Félagsmálaráðuneyti

155/1995

Reglugerð um þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur fatlaðra. - Brottfallin

Felld brott með:

Breytingareglugerðir:

I. KAFLI 

 Fagleg þjónusta.

1. gr.

Svæðisskrifstofur skulu veita fjölskyldum fatlaðra barna faglega þjónustu, ráðgjöf og leiðbeiningar, sbr. 23. gr. reglugerðar um svæðisskrifstofur nr. 273/1993. Jafnframt skulu svæðisskrifstofur vera samræmingaraðili í þjónustu við fötluð börn á svæðinu. Ávallt skal leitast við að fötluð börn njóti almennrar þjónustu ríkis og sveitarfélaga.

II. KAFLI

 Stuðningsfjölskyldur.

Almenn atriði.

2. gr.

Fjölskyldur fatlaðra barna skulu eiga kost á stuðningsfjölskyldu og skulu svæðisskrifstofur beita sér fyrir því að þær sé að finna eftir því sem þörfin segir til um.

Hlutverk stuðningsfjölskyldu er að taka fatlað barn í umsjá sína í skamman tíma í þeim tilgangi að létta álagi af fjölskyldu þess. Slíkri umsjá fylgir ekki krafa um að stuðningsfjölskyldan láti í té sérstaka þjálfun eða hæfingu umfram þá daglegu þjálfun sem felst í þeim kröfum sem gerðar eru til uppeldis barnsins.

Heimilt er, eftir mati, að veita fjölskyldum fatlaðra, 18 ára og eldri, kost á þjónustu stuðningsfjölskyldna.

3. gr.

Þeir sem hyggjast notfæra sér stuðningsfjölskyldu skulu snúa sér til viðkomandi svæðisskrifstofu sem sér um tihögun dvalar og umsjár, svo og samningsgerð þar að lútandi.

Skyldur svæðisskrifstofu.

4. gr.

Við val á stuðningsfjölskyldu skal svæðisskrifstofa kanna vandlega heimilishagi og aðstæður í þeim tilgangi að meta hæfni og möguleika viðkomandi fjölskyldu til að sinna hlutverki sínu.

Tekið skal tillit til óska forráðamanna hins fatlaða við val á stuðningsfjölskyldu.

Heimilt er svæðisskrifstofu að fara fram á að eldvarnareftirlit sveitarfélags athugi ástand rafmagns og útgönguleiðir á heimili stuðningsfjölskyldu.

Heimilt er að óska eftir því að stuðningsforeldrar framvísi læknisvottorði og sakavottorði.

5. gr.

Svæðisskrifstofu ber að sjá til þess að stuðningsfjölskyldur fái nauðsynlegar upplýsingar um þann einstakling sem þær taka í umsjá sína, m.a. með því að stuðla að kynnum milli fjölskyldu hins fatlaða og stuðningsfjölskyldu.

6. gr.

Svæðisskrifstofur skulu veita stuðningsfjölskyldum fræðslu, ráðgjöf og stuðning, auk þess að hafa eftirlit með starfsemi þeirra.

7. gr.

Svæðisskrifstofur skulu sjá til þess að stuðningsfjölskyldur undirriti þagnarheit varðandi þær upplýsingar sem þær fá um einkahagi hins fatlaða og fjölskyldu hans. Þagnarskylda helst eftir að störfum er lokið.

Samningsgerð.

8. gr.

Dvöl hjá stuðningsfjölskyldu skal bundin í samningi, milli svæðisskrifstofu og stuðningsfjölskyldu, og miðast við ákveðið tímabil.

Í samningi skal m.a. kveðið á um:
1. Dvalartíma. Dvöl miðast við sólarhringsþjónustu. Dvalartími fer eftir aðstæðum og er samningsatriði í hverju tilviki innan eftirfarandi ramma: Samfelld dvöl fari að jafnaði ekki yfir þrjá sólarhringa á mánuði samanlagt, en getur þó, samkvæmt sérstöku mati, numið samtals allt að fimm sólarhringum á mánuði. Semja má um aðra tilhögun en sólarhringsþjónustu til að koma til móts við þörf á dagsdvöl, sbr. 12. gr.
2. Fjölda barna. Eigi er heimilt að fela stuðningsfjölskyldu umsjón nema tveggja fatlaðra barna, sem dvelja í senn, nema um sé að ræða systkini.
3. Greiðslu skv. 11. gr.

Samningar skulu gerðir á þar til gerðum eyðublöðum félagsmálaráðuneytis.

Skyldur stuðningsfjölskyldu.

9. gr.

Stuðningsfjölskylda ber ábyrgð á velferð barns meðan á dvöl hjá henni stendur og skal hlúa að barninu á sem víðtækastan hátt. Þetta á jafnt við um fæðuval, tilfinningalíf og heilsufars- og félagslega líðan barns.

Óheimilt er að beita barn líkamlegri hirtingu.

Stuðningsfjölskylda skal virða 10. gr. laga nr. 74/1984, um tóbaksvarnir, þess efnis að viðhafa ekki tóbaksreykingar í návist þeirra barna sem þjónustunnar njóta.

Um þagnarheit vísast til 7. gr.

Skyldur forráðamanna barns.

10. gr.

Ákvörðun um dvöl barns hjá stuðningsfjölskyldu er á ábyrgð forráðamanna barns.

Forráðamenn skulu upplýsa stuðningsfjölskyldu um það sem er mikilvægt velferð barnsins, þ. á m. ef barn er haldið ákveðnum sjúkdómi.

Aðlögun að vist hjá stuðningsfjölskyldu skal miðuð við þarfir barnsins. Æskilegt er að forráðamaður dvelji hjá barni sínu í upphafi vistunar eftir nánara samkomulagi við stuðningsfjölskyldu.

Greiðslur til stuðningsfjölskyldu.

11. gr.

Greiðslur til stuðningsfjölskyldu eru stigskiptar eftir fötlun og umönnunarþörf.
1. fl. Börn algerlega háð öðrum með athafnir daglegs lífs.
2. fl. Börn sem þurfa verulega aðstoð með athafnir daglegs lífs og gæslu.
3. fl. Börn sem þurfa minni aðstoð en skv. fl. 1 og 2, en þurfa eftirlit við athafnir daglegs lífs.

Svæðisskrifstofu ber að leggja til grundvallar ofangreindri flokkun tillögur sínar um greiðslur vegna umönnunar- og gæsluþarfar, sbr. reglugerð nr. 150/1992, á þann veg að 1. fl. samsvari fl. 1, 2. fl. samsvari fl. 2 og 3 og 3. fl. samsvari fl. 4 og 5.

Greiðslur skulu vera samkvæmt launaflokki 506-230 6. þrep BSRB sem er nú 56.603 kr.
Um greiðslu fyrir sólarhringsþjónustu fer með eftirfarandi hætti:
1. fl. Greiðsla miðast við 10% af lfl. 506-230 6. þrep sem er nú 5.660 kr.
2. fl. Greiðsla miðast við 7,7% af lfl. 506-230 6. þrep sem er nú 4.358 kr.
3. fl. Greiðsla miðast við 5,8% af lfl. 506-230 6. þrep sem er nú 3.283 kr.

Greiðslur fara fram hjá ríkisféhirði.

Greiðslur til stuðningsfjölskyldna skerða ekki aðrar greiðslur eða þjónustu sem hinn fatlaði eða aðstandendur hans kunna að njóta.

12. gr.

Heimilt er í undantekningartilvikum að semja um dvöl hjá stuðningsfjölskyldu, hluta úr sólarhring og er þá miðað við að dvöl fari ekki yfir 10 klst. á hverjum degi. Um greiðslu fyrir þá þjónustu er greitt tímakaup skv. launafl. BSRB 506-230 6. þrepi sem er nú 348,11 kr. Hámarksdvöl skv. þessari grein er 50 klst. á mánuði. Að öðru leyti gilda ákvæði 2. og 3. mgr. 11. gr. um greiðslur skv. þessari grein.

Dvöl skv. grein þessari getur ekki komið til viðbótar sólarhringsþjónustu skv. 11 gr.

Kostnaður.

13. gr.

Greiðslur samkvæmt 11. og 12. gr. eru verktakagreiðslur.

Kostnaður greiðist úr ríkissjóði, en þó skal kostnaður vegna aksturs heiman og heim greiðast af þeim sem þjónustunnar nýtur.

III. KAFLI 

 Skammtímavistun.

14. gr.

Skammtímavistun er rekin sem þjónustustofnun, sbr. 9. gr. laga um málefni fatlaðra.

Fjölskyldur fatlaðra skulu eiga kost á því að börn þeirra njóti tímabundinnar dvalar í skammtímavistun þegar þörf krefur.

Þjónustunni er ætlað að létta álagi af fjölskyldum fatlaðra barna og stuðla með þeim hætti að því að börn geti búið sem lengst í heimahúsum.

Fötluð ungmenni og fullorðnir, sem búa í heimahúsum, skulu einnig eiga kost á skammtímavistun með það markmið að létta álagi af fjölskyldum þeirra og veita hinum fötluðu tilbreytingu eða til undirbúnings flutnings úr foreldrahúsum.

15. gr.

Skammtímavistun getur verið tvenns konar:
1. Reglubundin dvöl samkvæmt fyrirfram gerðri áætlun.
2. Dvöl samkvæmt ósk og ávkörðun hverju sinni til að létta álagi af fjölskyldum, m.a. vegna óvæntra áfalla í fjölskyldum.

16. gr.

Í skammtímavistun skal veitt umönnun og gæsla og þjálfun þar sem það á við.

17. gr.

Umsóknum um skammtímavistun skal beint til hlutaðeigandi svæðisskrifstofu sem metur þörf fyrir þjónustu og á hvern hátt hún nýtist sem best sem einn liður í heildstæðri þjónustu við fatlað barn og fjölskyldu þess. Sé niðurstaðan sú að skammtímavistun henti, skal starfsmaður svæðisskrifstofu, í samráði við forstöðumann skammtímavistunar, meta og ákvarða hvernig þjónustan skuli veitt. Sé um að ræða stofnanir, sem reknar eru af öðrum en ríkinu, þarf að koma til samþykki rekstraraðila. Þörf á þjónustu skal endurmetin árlega.

18. gr.

Rekstarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, en þó skal kostnaður vegna aksturs heiman og heim greiðast af þeim sem þjónustunnar nýtur.

Tómstundastarf innan stofnunarinnar greiðist af rekstrarkostnaði.

Beinn útlagður kostnaður vegna tómstunda utan stofnunarinnar, annar en laun fylgdarmanns, greiðist af hinum fatlaða.

IV. KAFLI 

 Leikfangasöfn.

19. gr.

Leikfangasöfn eru einn þáttur í faglegri þjónustu svæðisskrifstofa þar sem það á við. Þar er veitt þroska- og leikþjálfun, tekin þroskamöt á börnum og veitt uppeldisleg ráðgjöf til foreldra og annarra, svo sem leikskóla og stuðningsfjölskyldna, sem annast börnin. Leikfangasöfn skulu vera búin sérhæfðum þjálfunargögnum til útláns, ýmist til foreldra eða þeirra sem veita börnunum þjónustu.

V. KAFLI 

 Sumardvöl.

20. gr.

Fötluð börn skulu eiga aðgang að sumardvöl, sem rekin er af sveitarfélögum, félagasamtökum eða einstaklingum, með sama hætti og önnur börn.

Heimilt er ríkissjóði að greiða framlag vegna þess umframkostnaðar sem þjónusta við fötluð börn hefur í för með sér enda hafi verið gert ráð fyrir þeim útgjöldum í áætlunum svæðisskrifstofa.

Kostnaður vegna ferða til og frá sumardvöl greiðist af þeim sem þjónustunnar nýtur.

Gildistaka.

21. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðra, öðlast gildi þegar í stað. Jafnframt er úr gildi fallin reglugerð um stuðningsfjölskyldur vegna fatlaðra, nr. 345/1985.

Félagsmálaráðuneytið, 2. mars 1995.

Rannveig Guðmundsdóttir.

Húnbogi Þorsteinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica