Náttúruvernd og friðun lands

319/1984

Reglugerð um þjóðgarð í Skaftafelli - Brottfallin

REGLUGERÐ

um þjóðgarð í Skaftafelli.

I.KAFLI.

Inngangur

1. gr.

Þessi reglugerð er um þjóðgarðinn í Skaftafelli, Hofshreppi, Austur-Skaftafellssýslu, sem var stofnaður 15. september 1967.

Um þjóðgarðinn gilda ákvæði 25. gr. laga um náttúruvernd nr. 47/1971, ákvæði reglugerðar þessarar svo og ákvæði reglugerðar nr. 205/1973 um náttúruvernd, eftir því sem þau geta átt við.

II. KAFLI.

Stjórn þjóðgarðsins.

2. gr.

Náttúruverndarráð fer með stjórn þjóðgarðsins. Það getur falið sérstakri nefnd, er það kýs sér til ráðgjafar, að fara með málefni sem varða rekstur og mannvirkjagerð, en ákvarðanir hennar eru háðar samþykki ráðsins.

3. gr.

Náttúruverndarráð ræður þjóðgarðsvörð til að fara með daglega stjórn í þjóðgarðinum, bæði gagnvart starfsmönnum hans, gestum og þeim aðilum, sem annast þar rekstur.

Náttúruverndarráð setur þjóðgarðsverði erindisbréf. Þjóðgarðsvörður skal vera búsettur í Skaftafelli.

III. KAFLI.

Mörk þjóðgarðsins.

4. gr.

Mörk þjóðgarðsins eru þessi:

Að vestan ráða landamörk Núpsstaðar og Skaftafells, sem jafnframt eru sýslumörk Vog A.- Skaftafellssýslu, frá Súlutindum og suður að "sýslusteini". Frá "sýslusteini" liggja mörkin í beina línu í merki við Gömlutún, en þaðan til austurs í fremstu nöf Hafrafells og áfram í beina línu í landamörk Svínafells og Skaftafells á Svínafellsjökli. Mörkin fylgja síðan síðastnefndum landamörkum til norðurs. Á jökli að austan og norðan ráða vatnaskil. Mörkin eru sýnd á meðfylgjandi uppdrætti.

IV. KAFLI.

Réttindi og skyldur gesta.

5. gr.

Þjóðgarðurinn er opinn gestum allt árið. Þjónusta á tjaldsvæðum er veitt 1. júní til 15. september ár hvert.

Gestum sem óska að dveljast í þjóðgarðinum utan þess tíma, sem hér segir í 1. mgr., ber að gera þjóðgarðsverði aðvart þegar þeir koma og hlíta fyrirmælum hans í hvívetna um allt, sem lýtur að dvöl þeirra.

Heimilt er þjóðgarðsverði að loka þjóðgarðinum fyrirvaralaust og gera mönnum að hverfa burt, ef að steðjar vá svo sem vegna sinu- eða skógarbruna, vegna hlaups í Skeiðará eða af öðrum slíkum orsökum. Sama gildir, ef þjóðgarðsvörður telur að dvöl manna geti spillt gróðri eða jarðmyndunum.

 

 

 

6. gr.

Gangandi fólki er heimil för um þjóðgarðinn. Ætlast er til að fylgt sé merktum gönguleiðum eftir því sem merkingum miðar áfram, en annars hefðbundnum gönguleiðum sem við verður komið eða þá fyrirmælum starfsmanna þjóðgarðsins.

7. gr.

Öllum er skylt að ganga vel og snyrtilega um þjóðgarðinn. Ekki má spilla þar gróðri, trufla dýralíf né hrófla við jarðmyndunum.

Úrgangi skal komið fyrir í sérstökum sorpílátum, enda er óheimilt að fleyja úrgangi eða grafa hann.

Notkun skotvopna er bönnuð í þjóðgarðinum og óheimilt er að kveikja eld á víðavangi.

8. gr.

Gestir, sem koma í þjóðgarðinn og hafa með sér hunda eða önnur gæludýr, skulu koma þeim í geymslu á þeim stað eða stöðum, sem til slíks eru ætlaðir. För um þjóðgarðinn með þau er því aðeins heimil að sérstakt leyfi komi til.

9. gr.

Ferðamenn, sem óska að tjalda skulu gera það á merktum tjaldsvæðum. Á sama hátt skulu ferðamenn hafa tjaldvagna og hjólhýsi á þar til ætluðum svæðum.

10. gr.

För á hestum eða með hesta um þjóðgarðinn verður heimil, þegar merktar hafa verið sérstakar reiðslóðir og áningarstaðir. Utan þeirra er för á hestum óheimil.

11. gr.

Umferð á vélknúnum ökutækjum í þjóðgarðinum er ferðamönnum aðeins heimil á vegum og bílastæðum neðan við Skaftafellsbrekkur.

12. gr.

Skylt er gestum í þjóðgarðinum að hlíta fyrirmælum þjóðgarðsvarðar, annarra starfsmanna svo og löggæslumanna, hvað snertir umgengni og háttsemi í þjóðgarðinum. Nú brýtur maður ákvæði þessarar reglugerðar, og er þessum aðilum þá heimilt að vísa honum úr þjóðgarðinum.

V. KAFLI.

Starfsemi í þjóðgarðinum.

13. gr.

Hvers konar atvinnustarfsemi og samkomuhald er óheimilt í þjóðgarðinum, nema til komi sérstakt leyfi Náttúruverndarráðs. Sama gildir um kvikmyndagerð.

Þeir aðilar, sem fengið hafa eða fá leyfi til veitingareksturs eða verslunar í þjóðgarðinum, skulu haga svo starfsemi sinni, að dvalargestum sé tryggð fullnægjandi þjónusta á þeim tíma, sem um ræðir í 1. mgr. 5. gr. Vínveitingar eru óheimilar, nema með leyfi lögreglustjóra og þjóðgarðsvarðar.

Nú kemur í ljós, að ekki er að dómi þjóðgarðsvarðar fullnægt ákvæðum 1. ml., 2. mgr. þessarar gr. og getur Náttúruverndarráð þá sett reglur um hvernig umræddri þjónustustarfsemi skuli hagað.

14. gr.

Mannvirkjagerð, efnistaka og hvers konar annað jarðrask er óheimilt nema til komi sérstakt leyfi Náttúruverndarráðs.

15. gr.

Búskapur í þjóðgarðinum er háður samþykki Náttúruverndarráðs, sem ákveður hvernig honum skuli hagað.

16. gr.

Náttúrufræðilegar rannsóknir í þjóðgarðinum eru háðar leyfi Náttúruverndarráðs.

VI. KAFLI.

Lokaákvæði.

17. gr.

Náttúruverndarráð ræður starfsmenn að fengnum tillögum þjóðgarðsvarðar og setur þeim starfsreglur. Þeim skulu fengin sérstök auðkenni og skilríki, er sanni heimildir þeirra til framkvæmdar á reglugerð þessari og fyrirmælum þjóðvarðsvarðar.

18. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum eða varðhaldi.

19. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 47/1971 um náttúruvernd öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 229/1968.

Menntamálaráðuneytið, 27. júní 1984.

Ragnhildur Helgadóttir.

Knútur Hallsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica