Leita
Hreinsa Um leit

Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

148/1965

Reglugerð um eftirlit með útlendingum. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um eftirlit með útlendingum.

I. Um vegabréf og vegabréfaáritanir.

A. Vegabréfaskylda.

1. gr.

Útlendingur, sem kemur til landsins eða fer þaðan, skal, með þeim undantekningum, er segir í 13.-16. gr., hafa vegabréf, sem fullnægir ákvæðum 2.-5. gr.

2. gr.

Vegabréf skal útgefið af þar til bæru yfirvaldi og vera gilt til ferðar hingað til lands.

Í vegabréf skal skráð fullt nafn vegabréfshafa, stétt eða atvinna, hvenær hann er fæddur, fæðingarstaður, ríkisfang, lögheimili, lýsing á sérkennum vegabréfshafa, svo og til hvaða tíma vegabréfið gildir. Vegabréfshafi skal rita nafn sitt í vegabréf eigin hendi.

Í vegabréf skal fest nýleg og lík ljósmynd af vegabréfshafa. Skal myndin stimpluð með embættisstimpli þess yfirvalds, sem gefið hefur það út. Skal stimpla þannig, að nokkur hluti stimpils komi fram á myndinni, en nokkur hluti utan hennar á vegabréfinu.

Í vegabréfi skal vera embættisstimpill eða innsigli þess yfirvalds, sem gefur það út. Í meginmáli þess mega ekki vera leiðréttingar, nema gerðar séu af þar til bæru yfirvaldi.

Vegabréf skal vera á íslenzku, dönsku, norsku, sænsku, ensku, frönsku, ítölsku, spönsku eða þýzku, eða hafa að geyma þýðingu á eitthvert þessara mála.

3. gr.

Heimilt er hjónum, hvort sem þau ferðast saman eða sitt í hvoru lagi, að nota vegabréf, sem gefið hefur verið út handa þeim sameiginlega. Í vegabréfinu skal vera lýsing af báðum hjónunum, myndir af þeim og nöfn þeirra, rituð með eigin hendi. Vegabréfin skulu að öðru leyti vera eins gerð og vegabréf einstaklinga.

4. gr.

Heimilt er útlendingum, sem koma hingað til lands í hópferð og ætla einungis að dvelja hér f stuttan tíma, að nota vegabréf, sem gefið hefur verið út handa þeim sameiginlega. Hið sameiginlega vegabréf skal út gefið af þar til bæru yfirvaldi, stimplað með embættisstimpli þess eða innsigli og vera gilt til ferðar til Íslands. Í því mega eingöngu vera nöfn ríkisborgara í landi, þar sem það er gefið út, og heimild hafa til að ferðast til Íslands á venjulegu vegabréfi án vegabréfsáritunar.

Hið sameiginlega vegabréf skal gefið út fyrir minnst fimm manns, en mest fimmtíu manns. Í bréfinu skal kveðið á um gildistíma þess og greint fullt nafn hvers þátttakanda í hópferðinni, hvenær hann er fæddur, fæðingarstaður, ríkisfang
og lögheimili. Hver þátttakandi skal auk þess hafa kennivottorð, útgefið af yfirvaldi i heimalandi. Fararstjóri skal búinn venjulegu vegabréfi, en nafn hans, svo og númer og útgáfudagur vegabréfsins skal skráð á hið sameiginlega vegabréf.

Hópferðavegabréf skal gefið út í þremur eintökum. Skal eitt þeirra afhent eftirlitsmanni vegabréfa við komu til Íslands og annað við brottför.

5. gr.

Vegabréf gildir eingöngu þann tíma, sem skráð er í því sjálfu, og veitir ekki heimild til komu eða dvalar á Íslandi, ef gildistími þess er liðinn eða vegabréfið telst ónothæft sökum skemmda.

B. Vegabréfaáritanir.

6. gr.

Útlendingar, sem þurfa að hafa vegabréf við komu til Íslands, skulu, með þeim undantekningum, er í 15.-16. gr. segir, fá vegabréfsáritun (visum) hjá íslenzkum sendiherra eða ræðismanni, sem fengið hefur heimild til áritunar.

7. gr.

Umsókn um vegabréfsáritun skal að jafnaði vera í tvíriti og skal umsækjandi undirrita bæði eintökin.

Í umsókn skulu vera fullnægjandi upplýsingar um, hver umsækjandi sé, hver tilgangur sé með ferðinni, hve lengi hann ætlar að dvelja hér á landi og, ef unnt er, til hvaða staðar eða staða í landinu hann ætlar að fara og hverja hann ætlar að heimsækja eða snúa sér til.

8. gr.

Vegabréfsáritun getur tekið til einnar ferðar til landsins eða fleiri.

9. gr.

Ef vegabréfsáritun hefur farið fram, skal tafarlaust senda dómsmálaráðuneytinu annað eintak umsóknarinnar með áritun um það, hvenær vegabréfsáritunin hefur átt sér stað.

10. gr.

Í eftirtöldum tilvikum skal leita samþykkis dómsmálaráðuneytisins, áður en vegabréfsáritun fer fram:

1. Þegar umsækjandi er ekki búsettur í umdæmi þess yfirvalds, sem vegabréfsáritunar er beiðzt hjá. Undanþegin þessari reglu eru þó þau tilfelli, er umsækjandi er í slíkri stöðu, að sérstök ástæða þykir til að hraða afgreiðslu vegabréfsáritunarinnar, svo og tilfelli, þegar ekkert virðist athugavert við að láta hana í té:

2. Þegar dómsmálaráðuneytið hefur ákveðið. að maður megi ekki fá vegabréfsáritun, nema með samþykki þess.

3. Þegar heimild viðkomandi yfirvalds til þess að láta vegabréfsáritun í té; hefur með sérstökum fyrirmælum verið takmörkuð frekar en gert er f þessari reglugerð.

4. Þegar umsækjandi er ríkisfangslaus eða vafi leikur á því, hvar hann eigi ríkisfang.

Samþykkis félagsmálaráðuneytisins skal leitað, áður en vegabréfsáritun er veitt, þegar tilgangur umsækjanda með ferðinni er að leita eða fara í atvinnu hér á landi, eða líklegt þykir, að tilgangur ferðarinnar sé sá.

11. gr.

Viðkomandi yfirvald getur synjað um vegabréfsáritun, ef það telur ástæðu til, en skjóta skal málinu þó til dómsmálaráðuneytisins, ef umsækjandi óskar þess. Eigi má láta vegabréfsáritun í té án samþykkis dómsmálaráðuneytisins, nema það í hverju einstöku tilfelli verði talið áhættulaust með öllu. Áður en beiðni um vegabréfsáritun er afgreidd, skulu viðkomandi yfirvöld rannsaka málið, eftir því sem við á, og leita í því efni aðstoðar og upplýsinga hjá lögreglunni, ef þörf krefur. Meðal annars ber að athuga, hvort umsækjandanum hafi áður verið vísað héðan úr landi eða öðru norrænu ríki, ef ríkisborgarar annarra landa en Norðurlandanna eiga í hlut. Skal dómsmálaráðuneytið í því skyni láta viðkomandi yfirvöldum í té skrá yfir alla þá menn, sem svo er ástatt um.

Áritun vegabréfs (visun) skal vera í því formi, sem dómsmálaráðuneytið segir fyrir um.

12. gr.

Ef útlendingur, sem eigi má koma til landsins án vegabréfsáritunar, dvelur hér, en hefur í hyggju að fara utan og koma síðan aftur hingað, getur hann sótt um að fá heimild til þess áritaða á vegabréfið af lögreglustjóra (returvisum).

C. Undanþágur frá vegabréfaskyldu og uegabréfaáritunum.

13. gr.

Heimilt er dönskum, finnskum, norskum og sænskum rikisborgurum að koma hingað til lands beint frá eða fara beint til Danmerkur, Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar án vegabréfs eða annars kennivottorðs, enda ferðist þeir um höfn eða flugvöll, þar sem landganga og brottför útlendinga er leyfð.

14. gr.

Útlend börn, yngri en 16 ára, sem ferðast með nánum ættingjum eða forráðamanni mega koma til landsins og fara þaðan án þess að hafa eigin vegabréf, ef nöfn þeirra, kyn og aldur er skráð í vegabréf ættingjans eða forráðamannsins.

15. gr.

Dómsmálaráðherra ákveður, hvort útlendingar megi nota annað kennivottorð en vegabréf við komu til landsins eða brottför þaðan. Hann ákveður einnig, hvort útlendingar megi koma til landsins án vegabréfsáritunar.

Ákvörðun dómsmálaráðherra skv. 1. mgr, skal birta í Stjórnartíðindum.

16. gr.

Útlendingaeftirlitinu er heimilt, ef sérstaklega stendur á, að veita útlendingi leyfi til landgöngu og stuttrar dvalar hér, enda þótt hann geti ekki gert grein fyrir sér með vegabréfi, sem fullnægir ákvæðum 2.-5. gr., eða hafi ekki vegabréfsáritun.

II. Eftirlit með komu útlendinga og brottför.

17. gr.

Útlendingi er óheimil landganga eða för úr landi á öðrum stöðum en þeim, sem dómsmálaráðherra hefur ákveðið með auglýsingu, nema sérstaklega standi á og útlendingaeftirlitið eða hlutaðeigandi lögreglustjóri leyfi.

18. gr.

Útlendingi, sem kemur til landsins eða fer þaðan, er skylt að gefa sig fram hjá viðkomandi eftirlitsmanni vegabréfa og sýna vegabréf sitt eða annað kennivottorð. Þetta á þó ekki við um danska, finnska, norska og sænska ríkisborgara, sem koma beina leið frá eða ætla beint héðan til Danmerkur, Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar, né heldur aðra útlendinga, sem eins stendur á fyrir.

19. gr.

Útlendar áhafnir skipa og loftfara, sem koma til íslenzkrar hafnar eða flugvallar, eru ekki háðar eftirliti skv. 18. gr. Þetta gildir þó ekki um þá af áhöfnum, sem ætlunin er að afskrá hér á landi.

20. gr.

Skipstjórar og flugstjórar skulu við komu til íslenzkrar hafnar eða flugvallar sjá um, að farþegar, sem ekki hafa byrjað ferð sína f danskri, finnskri, norskri eða sænskri höfn eða flugvelli, yfirgefi ekki skip eða loftfar, fyrr en vegabréfaskoðun hefur farið fram. Þeir mega heldur ekki taka við farþegum til hafna eða flugvalla utan Danmerkur; Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar, nema þeir hafi gengið úr skugga um, að vegabréf farþeganna hafi verið athuguð af eftirlitsmönnum.

21. gr.

Skipstjórum og flugstjórum er skylt, þegar þeir koma í íslenzka höfn eða flugvöll, að láta í té, samkvæmt kröfu eftirlitsmanns, skriflega yfirlýsingu um tölu farþega og áhafnar. Sama gildir við brottför. Samkvæmt beiðni er þeim enn fremur skylt að láta í té eintak af farþegaskrá og áhafnarlista.

22. gr.

Skylt er útlendingum, ef þess er óskað, að veita eftirlitsmönnum vegabréfa upplýsingar um hagi sína.

 

III. Dvalarleyfi og atvinnuleyfi.

A. Dvalarleyfi.

23. gr.

Heimilt er dönskum, finnskum, norskum og sænskum ríkisborgurum að dvelja hér á landi án dvalarleyfis.

24. gr.

Útlendingar, sem mega koma til landsins án vegabréfsáritunar sbr. 15. gr., mega dvelja hér án sérstaks leyfis þann tíma, sem greindur er í 2. og 3. málsgr. 5. gr. laga um eftirlit með útlendingum.

Útlendingar, sem þurfa vegabréfsáritun til komu og dvalar hér á landi, mega án frekara leyfis dvelja hér þann tíma, sem greint er í árituninni.

Útlendingar, sem óska að dvelja hér á landi lengur en segir í 1. og 2. mgr., skulu, áður en þar greindur tími er liðinn, sækja um dvalarleyfi.

Útlendingar, aðrir en danskir, finnskir, norskir eða sænskir ríkisborgarar, skulu ávallt bera á sér vegabréf eða annað kennivottorð meðan þeir dvelja hér á landi, og sýna það lögreglunni, ef óskað er.

25. gr.

Útlenzkar konur, sem giftar eru íslenskum rikisborgurum, og útlendingar, sem fæddir eru íslenzkir ríkisborgarar, þurfa ekki sérstakt dvalarleyfi, ef þau hafa haft fasta búsetu hér á landi um tveggja ára skeið og búa hér enn. Gildir þetta meðan hlutaðeigandi útlendingur hefur hér búsetu.

26. gr.

Útlendar áhafnir skipa eða loftfara, sem koma til íslenzkrar hafnar eða flugvallar, mega, án sérstaks leyfis, dvelja á komustaðnum meðan skip eða loftfar er þar, þó eigi lengur en þrjá mánuði.

Lögreglan getur bannað áhöfn eða einstökum meðlimum áhafnar að yfirgefa skip eða loftfar, ef sérstök ástæða þykir til.

Með leyfi lögreglunnar mega útlendingar, þeir, er um ræðir í 1. málsgr., dvelja hér á landi utan komustaðarins í allt að fjóra daga.

B. Atuinnuleyfi.

27. gr.

Sækja ber um atvinnuleyfi fyrir útlendinga, sem hafa í hyggju að ráða sig í vinnu, stöðu eða starf fyrir menn, félög eða stofnanir, sem reka atvinnu eða starfrækja fyrirtæki, ef atvinnuleyfi hefur eigi þegar verið veitt, áður en útlendingurinn kom til landsins. Er honum óheimilt að byrja að starfa, fyrr en leyfi hefur verið veitt. Samsvarandi reglur gilda um útlendinga, sem ætla að vinna sjálfstætt eða stofna atvinnufyrirtæki hér á landi.

28. gr.

Ekki þarf að sækja um atvinnuleyfi fyrir:

1. Útlenda menn, sem stunda nám í skólum, sem íslenzka ríkið á eða styrkir.

2. Útlenda menn í einkaþjónustu sendimanna erlendra ríkja.

3. Útlenda menn, sem verið hafa íslenzkir ríkisborgarar frá fæðingu, en misst hafa íslenzkan rikisborgararétt.

4. Útlenda menn, sem höfðu hér aðsetur, áður en lög nr. 13, 31. maí 1927, komu til framkvæmda, og hafa dvalið hér samfleytt síðan.

C. Umsóknir o. f 1.

29. gr.

Dómsmálaráðuneytið veitir dvalarleyfi, en félagsmálaráðuneytið atvinnuleyfi. Umsóknir ber að senda útlendingaeftirlitinu. Vegabréf skal fylgja umsókn, ef unnt er. Ef óskað er framlengingar á dvalar- eða atvinnuleyfi, ber að sækja um hana, áður en leyfistími rennur út.

IV. Tilkynningarskylda o. fl.

30. gr.

Skylt er hverjum þeim, sem hýsir útlendinga gegn greiðslu eða ókeypis, að tilkynna lögreglunni um komu þeirra og brottför. Þetta gildir þó ekki um danska, finnska, norska og sænska ríkisborgara. Í kaupstöðum skal tilkynning berast lögreglunni innan sólarhrings eftir að útlendingur kom eða fór, en annars staðar á landinu skal tilkynning berast innan þess tíma, er lögreglustjóri ákveður.

Í tilkynningu samkvæmt 1. málsgr. skal greina fullt nafn útlendings, hvenær hann er fæddur, fæðingarstað, ríkisfang, stöðu, fast heimilisfang, komudag, síðasta dvalarstað, hvenær útlendingur hafi síðast komið til Íslands, hvort útlendingur hafi á síðustu sex mánuðum dvalið hér á landi, í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, og ef svo er, þá hvenær, svo og hvers konar ferðaskilríki útlendingurinn hafi.

Útlendingi er skylt að veita upplýsingar þær, er um ræðir í 2 málsgr., og ber að undirrita komutilkynningu ásamt gestgjafa. Útlendingi er og skylt að sýna ferðaskilríki. svo að gengið verði úr skugga um, að rétt sé frá skýrt.

Tilkynningar þær, sem um ræðir í 1. málsgr., skal rita á þar til gerð eyðublöð fyrir hvern útlending fyrir sig. Lögreglustjóri getur þó leyft, að þátttakendur hópferðar séu færðir á sameiginlega skrá, sem fararstjóri undirritar.

31. gr.

Þjóðskránni ber að veita útlendingaeftirlitinu upplýsingar á þar til gerðum eyðublöðum um útlendinga þá, er hún fær vitneskju um. Sama gildir um sjúkrasamlög hvað snertir útlendinga, er öðlast samlagsréttindi hér á landi.

32. gr.

Nú hefur útlendingi verið refsað hér á landi og ber þá sakaskrá ríkisins að gera útlendingaeftirlitinu aðvart um það.

33. gr.

Í hverju lögsagnarumdæmi heldur lögreglustjóri spjaldskrá yfir útlendinga, er þar eiga búsetu (dvelja). Afrit af skránni skal senda útlendingaeftirlitinu. Nú flytzt útlendingur úr umdæmi og skal þá nema spjald hans úr skránni og tilkynna útlendingaeftirlitinu um brottförina.

34. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varða refsingu samkvæmt lögum nr. 45 12. maí 1965, um eftirlit með útlendingum.

35. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 45 12. maí 1965 öðlast gildi 1. janúar 1966 og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli. Frá sama tíma er úr gildi felld reglugerð frá 24. maí 1937 um sama efni.

Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 3. september 1965

Jóhann Hafstein.

Baldur Möller.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica