól, nægileg beit og/eða fóðrun, og folöldum og trippum sé haldið aðskildum frá fullorðnum hrossum ef hætta er á misskiptingu fóðurs vegna samkeppni gripanna.

21.6. Þótt meginreglan sé sú að allt búfé eigi alltaf að geta snúið sér auðveldlega í heilhring er heimilt að hafa mjólkurkýr bundnar á bása allan veturinn. Þessar kýr og aðrar skulu látnar út að vetrinum eftir aðstæðum, sbr. 21.1. Á sumrin er einnig heimilt að binda þær á bása þegar þarf að hýsa um skemmri tíma svo sem vegna óveðurs. Við gagngerar endurbætur og nýbyggingu fjósa skal ætíð komið upp aðstöðu til lausagöngu. Heimilt er að hafa fullorðin þarfanaut bundin á básum allt árið af öryggisástæðum. Eftir að aðlögunartíma býlisins lýkur, að hámarki eftir 10 ár, skal hýsa þarfanaut laus í stíum.

21.7. Óheimilt er að klippa tennur og stýfa gogga, vængi, hala og rófur búfjár. Heimilt er að fá dýralækni til að afhorna nautgripi ef nauðsyn krefur. Haust- og vetrarrúningur sauðfjár og geitafjár er heimill að því tilskyldu að í hverju tilviki sé sýnt fram á að allar aðstæður á býlinu séu fullnægjandi hvað varðar gæði húsakosts, sem skal vera nægilega hlýr og þurr og laus við dragsúg, og fóðrun, sem skal miðast við aukna fóðurþörf og aukið át.

21.8. Þess skal gætt að farið sé mannúðlega með allt búfé við smölun, réttun, hvers konar meðhöndlun í húsum, svo og við rekstur, flutning og slátrun. Reynt skal að halda streitu í lágmarki, t.d. með því að fara vel að gripunum, hafa flutningsvegalengdir sem stystar, blanda ekki saman mismunandi hópum í flutningi, hafa biðtíma stuttan í sláturhúsi og gefa þeim sem hafa hirt gripina kost á að vera viðstadda slátrun. Hún skal fara fram samkvæmt fyllstu kröfum um dýravernd. Óheimilt er að blanda saman búfé með lífræna viðurkenningu og öðru búfé við flutning og slátrun og skulu allir skrokkar sérmerktir, sbr. nánari ákvæði um slátrun og vinnslu kjötafurða í 34., 35., og 36. gr. þessarar reglugerðar.

22. gr.

Fóður og fóðrun.

22.1. Þar eð lífsþróttur og heilsa búfjár byggist mjög á góðri næringu ber að líta á notkun lífræns fóðurs í réttum hlutföllum sem undirstöðuþátt krafna lífrænna framleiðslureglna. Skal fóðrið einkennast af miklum gæðum og falla vel að næringarþörfum gripanna þannig að þeir vaxi með eðlilegum hætti og skili viðunandi afurðum í samræmi við erfðaeiginleika sína, sbr. 20.2. Sérstakt tillit skal tekið til lífeðlisfræðilegrar aðlögunar búfjár að mismunandi fóðri. Halda skal ítarlega skrá um allt fóður, hvort sem það er framleitt á býlinu eða aðflutt, bæði lífrænt og af hefðbundnum uppruna. Þá skal og skrá alla fóðurnotkun fyrir hverja tegund búfjár. Gera skal árlega fóðuráætlun með það að markmiði að nýta sem mest heimaaflað fóður. Að minnsta kosti 65% af fóðri jórturdýra og hrossa reiknað í þurrefni á dagsgrundvelli, skal vera heimaaflað að meðtöldu fóðri frá öðru lífrænu býli sem kann að vera í skipulögðu samstarfi um áburðar- og fóðurskipti. Á haustin skal tryggt að nægilegt fóður sé tiltækt til vetrarfóðrunar á hverju býli, sbr. lög um búfjárhald nr. 46/1991.

22.2. Fóðrun skal byggð sem mest á gróffóðri og skal allt búfé ætíð hafa aðgang að því á öllum tímum árs. Til gróffóðurs telst allur beitargróður í úthaga og á ræktuðu beitilandi, þar með einærar fóðurjurtir svo sem kál, repja og rófur, kartöflur, grænmetis- og ávaxtaafgangar, laufblöð, hey, heymeti, vothey, hálmur, þang og þari. Að minnsta kosti 60% af dagsgjöf jórturdýra og hrossa, talið í þurrefni, verður að vera gróffóður.

22.3. Allt fóður skal framleitt, og verkað sé þess þörf, í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar. Reynist ógerlegt að afla ákveðins fóðurs af lífrænum uppruna getur vottunarstofa leyft, að lítill hluti þess fóðurs sem búfénu er gefið, sé af hefðbundnum uppruna, hvort sem það er framleitt á býlinu sjálfu eða er aðflutt. Við upphaf aðlögunartíma býlisins skulu a.m.k. 50% fóðurs fyrir allar búfjártegundir og eldisfisk vera viðurkennt lífrænt, reiknað í þurrefni á dagsgrundvelli og skal hlutfallið hækkað smám saman og stefnt að 100% eftir 10 ára aðlögunartíma. Þau 50% sem eftir standa mega skiptast í fóður í aðlögun og hefðbundið fóður að hámarki:

Jórturdýr, hross í kjötframleiðslu og eldisfiskur

10% hefðbundið fóður

Jórturdýr og hross í mjólkurframleiðslu

20% hefðbundið fóður

Alifuglar og svín

30% hefðbundið fóður

Heimilt er að hækka hlutfall hefðbundins fóðurs á aðlögunartímanum úr 10% í allt að 20% heildarfóðurs jórturdyra og hrossa í kjötframleiðslu sem ganga á lífrænt viðurkenndum úthaga án aukafóðrunar, a.m.k. fimm mánuði ársins. Vottunarstofa getur veitt tímabundnar undanþágur frá kröfum um hlutföll á milli lífræns fóðurs í aðlögun og hefðbundins fóðurs, t.d vegna óhappa og náttúruhamfara á borð við flóð, þurrka, kal, snjóflóð, skriðuföll og eldgos.

Við slíkt mat skal m.a. tekið tillit til bæði neikvæðra þátta á borð við erfið skilyrði til belgjurta- og kornræktar og jákvæðra á borð við mikla notkun lífræns fóðurs í formi beitar á víðáttumikla úthaga þar sem fénaður nýtur frelsis og fjölbreytts, lítt mengaðs gróðurs. Heimilt er býlum sem hlotið hafa fulla viðurkenningu að nota að hluta fóður frá býlum í aðlögun. Ætíð skal þess þó gætt að a.m.k. 60% fóðursins, reiknað í þurrefni, verður að vera viðurkennt lífrænt.

22.4. Í hlöðum eða öðrum fóðurgeymslum skal halda aðskildu, eftir því sem kostur er, heimaöfluðu og aðfluttu fóðri svo og lífrænu, hefðbundnu og fóðri í aðlögun til þess að auðvelda skoðun hvenær sem er og fóðrun í réttum hlutföllum dag hvern. Vottunarstofa getur krafist rannsóknar á aðskotaefnum í aðfluttu, hefðbundnu fóðri þar sem grunur leikur á mengun.

22.5. Auk fóðurs sem tilgreint er í 22.2. er heimilt að nota til fóðrunar grasmjöl og köggla, þangmjöl, kornmeti ýmiss konar, ertur, sykur, mjólk og mjólkurafurðir, fisk, fiskúrgang og fiskimjöl án rotvarnarefna. Venjulega er ekki heimiluð íblöndun steinefna, snefilefna, vítamína og hreinna amínósýra nema af náttúrulegum uppruna. Vottunarstofa má þó veita undanþágu fyrir ákveðnar búfjartegundir og aldurshópa, vegna skorts í fóðri og vegna sérstakra eða óeðlilegra aðstæðna sem bóndinn hefur ekki stjórn á. Nota má mólassa og efni unnin úr bakteríum og ensímum sem íblöndunarefni við votheysgerð. Bannað er að blanda í fóður eða gefa búfé með öðrum hætti öll lyf svo sem sýklalyf, vaxtarhvetjandi efni svo sem hormóna, tilbúin bragðefni, litarefni, þvagefni og efni til að auka geymsluþol nema þau sem leyfð eru í vothey og til að auka geymsluþol vítamína í fóðurblöndum. Óheimilt er að gefa fóður unnið með hjálp leysiefna svo sem hexan eða íblandað öðrum efnasamböndum, fóður fyrir jórturdýr unnið úr slátururgangi og fóður úr hvers konar saur og búfjaráburði.

22.6. Ungviði, að undanskildum alifuglum og eldisfiskum, skal alið á lífrænni hrámjólk, helst móðurmjólk, sé þess kostur. Í neyðartilvikum er þó heimilt að nota hefðbundna nýmjólk eða gervimjólk sem hvorki inniheldur sýklalyf né tilbúin íblöndunarefni. Kálfar mjólkurkúa skulu a.m.k. fá að sjúga broddmjólkina og kálfar holdakúa skulu ganga undir þeim í a.m.k. 10 vikur. Grísi má ekki færa frá gyltum fyrr en við sex vikna aldur.

23. gr. 

 Sjúkdómavarnir.

23.1. Í lífrænum landbúnaði skal lögð mikil áhersla á gott heilsufar gripa og fyrirbyggjandi aðgerðir gegn sjúkdómum. Búskaparhættir og meðferð búfjár skal miðast við að byggja upp mótstöðu gegn sjúkdómum. Þó er ætíð heimilt að beita hvers konar dýralæknisaðgerðum til að lina þjáningar og/eða bjarga lífi gripa.

23.2. Í viðauka m með reglugerð þessari eru tilgreind þau lyf sem heimilt er að nota að höfðu samráði við yfirdýralækni. Dregið skal úr notkun hefðbundinna lyfja eftir megni en beita fremur jurta- og smáskammtalækningum komi þær að gagni. Séu hefðbundin lyf notuð skal líða að minnsta kosti tvöfaldur útskilnaðartími sem viðurkenndur er þangað til heimilt er að markaðssetja afurðirnar undir lífrænum vörumerkjum, þ.e. minnst tvær vikur eftir notkun sýklalyfja og fjórar vikur eftir notkun ormalyfja. Afurðir sjúkra dýra má aldrei selja. Kerfisbundin notkun hefðbundinna lyfja er bönnuð svo og notkun hormóna og annarra efna sem hafa áhrif á frjósemi og vöxt búfjár, sbr. 20.2. og 22.5.

23.3. Bóluefnanotkun er aðeins heimil þar sem ákveðnir sjúkdómar eru þekktir á býlinu og í nágrenni þess og eigi er unnt að hafa viðunandi stjórn á þeim með öðrum hætti. Dæmi um slíka sjúkdóma eru Clostridium sjúkdómar á borð við lambablóðsótt, garnapest og bráðapest. Samþykki vottunarstofu þarf að fast vegna notkunar slíkra bóluefna. Logboðnar bólusetningar á ákveðnum býlum eða svæðum, svo sem gegn garnaveiki, eru ætíð heimilar. Sama gildir um lögboðna lyfjameðferð gegn fjárkláða í stað böðunar, sbr. lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993 og reglugerð nr. 572/1994.

23.4. Samkvæmt lið 19.2. skal skrá hvers konar sjúkdómatilvik og dýralæknisaðgerðir, þar með alla lyfjanotkun og bólusetningar fyrir hvern grip. Skrá skal einnig vöruheiti lyfs og heiti framleiðanda. Skal hverjum einstökum bónda leiðbeint um aðferðir til að draga sem mest úr hefðbundinni lyfjanotkun, m.a. á grundvelli sjúkdómaskráa.

24. gr. 

 Sérákvæði um lífeflda búfjárrækt.

24.1. Á býlum þar sem lögð er stund á lífefldan landbúnað skal 80% af fóðrinu, reiknað í þurrefni á dagsgrundvelli, vera framleitt og viðurkennt sem lífeflt.

V. KAFLI 

 Geymsla, flutningur, pökkun og vinnsla.

25. gr. 

 Almenn skilyrði.

25.1. Lífrænt framleiddum vörum má ekki blanda saman við eða skipta inn fyrir vörur úr annarri framleiðslu.

25.2. Tilkynna skal vottunarstofu fyrirfram um sérhverja efnameðferð þannig að unnt sé að koma við umsjón eftirlitsmanns með notkun efnanna.

25.3. Svæling og önnur efnanotkun í vinnslu og geymslu er háð takmörkunum sem nánar kveður á um í reglum vottunarstofa. Notkun geislunar, etylenoxíðs og lindans er bönnuð. Útiloka verður áhrif skordýraeiturs og illgresislyfja í vinnslu og pökkun og á geymslusvæðum. Slík efni mega ekki komast í beina snertingu við vottaðar vörur.

25.4. Meindýravarnir skulu byggjast á fyrirbyggjandi aðgerðum. Ef þörf er sérstakra aðgerða er mælt með notkun eðlisfræðilegra hindrana, svo sem hljóðs og ljóss. Þá er heimilt að nota gildrur, hitastýringu, loftskipti og kísilgúr. Eiturefni skal einungis nota í neyð, ef aðrar aðferðir reynast árangurslausar, og þá með samþykki vottunarstofu.

26. gr.

Geymsla.

26.1. Lífrænt framleiddar vörur skulu vel merktar og geymdar aðskildar frá öðrum vörum með skilrúmum eða veggjum. Geymslusvæðið skal vera hreint og laust við skordýr og meindýr og skal svæðið hreinsað með aðferðum og efnum, sem vottunarstofa viðurkennir.

26.2. Geyma skal vörur við viðeigandi hitastig, en auk þess er heimilt að nota frystigáma með sírita, ís sem gerður er úr hreinu drykkjarvatni, loftskipti t.d. þar sem notað er koltvíoxíð, súrefni og köfnunarefni, og með lofttæmingu, kælingu og frystingu.

27. gr. 

 Flutningur.

27.1. Óheimilt er að flytja lífrænt framleiddar vörur með vörum framleiddum með hefðbundnum aðferðum, nema þær séu sérstaklega merktar og pakkaðar þannig, að þær komist ekki í beina snertingu við aðrar vörur. Fyrir flutning vörunnar skulu flutningatæki, gámar og ílát sem notuð eru vera vel hreinsuð og laus við hverskonar eiturefni og vöruleifar. Í flutningum skal koma í veg fyrir að varan tapi gæðum vegna of mikils hita, kulda eða hnjasks.

28. gr. 

 Pökkun.

28.1. Umbúðir um lífrænt framleiddar vörur skal, eins og hagkvæmnisástæður leyfa, velja og hanna í samræmi við sjónarmið umhverfisverndar. Forðast ber óþarfa umbúðir og stuðla ber að því að unnt sé að skila, endurnýta og endurvinna umbúðir, sem notaðar eru. Umbúðaefni skulu hæfa flutningi og geymslu matvæla. Umbúðir skulu vera hreinar og mengi þær ekki vöruna.

29. gr.

Húsnæði og vinnslutæki.

29.1. Krafist er sé;staks húsnæðis og/eða sérstakra tækja fyrir lífrænt framleidd hráefni. Þó getur verið nægilegt að hafa skilrúm á milli vinnusvæða að fengnu áliti vottunarstofu. Sérstaks vinnslutækis er krafist við vinnslu og pökkun á lífrænt framleiddum afurðum.

29.2. Vottunarstofa getur veitt tímabundna undanþágu frá ofangreindum skilyrðum, ef sérstakar ástæður krefjast þess.

29.3. Þegar heimilt er að nota sömu vinnslutæki fyrir lífrænt framleidd og önnur matvæli skulu gerðar ráðstafanir sem tryggja að engin snerting verði milli matvæla af ólíkum uppruna. Vottunarstofa ákveður tímalengd heimildar og hreinsunaraðferð fyrir vinnslutæki. Þau skulu vera auðveld í hreinsun, úr ryðfríu stáli, næloni, gleri eða plastefni fyrir matvæli.

30. gr. 

 Vinnsluaðferðir.

30.1 . Almennt skulu lífrænt framleidd matvæli vera unnin í vélum, í höndum, með gerjunaraðferðum eða samblandi af þessum aðferðum. Vinnsla á lífrænt framleiddum matvælum skal vera sem minnst og skal ætíð reynt að varðveita sem best næringargildi og gæði afurðarinnar.

30.2. Geislun matvæla og notkun örbylgjuofna er óheimil. Þá er notkun erfðabreyttra örvera bönnuð í framleiðslu lífrænna afurða.

31. gr. 

 Hefðbundin hráefni.

31.1. Við matvælaframleiðslu er leyfilegt að nota drykkjarvatn, natríumklóríð með eða án kalsíumkarbónats sem kekkjunarefni. Einnig má bæta matvöru með vítamínum, steinefnum og snefilefnum en þó einungis ef þess er krafist af yfirvöldum. Almennt er notkun hefðbundinna hráefna takmörkuð og lífræn hráefni notuð í stað þeirra þegar þau fást, sbr. 1. hluta viðauka IV með reglugerð þessari.

32. gr. 

 Aukefni.

32.1. Notkun aukefna skal samrýmast gildandi löggjöf þar að lútandi og er aðeins leyfð til að viðhalda næringargildi, að auka geymsluþol, að varðveita efnainnihald, áferð og útlit svo framarlega að ekki sé verið að blekkja neytandann um uppruna, efnainnihald eða gæði vörunnar, með eftirfarandi skilyrðum:
a) að ekki sé unnt að framleiða sambærilega vöru án aukefna;
b) að aukefnin séu notuð til að hraða vinnslu eða bæta fyrir meðferð matvæla í vinnslu eða til að endurskapa eða bæta bragð, lit eða næringarefni, sem tapast við vinnslu ;
c) að þau séu notuð í meira magni en leyfilegt er til að gegna hlutverki sínu í matvörunni;
d) að þau innihaldi ekki önnur efni sem eru bönnuð.

32.2. Leyfileg aukefni eru tilgreind í viðauka IV með reglugerð þessari.

33. gr. 

 Hreinlæti.

33.1. Dagleg og vikuleg hreinsun: Skrapa, bursta, úða og þvo með vatni er heimilt í geymslum. Tæki, lyftur og ílát skal þvo og þurrka til að hindra uppsöfnun óhreininda. Ef upp koma vandamál er mælt með því að nota gufuþvott.

33.2. Leyfilegt er að nota þvotta- og hreinsiefni svo framarlega sem þau eru leyfð í matvælavinnslum. Ráðstafanir skal gera til að skola burt leifum af sótthreinsi- eða öðrum efnum a stöðum sem matvæli komast í snertingu við.

33.3. Í tilvikum þar sem nota þarf sterkari efni en venja er, skal það gert á þann hátt að engar leifar skulu komast í matvælin. Hreinsiefni skal ávallt geyma í læstum skáp.

33.4. Vottunarstofa veitir leyfi og hefur eftirlit með svælingu á vinnsluhúsnæði og geymslu og hún setur einnig reglur um biðtíma áður en vinnsla getur hafist að nýju. Við svælingu mega engin lífrænt framleidd matvæli vera í vinnslusal eða geymslu.

34. gr. 

 Meðferð fyrir slátrun.

34.1. Gæta skal varfærni í umgengni við sláturgripi fyrir slátrun. Þeim skal haldið rólegum og komið í veg fyrir að þeir slasist. Sláturgripir af ólíkum tegundum mega hvorki vera saman í flutningabíl né í rétt. Sláturgripir úr lífrænum landbúnaði og almennum landbúnaði mega aldrei vera saman fyrir slátrun. Sláturgripir sem hafa verið aldir lausir skulu vera óbundnir í rétt en aðrir sláturgripir vera bundnir. Flutningsleið milli býlis og sláturhúss skal vera eins stutt og kostur er. Biðtími dýra fyrir slátrun skal vera sem skemmstur miðað við gildandi reglur. Sláturgripir skulu fá vatn og aðhlynningu til að róast og þeim gefinn kostur á að hvíla sig, ef flutningsleið eða biðtími er langur. Ef biðtími er lengri en sex klukkustundir eiga dýrin að fá nægjanlegt rými og gott undirlag til að hvílast, en sé biðtími lengri en 12 klukkustundir eiga dýrin einnig að fá lífrænt fóður. Bannað er að reka sláturgripi áfram með rafmagnsstuði. Mælt er með því að reka hópinn áfram með náttúrulegum aðferðum svo sem úr myrkri í ljós eða láta forystudýr leiða hópinn. Hlífa skal gripunum við miklum hávaða og sterku ljósi bæði meðan á flutningi stendur og í sláturhúsi.

35. gr. 

 Slátrun.

35.1. Allir sláturgripir, þar með talinn eldisfiskur, skulu vera meðvitunarlausir fyrir blóðgun. Til að tryggja að svo sé skal starfsmaður skoða dýrið til að finna einkenni meðvitundarleysis. Koma skal í veg fyrir að gripir sjái blóðgunina eða inn í slátursal. Dauða verður að staðfesta áður en skrokkurinn er skorinn. Slíkt er hægt að gera með því að mæla blóð úr hverju dýri, athuga stærð augasteins eða að hálsæðar hafi ekki stíflast. Starfsfólk skal vera til taks ef vandamál koma upp við slátrun. Hægfara og helgisiðaslátrun er bönnuð. Ráðstafanir skulu gerðar til að koma í veg fyrir að sláturafurðir frá hefðbundnum og lífrænum landbúnaði blandist saman.

36. gr.

Kjötvinnsla.

36.1. Heilir skrokkar og skrokkhlutar skulu vera vel merktir. Merkingin skal sýna númer, sláturdag og þyngd. Vinnsla á kjöti skal fara fram í kjötvinnslu en ekki í sláturhúsi nema staðfest sé að engin blöndun geti átt sér stað á hefðbundnu og lífrænu kjöti, innyflum eða blóði. Heimilt er að hluta kjöt og fuglakjöt eftir slátrun í sláturhúsi enda sé viðurkennd aðstaða fyrir hendi. Öll hráefni verða að vera framleidd samkvæmt lífrænum aðferðum. Rétt hitastig og gott hreinlæti er skilyrði í kjötvinnslu á meðan á vinnslu stendur. Merking verður að vera nægjanleg til að hægt sé að rekja vöruna til framleiðanda. Unna kjötvöru verður að merkja með "best fyrir" dagsetningu.

37. gr. 

 Ferskir ávextir og ferskt grænmeti.

37.1. Við pökkun á ferskum afurðum þarf sér vinnslutæki og húsnæði. Ávöxtum og grænmeti má ekki pakka í sömu ílát og aðrar afurðir er hafa fengið efnameðferð sem tilgreind er hér að neðan. Við flokkun og þvott mega hefðbundnar afurðir ekki koma í snertingu við lífrænt framleiddar afurðir. Eftir þvott verður að skola afurðirnar með hreinu vatni. Heimilt er að þvo afurðir með þynntri lausn af hypóklóríði sem síðan er skolað af með hreinu vatni.

37.2. Óheimilt er að nota etýlen, með eða án köfnunarefnis, klaka með rotvarnarefni og myglueyðandi lausnir með bórsýru, sórbínsýru, bensósýru, edikssýru, mjólkursýru, súlfíti, nítrati og nítríti.

38. gr.

Mjólkurafurðir.

38.1. Sérstök fyrirtæki og vinnslutæki eru skilyrði fyrir vinnslu á lífrænni mjólk. Æskilegt er að hreinsa vinnslurásina með miklu vatni og/eða gufu eftir hefðbundna hreinsun. Heimilt er að selja frosna mjólk.

VI. KAFLI

Vörumerkingar.

39. gr. 

 Almenn ákvæði.

39.1. Merkingar lífrænt framleiddrar vöru skulu samrýmast almennri löggjöf þar að lútandi, vera skýrar og gefa rétta mynd af vörunni, þannig að unnt sé að rekja uppruna hennar.

39.2. Merkingar skulu greina frá efnainnihaldi í þeirri röð sem þyngdarhlutfall hvers efnis segir til um. Geta skal allra aukefna sem notuð eru í vöruna. Einnig þeirra sem fylgja hráefnum, jafnvel þótt þau hafi engin tæknileg eða önnur áhrif á hina tilbúnu vöru.

39.3. Lágmarkskrafa er að á vörumiða séu upplýsingar um vinnsluþrep sem hafa áhrif á eiginleika vörunnar. Neytendur skulu eiga þess kost að geta aflað sér nánari upplýsinga um vöruna á sérstökum blöðum sem liggja frammi í viðkomandi verslun.

40. gr.

 Uppruni vöru.

40.1. Heimilt er að merkja og auglýsa landbúnaðarafurð með tilvísun til lífrænna framleiðsluhátta, að því tilskildu, að slíkar tilvísanir lúti greinilega að aðferð við framleiðslu og að afurðin sé framleidd af fyrirtæki eða býli, sem fengið hefur vottun viðurkenndrar vottunarstofu.

40.2. Heimilt er að merkja og auglýsa vöru sem lífrænt framleidda afurð, enda sé varan framleidd samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar. Þó má allt að 5% af þunga samsettrar vöru (að salti og íblönduðu vatni undanskildu) vera framleitt í landbúnaði með hefðbundnum aðferðum. Ef minna en 95% og að minnsta kosti 50% af þunga vörunnar er úr lífrænt framleiddum hráefnum má eingöngu vísa til lífrænna framleiðsluhátta í innihaldslýsingu með samskonar letri (stærð og lit) og getið er um önnur efni í lýsingunni. Ef jurtir eða krydd eru minna en 2% af heildarþyngd vörunnar má skrá þau sem "krydd" eða "jurtir". Ekki má blanda saman sambærilegu hráefni úr lífrænum og hefðbundnum landbúnaði.

40.3. Heimilt er að merkja og auglýsa óunnar landbúnaðarafurðir með tilvísun til aðlögunar að lífrænum framleiðsluháttum, að því tilskildu að ákvæði þessarar reglugerðar hafi verið uppfyllt í a.m.k. eitt ár áður en uppskerutímabil vörunnar hófst, að varan hafi verið framleidd samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar um lífræna framleiðsluhætti, og að viðkomandi tilvísun villi ekki um fyrir kaupanda hvað varðar mismun á slíkri vöru og vöru sem framleidd er eftir að tveggja ára aðlögunartímabili er lokið.

40.4. Innfluttar landbúnaðarvörur skulu lúta sömu ákvæðum og getið er um í 40.1 -40.3., með þeim fyrirvörum og athugasemdum sem um getur í VII. kafla þessarar reglugerðar.

41. gr.

Vottunarmerking.

41.1. Heimilt er að geta þess á merkingu eða í auglýsingu afurðar að viðkomandi vara sé í samræmi við ákvæði VI. kafla þessarar reglugerðar um eftirlit og vottun, að því tilskyldu að:
(a) varan hafi verið vottuð af vottunarstofu sem fengið hefur starfsleyfi samkvæmt þessari reglugerð;
(b) fram komi nafn vottunarstofu og skráð merki hennar, svo og nafn og heimilisfang framleiðanda;
(c) ekki sé gefið í skyn að í ábendingunni felist trygging fyrir meiri bragðgæðum, næringu eða hollustu;
(d) ekki má nefna vöru framleidda úr fjölda hráefna eftir einu þeirra;
(e) vöruheiti, sem vísa til ákveðinna landa, landshluta eða svæða, má eingöngu nota á vörur frá viðkomandi stöðum, enda séu þær unnar samkvæmt viðurkenndum aðferðum.

VII. KAFLI 

 Eftirlit með vottunarkerfum.

42. gr. 

 Yfirstjórn.

42.1. Landbúnaðarráðherra veitir vottunarstofu starfsleyfi og úrskurðar í kærumálum sem kunna að koma upp varðandi vottun lífrænna landbúnaðarafurða. Landbúnaðarráðuneytið heldur skrá yfir vottaða framleiðendur og lífræn vörumerki.

43. gr. 

 Þróun framleiðslureglna.

43.1. Landbúnaðarráðuneytið skal fylgjast með þróun alþjóðasamþykkta og reglna um lífræna landbúnaðarframleiðslu, sem Ísland miðar sig við. Þá skal landbúnaðarráðuneytið fjalla um hugmyndir um breytingar á lágmarksreglum um lífræna landbúnaðarframleiðslu. Að fengnu áliti ráðgjafarnefndar um reglur varðandi lífræna framleiðsluhætti, sbr. 45.1., skal landbúnaðarráðuneytið gera rökstuddar tillögur til ráðherra varðandi breytingar á ákvæðum þar að lútandi, sbr. III.-VI. kafla í þessari reglugerð.

44. gr.

Fagleg skilyrði fyrir starfsleyfi.

44.1. Vottunarkerfi fyrir lífræna landbúnaðarframleiðslu skal fela í sér ákveðið rekstrarform með samþykktum, eftirlits- og vottunarþjónustu með sérstökum starfs- og framleiðslureglum sem notendur þjónustunnar skulu miða við.

44.2. Starfslið vottunarstofu, eftirlitsmenn og vottunarnefnd skulu hafa skýr fyrirmæli um ábyrgð og skyldur, hafi fengið þjálfun til starfa sinna og starfi óháð þeim sem hafa beina viðskiptalega hagsmuni af vottun. Eftirlitsmenn skulu hafa fengið þjálfun til eftirlitsstarfa hjá viðurkenndum vottunaraðila fyrir lífræna framleiðslu.

44.3. Eftirlits- og vottunarþjónusta vottunarstofu skal vera opin öllum sem stunda framleiðslu, úrvinnslu, dreifingu og innflutning lífrænt framleiddra afurða. Vottunarstofa gefur út framleiðslureglur í samræmi við kröfur þessarar reglugerðar og tilkynnir landbúnaðarráðuneytinu og viðskiptavinum sínum um allar breytingar sem gerðar eru á þessum reglum.

44.4. Vottunarstofa skal halda skrá yfir alla sem hljóta vottun á hennar vegum. Verði breyting á skránni frá því að starfsleyfi var síðast veitt skal það tilkynnt landbúnaðarráðuneytinu innan þriggja mánaða frá því að breytingin á skránni tók gildi.

44.5. Landbúnaðarráðherra veitir vottunarstofu starfsleyfi til allt að fimm ára í senn, að fenginni faggildingu Löggildingarstofu. Starfsleyfi er endurnýjað til næstu fimm ára hafi faggilding fengist. Heimilt er að veita vottunarstofu í fyrsta sinn tímabundið starfsleyfi til allt að tveggja ára, án þess að hún hafi fengið faggildingu, enda liggi meðmæli frá Löggildingarstofu fyrir um veitingu slíks tímabundins starfsleyfis.

44.6. Umsókn vottunarstofu til landbúnaðarráðuneytisins um starfsleyfi skulu fylgja eftirtalin gögn:
- starfsreglur vottunarstofunnar;
- upplýsingar um menntun og hæfni starfsmanna;
- framleiðslureglur sem vottunarstofan notar,
- skrá yfir þá aðila sem hlotið hafa vottun samkvæmt vottunarkerfi viðkomandi vottunarstofu; þ.e. nöfn, kennitölur, heimilisföng og vottaðar vörutegundir;
- afrit af samningum sem vottunarstofa hefur gert við aðra eftirlitsaðila;
- vottorð um faggildingu eða meðmæli Löggildingarstofu.

44.7. Í starfsleyfi skal greina frá nafni, kennitölu og heimilisfangi vottunarstofu, númeri starfsleyfis og gildistíma.

44.8. Landbúnaðarráðherra er heimilt að afturkalla starfsleyfi vottunarstofu uppfylli hún ekki kröfur þessarar reglugerðar. Umsókn um endurnýjun starfsleyfis skal tekin fyrir innan þriggja mánaða eftir að hún berst landbúnaðarráðuneytinu.

45. gr. 

 Ráðgjafarnefnd.

45.1. Landbúnaðarráðherra skal skipa sjö manna ráðgjafarnefnd um reglur fyrir lífræna landbúnaðarframleiðslu. Nefndin skal skipuð til fjögurra ára í senn þannig: formaður nefndarinnar er skipaður án tilnefningar; tveir skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu VOR, landssamtaka bænda í lífrænum búskap; einn skal skipaður samkvæmt tilnefningu Verslunarráðs Íslands fyrir hönd úrvinnslu- og dreifingaraðila lífrænt framleiddra afurða; einn skal skipaður samkvæmt tilnefningu fræðslu-, leiðbeiningar- og rannsóknastofnana landbúnaðarins og skal sá hafa sérþekkingu á sviði lífrænna framleiðsluhátta; einn skal skipaður samkvæmt tilnefningu Neytendasamtakanna; einn skal skipaður samkvæmt tilnefningu umhverfisráðuneytisins, og skal sá hafa sérþekkingu á umhverfisvernd og vistfræði; auk þess skal hver starfandi vottunarstofa hafa rétt til að senda einn áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétt á fundi nefndarinnar.

VIII. KAFLI 

 Ýmis ákvæði.

46. gr. 

 Námskeið.

46.1. Séu bændum veittir opinberir aðlögunarstyrkir er landbúnaðarráðuneytinu heimilt að gera kröfur um að þeir sæki stutt, viðurkennd námskeið í lífrænum landbúnaði og sé kostnaður við þau innifalinn í styrknum.

47. gr. 

 Gildistaka o.fl.

47.1. Gerist framleiðandi brotlegur við ákvæði reglugerðar þessarar er heimilt að svipta hann rétti til að nota lífrænt vörumerki.

47.2. Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 162 31. desember 1994 um lífræna landbúnaðarframleiðslu og öðlast þegar gildi.

Landbúnaðarráðuneytið, 31. mars 1995.

Halldór Blöndal .

Jón Höskuldsson.


I.VIÐAUKI

(ESB reglugerð nr. 2092/91; viðauki II A).

Afurðir til notkunar í áburði og jarðnæringu:

Húsdýra- og alifuglaáburður

Húsdýrahland, blandað mykju eða taði

Hálmur

Mór

Blöndur úr lífrænum úrgangi gerðar úr útdrætti af notuðum sveppum og ormum

Blöndur úr lífrænum úrgangi úr húsasorpi

Blöndur úr lífrænum úrgangi plöntuleifa

Unnar dýraafurðir úr sláturhúsum og fiskvinnslustöðvum

Lífrænar aukaafurðir matvæla- og textíliðnaðar

Þang og þangafurðir

Sag, börkur og timburúrgangur

Viðaraska

Náttúrulegur fosfatsteinn

Brenndur álfosfatsteinn

Gjall

Kalíumkarbónatsteinn

Kalksteinn

Krít

Magníumsteinn

Kalkkenndur magníumsteinn

Epsomsalt (magníumsúlfat)

Gifs (kalsíumsúlfat)

Steinduft

Leir (bentónít, perlusteinn)

Eftirtaldar afurðir þurfa að hafa hlotið viðurkenningu eftirlitsaðila:

Kalíumsúlfat

Snefilefni (bór, kopar, járn, mangan, mólýbden, sínk)

Brennisteinn

II. VIÐAUKI

(ESB reglugerð nr. 2092/91; viðauki II B).

Afurðir til að halda niðri plöntuskaðvöldum og sjúkdómum:

Efnablöndur byggðar á pýretríni sem fengið er með útdrætti úr Chrysanthemum cinerariaefolium sem hugsanlega inniheldur efni sem stuðla að samvirkni

Efnablöndur úr Derris elliptica

Efnablöndur úr Quassia atnara

Efnablöndur úr Ryania speciosa

Própólis

Kísilgúr

Steinduft

Efnablöndur byggðar á metaldehýði sem inniheldur efni sem fælir æðri dýrategundir sé það notað í gildrum

Brennisteinn

Bordeauxblanda

Burgundarblanda

Natríumsilíkat

Natríumbíkarbónat

Kalíumsápa (grænsápa)

Ferómónblöndur

Bacillus thuringiensis-blöndur

Kornóttar veirublöndur

Jurta- og dýraolíur

Parafínolía

III. VIÐAUKI

Leyfð dýralyf og dýralyf með takmarkaðri notkun.

Dýralyf sem leyfð eru með takmarkaðri notkun eru þau lyf þar sem ákveðins útskilnaðartíma er krafist áður en afurðir eru seldar sem lífrænar afurðir og að skráningar um notkun er krafist.

Leyfð dýralyf:

Steinefnablöndur.

Kalsíumbóróglúkonat

Kalsíumglúkonat

Kalsíumklóríð

Kalsíumfosfat

Magníumfosfat

Kalsíum/Magníum blöndur

Náttúrulegar járnblöndur eins og netlur

Niðurhreinsandi lyf.

Lækningajurtir eins og mustarðsblöð

Laxerolía

Fóðuríblöndunarefni

Hörfræ

Vítamín.

Öll vítamín önnur en tilbúin

Lyf gegn niðurgangi.

Lyfjakol

Eikarbörkur og/eða krít

Leysilyf.

Öll eins og Ringers upplausn og fysíólógiskt saltvatn 0,9%

Sýklalyf.

Engin að undanteknu sortulyngi gegn þvagrásartruflunum

Lyf með takmarkaðri notkun.

Þar sem tilbúin lyf eru notuð, skal miða við tvöfaldan löglegan útskilnaðartíma, áður en neysla afurða er leyfð.

Bóluefni má einungis nota ef sjúkdómavaldur eru þekktur á lífrænu býli og verður ekki haldið niðri með öðrum aðferðum. Skyldubólusetningar eru leyfðar.

Notkun vaxtarhvetjandi og framleiðsluörvandi efna, tilbúinna vaxtarbælandi efna ásamt hormónum til að koma af stað egglosi eða samstilla gangmál er bönnuð.

Sýklalyf (antibiotics, chemotherapeutics)

Oxytócín

Staðdeyfilyf

Snýklalyf

Lungna- og iðraormalyf

Lyf gegn sníkjudýrum í eða á húð

Verkjalyf og efni sem hafa áhrif á miðtaugakerfið

Tilbúin vítamín og steinefni

Sermi

IV. VIÐAUKI

Matvælavinnsla.

1. hluti:

Hefðbundin aukefni og tæknileg hjálparefni.

Almennt er notkun eftirtalinna hráefna takmörkuð og lífræn hráefni notuð í stað þeirra þegar þau fást.

Í eftirfarandi töflu eru talin upp hefðbundin aukefni sem leyfð eru til notkunar í lífrænt framleiddum vörum. Taflan er ekki tæmandi yfir alla notkun aukefna í einstaka fæðuflokka og má því nota hana sem leiðbeinandi fyrir ákvarðanir um notkun aukefna í öðrum fæðuflokkum.

Við matvælaframleiðslu er leyfilegt að nota drykkjarvatn, natríumklóríð með eða án kalsíumkarbónats sem kekkjunarvarnarefni. Einnig má bæta matvöru með vítamínum, steinefnum og snefilefnum en þó einungis ef þess er krafist af yfirvöldum.

Aukefni og aðkomin aukefni (carriers)

Aukefni Fæðuflokkar Athugasemdir og takmarkanir

E 170 Kalsíumkarbónat AN*

E 220 Brennisteinssýrlingur V

E 224 Kalíumtvísúlfít V

E 270 Mjólkursýra ÁG Ávaxtaþykkni, grænmetissafi eða þykkni og gerjaðar grænmetisafurðir

E 290 Koltvíoxíð AN

E 300 Askorbínsýra ÁG Þegar hún fæst ekki á náttúrulegu formi

E 306 Tókóferól F

E 322 Lesitín AN Unnin án bleikiefna

E 330 Sítrónusýra ÁG Avaxtaþykkni, grænmetissafi eða þykkni, sultur og gerjaðar grænmetisafurðir V Takmarkað magn 1 g/1

E 331 Natríumsítrat KV

E 332 Kalíumsítrat KV

E 333 Kalsíumsítrat KV

E 335 Natríumtartrat S/KK

E 334 Vínsýra V Aðeins fyrirléttvín

E 336 Kalíumtartrat K/S/KK

E 341 Einkalsíumeinfosfat K Einungis sem lyftiefni í hveiti

E 342 Ammóníumfosfat** V Takmarkað magn 0,3 g/1

E 406 Agar AN

E 410 Karóbgúmmí AN

E 412 Gúargúmmí AN Egg: eggjalausnir og frystar eggjaafurðir

E 414 Arabískt gúmmí M/F/S

E 415 Xantangúmmí F/ÁG/KK/SA

E 440 Pektín AN Ekki umbreytt

E 450 Tetrakalíumtvífosfat KK

E 500 Natríumkarbónat S/KK

E 501 Kalíumbíkarbónat K/S/KK

E 508 Kalíumklóríð ÁG/SA Einungis fyrir frysta ávexti, fryst grænmeti, niðursoðna ávexti og niðursoðið grænmeti, grænmetissósur, tómatsósu og sinnep

E 509 Kalsíumklóríð M/F/ÁG/SB

E 511 Magnesíumklóríð SB

E 516 Kalsíumsúlfat KK/SB K Aðeins sem aukefni í bökunargeri

E 517 Ammóníumsúlfat** V Takmarkað magn 0,3 g/1

E 524 Natríumhydroxíð K/ÁG Í K aðeins í Laugenbäck Í ÁG aðeins í ólífum

E 941 Köfnunarefni** AN

E 948 Súrefni** AN

Gelatín KK

* Skammstafanir fyrir fæðuflokka

** Ekki í aukefnalista

AN Almenn notkun KV Kjötvörur

K Kornvörur ÁG Ávaxta- og grænmetisvörur

V Vín KK Kökur og kex

S Sælgæti F Feitmeti

SB Sojabaunavörur SA Salöt

M Mjólkurvörur

Bragðefni

Náttúruleg bragðefni, rokgjarnar olíur búnar til án hjálpar lífrænna leysa og reykbragðefni eru leyfð til notkunar.

Afurðir framleiddar með örverum

Leyfilegt er að nota allar afurðir örvera og einnig ensím þeirra, sem notuð eru við hefðbundna matvælaframleiðslu nema afurðir af örverum með breyttum erfðavísum. Einnig er leyfilegt að nota bökunargersveppi sem eru unnir án hjálpar bleikiefna eða lífrænna leysa.

2. hluti: Hjálparefni og önnur efni sem heimilt er að nota við vinnslu á lífrænum hráefnum.

Aukefni Fæðuflokkar Athugasemdir og takmarkanir

E 170 Kalsíumkarbónat AN*

E 220 Brennisteinssýrlingur SY/V Til að stilla sýrustig á úrdráttarvatni

E 941 Köfnunarefni** AN

E 290 Koltvíoxíð** AN

E 322 Lesitín AN Smurningsfeiti

E 330 Sítrónusýra AN

E 270 Mjólkursýra KV

E 501 Kalíumkarbónat K/S/KK/V

E 516 Kalsíumsúlfat GA Storknunarefni

Afurðir úr trjáberki SY

E 511 Magnesíumklóríð SB

E 500 Natríumkarbónat SY

E 334-337 Vínsýra og sölt hennar V Úr sömu framleiðslu

E 184 Tannínsýra** V Hjálparefnivið síun

Matarlím V

Kasein V

Albúmín úr eggjahvítu V

E 551 Kísiltvíoxíð V/T/ÁG Sem gel eða kvoðulausn

Kísilgúr SY/ÁG

Gelatín ÁG/V

Síunarefni án asbests AN (Sellulósi, virkt kolefni, perlít)

E 181 Tannín V

Bentónít ÁG/V

E 903 Karnaubavax AN

Jurtaolíur AN

E 901 Bívax AN

Ethanól AN

Vatn AN

* Skammstafanir fyrir fæðuflokka

** Ekki í aukefnalista

AN Almenn notkun KV Kjötvörur

K Kornvörur ÁG Ávaxta- og grænmetisvörur

V Vín KK Kökur og kex

S Sælgæti F Feitmeti

SB Sojabaunavörur SA Salöt

M Mjólkurvörur SY Sykur

T Te


Þetta vefsvæði byggir á Eplica