775/2025
Um breytingu á reglugerð um rafrænar þinglýsingar, nr. 360/2019.
REGLUGERÐ um breytingu á reglugerð um rafrænar þinglýsingar, nr. 360/2019.
1. gr.
Við 2. gr. reglugerðarinnar bætast þrír nýir töluliðir, svohljóðandi:
- Pakki: Safn rafrænna færslna sem stafa frá fleiri en einum þjónustunotanda er varðar réttindi yfir sömu eign/-um. Rafrænar færslur pakkans skoðast sem ein heild, sem þinglýsingarstjóri úrskurðar um í einu lagi samkvæmt þinglýsingalögum.
- Ábyrgðaraðili pakka: Þjónustunotandi sem ber ábyrgð á pakka skv. 9. tölul. 2. gr. reglugerðarinnar. Ábyrgðaraðili stofnar pakka í þinglýsingagátt, skilgreinir þjónustunotendur pakkans og tegundir rafrænna færslna. Þegar gengið hefur verið frá pakkanum getur ábyrgðaraðili einn sent pakkann til þinglýsingar með rafrænni færslu.
- Pakkavirkni í þinglýsingagátt: Aðgerðir í þinglýsingagátt sem bjóða ábyrgðaraðila pakka upp á að safna utan dagbókar rafrænum færslum frá skilgreindum þjónustunotendum, sem þinglýst verður í einu lagi á sömu eign/-ir. Pakkavirkni býður upp á villuprófanir og eftirfylgni á meðferð pakkans við þinglýsingu, bæði fyrir ábyrgðaraðila pakkans og þjónustunotendur, samkvæmt því sem tæknilýsing mælir nánar fyrir um hverju sinni.
2. gr.
Á eftir 3. málsl. 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Pakkavirkni í þinglýsingagátt skv. 11. tölul. 2. gr. reglugerðarinnar er hluti af vefþjónustu þinglýsingagáttar.
3. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. reglugerðarinnar:
- Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sé rafræn færsla hluti af pakka skv. 9. tölul. 2. gr. reglugerðarinnar, fara heimildir þjónustunotanda eftir því hvernig ábyrgðaraðili pakkans skilgreindi pakkavirkni skv. 11. tölul. sömu greinar.
- Við 2. mgr. bætast við tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ábyrgðaraðila pakka gefst tækifæri til að senda pakka í heild sinni í villuprófun þegar allar færslur eru komnar í pakkann. Við þá aðgerð er hvorki pakkinn né einstaka færslur tímastimplaðar.
- Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sé færsla hluti af pakka og einni eða fleiri færslum er vísað frá dagbók, leiðir það til þess að aðrar færslur pakkans verða ekki dagbókarfærðar.
- Í stað 2. málsl. 4. mgr. koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Forgangsáhrif þinglýsingar skjals teljast frá tímastimplun dagbókarfærslu. Sé rafræn færsla hluti af pakka, er dagbókarfærsla hverrar færslu tímastimpluð samtímis því að pakkinn er sendur til þinglýsingar. Forgangsáhrif hverrar færslu pakkans teljast frá tímastimplun dagbókarfærslu pakkans.
- 2. málsl. 5. mgr. orðast svo: Sé rafræn færsla hluti af pakka, fer pakkinn í heild sinni í handvirka úrlausn þinglýsingarstjóra ef einni færslu er áfátt að einhverju leyti þótt ekki varði frávísun hennar úr dagbók.
- Ný málsgrein bætist við, svohljóðandi: Þjónustunotanda býðst að sækja upplýsingar um úrskurð þinglýsingarstjóra samkvæmt þinglýsingalögum um þinglýsingu rafrænnar færslu. Ábyrgðaraðila pakka stendur til boða að sækja úrskurð þinglýsingarstjóra um þinglýsingu allra rafrænna færslna pakkans.
4. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. reglugerðarinnar.
- Í stað 2. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sé færslan hluti af pakka, kveður þinglýsingarstjóri upp úrskurð samkvæmt þinglýsingalögum um þinglýsingu pakkans í heild. Feli úrskurður þinglýsingarstjóra í sér þinglýsingu rafrænnar færslu með athugasemd eða synjun um þinglýsingu er þjónustunotanda og eftir atvikum ábyrgðaraðila pakka tilkynnt um ákvörðunina og rökstuddar ástæður hennar í samræmi við ákvæði laganna.
- Ný málsgrein bætist við, svohljóðandi: Sé færsla hluti pakka, verður einstaka færslum ekki þinglýst fyrr en þinglýsingarstjóri hefur tekið afstöðu til pakkans í heild sinni með úrskurði samkvæmt þinglýsingalögum. Frávísun einnar eða fleiri færslna veldur því að aðrar færslur pakkans verða ekki dagbókarfærðar.
5. gr.
Við 10. gr. reglugerðarinnar bætist ný málsgrein, svohljóðandi: Gjöld vegna þinglýsingar pakka reiknast á hverja rafræna færslu pakkans samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs og lögum um stimpilgjald. Hver þjónustunotandi ber ábyrgð á greiðslu gjalda fyrir sína rafrænu færslu í pakka.
6. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 5. mgr. 5. gr. þinglýsingalaga, nr. 39/1978, öðlast þegar gildi.
Dómsmálaráðuneytinu, 4. júlí 2025.
Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir.
B deild - Útgáfudagur: 8. júlí 2025