Fjármálaráðuneyti

361/1995

Reglugerð um skattrannsóknir og málsmeðferð hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. - Brottfallin

Reglugerð um skattrannsóknir og málsmeðferð hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins.

1. gr. - Upphafsákvæði.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins skal, eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð þessari, hafa með höndum rannsóknir á skattsvikum og öðrum refsiverðum brotum gegn lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með áorðnum breytingum og lögum um aðra skatta og gjöld sem á eru lögð af skattstjórum eða þeim er falin framkvæmd á, sbr. 102. gr. A laga nr. 75/1981, sbr. 19. gr. laga nr. 111/1992 og 13. gr. laga nr. 122/1993.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins skal hafa með höndum rannsóknir á refsiverðum brotum gegn lögum nr. 145/1994 um bókhald og gegn lögum nr. 144/1994 um ársreikninga, sbr. lög nr. 37/1995.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins skal enn fremur taka ákvörðun um hvort hann vísar máli til opinberrar rannsóknar og venjulegrar sakamálameðferðar eða til meðferðar fyrir yfirskattanefnd. Skattrannsóknarstjóri kemur fram af hálfu hins opinbera fyrir yfirskattanefnd við ákvörðun sekta og annast kröfugerð í sektarmálum. Ákvæði þetta gildir jafnt um mál sem sætt hafa eða sæta rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins sem og mál sem skattstjórar hafa lokið meðferð í skv. 13. gr. reglugerðar þessarar.

I. KAFLI - Upphaf rannsóknar, markmið hennar og afmörkun.

2. gr. - Upphaf rannsóknar máls.

Upphaf rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattsvikum eða öðrum refsiverðum brotum, sem tiltekin eru í 1. gr., getur verið með eftirfarandi hætti:

 • Með tilkynningu frá skattstjóra, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt með áorðnum breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 37/1995 og 8. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt með áorðnum breytingum.
 • Með tilkynningu frá ríkisskattstjóra, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt með áorðnum breytingum, sbr. 6. gr. laga nr. 37/1995.
 • Að eigin frumkvæði, sbr. 2. mgr. 102. gr. A laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum og 4. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, 2. mgr. 26. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum.
 • Samkvæmt tilvísun frá rannsóknarlögreglu ríkisins, sbr. 70. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.
 • Samkvæmt kæru, tilkynningu eða ábendingu frá þriðja manni (utanaðkomandi aðila).

Skattrannsóknarstjóri ríkisins ákveður hvort ábending skv. 5. tölul. 1. mgr. eða tilkynning skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. gefur tilefni til rannsóknar eða annarrar umfjöllunar af hans hálfu. Skattrannsóknarstjóri ríkisins skal hefja rannsókn samkvæmt 4. tölul. nema hann telji atvik vera með þeim hætti að rannsókn á hans vegum sé þýðingarlaus eða illframkvæmanleg af öðrum ástæðum eða varði mjög óverulegar fjárhæðir. Skal þá rannsóknarlögreglu ríkisins tilkynnt sú niðurstaða.

3. gr. - Markmið rannsóknar.

Markmið rannsóknar skal vera að afla allra nauðsynlegra gagna og upplýsa málsatvik til þess að unnt sé að ákvarða hvort skattskil hafi verið röng eða byggð á vafasömum, hæpnum eða ófullnægjandi forsendum, svo leggja megi grundvöll að endurákvörðun opinberra gjalda, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, 14. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, með áorðnum breytingum og 3. mgr. 26. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum og unnt sé að meta hvort krafist skuli refsimeðferðar og þá með hvaða hætti, sbr. V. kafla.

4. gr. - Heimildir til rannsóknar.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins hefur heimild til að rannsaka framtalsskil og skattskil allra manna og lögaðila sem framtalsskyldir eru, hvort sem framtalsskyldu hefur verið fullnægt eða ekki, sbr. 1. mgr. 102. gr. A laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins hefur heimild til að rannsaka staðgreiðsluskil, sbr. 26. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, virðisaukaskattsskil, sbr. 38. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum og tryggingagjaldsskil sbr. 11. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald, með áorðnum breytingum, m.a. á yfirstandandi rekstrarári.

Þá hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins heimild til að rannsaka bókhald, grundvöll skattskila og ársreikninga sbr. 41. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, með áorðnum breytingum, og 88. gr. laga nr. 144/1994, um ársreikninga, með áorðnum breytingum.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins skal við rannsókn hafa aðgang að öllum framtölum og skýrslum í vörslu skattstjóra og getur hann krafist allra upplýsinga og gagna sem hann telur þörf á frá skattstjórum og ríkisskattstjóra og aðilum sem um ræðir í 94. gr. laga 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum.

Lögreglu er skylt að veita skattrannsóknarstjóra ríkisins nauðsynlega aðstoð í þágu rannsóknar ef aðili færist undan afhendingu bókhaldsgagna og hætta er á sakarspjöllum vegna gruns um væntanlegt undanskot gagna.

5. gr. - Umfang og afmörkun rannsóknar.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins tekur ákvörðun um afmörkun á rannsókn máls, þ.m.t. til hvaða ára eða tímabila rannsókn tekur, hvaða atriði rannsökuð verða, af hverjum skýrslur eru teknar og að öðru leyti með hvaða hætti rannsókn fer fram.

Skattrannsóknarstjóra ríkisins er heimilt að fela löggiltum endurskoðanda að vinna að einstökum rannsóknarverkefnum.

II. KAFLI - Tilhögun og framkvæmd rannsókna.

6. gr. - Upphafsdagur rannsóknar.

Upphafsdagur rannsóknar miðast við móttöku gagna frá skattaðila eða þann dag sem skattrannsóknarstjóri ríkisins gerir skattaðila bréflega kunnugt um að rannsókn sé hafin á framtals- eða skattskilum hans. Að jafnaði skal skattaðila gert bréflega kunnugt um að rannsókn sé hafin á skattskilum hans.

Skrá skal upphafsdag rannsóknar í gerðabók skattrannsóknarstjóra ríkisins, sbr. 31. gr.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins um rannsókn á máli skattaðila skal m.a. koma fram hver sé upphafsdagur rannsóknar.

7. gr. - Rannsókn skattundandráttar og bókhaldsbrota.

Rannsaka skal hvort skattstofnar séu ranglega tilgreindir eða vanrækt að telja þá fram og hvaða áhrif slíkt hefur haft á álagningu tekjuskatts og eignarskatts. Enn fremur skal rannsaka hvort og með hvaða hætti skattaðili hefur vangreitt skilaskyld gjöld eða skatta sem hann hefur innheimt eða honum bar að innheimta eða vanrækt að inna af hendi gjöld eða skatta sem hann hefur haldið eftir eða bar að halda eftir.

Rannsaka skal, eftir því sem tilefni gefst til, hvort bókhaldsskyldur aðili hafi haldið lögbundið bókhald og hvort samræmi sé milli bókhalds og fylgiskjala, að allar tekjur séu færðar til bókar og eftir atvikum að útgjöld rekstrarins, þ.m.t. vörukaup, séu bókuð með lögbundnum hætti og hvort bókhaldi sé hagað í samræmi við meginreglur laga nr. 145/1994, um bókhald, með áorðnum breytingum.

Rannsaka skal hve háar fjárhæðir hafa verið dregnar undan, vanrækt var greiðsla á eða endurgreiddar voru um of. Séu gögn og upplýsingar af skornum skammti, þ.m.t. vegna förgunar skattaðila á gögnum eða vanrækslu hans um að halda gögnum til haga eða færa bókhald, skal skattrannsóknarstjóri ríkisins leitast við að meta ætlaðan undandrátt með hliðsjón af því sem fram kemur í 11.-13. og 20. gr.

Þá skal, eftir því sem skattrannsóknarstjóri ríkisins telur vera þörf á, rannsaka hvort hinn grunaði sé aðalmaður eða hlutdeildarmaður í ætlaðri refsiverðri háttsemi. Ef fleiri en einn maður er grunaður um brot skal rannsaka hvort um samverknað þeirra var að ræða.

8. gr. - Rannsókn saknæmisskilyrða.

Rannsaka skal eftir því sem tilefni þykir gefa til huglæga afstöðu hins grunaða til ætlaðs brots, ásetning hans, gáleysi og eftir atvikum hvatir, svo og ef um tilraun til brots er að ræða og hvort hann hefur af sjálfsdáðum horfið frá henni.

9. gr. - Móttaka gagna frá skattaðila og gagnaöflun frá þriðja manni.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur aflað gagna frá skattaðila vegna rannsóknar á máli skattaðila með eftirfarandi hætti:

Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur munnlega eða skriflega lagt fyrir skattaðila eða umboðsmann hans að leggja fram umbeðin gögn til skattrannsóknarstjóra.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur farið á starfsstöð eða í birgðageymslu skattaðila og lagt fyrir skattaðila eða umboðsmann hans að afhenda skattrannsóknarstjóra ríkisins umbeðin gögn. Heimilt er skattrannsóknarstjóra ríkisins að kanna sjálfstætt hvaða gögn eru á starfsstöð og staðreyna þýðingu þeirra vegna rannsóknar málsins.

Að jafnaði skal beiðni um framlagningu gagna við upphaf rannsóknar máls vera skrifleg. Í beiðni til skattaðila um gögn sbr. 1. tölul. 1. mgr., svo og við heimsókn á starfsstöð eða í birgðageymslu skattaðila sbr. 2. tölul. 1. mgr., getur skattrannsóknarstjóri ríkisins lagt fyrir skattaðila eða umboðsmann hans að afhenda bókhald skattaðila og bókhaldsgögn, svo og önnur gögn sem varða reksturinn, þar með talin bréf og samninga. Auk þessa getur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist allra annarra upplýsinga og gagna sem hann telur nauðsynleg við rannsókn málsins.

Við heimsókn á starfsstöð eða í birgðageymslu skattaðila, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins heimild til að taka afrit allra gagna samkvæmt 1. mgr., sem geymd eru á tölvutæku formi, eða yfirfæra þau á eigin miðil. Ef stöðva þarf rekstur tölvukerfis vegna þessa skal þó leitast við að slík stöðvun valdi sem minnstum óþægindum eða röskun á starfsemi skattaðila.

Við öflun gagna frá þriðja aðila hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins sömu heimildir og greinir í 1. mgr., sbr. 94. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum.

10. gr. - Skráning móttekinna gagna.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins skal skrá gögn sem aflað er frá skattaðila er sætir rannsókn og veita honum staðfestingu um móttekin gögn. Gögn sem rannsókn er byggð á skal eigi afhenda skattaðila aftur fyrr en endurákvörðun opinberra gjalda, kærumeðferð og refsiákvörðun er að fullu lokið. Skattrannsóknarstjóra er þó heimilt að afhenda gögn tímabundið aftur, ef sérstaklega stendur á og tryggt má telja að þau verði ekki fyrir tjóni. Þá getur skattrannsóknarstjóri ríkisins afhent skattaðila ljósrit einstakra skjala eða heimilað honum að kanna gögn sín á skrifstofu skattrannsóknarstjóra, ef tryggt er að slíkt spilli ekki rannsóknarhagsmunum.

11. gr. - Sönnunargögn og sönnun sektar.

Helstu sönnunargögn við rannsókn máls hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins eru skattframtöl, ársreikningar með fylgiskjölum, fylgiskjöl bókhalds, fært bókhald, þ.m.t. færslubækur og færslulistar, afstemmingargögn, verðútreikningar, tilboð, samningar, bréf, símskeyti og myndrit. Einnig hvers konar önnur gögn sem tengjast rekstri skattaðila og önnur hlutlæg sönnunargögn ótalin hér, svo sem rangfærð skjöl og önnur upplýsandi skjöl.

Auk gagna samkvæmt 1. mgr. teljast ýmsar persónubundnar yfirlýsingar til sönnunargagna, svo sem skýrslur af skattaðila, vitnum og öðrum sem upplýsingar geta gefið vegna rannsóknarinnar, þ.m.t. skýrslur tilkvaddra sérfróðra aðila, yfirlýsingar viðskiptamanna, birgja o.fl.

Heimilt er að styðja sönnun á grundvelli upplýsinga sem aflað hefur verið frá viðskiptamönnum, birgjum og peningastofnunum, enn fremur með vettvangsuppdráttum og ljósmyndum, sbr. 12. gr.

12. gr. - Vettvangsgögn og aðstoð sérfróðra aðila.

Auk sönnunargagna skv. 11. gr. er skattrannsóknarstjóra ríkisins heimilt að afla hvers konar annarra gagna sem hann telur nauðsynleg vegna rannsóknar málsins, t.d. ljósmynda af munum, tækjum, mannvirkjum, lóðum og löndum, svo og vettvangsuppdrátta.

Þá er skattrannsóknarstjóra ríkisins heimilt að kalla aðila með sérfræðiþekkingu til aðstoðar við rannsókn máls, þar með talda menn með tækniþekkingu, löggilta endurskoðendur, lögfræðinga og rekstrarráðgjafa.

13. gr. - Framsending máls til skattstjóra.

Heimilt er skattrannsóknarstjóra ríkisins að fela skattstjóra sem vísað hefur til hans máli á grundvelli 5. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum og 8. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, svo og ríkisskattstjóra, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, að ljúka skattaþætti málsins án þess að fram fari rannsókn skv. reglugerð þessari, enda verði talið að málsatvik séu að fullu upplýst og ekki sé þörf á skýrslutökum skv. 94. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, í því skyni.

Að endurákvörðun lokinni samkvæmt 1. mgr. skal skattstjóri eða ríkisskattstjóri senda málsgögn til skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tekur ákvörðun um hvort til refsimeðferðar skuli koma.

Þá er skattrannsóknarstjóra ríkisins heimilt að framsenda í upplýsingaskyni til skattstjóra og ríkisskattstjóra ábendingar um athugunarverð skattskil og önnur atriði sem eftirlits kunna að þarfnast.

III. KAFLI - Um skýrslutökur.

14. gr. - Boðun til skýrslutöku.

Boðun til skýrslugjafar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins skal að jafnaði vera skrifleg. Þó er heimilt að boða skattaðila munnlega. Við boðun skal þess gætt að fyrirvari manna til að mæta til skýrslugjafar sé nægur.

Mæti maður ekki til skýrslugjafar skal hann boðaður á ný og þá með sannanlegum hætti en ef hann mætir ekki við þá boðun er heimilt að vísa málinu þá þegar til opinberrar rannsóknar, sbr. nánar 4. tölul. 1. mgr. 28. gr.

15. gr. - Tilefni skýrslutöku.

Áður en skýrslutaka hefst skal skýrslugjafa gert kunnugt um tilefni skýrslutökunnar. Bóka skal sérstaklega að tilefni hafi verið kynnt.

16. gr. - Réttarstaða skýrslugjafa.

Skýra skal skýrslugjafa frá því áður en skýrslutaka hefst, hvort hann er spurður vegna gruns á hendur honum um refsiverða háttsemi eða hvort hann er kvaddur til vitnisburðar.

Sé skýrslugjafi grunaður um refsiverða háttsemi er honum óskylt að svara spurningum sem varða þá háttsemi sem honum er gefin að sök. Ber að benda skýrslugjafa ótvírætt á þennan rétt strax þegar efni standa til.

Skýrslugjafi skal fyrst spurður um nafn, kennitölu, stöðu og heimili. Ef hann kýs að gefa skýrslu um sakarefnið skal brýnt fyrir honum að segja satt og rétt frá og draga ekkert undan sem máli kann að skipta.

Spurningar skulu vera skýrar og ótvíræðar.

17. gr. - Talsmaður skýrslugjafa.

Skýrslugjafi, sem grunaður er um refsiverða háttsemi má hafa með sér við skýrslutöku talsmann, sem hann ræður á sinn kostnað.

Við skýrslugjöf er talsmanni eigi heimilt að leggja skýrslugjafa orð í munn, né torvelda eða trufla framgang skýrslutöku. Skattrannsóknarstjóra er heimilt að meina talsmanni að vera við skýrslutöku ef hann truflar eða torveldar hana.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur ákveðið að talsmanni sé óheimilt að vera viðstaddur skýrslugjöf skattaðila ef talsmaðurinn er einnig grunaður um refsivert brot vegna máls skattaðila, verður hugsanlega vitni í máli hans, eða er að öðru leyti svo viðriðinn mál hans eða hann sjálfan, að hætta sé á að hann geti ekki sem skyldi gætt hagsmuna skattaðila í málinu eða nærvera hans geti truflað framgang rannsóknarinnar.

Ef skattrannsóknarstjóri þarf að víkja talsmanni úr skýrslutöku eða meina honum að vera viðstaddur, sbr. 2. og 3. mgr., skal fresta skýrslutöku og gefa skýrslugjafa hæfilegan frest til að ráða sér annan talsmann.

18. gr. - Lengd skýrslutöku.

Skýrslutaka má ekki standa lengur en sex klukkustundir samfleytt á sólarhring. Spyrja skal hvern mann án nærveru annarra grunaðra manna eða þeirra sem taldir eru vitni í málinu nema um samprófun sé að ræða. Heimilt er að samprófa tvo eða fleiri sakaða menn eða sakaðan mann og vitni þegar ástæða þykir til.

19. gr. - Vottur við skýrslutöku.

Við skýrslutöku skal a.m.k. einn vottur vera viðstaddur og við undirritun eða staðfestingu skýrslu skulu a.m.k. tveir votta undirritun skýrslugjafa.

20. gr. - Bókun skýrslutöku.

Í upphafi skýrslutöku skal bóka eftirfarandi atriði:

 • dagsetningu og ár,
 • hvenær skýrslutaka hefst,
 • hvaða starfsmaður skattrannsóknarstjóra ríkisins tekur skýrslu af skýrslugjafa,
 • hvar skýrslutaka fer fram,
 • fullt nafn skýrslugjafa, kennitölu, heimilisfang og stöðu,
 • að skýrslugjafa sé gert kunnugt um tilefni skýrslutökunnar,
 • hvaða réttarstöðu skýrslugjafi hefur við skýrslutökuna,
 • að skýrslugjafa sé bent á heimild hans til að hafa talsmann við skýrslutökuna. Bóka skal hver mætir sem talsmaður með skýrslugjafa við skýrslutökuna.

Sé um samprófun að ræða skal það bókað sérstaklega í upphafi skýrslutöku.

Bóka skal aðalatriði í framburði skýrslugjafa. Fyrir skýrslugjafa skulu lagðar ákveðnar númeraðar spurningar. Þó er heimilt að bóka orðrétt þýðingarmesta hluta framburðar hans eða endursegja sjálfstæða frásögn hans sjálfs ef sú framsetning þykir heppilegri.

Að skýrslugjöf lokinni skal skýrslugjafa gefinn kostur á að kynna sér bókaðan framburð sinn. Áður en skýrslugjafi undirritar skýrslu skal hann spurður hvort rétt sé eftir honum haft og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Bóka skal hvenær skýrslutöku er lokið.

21. gr. - Tæknileg skráning skýrslutöku.

Heimilt er að bóka skýrslutöku í ritvinnslu á tölvu, sbr. 20. gr. Skal bókunin þá prentuð og undirrituð og skjalfest af þeim er skýrsluna tekur, skýrslugjafa svo og vottum.

Skýrslugjafi á ekki rétt á að fá eintak skýrslu í hendur fyrr en rannsókn máls er lokið, sbr. 23. gr.

IV. KAFLI - Lok rannsóknar máls.

22. gr. - Rannsóknarskýrsla.

Við lok rannsóknar máls hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins skal tekin saman skýrsla um rannsóknina og niðurstöður hennar.

Í skýrslu skal koma fram hvaða sönnunargögn liggja til grundvallar, hverjir hafa komið til skýrslugjafar, hver sé ætlaður undandreginn skattur eða skattstofn, hvort og hvenær skila- eða gjaldskyldum skatti hafi verið skilað, ef um það er að ræða, hvenær rannsókn teljist lokið og hvaða rannsóknarmenn hafa unnið að rannsókn málsins.

23. gr. - Andmælaréttur.

Þegar rannsókn máls er lokið hefur skattaðili rétt á að fá afhent eintak af skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Gefa skal skattaðila kost á að tjá sig um efni skýrslunnar og koma að mótmælum, gögnum og skriflegum skýringum, áður en skattrannsóknarstjóri ríkisins tekur ákvörðun um framhald málsins. Veita skal skattaðila hæfilegan frest til andmæla.

Ákvæði þessarar greinar eiga þó ekki við ef mál hefur verið kært til lögreglu áður en rannsókn máls hefur verið lokið af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins eða málið er kært til lögreglu strax eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra lýkur.

24. gr. - Endurupptaka rannsóknar.

Telji skattrannsóknarstjóri ríkisins andmæli skattaðila, sbr. 2. mgr. 23. gr. gefa tilefni til þess, skal rannsókn máls endurupptekin og henni fram haldið og lokið, að teknu tilliti til andmæla skattaðila.

Berist skattrannsóknarstjóra ríkisins engin andmæli frá skattaðila eða telji hann þau ekki gefa tilefni til breytinga á niðurstöðum skýrslunnar, tekur hann ákvörðun um framhald málsins.

25. gr. - Ákvörðun um endurákvörðun.

Taki skattrannsóknarstjóri ríkisins ákvörðun um að senda mál skattaðila til endurákvörðunar hjá ríkisskattstjóra, sbr. 6. mgr. 102. gr. A laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, 3. mgr. 26. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, og 14. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, með áorðnum breytingum, skal skattaðila tilkynnt um þá ákvörðun. Honum skal þá jafnframt tilkynnt að rannsókn máls sé lokið hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins og hvort tekin verði ákvörðun þá eða síðar um að hefja refsimeðferð. Andmæli skattaðila skulu fylgja með skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins til ríkisskattstjóra.

V. KAFLI - Um refsimeðferð.

26. gr. - Ákvörðun um upphaf refsimeðferðar.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur af sjálfsdáðum ákveðið að hefja refsimeðferð annaðhvort með því að vísa máli til opinberrar rannsóknar og venjulegrar sakamálameðferðar eða með því að vísa því til sektarmeðferðar fyrir yfirskattanefnd og annast hann þá kröfugerð af hálfu hins opinbera fyrir nefndinni, sbr. 108. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda með áorðnum breytingum, 11. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, með áorðnum breytingum, 41. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, sbr. lög nr. 37/1995 og 88. gr. laga nr. 144/1994, um ársreikninga, sbr. lög nr. 37/1995. Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur þó ekki vísað máli til sektarmeðferðar fyrir yfirskattanefnd ef sökunautur vill eigi hlíta því að mál hans verði afgreitt af nefndinni. Ákvörðun skattrannsóknarstjóra um upphaf refsimeðferðar er óháð því hvort málsmeðferð fyrir ríkisskattstjóra eða eftir atvikum yfirskattanefnd er lokið eða ekki. Að jafnaði skal endurákvörðun vera lokið áður en mál er sent til refsimeðferðar nema ákvæði 1., 2. og 5. tölul. 1. mgr. 29. gr. eigi við.

Gefa skal skattaðila kost á að tjá sig um fyrirhugaða ákvörðun um refsimeðferð, áður en skattrannsóknarstjóri ríkisins tekur ákvörðun um refsimeðferðina, ef þess er kostur og tryggt er að rannsóknarhagsmunum sé ekki spillt.

27. gr. - Grundvöllur ákvörðunar um refsimeðferð.

Við mat á því hvort mál skuli sæta opinberri rannsókn og sakamálameðferð eða sektarmeðferð yfirskattanefndar skal höfð hliðsjón af þeim atriðum sem greinir í 29. gr.

Sé undandregin fjárhæð skattstofns eða skattskyldrar veltu án álags lægri en kr. 200.000 skal mál eigi sæta refsimeðferð, nema saknæmi brotsins að öðru leyti þyki gefa ástæðu til hennar. Hið sama á við um óveruleg brot á lögum nr. 145/1994, um bókhald, með áorðnum breytingum og lögum nr. 144/1994, um ársreikninga, með áorðnum breytingum.

28. gr. - Sektarmeðferð yfirskattanefndar.

Þegar skattrannsóknarstjóri ríkisins hefur tekið ákvörðun um að vísa máli til sektarmeðferðar yfirskattanefndar og sökunautur mælir því ekki gegn, skal skattrannsóknarstjóri annast kröfugerð í málinu og kemur að öðru leyti fram af hálfu hins opinbera fyrir nefndinni þegar hún fjallar um sektarmál. Í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins skal skilmerkilega lýst ætlaðri refsiverðri háttsemi, við hvaða lagaákvæði og eftir atvikum stjórnvaldsfyrirmæli hún er talin varða, hver sé huglæg afstaða hins brotlega til háttseminnar, hverjar séu kröfur skattrannsóknarstjóra fyrir nefndinni og önnur þau atriði sem talin eru hafa þýðingu í málinu. Ekki skal hefja refsimeðferð fyrir yfirskattanefnd nema skattaðili eða forsvarsmaður lögaðila hafi tjáð sig um sakarefni við rannsókn málsins.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur vísað málum sem um ræðir í 13. gr. til sektarmeðferðar yfirskattanefndar þó að ekki hafi farið fram sjálfstæð rannsókn af hálfu skattrannsóknarstjóra. Ekki skal þó senda mál skv. 13. gr. í sektarmeðferð nema skattaðila hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um sakarefni fyrir skattrannsóknarstjóra ríkisins eða löglærðum fulltrúa hans.

Kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins skal unnin af skattrannsóknarstjóra eða löglærðum fulltrúa hans.

29. gr. - Ákvörðun um opinbera rannsókn.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur vísað máli til opinberrar rannsóknar í eftirfarandi tilvikum:

 • Ef líkur eru á að ætlað undanskot nemi verulegum fjárhæðum og varði við 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.
 • Ef rökstuddur grunur er um að verknaður hafi verið framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög saknæmi brotsins.
 • Samkvæmt ósk skattaðila ef skattaðili vill ekki hlíta því að mál hans verði afgreitt af yfirskattanefnd, sbr. 26. gr. og 28. gr.
 • Ef upplýsingaskyldu er ekki gegnt, hvort sem um er að ræða skattaðila sjálfan eða annan aðila sem ekki gegnir upplýsingaskyldu, sbr. 94. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, 38. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt með áorðnum breytingum og 25. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda með áorðnum breytingum.
 • Ef skattaðili hefur áður orðið uppvís að skattsvikum með dómi eða sætt sektum yfirskattanefndar, enda hafi það brot verið framið innan síðustu fimm ára.
 • Ef rökstuddur grunur er um að háttsemi geti talist meiri háttar brot gegn lögum nr. 145/1994, um bókhald, með áorðnum breytingum og lögum nr. 144/1994, um ársreikninga, með áorðnum breytingum, sbr. lög nr. 37/1995 og 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Við mat skattrannsóknarstjóra ríkisins á því hvort máli skuli vísað til opinberrar rannsóknar og sakamálameðferðar getur hann, auk þess sem í 1. mgr. er talið, tekið mið af því hvort um hefur verið að ræða skipulega eða langvarandi brotastarfsemi, harðan brotavilja, eða brot af öðrum ástæðum er svo alvarlegt að eðlilegt sé að mati skattrannsóknarstjóra ríkisins að vísa málinu til opinberrar rannsóknar hjá rannsóknarlögreglu ríkisins.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur vísað máli til opinberrar rannsóknar á hvaða stigi rannsóknar sem er. Ef háttsemi er talin varða við 262. gr. alm. hgl. skal vísa máli til opinberrar rannsóknar svo fljótt sem kostur er.

30. gr. - Meðferð skattkröfu.

Ef máli er vísað til opinberrar rannsóknar skv. 29. gr., tekur skattrannsóknarstjóri ríkisins ákvörðun um hvort senda skuli málið til endurákvörðunar ríkisskattstjóra eða hvort skattkrafa verði höfð uppi í opinberu máli.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur tekið ákvörðun skv. 1. mgr. hvenær sem er eftir að máli hefur verið vísað til opinberrar rannsóknar og fram til þess tíma sem ákæra er gefin út, enda fari það ekki í bága við ákvæði laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, með áorðnum breytingum.

VI. KAFLI - Ýmis ákvæði, gildistaka.

31. gr. - Skráning í gerðabækur.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins skal skrá öll mál í gerðabók sem tekin eru til rannsóknar hjá embættinu. Hann skal einnig skrá í gerðabók öll mál sem til hans er vísað frá skattstjórum og ríkisskattstjóra og um allar skýrslugjafir hjá embættinu, og ákvarðanir ásamt rökstuðningi fyrir því hvort máli skuli vísað til opinberrar rannsóknar eða sent til sektarmeðferðar fyrir yfirskattanefnd. Heimilt er að hafa gerðabækur í tölvutæku formi.

32. gr. - Lok málsmeðferðar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Tilkynna skal skattaðila lok rannsóknar hjá embættinu og skila öllum bókhaldsgögnum þegar rannsókn málsins, endurákvörðun, kærumeðferð og refsimeðferð þess er að fullu lokið. Skal þá gefin út skrifleg kvittun fyrir afhendingu gagna. Leiði rannsókn ekki til endurákvörðunar opinberra gjalda eða refsimeðferðar skal öllum gögnum skilað til viðkomandi aðila svo fljótt sem unnt er þegar sú niðurstaða liggur fyrir.

33. gr. - Breytingar á fjárhæðum.

Viðmiðunarfjárhæð í 27. gr. reglugerðar þessarar skal taka breytingum 1. maí ár hvert í samræmi við breytingu neysluvísitölu næstliðinna 12 mánaða, í fyrsta sinn 1. maí 1996.

34. gr. - Gildistaka.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 119. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, öðlast þegar gildi.

Fjármálaráðuneytið, 26. júní 1995.
F. h. r.
Jón Guðmundsson.
Bragi Gunnarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica