Fjármálaráðuneyti

157/1994

Reglugerð um vörugjald. - Brottfallin

Reglugerð um vörugjald.

I. KAFLI - Almenn ákvæði.

1. gr. - Upphafsákvæði.

Greiða skal í ríkissjóð vörugjald af innfluttum vörum og vörum sem framleiddar eru eða fá einhverja vinnslumeðferð innan lands eins og nánar er kveðið á um í reglugerð þessari.

2. gr. - Gjaldskyldar vörur og framleiðsla.

Gjaldskyldan nær til allra vara, nýrra sem notaðra, sem fluttar eru til landsins eða eru framleiddar, unnið er að eða er pakkað hér á landi og flokkast undir tollskrárnúmer sem talin eru upp í viðauka við lög nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.

Vörur sem seldar eru úr landi eru ekki gjaldskyldar. Þá eru vörur sem um ræðir í 5. gr. tollalaga nr. 55/1987, ekki gjaldskyldar við tollafgreiðslu, enda sé gætt þeirra skilyrða sem að öðru leyti gilda um tollfrelsi þessara vara.

Við flokkun til gjaldskyldu samkvæmt reglugerð þessari skal fylgt flokkunarreglum tollalaga, nr. 55/1987, með síðari breytingum.

3. gr. - Gjaldflokkar.

Gjaldflokkar vörugjalds skulu vera eftirfarandi, sbr. upptalningu tollskrárnúmera gjaldskyldrar vöru í viðauka við lög nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum:

1. Af vörum í gjaldflokki A skal greiða 6% vörugjald.

2. Af vörum í gjaldflokki B skal greiða 11% vörugjald.

3. Af vörum í gjaldflokki C skal greiða 16% vörugjald.

4. Af vörum í gjaldflokki D skal greiða 18% vörugjald.

5. Af vörum í gjaldflokki E skal greiða 20% vörugjald.

6. Af vörum í gjaldflokki F skal greiða 25% vörugjald.

7. Af vörum í gjaldflokki G skal greiða 30% vörugjald.

II. KAFLI - Vörugjald af innflutningi.

4. gr. - Gjaldskyldir aðilar.

Öllum þeim sem flytja til landsins gjaldskyldar vörur, hvort sem er til eigin nota eða endursölu, ber skylda til við tollafgreiðslu að greiða vörugjald af hinum innfluttu vörum.

Þeir sem um ræðir í 3. gr. tollalaga nr. 55/1987 eru þó undanþegnir gjaldskyldu við innflutning, enda fullnægi þeir settum skilyrðum um tollfrjálsan innflutning.

5. gr. - Gjaldstofn vegna innflutnings.

Gjaldstofn vörugjalds af innfluttum vörum er tollverð þeirra eins og það er ákveðið skv. 8. - 10. gr. tollalaga, að viðbættum tollum eins og þeir eru ákveðnir samkvæmt þeim lögum, auk 25% áætlaðar heildsöluálagningar.

Önnur gjöld sem innheimt eru við innflutning, svo sem virðisaukaskattur, jöfnunarálag og verðjöfnunargjöld, teljast því ekki gjaldstofn við útreikning vörugjalds við innflutning.

III. KAFLI - Vörugjald af innlendri framleiðslu.

6. gr. - Gjaldskyldir aðilar.

Skylda til að innheimta vörugjald af innlendri framleiðslu og standa skil á því í ríkissjóð hvílir á þessum aðilum:

1. þeim sem framleiða, vinna að eða pakka vörugjaldsskyldri vöru innan lands.

2. þeim sem annast heildsöludreifingu vöru sem framleidd er, unnið er að eða pakkað hér á landi, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 8. gr.

7. gr. - Tilkynningarskylda.

Gjaldskyldir aðilar skulu ótilkvaddir og eigi síðar en 15 dögum áður en vörugjaldsskyld starfsemi hefst senda tilkynningu um starfsemi sína til skattstjóra þar sem þeir eru heimilisfastir. Breytingar, sem verða á starfsemi eftir að skráning hefur farið fram, skal tilkynna eigi síðar en 15 dögum eftir að breyting átti sér stað. Skattstjóri gefur út staðfestingu til skráningarskylds aðila um að skráning hafi átt sér stað.

Tilkynningar skv. 1. mgr. skal senda á eyðublöðum í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

8. gr. - Gjaldstofn vörugjalds af innlendri framleiðslu.

Um gjaldstofn vörugjalds af vörum sem framleiddar eru, unnið er að á einhvern hátt eða pakkað hér á landi gildir eftirfarandi:

1. Þegar innlendur framleiðandi gjaldskyldrar vöru selur hana til smásala er gjaldstofninn heildsöluverð, þ.e. það verð sem smásali greiðir eða ber að greiða við kaup á vörunni.

2. Þegar innlendur framleiðandi annast ekki jafnframt dreifingu gjaldskyldrar vöru, heldur selur hana til heildsala er gjaldstofn verksmiðjuverð vörunnar, þ.e. söluverð frá framleiðanda hennar, án vörugjalds.

3. Þegar heildsali annast dreifingu gjaldskyldrar vöru sem framleidd er innanlands af öðrum aðila, óháðum honum, er gjaldstofn mismunur á heildsöluverði frá honum, sbr. 1. tölul., og innkaupsverði frá framleiðanda, sbr. 2. tölul.

4. Ef framleiðandi eða heildsali vöru er jafnframt smásali hennar eða heildsöluverð liggur ekki fyrir af öðrum ástæðum geta skattyfirvöld metið hvað skuli telja eðlilegt heildsöluverð vörunnar. Við slíkt mat skulu þau taka mið af því sem almennt gerist í slíkum viðskiptum milli óskyldra aðila.

5. Selji framleiðandi gjaldskylda vöru að jafnaði beint til neytenda, unna samkvæmt sérstökum óskum þeirra, og almennt heildsöluverð á viðkomandi vöru liggur ekki fyrir, skal miða gjaldstofn við almennt söluverð til neytenda (smásöluverðið) að frádregnum 20% vegna áætlaðrar smásöluálagningar.

Vörugjald miðast við heildarandvirði vöru án frádráttar nokkurs kostnaðar eða þjónustugjalds, án tillits til þess í hverju greiðsla er fólgin og þótt um sé að ræða skipti gegn vöru eða þjónustu.

Samsvari söluverð frá verksmiðju ekki heildarandvirði framleiðsluvöru eða vöru sem fær einhverja vinnslumeðferð eða pökkun hér á landi, t.d. vegna þess að kaupandi eða annar framleiðandi leggur til hráefni, efnivörur eða annað verðmæti, sem vörugjald hefur ekki þegar verið greitt af, skal heildarandvirði hennar, að teknu tilliti til reglu 5. tölul. 1. mgr., teljast gjaldstofn til vörugjalds.

Óskilyrtur afsláttur, sem veittur er samkvæmt almennum viðskiptavenjum við afhendingu á hinni seldu vöru, telst ekki með við ákvörðun gjaldstofns. Hins vegar er annar afsláttur (t.d. háður skilyrði um magn eða greiðslutíma eða afsláttur af viðskiptum í árslok) ekki frádráttarbær frá heildarandvirði við ákvörðun vörugjalds.

9. gr. - Bókhald.

Aðilar, sem vörugjaldsskyldir eru samkvæmt þessum kafla, skulu haga bókhaldi sínu þannig að skattyfirvöld geti á hverjum tíma gengið úr skugga um réttmæti skyrslna um vörugjald.

Í bókhaldi skal færa sérstaka reikninga fyrir innkaup og sölu gjaldskyldrar vöru. Reikninga þessa má færa í lok hvers uppgjörstímabils, enda sé á grundvelli þeirra hægt að reikna með beinum hætti fjárhæðir vörugjalds.

Þeir sem framleiða eða selja bæði gjaldskyldar og gjaldfrjálsar vörur skulu halda hinni gjaldskyldu sölu greinilega aðgreindri í bókhaldi sínu. Jafnframt skal aðgreina sölu og innkaup vörugjaldsskyldrar starfsemi eftir gjaldflokkum, sbr. 3. gr.

10. gr. - Útgáfa sölureikninga.

Aðilar í vörugjaldsskyldum rekstri skulu færa sölu á sölureikninga og aðgreina á þeim gjaldskylda sölu eftir gjaldflokkum, þannig að heildarverð vöru ásamt fjárhæð vörugjalds komi sérstaklega fram vegna hvers gjaldflokks.

Innflytjendur og aðrir sem selja hráefni og aðrar efnivörur til innlendra framleiðenda án þess að falla frá innheimtu vörugjalds, sbr. 16. gr., skulu við sölu á vörum, sem vörugjald hefur verið greitt af við tollafgreiðslu, láta koma fram á sölureikningum hve hátt vörugjald hefur verið greitt af vörunni eða tilgreina að vara sé seld með vörugjaldi.

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. skal seljandi hráefnis og annarra efnivara ætíð tilgreina fjárhæð vörugjalds á sölureikningum sínum ef um er að ræða sölu til framleiðanda sem er tengdur honum með þeim hætti að aðilar yrðu taldir nákomnir í skilningi 3. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.

11. gr. - Uppgjör vörugjalds.

Við skil á vörugjaldi í ríkissjóð er gjaldanda heimilt að draga frá innheimtu gjaldi af sölu það vörugjald sem hann hefur sannanlega greitt við kaup á hráefni og efnivöru til gjaldskyldrar framleiðslu á viðkomandi uppgjörstímabili. Um uppgjör heildsala á vörugjaldi, sem keypt hefur vörugjaldsskylda vöru af innlendum framleiðanda til endursölu, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 8. gr., gilda sömu reglur.

Ákvæði 1. mgr. gilda hvort sem varan er seld innanlands með vörugjaldi eða til útlanda án vörugjalds, sbr. 2. mgr. 2. gr.

Sé vörugjald af aðföngum hærra á uppgjörstímabili en innheimt vörugjald af sölu skal mismunurinn endurgreiddur úr ríkissjóði.

Hafi vörugjaldsskýrslu verið skilað á tilskildum tíma skal endurgreiðslan fara fram innan fimmtán daga frá lokum skilafrests.

12. gr. - Afreikningur vörugjalds.

Þegar gjaldskyldur aðili kaupir af innflytjanda hráefni eða efnivöru sem ber vörugjald og upphæð vörugjalds er ekki sérstaklega tilgreind á sölureikningi, sbr. 2. mgr. 10. gr., er viðkomandi aðila heimilt að reikna sér frádráttarbært vörugjald, sbr. 11. gr., sem hlutfall af upphæð sölureiknings án virðisaukaskatts, með tveimur aukastöfum, skv. eftirfarandi formúlu:

Hlutfall = 1 - (100/(100+g)), þar sem g er prósenta vörugjalds.

Niðurstaða reiknings skv. 1. mgr. fyrir hvert uppgjörstímabil færist til frádráttar á vörugjaldsskýrslu við skil til ríkissjóðs, og telst því ekki með hráefnis- eða framleiðslukostnaði.

13. gr. - Innheimta og uppgjörstímabil.

Vörugjald af innlendum framleiðsluvörum reiknast við sölu eða afhendingu gjaldskyldrar vöru frá framleiðanda eða heildsala og skiptir ekki máli hvenær eða með hvaða hætti greiðsla kaupanda fer fram.

Hvert uppgjörstímabil vegna gjaldskyldrar innlendrar framleiðslu, aðvinnslu, pökkunar eða dreifingar er tveir mánuðir: Janúar og febrúar; mars og apríl; maí og júní; júlí og ágúst; september og október; nóvember og desember.

14. gr. - Gjalddagi, álag og dráttarvextir.

Vörugjaldi af innlendri framleiðslu, ásamt vörugjaldsskýrslu, skal skila eigi síðar en á gjalddaga í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Gjalddagi er fimmti dagur þriðja mánaðar eftir lok uppgjörstímabils vegna sölu eða afhendingar á því tímabili. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist gjalddagi á næsta virka dag á eftir.

Sé vörugjald ekki greitt á tilskildum tíma skal aðili sæta álagi til viðbótar gjaldi samkvæmt vörugjaldsskýrslu, eða til viðbótar því vörugjaldi sem honum ber að standa skil á. Sama gildir ef vörugjaldsskýrslu hefur ekki verið skilað eða verið ábótavant og vörugjald því áætlað, nema aðili hafi greitt fyrir gjalddaga vörugjaldsins upphæð er til áætlunar svarar eða gefið fyrir lok kærufrests fullnægjandi skýringu á vafaatriðum. Vörugjald telst greitt á tilskildum tíma hafi greiðsla sannanlega verið póstlögð á gjalddaga.

Álag samkvæmt 2. mgr. skal vera 2% af þeirri upphæð sem vangreidd er, fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 20%.

Sé vörugjald ekki greitt innan mánaðar frá gjalddaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er.

IV. kafli - Sérstök meðferð vörugjalds.

15. gr. - Niðurfelling eða undanþágur við tollafgreiðslu.

Við tollafgreiðslu á vörum, sem undanþegnar eru tolli að einhverju eða öllu leyti samkvæmt heimild í tollalögum, skal ekki veita undanþágu frá greiðslu vörugjalds nema skyrt sé kveðið á um niðurfellingu þessara gjalda í reglugerð þessari eða fyrirmælum fjármálaráðuneytis.

Nú samræmir fjármálaráðuneytið tolla á vörum sem flokkast ekki undir sama tollskrárnúmer, hvort sem það er talið upp í viðauka við lög nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum, eða ekki, og skal þá vörugjald innheimt ef samræmt er við tollskrárnúmer sem ber gjaldið fyrir, en fellt niður ef vörugjald hvílir ekki á þeirri vöru sem samræmt er við.

Um innheimtu og endurgreiðslu vörugjalds af efnivörum til skipasmíði og skipaviðgerða skulu gilda eftir því sem við getur átt reglur sem fjármálaráðuneytið hefur sett um tolla. Sama gildir um vélar, tæki og varahluti til samkeppnisiðnaðar.

16. gr. - Kaup á hráefni án vörugjalds.

Að undangenginni umsókn gjaldskylds framleiðanda, sem tilkynnt hefur starfsemi sína, sbr. 7. gr., og uppfyllir að öðru leyti skilyrði reglugerðar þessarar, þar á meðal um bókhald og reikningsútgáfu, skal skattstjóri gefa út sérstakt skírteini honum til handa er veitir heimild til þess að flytja inn eða kaupa innanlands án greiðslu vörugjalds hráefni og efnivörur sem notuð eru við hina gjaldskyldu framleiðslu eða tiltekna aðvinnslu sem henni tengist. Tilgreina skal í skírteini til hvaða vörutegunda og aðvinnslu heimildin tekur. Skírteini þessi skulu gefin út til eins árs í senn.

Noti skírteinishafi vöru, sem hann hefur keypt gegn framvísun skírteinis, á annan hátt en til gjaldskyldrar framleiðslu sinnar eða til framleiðslu á útflutningsvöru skal hann innheimta og standa skil á vörugjaldi af heildarandvirði vörunnar við afhendingu hennar til annars aðila eða við úttekt til eigin nota, þ.m.t. notkun við gjaldfrjálsa framleiðslu.

Um hráefniskaup framleiðanda í samkeppnisiðnaði sem ekki stunda vörugjaldsskylda framleiðslu fer samkvæmt ákvæðum auglýsingar nr. 617/1989, um niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af ymsum aðföngum til samkeppnisiðnaðar.

17. gr. - Endurgreiðsla vörugjalds til innflytjenda vegna sölu til framleiðenda.

Innflytjendur hráefna, sem falla frá innheimtu vörugjalds af sölu hráefna til handhafa skírteina skv. 16. gr., geta mánaðarlega snúið sér til tollstjóra, þar sem þeir eru heimilisfastir, með beiðni um endurgreiðslu á vörugjaldi af þeim hráefnum er þeir hafa flutt inn og greitt vörugjald af við tollafgreiðslu og síðan selt með þessum hætti, enda hafi þessi sala verið færð á sérstaka sölureikninga og henni haldið aðgreindri í bókhaldi, sbr. 9. gr.

V. KAFLI - Ýmis ákvæði.

18. gr. - Vörugjald og stofn til virðisaukaskatts.

Vörugjald myndar stofn til virðisaukaskatts hvort sem vara er flutt inn eða keypt innanlands til eigin nota, framleiðslu eða endursölu.

19. gr. - Gildissvið gagnvart tollalögum og lögum um virðisaukaskatt.

Að því leyti sem ekki er ákveðið í reglugerð þessari um gjaldskyldu, gjaldfrelsi, álagningu, innheimtu, stöðvun tollafgreiðslu, veð, sektir, viðurlög, refsingar og aðra framkvæmd varðandi vörugjald af innfluttum gjaldskyldum vörum skulu gilda, eftir því sem við geta átt, ákvæði tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, svo og reglugerða og annarra fyrirmæla settra samkvæmt þeim.

Að því leyti sem ekki eru ákvæði í reglugerð þessari um álagningu, kærur og úrskurði um vörugjaldsákvörðun, innheimtu, tilhögun bókhalds, framtöl, eftirlit, stöðvun atvinnurekstrar, viðurlög, sektir, refsingar og aðra framkvæmd varðandi vörugjald af innlendri framleiðsluvöru eða vöru sem unnið er að eða er pakkað hér á landi skulu gilda, eftir því sem við geta átt, ákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, svo og reglugerða og annarra fyrirmæla settra samkvæmt þeim.

20. gr. - Gildistökuákvæði.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum, gildir frá 1. maí 1994 og er jafnframt felld úr gildi reglugerð nr. 407/1989, um vörugjald.

Fjármálaráðuneytið, 18. mars 1994.
F.h.r.
Indriði H. Þorláksson
Jón H. Steingrímsson


Þetta vefsvæði byggir á Eplica