Félagsmálaráðuneyti

159/1993

Reglugerð um holræsagjöld í Garðabæ. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um holræsagjöld í Garðabæ.

1. gr.

Af öllum fasteignum í lögsagnarumdæmi Garðabæjar, sem liggja við vegi eða opin svæði, þar sem holræsalagnir liggja, skal greiða árlegt holræsagjald til bæjarsjóðs Garðabæjar.

2. gr.

Af öllum fasteignum, er falla undir 1. gr. gjaldskrár þessarar, skal greiða árlega holræsagjald, sem nemur 0,07% af heildarfasteignamati fasteignarinnar, þ.e.a.s. af mati mannvirkja ásamt mati lóðar. Nú er fasteign, sem greiða ber af holræsagjald, eigi virt fasteignamatsvirðingu og ákveður þá bæjarráð fjárhæð gjaldsins. Við ákvörðun holræsagjalds samkvæmt þessari málsgrein, skal hafa hliðsjón af því, hvert líklegt fasteignamat myndi verða af eigninni fullfrágenginni.

3. gr.

Bæjarstjórn getur hækkað eða lækkað um allt að 50% framantalin gjöld, án þess að leita þurfi staðfestingar ráðuneytis.

4. gr.

Holræsagjald hvers árs fellur í gjalddaga 15. janúar og skal innheimta með sama hætti og fasteignagjald.

5. gr.

Húseigandi og lóðarhafi, lóðareigandi, ef um eignarlóð er að ræða, bera ábyrgð á greiðslu holræsagjalds, og er gjaldið tryggt með lögveði í lóð og mannvirkjum.

6. gr.

Reglugerð þessi skal taka gildi við álagningu holræsagjalds árið 1994.

Reglugerð þessi, sem samin er og samþykkt af bæjarstjórn Garðabæjar, staðfestist hér með samkvæmt vatnalögum nr. 15, 20 júní 1923 til þess að öðlast gildi þegar í stað.

Félagsmálaráðuneytið, 26. mars 1993.

Jóhanna Sigurðardóttir.

Berglind Ásgeirsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica