Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

270/1999

Reglugerð um íslensk vegabréf. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um íslensk vegabréf.

I. KAFLI

Vegabréfaskylda.

1.gr.

Við brottför úr landi og komu til landsins er íslenskum ríkisborgurum heimilt að fara beint til og koma beint frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð án þess að hafa í höndum vegabréf eða annað ferðaskilríki.

Í öðrum tilvikum skulu íslenskir ríkisborgarar hafa vegabréf er þeir fara úr landi og koma til landsins.

Þegar sérstaklega stendur á getur Útlendingaeftirlitið heimilað komu til landsins og för úr landi enda þótt hlutaðeigandi geti ekki gert grein fyrir sér með vegabréfi.

2. gr.

Brottför úr landi og koma til landsins er aðeins heimil um staði sem dómsmálaráðherra hefur ákveðið með auglýsingu, nema sérstaklega standi á og Útlendingaeftirlitið eða hlutaðeigandi lögreglustjóri leyfi.

II. KAFLI

Flokkar, gerð, form og efni vegabréfa.

3. gr.

Vegabréf skiptast í sex flokka:

a. Almenn vegabréf.

b. Dimplómatísk vegabréf.

c. Þjónustuvegabréf.

d. Ferðaskilríki fyrir flóttamenn.

e. Vegabréf fyrir útlendinga.

f. Vegabréf til bráðabirgða (neyðarvegabréf).

4. gr.

Á forsíðu vegabréf skal Íslands getið skýrum stöfum og einnig skal skjaldarmerki Íslands vera þar greinilegt. Tegund vegabréfs skal tilgreind með áberandi hætti á forsíðu.

Kápuefni skal vera úr slitþolnu efni. Litur á kápu skal vera heiðblár, en áletrun gyllt.

Persónusíða skal vera gerð úr öryggispappír eða gerviefni.

5. gr.

Vegabréf skal innihalda fjögur stig öryggisþátta, í samræmi við tilmæli Alþjóða flugmálastofnunarinnar (ICAO).

Ríkislögreglustjóri geymir nákvæma lýsingu á öryggisþáttum vegabréfsins.

6. gr.

Vegabréf skal vera í bókarformi, 88 x 125 mm að stærð. Vegabréf, önnur en neyðarvegabréf, skulu vera 34 eða 66 tölusettar blaðsíður, auk kápunnar.

Vegabréf skal vera vélrænt lesanlegt og í samræmi við alþjóðlegar reglur og staðla.

7. gr.

Upplýsingar í vegabréfi skulu vera á íslensku, ensku og frönsku.

Persónusíða vegabréfs skal innihalda upplýsingar um nafn, þjóðerni, hæð, fæðingardag, kennitölu, kyn og fæðingarstað handhafa vegabréfsins. Einnig skal tilgreina útgáfudag vegabréfsins og gildistíma þess, ásamt upplýsingum ym það stjórnvald sem gefur vegabréfið út. Á persónusíðu skal einnig vera ljósmynd af handhafa vegabréfsins.

III. KAFLI

Umsókn um vegabréf.

8. gr.

Ríkislögreglustjórinn lætur gera umsóknareyðublað sem umsækjandi um vegabréf fyllir út og afhendir lögreglustjóra, ásamt tilskilinni greiðslu fyrir útgáfu vegabréfsins. Umsókn um vegabréf má afhenda lögreglustjóra áháð búsetu umsækjanda.

Utanríkisráðherra setur reglur um móttöku og meðferð umsókna um vegabréf hjá sendistofnunum Íslands erlendis.

Í umsókn skal koma fram:

a.Fullt nafn, heimilsfang, kennitala, fæðingarstaður, þjóðerni, hæð og kyn umsækjanda.

b. Tegund vegabréfs sem sótt er um.

c. Númer vegabréfs, sem síðast var gefið út á nafn umsækjanda, útgáfudagur þess og útgáfustaður.

d. tegund skilríkis sem umsækjandi framvísar til að sanna á sér deili.

e. Hvert umsækjandi vill láta senda vegabréfið.

f. Hvernig afgreiðslu óskað er eftir.

Með umsókn um vegabréf skal fylgja:

a.Vegabréf sem á að endurnýja, ef ekki er sótt um fyrsta vegabréf. Ef vegabréf hefur glatast skal skila inn útfylltu eyðublaði þar sem rakin eru afdrif vegabréfsins.

b. Ljósmynd af umsækjanda (andlitsmynd án höfuðfats), sem líkist umsækjanda vel 35 X 45 mm að stærð. Myndin skal vera á endingargóðum ljósmyndapappír, merkja- og stimplalaus. Heimilt er taka við ljósmynd af umsækjanda með höfuðfat ef umsækjandi fer fram á það af trúarlegum ástæðum.

Þegar sótt er um neyðarvegabréf skal skila inn 2 ljósmyndum.

Víkja má frá skilyrðum um ljósmynd þegar sótt er um hraðaafgreiðslu á vegabréfi.

c. Þegar sótt er um vegabréf fyrir barn undir 18 ára aldri skal leggja fram skriflegt samþykki þeirra sem fara með forsjá barnsins. Nú er annað forsjárforeldri ófært um að veita samþykki sitt vegna sjúkdóms, fjarvistar eða af öðrum ástæðum og er þá samþykki hins fullnægjandi. Samþykki lögráðamanns þarf til að gefið verði út vegabréf til að þess sem sviptur hefur verið sjálfræði. Ríkislögreglustjórinn getur heimilað að vikið sé frá þessum skilyrðum ef sérstaklega stendur á.

9. gr.

Þegar umsókn hefur verið lögð fram skal umsækjandi, í viðurvist fulltrúa lögreglustjóra, rita nafn sitt í þar til gerðan reit á umsóknareyðublaði sem ljósmynd af umsækjanda skal fest við. Víkja má frá skilyrði um undirritun umsækjanda á grundvelli aldurs hans eða fötlunar.

10. gr.

Við móttöku umsóknar um vegabréf skal starfsmaður gæta þess að umsóknin sé rétt útfyllt og allar nauðsynlegar upplýsingar fyrirliggjandi. Ríkislögreglustjórinn skal gefa út leiðbeiningar um starfsskyldur starfsmanna við könnun á umsóknum.

IV. KAFLI

Útgáfa vegabréfa.

11. gr.

Ríkislögreglustjórinn annast útgáfu vegabréfa.

Íslenskur ríkisborgari, sem jafnframt er ríkisborgari í öðru ríki, getur fengið íslenskt vegabréf útgefið. Ekki skal gerð krafa um innköllun eða ógildingu erlends vegabréfs hlutaðaeigandi af þessu tilefni.

Utanríkisráðherra setur reglur um útgáfu diplómatískra vegabréfa og þjónustvegabréfa. Utanríkisráðherra setur einnig reglur um útgáfu íslenskra sendistofnana á neyðarvegabréfum til íslenskra ríkisborgara sem staddir eru erlendis.

12. gr.

Vegabréf skal útgefið á fullt nafn umsækjanda samkvæmt þjóðskrá, svo framalega sem öll nöfn komist fyrir innan viðkomandi reits í vegabréfinu. Ef fullt nafn er of langt, má skammstafa eiginnafn umsækjanda og millinafn eftir þörfum, en að öllu jöfnu skal þó að minnsta kosti eitt eiginnafn umsækjanda vera ritað fullum stöfum í vegabréfinu.

Íslenskur ríkisborgari, sm hefur fasta búsetu erlendis, getur óskað eftir því við ríkislögrelustjórann að fá kenninafn maka skráð í vegabréf sitt.

13. gr.

Þegar ríkislögreglustjóri hefur gefið út vegabréf, samkvæmt beiðni lögreglustjóra, skal hann senda vegabréfið til lögreglustjóra, þar sem umsækjandi getur fengið það afhent.

Umsækjandi getur einnig fengið vegabréfið sent í pósti, gegn greiðslu sendingarkostnaðar.

Vegabréf skal gefið út innan 10 virkra daga frá móttöku umsóknar.

V. KAFLI

Aukavegabréf.

14. gr.

Ríkislögreglustjóranum er heimilt að gefa út fleiri en eitt vegabréf fyrir sama einstakling. Aukavegabréf verður þó ekki gefið út nema umsækjandi sýni fram á þörf fyrir handhöfn fleiri vegabréfa en eins.

Eftir notkun skal skila aukavegabréfi til lögreglu.

Ríkislögreglustjórinn skal hafa eftirlit með því að aukavegabréfum sé skilað.

15. gr.

Aukavegabréfum skal gefa út með gildistíma sem háður en lengd ferðar. Þó skal aldrei gefa aukavegabréf út til lengri tíma en tveggja ára.

VI. KAFLI

Vegabréf til bráðabirgða (neyðarvegabréf).

16. gr.

Lögreglustjórar mega gefa út vegabréf til bráðabrigða (neyðarvegabréf) þegar sérstaklega sterdur á.

Gildistími neyðarvegabréfs skal miðaður við lok ferðar. Þó skal slíkt vegabréf aldrei gilda lengur en í 12 mánuði. Handhafa neyðarvegabréfs ber að skila því til lögreglu eftir notkun.

Neyðarvegabréf skal vera í bókarformi, 88 x 125 mm að stærð. Í bókinni skulu vera, auk kápunnar, 8 tölusettar blaðsíður.

VII. KAFLI

Hópvegabréf.

17. gr.

Ríkislögreglustjóranum er heimilt að gefa út hópvegabréf fyrir hóp ferðamanna undir 21 árs aldri.

18. gr.

Í umsókn um útgáfu hópvega skal tilgreina upplýsingar um ákvörðunarstað ferðar og tilgang hennar. Umsókn skal fylgja, í fjórriti, listi yfir þá sem telja skal upp í vegabréfinu, ásamt upplýsingum um fullt nafn, heimilisfang, kennitölu, fæðingarstað og ríkisborgararétt viðkomandi.

Með hópnum skal vera fararstjóri. Skal fararstjóri hafa náð 21 árs aldri og vera handhafi gilds vegabréfs.

Fararstjóri skal sjálfur staðfesta þær upplýsingar sem fram koma í umsókn um hópvegabréf, þar með talið samþykki lögráðamanna ólögráða aðila.

19. gr.

Hópvegabréf verða aðeins gefin út til íslenskra ríkisborgara. Hámarksfjöldi í hóp er 50 manns en lágmarksfjöldi fimm manns.

Hópvegabréf skal takmark við ákveði ríki og skal gildistími þess miðast við skipulagða ferðaáætlun. Hópvegabréf skal þó aldrei gilda lengur en þrjá mánuði. Í vegabréfinu skal, auk gildistíma, tilgreina upplýsingar um útgefanda, útgáfustað og útgáfudag. Þá skal þar einnig tilgreina nafn og vegabréfsnúmer fararstjóra, auk upplýsinga um nöfn, fæðingarstað og fæðingardag allra þátttakenda hópferðarinnar. Í vegabréfinu skal einnig tilgreina ríki sem hópferðinni er heitið til.

VIII. KAFLi

Ferðaskilríki fyrir flóttamenn og vegabréf til útlendinga.

20. gr.

Útlendingaeftirlitið getur gefið út ferðaskilríki fyrir flóttamenn. Ferðaskilríki skal einungis gefið út til þeirra sem stjórnvöld hafa viðurkennt að hafi stöðu flóttamanna hér á landi og dvelja löglega hérlendis, sbr. 28. gr, samnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951.

ferðaskilríki fyrir flóttamann má binda við tiltekið svæði. Eiinig má ákvarða slíku skilríki skemmri gildistíma en mælt er fyrir um í 1. mgr. 22.

21. gr.

Útlendingaeftirlitið getur gefið út vegabréf fyrir útlendinga, sem ekki geta með öðrum hætti aflað sér vegabréfs eða annars ferðaskilríkis.

Vegabréf fyrir útlending verður því aðeins gefið út að umsækjandi sé löglega búsettur hér á landi og geti sýnt fram á að hann geti ekki fengið útgefin ferðaskilríki þar sem hann á ríkisfang, eða hann sé ríkisfangslaus.

Vegabréf fyrir útlending má binda við tiltekið svæði. Einnig má ákvarða slíku vegabréfi skemmri gildistíma en mælt er fyrir um í 1. mgr. 22. gr.

IX. KAFLI

Gildistími vegabréfs, gjöld o.fl.

22. gr.

Gildistími vegabréfs skal vera tíu ár frá útgáfudegi. Þó skal gildistími vegabréfs fyrir barn yngra en 18 ára vera fimm ár frá útgáfudegi.

Ríkislögreglustjórinn getur bundið vegabréf við tiltekið svæði. Hann getur og ákvarðað vegabréfi skemmri gildistíma en mælt er fyrir um í 1. mgr. 22. gr., þegar ákvæði 5. gr. laga um vegabréf eiga við eða ætla má að viðkomandi hafi misfarið með vegabréf. Sömu heimild má beita hafi viðkomandi ítrekað glatað vegabréfi án þess að gera trúverðuga grein fyrir afdrifum þess.

23. gr.

Heimilt er að framlengja gildistíma vegabréfs, sem runnið hefur út á síðustu 12 mánuðum, eða sem renna mun út innan skamms tíma, ef ekki er unnt að gefa út nýtt vegabréf í tæka tíð.

Vegabréf skal framlengt með áritun þar um. Framlenging á gildistíma vegabréfs skal miðast við lok fyrirhugaðar ferðar umsækjanda. Þó má aldrei framlengja vegabréf til lengri tíma en eins árs.

Upplýsingar um framlengingu vegabréfs skal færa í vegabréfaskrá.

Ekki má framlengja vegabréf ofter en einu sinni.

24. gr.

Meðan vegabréf er í gildi getur handhafi þess ekki fengið útgefið nýtt vegabréf, nema lögreglan hafi ógilt vegabréf hans, eða viðkomandi tilkynnt að vegabréf hans hafi eyðilagst eða glatast.

25. gr.

Ríkislögreglustjórinn skal annast hraðafgreiðslu vegabréfa.

26. gr.

Um gjöld fyrir útgáfu vegabréfa fer samkvæmt lögum um aukatekjur ríkssjóðs hverju sinni.

X. KAFLI

Skrá um vegabréf.

27. gr.

Ríkislögreglustjórinn skal halda miðlæga skrá á tölvutæku formi um öll útgefin vegabréf, þar með talin diplómatísk vegabréf, þjónustuvegabréf, vegabréf fyrir útlendinga, ferðaskilríki fyrir flóttamenn og vegabréf til bráðabirgða.

Skráin skal geyma allar upplýsingar sem skráðar eru í vegabréf um handhafa þess. Ljósmynd af handhafa vegabréfs skal einnig geymd í skránni. Þeir sem taka við umsóknum um vegabréf, skulu annast skráningu þessara upplýsinga. Jafnframt skal ríkislögreglustjórinn, þegar vegabréf er gefið út, skrá útgáfudag, gildistíma og númer vegabréfs.

Skráin skal búin aðgangstakmörkuunum þannig að hægt verði að veita mismunandi aðgang að kerfinu eftir þörfum notenda.

Ríkislögreglustjórinn ákveður hvaða aðilar fái aðgang að skránni og setur nánari reglur um hana að fenginni umsögn tölvunefndar.

XI. KAFLI

Gildistaka o..fl.

28. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 11. gr. laga um vegabréf nr. 136 22. desember 1998 og 1. og 2. gr. laga um eftirlit með útlendingum nr. 45 12. maí 1965, öðlast gildi 1. júní 1999. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um íslensk vegabréf nr. 169 22. apríl 1987.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 14. apríl 1999.

Þorsteinn Pálsson.

Arnar Þór Jónsson.

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica