Fjármálaráðuneyti

63/1994

Reglugerð um frjálsa skráningu vegna fólksflutninga á milli landa. - Brottfallin

1. gr.

Aðili sem í atvinnuskyni hefur með höndum fólksflutninga milli landa getur sótt um frjálsa skráningu til skattstjóra. Heimild til skráningar samkvæmt reglugerð þessari nær til flugfélaga og skipafélaga sem halda uppi reglulegum ferðum á milli landa.

2. gr.

Aðili sem fær heimild til frjálsrar skráningar skal ekki innheimta útskatt af fargjöldum vegna fólksflutninga á milli landa. Til fólksflutninga á milli landa teljast fólksflutningar innanlands þegar þeir eru í beinum tengslum við fólksflutninga á milli landa.

3. gr.

Aðili sem skráður er frjálsri skráningu skv. 1. gr. getur samkvæmt almennum ákvæðum laga nr. 50/1988 og reglugerða, sem settar eru samkvæmt þeim, talið til innskatts þann virðisaukaskatt sem eftir skráninguna fellur á kaup hans á vörum og þjónustu er varða umrædda starfsemi.

4. gr.

Umsóknir um frjálsa skráningu skal senda skattstjóra í því skattumdæmi þar sem aðili er heimilisfastur.

5. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessar varðar refsingu skv. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

6. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 6. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, og gildir frá 1. janúar 1994.

Fjármálaráðuneytið, 4. febrúar 1994.

F.h.r.
Jón H. Steingrímsson

Margrét Gunnlaugsdóttir


Þetta vefsvæði byggir á Eplica