Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

169/1987

Reglugerð um íslensk vegabréf. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um íslensk vegabréf.

 

I. Vegabréfaskylda.

1. gr.

Við brottför úr landi og komu til landsins er íslenskum ríkisborgurum heimilt að fara til og koma frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð án þess að hafa í höndum vegabréf eða annað ferðaskilríki.

Í öðrum tilvikum skulu íslenskir ríkisborgarar hafa í höndum vegabréf er þeir fara úr landi og koma til landsins. Börn yngri en 15 ára mega þó fara úr landi og koma til landsins án þess að hafa í höndum eigið vegabréf ef þau eru í fylgd með foreldri, fósturforeldri eða öðrum nánum venslamanni og nöfn þeirra eru skráð í vegabréf hlutaðeigandi.

 

2 gr.

Ef sérstaklega stendur á getur útlendingaeftirlitið heimilað komu til landsins og för úr landi enda þótt hlutaðeigandi geti ekki gert grein fyrir sér með vegabréfi.

 

3. gr.

Brottför úr landi og koma til landsins er aðeins heimil um hafnir og flugvelli sem dómsmálaráðherra hefur ákveðið með auglýsingu nema sérstaklega standi á og útlendingaeftirlitið eða hlutaðeigandi lögreglustjóri leyfi.

 

II. Útgáfa vegabréfa.

4. gr.

Lögreglustjórar annast útgáfu vegabréfa til íslenskra ríkisborgara sem dvelja hér á landi og búsettir eru í umdæmi hlutaðeigandi lögreglustjóra. Gefa má þó út vegabréf í öðru umdæmi en hlutaðeigandi er búsettur í til sjómanna sem sanna að þeir eru lögskráðir á íslenskt skip, svo og að öðru leyti við sérstakar aðstæður.

Sendiráð og fastanefndir hjá alþjóðastofnunum og sendiræðismenn annast útgáfu vegabréfa til íslenskra ríkisborgara sem dvelja erlendis. Utanríkisráðuneytið setur nánari reglur um þetta efni.

 

5. gr.

Vegabréf skal gefa út handa einum einstaklingi.

Börn yngri en 15 ára má þó skrá í vegabréf náins aðstandanda. Áður en slík skráning fer fram skal leggja fram fæðingar- eða skírnarvottorð barnsins eða áður útgefið vegabréf þar sem nafn barnsins er skráð. Ennfremur skal leggja fram samþykki þess eða þeirra sem fara með forsjá barnsins. Nú getur forsjáraðili ekki veitt samþykki vegna fjarveru, veikinda eða of öðrum ástæðum og nægir þá samþykki hins.

Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um hópvegabréf.

 

6. gr.

Gildistími vegabréfa sem gefin eru út til þeirra sem náð hafa 18 ára aldri er allt að 10 ár. Gildistími vegabréfa sem gefin eru út til þeirra sem eigi hafa náð 18 ára aldri er allt að 5 ár.

Óheimilt er að framlengja gildistíma vegabréfs.

Á gildistíma vegabréfs á vegabréfshafi ekki rétt á að fá útgefið nýtt vegabréf nema fyrra vegabréf sé fullnotað eða skemmt eða telja megi sannað á fullnægjandi hátt að það hafi glatast eða vegabréfshafi hafi breytt um nafn.

 

7. gr.

Sá sem sækir um vegabréf skal leggja inn umsókn á þar til gerðu eyðublaði sem hann fyllir út og undirritar. Ef umsækjandi er yngri en 16 ára þarf skriflegt samþykki forsjáraðila, sbr. 3. og 4. málsl. 2. mgr. 5. gr.

Með umsókn skulu fylgja tvær skýrar andlitsmyndir of umsækjanda berhöfðuðum. Stærð myndarinnar skal vera 35x45 mm. Hún skal vera á endingargóðum ljósmyndapappír, merkja- og stimplalaus. Ennfremur skal fylgja vegabréf sem umsækjandi fékk síðast útgefið og önnur þau vottorð sem á umsóknareyðublaði greinir.

 

8. gr.

Ef umsækjandi er ekki kunnur þeim sem gefur út vegabréf skal hann ef þess er óskað sanna hver hann er, t. d. með því að framvísa ökuskírteini, nafnskírteini með mynd eða sjóferðabók.

Ef þörf er má krefja umsækjanda um nánari gögn um hið íslenska ríkisfang.

 

9. gr.

Áður en vegabréf er afhent skal umsækjandi rita nafn sitt í vegabréfið í viðurvist starfsmanns þess yfirvalds sem gefur það út.

 

III. Gildistaka.

10. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í lögum um íslensk vegabréf, nr. 18 11. febrúar 1953, öðlast gildi 15. maí 1987.

Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 6. gr. er heimilt til 31. desember 1987 að framlengja gildistíma vegabréfa í eitt ár.

 

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 22. apríl 1987.

 

Jón Helgason.

Hjalti Zóphóníasson.


 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica