Umhverfisráðuneyti

879/2004

Reglugerð um Skaftafellsþjóðgarð.

I. KAFLI
Inngangur og markmið.
1. gr.

Reglugerð þessi er um Skaftafellsþjóðgarð í Sveitarfélaginu Hornafirði og Skaftárhreppi, sem stofnaður var 15. september 1967.

Um þjóðgarðinn gilda ákvæði 51. og 52. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999 og ákvæði reglugerðar þessarar.

Markmiðið með stofnun og rekstri Skaftafellsþjóðgarðs er að vernda landslag, lífríki og menningarminjar svæðisins og gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru þess og sögu. Auðvelda skal almenningi aðgengi að þjóðgarðinum eftir því sem unnt er án þess að náttúra hans spillist og efla skal fræðslu um náttúru, sögu og mannlíf svæðisins. Landnýting innan þjóðgarðs skal vera í samræmi við markmið hans og byggja á sjónarmiðum sjálfbærrar þróunar.


II. KAFLI
Stjórn þjóðgarðsins.
2. gr.

Umhverfisstofnun fer með stjórn þjóðgarðsins. Henni til ráðgjafar starfar ráðgjafarnefnd sem umhverfisráðherra skipar til 4 ára í senn. Í nefndinni eiga sæti fulltrúi Umhverfisstofnunar sem skal vera formaður, einn fulltrúi tilnefndur af Sveitarfélaginu Hornafirði, einn tilnefndur af Skaftárhreppi og tveir tilnefndir af ferðamálasamtökum í viðkomandi landshlutum. Þjóðgarðsvörður situr fundi nefndarinnar og er jafnframt ritari hennar. Nefndin skal halda fundi eigi sjaldnar en fjórum sinnum á ári. Halda skal fundargerð um efni funda nefndarinnar og skal hún staðfest af fundarmönnum.

Ráðgjafarnefnd skal vera Umhverfisstofnun til ráðgjafar um málefni þjóðgarðsins og veita umsögn um helstu mál er þjóðgarðinn varða, svo sem um framkvæmdir og starfsemi innan þjóðgarðsins, ráðningu þjóðgarðsvarðar, fjárhags- og rekstraráætlun, ársskýrslu og verndaráætlun þjóðgarðsins og önnur þau erindi sem Umhverfisstofnun beinir til nefndarinnar.


3. gr.

Umhverfisstofnun ræður þjóðgarðsvörð til að fara með daglegan rekstur þjóðgarðsins. Þjóðgarðsvörður skal gera tillögu til Umhverfisstofnunar um rekstur hans í samræmi við verndaráætlun og staðfest skipulag.

Umhverfisstofnun setur þjóðgarðsverði erindisbréf. Þjóðgarðsvörður skal vera búsettur í Skaftafelli.


4. gr.

Umhverfisstofnun ræður starfsmenn þjóðgarðsins að fengnum tillögum þjóðgarðsvarðar og setur þeim starfsreglur. Þeim skulu fengin sérstök auðkenni og skilríki, er sanni heimildir þeirra til framkvæmdar á reglugerð þessari og fyrirmælum þjóðgarðsvarðar.


III. KAFLI
Mörk þjóðgarðsins.
5. gr.

Mörk þjóðgarðsins eru eftirfarandi sbr. kort í fylgiskjali með reglugerð þessari: Dregin er lína úr punkti í jaðri Austurtungnajökuls þar sem Lambatungnaá rennur undan jökli, eftir jökuljaðri að Þverártindsegg, eftir Þverártindsegg að punkti 637344, 417067 í suðurjaðri Snæfells, þaðan beina línu í punkt 627386, 415828, þaðan beina línu í Tjaldmýri í Esjufjöllum, þaðan beina línu í Kaplaklif í Mávabyggðum, þaðan beina línu eftir sveitarfélagamörkum sem voru milli Suðursveitar og Öræfa að jaðri Breiðamerkurjökuls, þaðan eftir jökuljaðri, að landamerkjum Svínafells og Skaftafells II í jaðri Svínafellsjökuls, þaðan eftir framlengdri þeirri landamerkjalínu á Svínafellsjökli að skurðpunkti við stefnulínu sem dregin er úr merki við Gömlutún og um fremstu nöf Hafrafells, þaðan eftir þeirri línu um fremstu nöf Hafrafells og í merkið við Gömlutún, þaðan að mörkum Austur- og Vestur-Skaftafellssýslna á Skeiðarársandi við þjóðveg 1. Þaðan er dregin lína í norður eftir sýslumörkum í jaðar Skeiðarárjökuls, þaðan eftir jökuljaðri að skurðpunkti línu sem dregin er beint frá jökuljaðri í tind Varmárfells (664 m á korti Herforingjaráðs frá 1938) um efsta tinds Blængs (833 m á sama korti), eftir þeirri línu í tind Varmárfells, þaðan í tind Hnútu, þaðan í tind á Úlfarsdalsskerjum (738 m á sama korti), þaðan í beina línu í jökuljaðar um Tröllhamar (tindur 731 m á sama korti). Þaðan eftir jaðri Tungnárjökuls að skurðpunkti framlengdrar línu sem dregin er úr Bárðarbungu um Hamar og í jökuljaðar, eftir þeirri línu að Bárðarbungu, þaðan beina línu í punkt 579298, 443594 og svo í punkta 579971, 444027; 592561, 436434; 639750, 439654; 669718, 459738; 671209, 458227 og 672355, 457870, þaðan eftir miðju Austurtungnajökuls í upptök Lambatungnaár í jökuljaðri. Ærfjall að jökuljaðri umhverfis fjallið telst þó ekki innan marka þjóðgarðsins. Öll hnit eru í Ísnet93. Þar sem mörk eru dregin eftir jökuljaðri er miðað við stöðu hans 1. júlí 1998.


IV. KAFLI
Réttindi og skyldur gesta.
6. gr.

Þjóðgarðurinn er opinn gestum allt árið og fara gestir um hann á eigin ábyrgð.

Þjónusta og upplýsingar eru veittar á starfsstöðvum þjóðgarðsins í Skaftafelli, á Höfn og á Kirkjubæjarklaustri.

Heimilt er þjóðgarðsverði að loka þjóðgarðinum eða einstökum svæðum hans fyrirvaralaust ef þjóðgarðsvörður telur að dvöl manna eða umferð geti spillt gróðri eða jarðmyndunum. Þjóðgarðsvörður skal kynna slíkar ákvarðanir á fundum ráðgjafarnefndar.


7. gr.

Öllum er skylt að ganga vel og snyrtilega um þjóðgarðinn. Ekki má spilla þar gróðri, trufla dýralíf né hrófla við jarðmyndunum.

Notkun skotvopna er bönnuð í þjóðgarðinum. Veiðar á mink og ref eru þó heimilar samkvæmt ákvörðun Umhverfisstofnunar.


8. gr.

Gangandi fólk í þjóðgarðinum skal gæta þess að valda ekki spjöllum á gróðri eða jarðmyndunum. Fylgja skal merktum gönguleiðum, en annars hefðbundnum gönguleiðum þar sem við verður komið eða fyrirmælum starfsmanna þjóðgarðsins. Á sérstaklega viðkvæmum svæðum, svo sem mosavöxnum gígum Lakagíga, er óheimilt að fara út fyrir göngustíga.


9. gr.

Öll umferð með hesta um þjóðgarðinn er óheimil nema á merktum reiðleiðum og afmörkuðum áningastöðum. Þjóðgarðsvörður getur veitt tímabundna undanþágu frá þessu ákvæði vegna smölunar búfjár.

Leyfi þjóðgarðsvarðar þarf til þess að slá upp aðhöldum. Rekstur lausra hrossa innan þjóðgarðsins er bannaður. Ef um hópferð á hestum er að ræða þarf leyfi þjóðgarðsvarðar til þess að fara eftir reiðleiðum innan þjóðgarðsins og getur hann sett skilyrði um ferðamáta í samræmi við ákvæði verndaráætlunar.


10. gr.

Öll umferð reiðhjóla er óheimil utan akvega, bílastæða og merktra reiðhjólaleiða.


11. gr.

Umferð á vélknúnum ökutækjum í þjóðgarðinum utan jökla er ferðamönnum aðeins heimil á vegum og bílastæðum.

Heimilt er að fara um Vatnajökul á vélknúnum ökutækjum nema á þeim leiðum sem merktar hafa verið til annarra nota, sbr. 3. mgr.

Eftirfarandi svæði eru lokuð fyrir umferð vélknúinna ökutækja, nema að fengnu leyfi þjóðgarðsvarðar. Öll hnit eru í Ísnet93:

a. Hvannadalshnjúkur – allt árið, innan ramma sem afmarkast af hnitunum 612950,392450; 614190,392450; 614190,391580; 612950,391580.
b. Öræfajökull sunnan Snæbreiðar frá 15. apríl til 15. september. Afmarkast af línu milli hnitpunktanna 610110,395365 og 620050,393157.
c. Skeiðarárjökull frá 15. apríl til 15. september. Afmarkast af línu milli hnitpunktanna 581956,409340 og 591234,403747.


12. gr.

Gæludýr er einungis heimilt að vera með á svæði þjóðgarðsins utan jökla að þau séu í tryggri vörslu umráðamanna sinna og að fengnu leyfi starfsmanna þjóðgarðsins. Hundar og kettir skulu vera í ól eða búri. Gæta skal þess að gæludýr valdi ekki truflunum á lífríki þjóðgarðsins eða ónæði fyrir gesti.


13. gr.

Óheimilt er að kveikja eld á víðavangi. Með sérstöku leyfi þjóðgarðsvarðar er heimilt að kveikja varðeld, en aðeins á sérstöku eldstæði eða á ógrónu landi.


14. gr.

Utan jökla skal tjalda á merktum tjaldsvæðum innan þjóðgarðsins. Þjóðgarðsvörður getur þó heimilað göngufólki að tjalda utan merktra tjaldsvæða. Tjaldvagna, húsbíla og hjólhýsi skal hafa á þar til ætluðum svæðum.


15. gr.

Skylt er gestum í þjóðgarðinum að hlíta fyrirmælum þjóðgarðsvarðar og annarra starfsmanna þjóðgarðsins hvað snertir umgengni og háttsemi í þjóðgarðinum.


V. KAFLI
Lífríki og landslag.
16. gr.

Við verndun lífríkis í þjóðgarðinum skal taka mið af því að náttúra svæðisins fái að þróast eins og kostur er eftir eigin lögmálum. Taka skal mið af alþjóðlegum samningum eins og samningi um líffræðilega fjölbreytni og samningi um verndun villtra plantna og dýra og búsvæða þeirra í Evrópu. Flutningur á plöntum, fræjum, dýrum og öðrum lífverum í þjóðgarðinn er háður leyfi Umhverfisstofnunar.


17. gr.

Framkvæmdir innan þjóðgarðsins skulu taka mið af því að þær falli að svipmóti lands.


VI. KAFLI
Starfsemi í þjóðgarðinum.
18. gr.

Hvers konar atvinnustarfsemi og samkomuhald í þjóðgarðinum er háð leyfi Umhverfisstofnunar. Sama gildir um kvikmynda- og auglýsingagerð innan þjóðgarðsins. Ferðaþjónusta innan þjóðgarðsins skal skipulögð á grundvelli sjálfbærrar ferðaþjónustu.

Hefðbundin landnot, þ.e. sauðfjárbeit og veiði í vötnum er rétthöfum heimil í Lakagígum. Að öðru leyti er búskapur í þjóðgarðinum háður samþykki Umhverfisstofnunar sem ákveður hvernig honum skuli hagað. Í verndaráætlun skal kveðið á um lausagöngu búfjár.


19. gr.

Öll mannvirkjagerð, efnistaka og hvers konar annað jarðrask í þjóðgarðinum er háð leyfi Umhverfisstofnunar.


20. gr.

Rannsóknir á náttúrufari og menningarminjum í þjóðgarðinum eru háðar leyfi Umhverfisstofnunar.


VII. KAFLI
Lokaákvæði.
21. gr.

Umhverfisstofnun skal gera tillögu að verndaráætlun og landnotkun fyrir þjóðgarðinn sem ráðherra staðfestir.


22. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

Þjóðgarðsverði eða öðrum starfsmönnum þjóðgarðsins er heimilt að vísa þeim sem brýtur ákvæði reglugerðar þessarar úr þjóðgarðinum. Þjóðgarðsvörður skal kynna öll slík atvik á fundum ráðgjafarnefndar.


23. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 4. mgr. 52. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 319/1984, um þjóðgarð í Skaftafelli, með síðari breytingum og auglýsing nr. 215/1975, um friðland í Lakagígum. Auglýsing nr. 188/1978, um friðland í Esjufjöllum heldur gildi sínu.


Umhverfisráðuneytinu, 28. október 2004.

Sigríður Anna Þórðardóttir.
Magnús Jóhannesson.

Fylgiskjal.
Kort af Skaftafellsþjóðgarði sbr. 5. gr. reglugerðar þessarar.


Kort af Skaftafellsþjóðgarði sbr. 5. gr. reglugerðar þessarar.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica