Iðnaðarráðuneyti

706/2001

Reglugerð um skráningu hönnunar.

I. KAFLI
Hönnunarumsókn.
1. gr.

Umsókn um skráningu hönnunar skal rituð á þar til gert eyðublað og lögð inn hjá Einkaleyfastofunni. Umsókn skal undirrituð af umsækjanda eða umboðsmanni hans og hafa að geyma beiðni um skráningu.

Í umsókn skal einnig tilgreina:

1. nafn og heimilisfang umsækjanda, svo og kennitölu hans hafi umsækjandi ekki umboðsmann;
2. nafn, heimilisfang og kennitölu umboðsmanns sé hann fyrir hendi;
3. nafn og heimilisfang hönnuðar;
4. heiti sem lýsir hönnun;
5. hvort hönnun varði útlit og gerð vöru eða skreytingu hennar;
6. hvort hönnun óskist vernduð í litum;
7. hver umsækjenda, ef fleiri en einn sækja sameiginlega um hönnun, fari með umboð til að taka á móti tilkynningum frá Einkaleyfastofunni;
8. kröfu um forgangsrétt, sé hans krafist, á grundvelli ákvæða 16. gr. hönnunarlaga, ásamt upplýsingum skv. 5. og 7. gr. reglugerðar þessarar og
9. upplýsingar varðandi beiðni um frestun skráningar skv. 2. mgr. 18. gr. hönnunarlaga ef við á.

Umsókn skulu fylgja:

1. tvö eintök af hverri mynd, þ.e. teikningu eða ljósmynd, sem sýni hönnun skýrlega; þegar sótt er um vernd á skreytingu þarf myndin að sýna skreytinguna á vöru;
2. umboð, ef umsækjandi hefur umboðsmann, og
3. sönnun á rétti umsækjanda til hönnunar ef umsækjandi er annar en hönnuður, sbr. 4. mgr. 13. gr. hönnunarlaga; frestur til að leggja inn umboð og sönnun fyrir rétti umsækjanda til hönnunar er þrjár vikur frá móttökudegi umsóknar; með umsókn skal fylgja tilskilið umsóknargjald.


2. gr.

Heimilt er að umsókn fylgi:

1. lýsing á hönnun;
2. líkan af hönnun, sbr. 3. mgr. 13. gr. hönnunarlaga;
3. tilgreining á vöru þeirri, sem hönnun óskast skráð fyrir, og
4. tilgreining þeirra flokka sem umsækjandi telur að hönnun falli undir.

Umsækjanda er einungis heimilt að leggja fram fyrrgreind gögn og upplýsingar við innlagningu umsóknar.

Einkaleyfastofan getur þó óskað eftir því að slík gögn verði lögð fram síðar ef þörf þykir til skýringar.

Lýsing skal hafa að geyma stutta skýringu (hámark 150 orð) á því sem óskast verndað. Greina skal frá þeim meginatriðum sem gera hönnunina sérstæða. Í lýsingu má hvorki fjalla um kosti hönnunar né fullyrða um gildi hennar.

Heiti hönnunar skal fyrst og fremst vera til skýringar á mynd. Heiti hönnunar takmarkar ekki umfang verndar.

Þegar um samskráningu er að ræða þarf hver hönnun að bera sitt heiti.


3. gr.
Umsókn og lýsing skulu vera á íslensku. Önnur fylgigögn mega vera á íslensku, dönsku, norsku, sænsku eða ensku.

Einkaleyfastofan getur krafist þess að löggiltur skjalaþýðandi eða annar aðili, sem Einkaleyfastofan viðurkennir, staðfesti þýðingu fylgigagna.


4. gr.
Leggja skal inn tvö eintök af hverri mynd af hönnun, ekki stærri en A4 (21 x 29,7 sm). Hver mynd má aðeins sýna eina hönnun frá einu sjónarhorni. Ef lagðar eru inn fleiri en ein mynd af sömu hönnun skulu þær aðgreindar hver frá annarri og merktar í réttri röð með tölustöfum eða bókstöfum. Til skýringar á mynd mega koma fram á henni lýsingarorð (dæmi; "upp", "niður", "skurðmynd"). Myndir og rittákn þurfa að henta til offsetprentunar í svart/hvítu og gefa möguleika á mismunandi stærðum.

Sé farið fram á skráningu í lit skal eitt eintak myndar vera í litum.

Ef umsækjandi leggur inn líkan af hönnun skal það vera úr endingargóðu efni. Líkan má ekki vega meira en 4 kg og skal rúmast innan tenings sem hefur kantlengdina 40 sm. Óheimilt er að leggja inn líkan úr viðkvæmu eða hættulegu efni.

Taki umsókn til fleiri en einnar hönnunar skulu fylgja myndir af hverri og einni hönnun. Myndir af sömu hönnun skulu fá sama númer. Skýrt þarf að koma fram hvaða myndir tilheyri hverri hönnun.


5. gr.
Einkaleyfastofan færir umsóknardag á mótteknar umsóknir og gefur þeim umsóknarnúmer.

Umsókn telst móttekin ef hún hefur að geyma:

1. nafn og heimilisfang umsækjanda;
2. nafn og heimilisfang hönnuðar;
3. beiðni um skráningu hönnunar;
4. myndir, þ.e. teikningar eða ljósmyndir, sem sýna hönnun skýrlega, eða líkan af hönnun og
5. umsóknargjald.

Umsókn sem send er með símbréfi telst móttekin ef gögn, sér í lagi myndir, eru nægilega skýr og sýnt er fram á að greiðsla hafi verið innt af hendi. Umsækjanda er þó skylt að leggja fram frumgögn umsóknar innan fjórtán daga frá móttöku símbréfs.

Umsókn, sem lögð er inn án greiðslu tilskilinna gjalda, telst ekki móttekin.

Einkaleyfastofunni ber þó að varðveita umsókn í eina viku en eftir þann tíma er henni vísað frá ef greiðsla hefur ekki borist.

Óheimilt er að breyta andlagi umsóknar eftir að hún hefur verið móttekin.


6. gr.
Skráningaryfirvöld skulu flokka hönnun í samræmi við ákvæði Locarno-samningsins frá 8. október 1968 um alþjóðlega skráningu hönnunar, sbr. viðauka við reglugerð þessa.

Umsækjanda eða umboðsmanni hans skal tilkynnt um hvernig hönnun er flokkuð og veittur vikufrestur hið skemmsta til að koma fram með athugasemdir um flokkun. Einkaleyfastofan tekur endanlega ákvörðun um flokkun.


II. KAFLI
Umsóknarskrá.
7. gr.
Einkaleyfastofan skal halda tölvufærða skrá yfir mótteknar umsóknir.

Í skrána skal færa eftirtalin atriði varðandi hverja umsókn:

1. umsóknarnúmer og umsóknardag;
2. nafn og heimilisfang umsækjanda;
3. nafn, heimilisfang og kennitölu umboðsmanns sé hann fyrir hendi;
4. nafn og heimilisfang hönnuðar;
5. heiti hönnunar;
6. hvort óskað sé verndar á útliti og gerð vöru eða skreytingu;
7. hvort hönnun óskist vernduð í litum;
8. hver umsækjenda, ef fleiri en einn sækja sameiginlega um hönnun, fari með umboð til að taka á móti tilkynningum frá Einkaleyfastofunni;
9. heiti viðtökulands fyrri umsóknar sé forgangsréttar krafist á grundvelli hennar, svo og umsóknardag og umsóknarnúmer hennar;
10. upplýsingar varðandi beiðni umsækjanda um frestun á skráningu;
11. upplýsingar um gjöld, sem greidd hafa verið vegna umsóknarinnar, og
12. upplýsingar um meðhöndlun og stöðu umsóknarinnar.

Unnt skal vera að fá upplýsingar úr skránni varðandi þær umsóknir sem þegar hafa verið gerðar aðgengilegar almenningi. Fyrir þann tíma er Einkaleyfastofunni þó heimilt að veita einhverjar þeirra upplýsinga sem koma fram í 2. mgr.


8. gr.
Þegar sótt er um vernd á fleiri en einni hönnun í sömu umsókn, sbr. 15. gr. hönnunarlaga, fær sérhver hönnun sama umsóknardag og sama umsóknarnúmer.


9. gr.
Ef tilkynning berst um eigendaskipti á hönnun sem sótt hefur verið um skráningu á verður nafn nýs umsækjanda því aðeins fært í umsóknarskrá að fyrir liggi sönnun um framsal.


III. KAFLI
Forgangsréttur.
10. gr.
Til að njóta forgangsréttar skv. 1.-3. mgr. 16. gr. hönnunarlaga þarf umsækjandi að krefjast þess í umsókn sinni á þeim tíma sem umsókn er lögð inn.

Umsækjandi skal jafnframt tilgreina, í síðasta lagi einum mánuði frá umsóknardegi, hvar umsókn, sem forgangsréttarkrafa er byggð á, var lögð inn, umsóknardag hennar og umsóknarnúmer. Berist fyrrnefndar upplýsingar ekki á tilskildum tíma fellur niður réttur til að krefjast forgangsréttar.

Einkaleyfastofan getur krafist þess, innan tiltekins frests, að forgangsréttur sé staðfestur með vottorði frá skráningaryfirvöldum sem tóku á móti umsókn þeirri er umsækjandi byggir forgangsrétt sinn á. Í vottorðinu skal tilgreina umsóknardag og nafn umsækjanda. Einkaleyfastofan getur enn fremur krafist afrits af umsókninni ásamt myndum af hönnuninni. Berist fyrrnefnd skjöl ekki á tilskildum tíma fellur niður réttur til að krefjast forgangsréttar. Fresturinn rennur út í fyrsta lagi þremur mánuðum frá umsóknardegi.

Ef fallið er frá kröfu um forgangsrétt skal það tilkynnt skriflega.


11. gr.
Umsókn getur því aðeins verið grundvöllur forgangsréttar að hún sé sú fyrsta þar sem viðkomandi hönnun kemur fram.

Hafi umsækjandi fyrstu umsóknar, eða framsalshafi, síðar lagt inn umsókn á sama stað er varðar sömu hönnun getur síðari umsóknin þó orðið grundvöllur forgangsréttarkröfu ef fyrri umsóknin hefur verið afturkölluð við afhendingu hinnar síðari, hún afskrifuð eða henni hafnað áður en hún varð aðgengileg almenningi og að því tilskildu að engin réttindi eða forgangskrafa sé á henni byggð. Hafi forgangsréttur skapast á grundvelli slíkrar umsóknar sem kom inn síðar er ekki unnt að byggja forgangsrétt á fyrri umsókninni.


12. gr.
Til að umsókn njóti forgangsréttar skv. 4. mgr. 16. gr. hönnunarlaga þarf umsækjandi að krefjast þess í umsókn sinni á þeim tíma sem umsókn er lögð inn.

Beiðni um forgangsrétt skulu fylgja upplýsingar um það á hvaða sýningu hönnun hafi verið sýnd og á hvaða tíma hún hafi fyrst verið sýnd. Slíkar upplýsingar þurfa að berast Einkaleyfastofunni í síðasta lagi einum mánuði frá umsóknardegi. Berist fyrrnefndar upplýsingar ekki á tilskildum tíma fellur niður réttur til að krefjast forgangsréttar.

Einkaleyfastofan getur krafist þess, innan tiltekins frests, að forgangsréttur sé staðfestur með vottorði frá ábyrgum stjórnendum sýningarinnar er umsækjandi byggir forgangsrétt sinn á. Í vottorðinu skal tilgreina umsóknardag og nafn umsækjanda. Berist fyrrnefnd gögn ekki á tilskildum tíma fellur niður réttur til að krefjast forgangsréttar. Fresturinn rennur út í fyrsta lagi þremur mánuðum frá umsóknardegi.


13. gr
Þegar sótt er um vernd á fleiri en einni hönnun í sömu umsókn, sbr. 15. gr. hönnunarlaga, er unnt að krefjast forgangsréttar skv. 16. gr. laganna fyrir hverja einstaka hönnun. Forgangsréttarkröfu má byggja á umsóknum frá fleiri en einu ríki.


IV. KAFLI
Rannsókn.
14. gr
Ef rannsókn Einkaleyfastofunnar leiðir í ljós að umsókn fullnægi ekki skilyrðum 1. tölul. 2. gr. og 1. og 2. tölul. 7. gr. hönnunarlaga ber að hafna skráningu hennar. Áður en umsókn er afmáð skal umsækjanda veitt tækifæri til að skýra mál sitt og/eða afla tilskilinna heimilda fyrir merkjum eða táknum sem hönnun felur í sér. Breyti rökstuðningur umsækjanda eða gögn ekki fyrri niðurstöðu Einkaleyfastofunnar skal afmá umsóknina úr hönnunarskrá. Hönnun skal þó ekki afmáð fyrr en frestur til að skjóta máli til áfrýjunarnefndar er liðinn.

Fullnægi umsókn ekki skilyrðum 13., 14. og 15. gr. laganna skal senda umsækjanda tilkynningu um þá formgalla eins fljótt og unnt er. Í tilkynningunni skal koma fram að heimilt sé að afskrifa umsókn ef ekki er bætt úr ágöllum innan eins mánaðar.


15. gr.
Til grundvallar rannsókn skv. 2. mgr. 17. gr. hönnunarlaga er eingöngu lögð skráð hönnun hér á landi og hönnun sem sótt hefur verið um skráningu á og orðin er aðgengileg almenningi. Rannsóknin tekur jafnframt til þeirrar hönnunar sem hefur verið afmáð á síðastliðnum fimm árum frá innlagningardegi umsóknar. Til grundvallar rannsókninni eru einnig lögð skráð vörumerki hér á landi og vörumerki sem sótt hefur verið um skráningu á, auk upplýsinga úr firmaskrá.

Innihaldi umsókn beiðni um vernd á fleiri en einni hönnun, sbr. 15. gr. hönnunarlaga, tekur rannsóknin aðeins til þeirrar hönnunar er fram kemur í beiðni um rannsókn.


16. gr.
Sé krafist rannsóknar skv. 2. mgr. 17. gr. hönnunarlaga, án tengsla við umsókn, hefur niðurstaða rannsóknarinnar engin áhrif á meðferð umsóknar um þá hönnun síðar.

Hafni Einkaleyfastofan skráningu hönnunar á grundvelli rannsóknar sem fram fer að kröfu umsækjanda skal umsækjanda tilkynnt það eins fljótt og unnt er. Í tilkynningu skal greina frá forsendum fyrir höfnun á skráningu. Umsækjanda skal gefinn tveggja mánaða frestur til að tjá sig um synjun áður en umsókn er afskrifuð.


V. KAFLI
Skráning og birting.
17. gr.
Þegar umsókn um hönnun fullnægir skilyrðum þeim sem greint er frá í hönnunarlögum, svo og kröfum sem gerðar eru til umsóknar í reglugerð þessari, skal hönnun skráð og eiganda send staðfesting á skráningu.


18. gr.

Þegar hönnun hefur verið skráð skal hún, eins fljótt og unnt er, birt í sérstöku riti er Einkaleyfastofan gefur út, ELS-tíðindum. Í birtingu þeirri skulu, auk skýrra mynda, koma fram eftirfarandi upplýsingar:

1. umsóknarnúmer og skráningarnúmer;
2. umsóknardagur;
3. nafn og heimilisfang umsækjanda;
4. nafn, heimilisfang og kennitala umboðsmanns umsækjanda sé hann fyrir hendi;
5. nafn og heimilisfang hönnuðar;
6. heiti hönnunar;
7. hvort skráð hönnun varði útlit og gerð vöru eða skreytingu hennar;
8. flokkur eða flokkar þeir sem hönnun er talin tilheyra skv. Locarno-samningnum um alþjóðlega flokkun hönnunar;
9. hvort hönnun óskist vernduð í litum;
10. upplýsingar um forgangsrétt ásamt upplýsingum um hvar umsókn sú sem forgangsréttur er byggður á var lögð inn og umsóknardag og númer þeirrar umsóknar;
11. myndir sem sýna hönnunina og
12. hvenær umsókn var gerð aðgengileg almenningi ef það var ekki samtímis skráningardegi.


VI. KAFLI
Hönnunarskrá.
19. gr.
Einkaleyfastofan heldur skrá yfir skráða hönnun.

Í hönnunarskrá skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram:

1. umsóknarnúmer og skráningarnúmer;
2. nafn og heimilisfang skráðs eiganda;
3. nafn, heimilisfang og kennitala umboðsmanns eiganda sé hann fyrir hendi;
4. nafn og heimilisfang hönnuðar;
5. heiti hönnunar;
6. hvort hönnun varði útlit og gerð vöru eða skreytingu hennar;
7. hvort hönnun óskist vernduð í litum;
8. flokkur eða flokkar þeir sem hönnun er talin tilheyra samkvæmt Locarno-samningnum um alþjóðlega flokkun hönnunar;
9. upplýsingar um þær vörur sem hönnun skal einkenna ef þær eru fyrir hendi;
10. dagsetning þegar umsókn var:
a. móttekin eða telst móttekin;
b. skráð;
c. gerð aðgengileg almenningi, ef það var ekki samtímis skráningardegi, og
d. birt;
11. hver umsækjenda, ef fleiri en einn sækja sameiginlega um hönnun, fari með umboð til að taka á móti tilkynningum frá Einkaleyfastofunni;
12. upplýsingar um hvar umsókn, sem forgangsréttarkrafa er byggð á, var lögð inn og umsóknardagur og númer hennar ef krafist er forgangsréttar á grundvelli 1.-3. mgr. 16. gr. hönnunarlaga;
13. upplýsingar um á hvaða alþjóðlegu sýningu, sem forgangsréttarkrafa er byggð á, hönnun var fyrst sýnd og á hvaða degi, ef krafist er forgangsréttar á grundvelli 4. mgr. 16. gr. hönnunarlaga, og
14. myndir af hönnuninni.

Þegar skráning tekur til fleiri en einnar hönnunar, sbr. 17. gr. laganna, er aðeins um eitt sameiginlegt skráningarnúmer að ræða.


20. gr.
Málshöfðunar á grundvelli 1. mgr. 25. gr. hönnunarlaga skal getið í hönnunarskrá.

Ef Einkaleyfastofan fellir úr gildi hönnun á grundvelli 1. mgr. 27. gr. laganna skal hönnunin afmáð úr hönnunarskrá. Hönnun skal þó ekki afmáð fyrr en frestur til að skjóta máli til áfrýjunarnefndar er liðinn.

Sá er höfðað hefur mál á grundvelli 1. mgr. 25. gr. laganna skal afhenda Einkaleyfastofunni afrit dóms svo að unnt sé að breyta hönnunarskrá í samræmi við niðurstöðu dómsins. Hönnunarskrá skal þó ekki breytt til samræmis við niðurstöðu héraðsdóms fyrr en áfrýjunarfrestur er liðinn.

Niðurstöðu dómsmáls skv. 1. mgr. 25. gr. laganna skal birta í riti því er Einkaleyfastofan gefur út, ELS-tíðindum.


21. gr.
Sá er öðlast rétt á skráðri hönnun, sbr. 51. gr. hönnunarlaga, skal tilkynna Einkaleyfastofunni það skriflega. Í slíkri tilkynningu skal koma fram nafn, heimilisfang og kennitala eiganda hönnunar, frá hvaða tíma hann öðlast réttinn og hvenær aðilaskiptin fóru fram. Tilkynningin skal færð í hönnunarskrá.

Samkvæmt beiðni skal geta þess í hönnunarskrá hvort réttur nytjaleyfishafa til að veita nytjaleyfi sé takmarkaður.

Tilkynning um breytingu á umboðsmanni, svo og breytingu á nafni eða heimilisfangi rétthafa, skal færð í hönnunarskrá.

Tilkynningar skv. 1.- 3. mgr. skulu vera skriflegar og þeim skulu fylgja nauðsynleg gögn ásamt tilskildu gjaldi.

Tilkynningar skulu birtar í riti því er Einkaleyfastofan gefur út, ELS-tíðindum.


22. gr.
Einkaleyfastofan getur krafist þess að undirritun á framsali, nytjaleyfi eða yfirlýsingu um að hönnun hafi verið afmáð sé staðfest af lögbókanda, lögmanni eða tveimur vitundarvottum. Einkaleyfastofunni er einnig heimilt að krefjast staðfestingar undirskrifta á öðrum skjölum ef þess er talin þörf.


VII. KAFLI
Frestun skráningar.
23. gr.
Beiðni um frestun skráningar, sbr. 2. mgr. 18. gr. hönnunarlaga, skal koma fram í umsókn. Slíkar umsóknir fá í upphafi sömu meðferð og aðrar umsóknir allt að skráningu.

Þegar umsókn skv. 1. mgr. fullnægir skilyrðum laganna og reglugerðar þessarar er umsækjanda tilkynnt um það eins fljótt og verða má.


24. gr.

Komi fram beiðni um frestun skráningar skv. 2. mgr. 18. gr. hönnunarlaga skal halda öllum gögnum, sem varða umsókn, leyndum uns hönnun er skráð. Þó skal birta í riti því sem Einkaleyfastofan gefur út, ELS-tíðindum, tilkynningu um að umsókn hafi verið lögð inn og upplýsingar um:

1. nafn umsækjanda, heimilisfang og kennitölu hafi umsækjandi ekki umboðsmann;
2. umsóknardag;
3. hve lengi fresta skuli skráningu og
4. flokk eða flokka þá sem hönnun er talin falla undir.

Þegar tími sá er liðinn, sem fresta átti skráningu, er skráning birt í ELS-tíðindum.


VIII. KAFLI
Endurnýjun.
25. gr.
Umsókn um endurnýjun skráðrar hönnunar skal skila skriflega til Einkaleyfastofunnar á þar til gerðu eyðublaði. Ákvæði 1. gr. reglugerðar þessarar gilda um umsóknir um endurnýjun eftir því sem við á.

Umsókn um endurnýjun skal fylgja tilskilið gjald.

Sé umsókn um endurnýjun ábótavant skal veita umsækjanda stuttan frest til að lagfæra umsóknina. Ef umsókn er ekki lagfærð innan tilskilins frests skal henni hafnað, það tilkynnt umsækjanda og skráð hönnun afmáð úr hönnunarskrá enda sé skráningartíma hennar lokið.

Endurnýjun á skráningu skal færð í hönnunarskrá og birt í riti því er Einkaleyfastofan gefur út, ELS-tíðindum. Þar skal koma fram skráningarnúmer hönnunar og hvenær skráning telst fallin úr gildi.


IX. KAFLI
Skráning felld úr gildi.
26. gr.
Berist Einkaleyfastofunni skrifleg athugasemd varðandi umsókn áður en hönnun samkvæmt umsókninni er skráð skal það tilkynnt umsækjanda. Þeim er sendi athugasemdina skal bent á að unnt sé að krefjast þess að skráningin sé felld úr gildi.


27. gr.
Beiðni skv. 27. gr. hönnunarlaga skal lögð inn skriflega í tveimur eintökum hjá Einkaleyfastofunni.

Í beiðninni skulu koma fram eftirfarandi upplýsingar:

1. nafn og heimilisfang þess er setur fram kröfu;
2. skráningarnúmer og heiti hönnunar þeirrar, sem krafist er að felld verði úr gildi, ásamt nafni eiganda hennar og
3. nafn, heimilisfang og kennitala umboðsmanns þess er setur fram kröfu um að skráning
verði felld úr gildi sé umboðsmaður fyrir hendi.

Beiðni um að skráning verði felld úr gildi skal rökstudd og henni skulu fylgja nauðsynleg sönnunargögn.

Beiðni um að skráning verði felld úr gildi skal fylgja tilskilið gjald.

Hafi dómstóll þegar dæmt í máli er varðar sama efni og sömu aðila skal beiðninni vísað frá.



28. gr.
Fullnægi beiðnin ekki skilyrðum 27. gr. hönnunarlaga eða 1., 2. og 4. mgr. 27. gr. reglugerðar þessarar er henni hafnað.

Sé greint frá forsendum beiðni um að skráning verði felld úr gildi en krafa ekki rökstudd frekar eða sönnunargögn vantar skal andmælanda veittur eins mánaðar frestur til að leggja fram nánari rökstuðning og/eða sönnunargögn.


29. gr.
Eiganda hönnunar skal tilkynnt svo fljótt sem verða má um framkomna beiðni um að skráning verði felld úr gildi og veittur tveggja mánaða frestur til að tjá sig.

Senda skal eiganda skráðrar hönnunar afrit af öllum bréfum og gögnum sem berast frá þeim er fer fram á að skráning verði felld úr gildi, og gagnkvæmt.

Ef eiganda skráðrar hönnunar er skrifað varðandi efnislega meðferð málsins skal samtímis senda þeim er fer fram á að skráning verði felld úr gildi afrit af bréfinu.

Eftir að eigandi skráðrar hönnunar svarar beiðni um að skráning verði felld úr gildi tekur Einkaleyfastofan ákvörðun um hvort frekari bréfaskipti milli aðila séu nauðsynleg.


30. gr.
Telji Einkaleyfastofan nauðsynlegt að aðilar fái tækifæri til að tjá sig munnlega um beiðni skv. 27. gr. hönnunarlaga skal kveðja báða aðila til.


31. gr.
Aðilar máls skv. 27. gr. hönnunarlaga afla gagna. Ákvarðanir Einkaleyfastofunnar í slíkum málum grundvallast aðeins á þeim staðreyndum, sönnunum og rökum sem aðilar hafa fram að færa.

Ef afstaða aðila og rök liggja ekki fyrir í gögnum málsins skulu aðilar máls eiga þess kost að tjá sig tvisvar um efni máls áður en Einkaleyfastofan tekur ákvörðun í því enda sé það ekki augljóslega óþarft.

Einkaleyfastofunni er heimilt að setja málsaðilum ákveðinn frest til að kynna sér gögn máls og tjá sig um það.

Þegar aðilar hafa fengið tækifæri til að tjá sig samkvæmt ofangreindu skal Einkaleyfastofan tilkynna þeim að málið verði tekið til ákvörðunar og ekki sé unnt að leggja fram frekari gögn.


32. gr.
Afrit af endanlegri ákvörðun Einkaleyfastofunnar vegna beiðni um að skráning verði felld úr gildi skal senda bæði eiganda hönnunar og þeim er lagði fram beiðni. Einkaleyfastofan skal ávallt rökstyðja endanlega ákvörðun sína.

Þegar áfrýjunarfrestur skv. 36. gr. hönnunarlaga er liðinn án þess að ákvörðun Einkaleyfastofunnar varðandi beiðni skv. 27. gr. hönnunarlaga hafi verið borin undir áfrýjunarnefnd skal birta ákvörðun í riti því er Einkaleyfastofan gefur út, ELS-tíðindum.


X. KAFLI
Hlutun.
33. gr.
Taki umsókn til fleiri en einnar hönnunar, skv. 15. gr. hönnunarlaga, getur eigandi umsóknar óskað eftir því að hluta umsóknina sundur í tvær eða fleiri umsóknir. Slík beiðni skal hafa að geyma upplýsingar um umsóknarnúmer frumumsóknar og til hvaða hönnunar hver umsókn skuli taka eftir hlutunina.

Þegar beiðni um hlutun umsóknar hefur verið meðhöndluð fær sú umsókn sem verður til við hlutun nýtt sjálfstætt umsóknarnúmer.

Umsókn, sem verður til við hlutun, fær sama umsóknar- og forgangsréttardag og frumskráningin.

Ákvörðun um hlutun skal birt í riti því er Einkaleyfastofan gefur út, ELS-tíðindum.


34. gr.
Taki skráning til fleiri en einnar hönnunar, skv. 15. gr. hönnunarlaga, getur eigandi skráningar óskað eftir því að hluta skráninguna sundur í tvær eða fleiri skráningar. Slík beiðni skal hafa að geyma upplýsingar um skráningarnúmer frumskráningar og til hvaða hönnunar hver skráning skuli taka eftir hlutunina.

Þegar beiðni um hlutun skráninga hefur verið meðhöndluð fær sú skráning sem verður til við hlutun nýtt sjálfstætt skráningarnúmer.

Skráning, sem verður til við hlutun, fær sama umsóknar-, forgangsréttar- og skráningardag og frumskráningin.

Ákvörðun um hlutun skal birt í riti því er Einkaleyfastofan gefur út, ELS-tíðindum.


XI. KAFLI
Ýmis ákvæði.
35. gr.
Frestur, sem veittur er, hefst frá dagsetningu bréfs frá Einkaleyfastofunni. Fresturinn er tveir mánuðir nema annað sé ákveðið eða leiði af ákvæðum hönnnarlaga eða reglugerðar þessarar. Ef lokadagur frests er almennur frídagur lengist fresturinn til næsta opnunardags þar á eftir.


36. gr.
Beiðni um að hönnun verði afmáð úr hönnunarskrá skal undirrituð af eiganda hönnunar. Sé nytjaleyfi skráð í hönnunarskrá skal hönnun því aðeins afmáð að eigandi sýni fram á að nytjaleyfishafa hafi verið tilkynnt um þá ætlun.

Birta skal tilkynningu um að hönnun hafi verið afmáð úr hönnunarskrá eða réttur til skráðrar hönnunar á annað nafn samkvæmt endanlegri dómsniðurstöðu.


37. gr.
Einkaleyfastofan geymir líkan sem er sent inn með umsókn, sbr. 3. mgr. 13. gr. hönnunarlaga, í fimm ár eftir að skráning hefur verið felld úr gildi. Hafi eigandi líkansins ekki gert tilkall til þess innan þess tíma er stofnuninni heimilt að eyða líkaninu.


XII. KAFLI
Gildistaka.
38. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 53. gr. laga nr. 46/2001 um hönnun, öðlast gildi 1. október 2001.


Iðnaðarráðuneytinu, 25. september 2001.

Jón Kristjánsson.
Jón Ögmundur Þormóðsson.

 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica