Félagsmálaráðuneyti

374/2001

Reglugerð um eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. - Brottfallin

I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.

Félagsmálaráðherra skipar þriggja manna eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Einn fulltrúi er skipaður samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga og tveir án tilnefningar og skal annar þeirra vera löggiltur endurskoðandi. Þrír varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipar formann nefndarinnar.

Félagsmálaráðuneytið leggur eftirlitsnefndinni til sérstakan starfsmann sem undirbýr fundi hennar og útvegar og vinnur ýmsar nauðsynlegar upplýsingar fyrir störf nefndarinnar.


2. gr.

Hlutverk eftirlitsnefndarinnar er að fylgjast með fjármálum sveitarfélaga og gera nauðsynlegar athuganir á þróun þeirra, sbr. önnur ákvæði reglugerðar þessarar. Leiði athugun í ljós að fjármál sveitarfélags stefni í óefni skal nefndin aðvara viðkomandi sveitarstjórn og grípa til nauðsynlegra ráðstafana í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar. Samhliða skal nefndin upplýsa ráðuneytið um álit sitt.

Nefndinni er heimilt að gera samning við sveitarfélag um aðgerðir, eftirlit og eftirfylgni er leitt gæti til lausnar á fjárhagsvanda þess sem staðfestur skal af ráðherra.

Ráðherra er rétt að beina einstökum málum er varða fjármál sveitarfélaga til eftirlitsnefndar og þarfnast nauðsynlega athugunar og aðgerða í samræmi við reglugerð þessa.


3. gr.

Umsýsla eftirlitsnefndarinnar er á ábyrgð félagsmálaráðuneytisins. Þóknun nefndarmanna og annar kostnaður af starfi nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.


4. gr.
Skilgreiningar.
Málaflokkar:

Verkefni sveitarfélaga og útgjaldaþættir eftir málaflokkum. Í reglugerð þessari eru fjármunatekjur og fjármagnsgjöld ekki talin með málaflokkum.

Rekstur málaflokka: Rekstrargjöld málaflokka. Gjaldfærð og eignfærð fjárfesting eru ekki hluti af rekstrargjöldum.

Framlegð: Skatttekjur sveitarfélags að frádregnum rekstri málaflokka.

Lykiltala: Hlutfallslegt gildi til að fá samanburðarhæfar upplýsingar milli sveitarfélaga, óháðar stærð eða umfangi þeirra.

Skuldaþak: Útreiknað skuldaþak sýnir hversu miklar skuldir sveitarfélagið þolir til lengri tíma miðað við greiðslugetu þess á grundvelli framlegðar og forsendna um meðalvexti lána og endurgreiðslutíma. Skuldaþak sveitarfélags er reiknað sem núvirði þeirrar framlegðar sem ráðstafa má til hreinna afborgana og vaxta á þeim tíma sem eðlilegt getur talist að sveitarfélag greiði upp núverandi skuldir sínar.


II. KAFLI
Mat á fjárhagsstöðu sveitarfélaga.
5. gr.

Sveitarstjórn skal gæta þess svo sem kostur er að heildarútgjöld sveitarfélags fari ekki fram úr heildartekjum þess.


6. gr.

Við árlega athugun eftirlitsnefndar skal nefndin kanna reikningsskil, fjárhagsáætlun og þriggja ára áætlun sveitarfélags, reikna út lykiltölur, sbr. 3. mgr., og bera þær saman við viðmið, sbr. 8. gr.

Gögn, sbr. 1. mgr., skulu ná til sveitarsjóðs og annarra sjóða og stofnana er falla undir a-lið 60. gr. sveitarstjórnarlaga.
Eftirfarandi lykiltölur skal reikna út og bera saman við viðmið:

1. Rekstur málaflokka í hlutfalli við skatttekjur.
Lykiltalan sýnir hversu miklum hluta af skatttekjum er ráðstafað til reksturs málaflokka.
Með rekstrargjöldum er átt við rekstur allra málaflokka án fjármunatekna og fjármagnsgjalda.
2. Fjárfestingarútgjöld í hlutfalli við framlegð.
Lykiltalan sýnir hversu miklu af rekstrarafgangi sveitarfélagsins er ráðstafað til framkvæmda og fjárfestinga.
Með framlegð er átt við mismun skatttekna og reksturs málaflokka, sbr. 1. tölulið.
3. Peningaleg staða í hlutfalli við skatttekjur.
Ef hlutfallið er neikvætt sýnir lykiltalan hversu miklu af skatttekjum hvers árs þyrfti að ráðstafa til að jafna stöðu peningalegra eigna og skulda.
Með peningalegri stöðu er átt við veltufjármuni og langtímakröfur sveitarfélags í efnahagsreikningi að frádregnum skammtíma- og langtímaskuldum þess.
4. Heildarskuldir í hlutfalli við skatttekjur.
Lykiltalan sýnir hversu miklu af skatttekjum hvers árs þyrfti að ráðstafa til að greiða upp skuldir sveitarfélagsins.
Með heildarskuldum er átt við skammtíma- og langtímaskuldir sveitarfélagsins.
5. Heildarskuldir í hlutfalli við skuldaþak (skuldaþakshlutfall).
Lykiltalan sýnir hvað heildarskuldir sveitarfélagsins eru miklar í hlutfalli við útreiknað skuldaþak.
Í vinnureglum sem eftirlitsnefnd setur sér skal hún tilgreina forsendur fyrir útreikningi skuldaþaks um meðalvexti (ávöxtunarkröfu), endurgreiðslutíma lána og eðlilegt hlutfall framlegðar sem varið er til hreinna afborgana og fjármagnsgjalda af lánum sveitarfélagsins.
6. Peningaleg staða í hlutfalli við skuldaþak (hreint skuldaþakshlutfall).
Lykiltalan sýnir hversu miklar hreinar skuldir sveitarfélagsins eru í hlutfalli af útreiknuðu skuldaþaki. Ef peningalega staðan er neikvæð er um hreinar skuldir að ræða en hreinar eignir ef um jákvæða peningalega stöðu er að ræða.


7. gr.
Við mat og samanburð á fjárhagsstöðu sveitarfélaga skal eftirlitsnefndin við útreikning á lykiltölum kanna eftir föngum framsetningu peningalegra eigna og skulda sveitarfélaga í reikningsskilum og áætlunum og mögulega tekjuöflun utan skatttekna.


8. gr.
Árlega skal eftirlitsnefnd leggja til við ráðherra að sett verði viðmið, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, er gildi við mat á fjárhagsstöðu sveitarfélaga. Viðmiðin skulu birt í Stjórnartíðindum eftir staðfestingu ráðherra.

Eftirlitsnefnd skal setja sér vinnureglur um útreikning lykiltalna og samanburð þeirra við viðmið, sbr. 1. mgr.


9. gr.
Við athugun sína á fjárhagsstöðu sveitarfélags skal eftirlitsnefndin taka tillit til þjónustustigs og framkvæmdaþarfar í sveitarfélaginu.

Nefndin getur sett sér nánari vinnureglur um aðferðir við mat á þjónustustigi og framkvæmdaþörf og viðmið um hvernig slíkir þættir hafi áhrif á mat nefndarinnar á fjárhagsstöðu sveitarfélags.


10. gr.
Leiði árleg athugun á fjárhagsstöðu sveitarfélags í ljós að lykiltölur þess eru umfram viðmið, sbr. 8. gr., fyrir eitthvert útreiknað rekstrarár og að fjárhagsstaða þess árs sé komin að hættumörkum, skal eftirlitsnefndin kanna sérstaklega forsendur áætlana hvað varðar íbúaþróun og aðrar tekju- og útgjaldaforsendur. Telji eftirlitsnefndin fyrrgreindar forsendur óraunhæfar skal hún gera sveitarstjórninni grein fyrir niðurstöðum sínum og taka tillit til þeirra við mat sitt á fjárhagsstöðu sveitarfélags.


11. gr.
Á grundvelli samanburðar lykiltalna og viðmiða, sbr. 6. gr., athugunar eftirlitsnefndar á þjónustustigi og framkvæmdaþörf sveitarfélags, sbr. 9. gr., á forsendum fjárhagsáætlunar og þriggja ára áætlunar, sbr. 10. gr., og á grundvelli upplýsinga um fjárhagsstöðu stofnana, fyrirtækja og annarra rekstrareininga er falla undir b-lið 60. gr. sveitarstjórnarlaga, skal nefndin meta hvort grípa þurfi til aðgerða samkvæmt III. kafla reglugerðar þessarar.


III. KAFLI
Fjármálalegt eftirlit og málsmeðferð.
12. gr.
Komist sveitarfélag í fjárþröng þannig að sveitarstjórn telur sér eigi unnt að standa í skilum skal hún tilkynna það til eftirlitsnefndar. Ákvörðun um slíka tilkynningu skal tekin eftir tvær umræður í sveitarstjórn.

Eftirlitsnefndin skal þá tafarlaust láta fara fram rannsókn á fjárreiðum og rekstri sveitarfélagsins og leggja síðan fyrir sveitarstjórn að bæta það sem áfátt kann að reynast.

Hafi sveitarfélag ekki brugðist við fjárhagsvanda sínum innan þriggja mánaða, með hliðsjón af tillögum eftirlitsnefndar, sbr. 2. mgr., eða beri aðgerðir til lausnar fjárhagsvandans ekki tilætlaðan árangur, skal eftirlitsnefndin grípa til aðgerða í samræmi við 14.–19. gr. reglugerðar þessarar.


13. gr.
Leiði árleg athugun eftirlitsnefndar á fjárhagsstöðu skv. II. kafla í ljós að fjármál sveitarfélags stefni í óefni skal nefndin vara sveitarstjórnina við og gera henni grein fyrir mati nefndarinnar. Jafnframt skal nefndin óska eftir að sveitarstjórnin geri eftirlitsnefndinni grein fyrir hvernig hún hyggist bregðast við fjárhagsvanda sveitarfélagsins. Sveitarstjórninni er skylt að svara nefndinni innan tveggja mánaða. Eftirlitsnefndin skal ávallt upplýsa ráðuneytið og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga um viðvaranir nefndarinnar.

Verði sveitarstjórn ekki við ósk eftirlitsnefndar skv. 1. mgr. getur nefndin lagt til við ráðuneytið að það stöðvi greiðslur til sveitarsjóðs úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga þar til bætt hefur verið úr vanrækslunni eða krefjist dagsekta með lögsókn af þeim sem ábyrgð bera á vanrækslunni, sbr. 3. mgr. 102. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.


14. gr.
Sinni sveitarstjórn ekki viðvörun skv. 1. mgr. 13. gr. eða eftirlitsnefndin telur viðbrögð sveitarstjórnar í framhaldi af viðvörun nefndarinnar ófullnægjandi er eftirlitsnefndinni heimilt að láta fara fram rannsókn á fjárreiðum og rekstri sveitarfélagsins.

Á grundvelli niðurstöðu rannsóknar skv. 1. mgr. skal eftirlitsnefndin móta tillögur um úrbætur í rekstri og stjórnun sveitarfélagsins gerist þess þörf að mati nefndarinnar. Á þeim grundvelli skal eftirlitsnefndin leggja fyrir sveitarstjórn að bæta það sem áfátt kann að reynast og eftir atvikum skulu tillögur lagðar fyrir ráðuneytið sé þörf á láni eða styrk úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eða sérstöku álagi á útsvar og/eða fasteignaskatt að mati nefndarinnar, sbr. 19. gr.

Hafi sveitarstjórn ekki brugðist við tillögum eftirlitsnefndar, sbr. 2. mgr., innan þriggja mánaða skal nefndin leita samráðs við sveitarstjórn um mótun tillagna í rekstri og fjármálastjórn.

Telji nefndin það nauðsynlegt getur hún gert samning við sveitarstjórn, sbr. 17. gr., um aðgerðir til lausnar á fjárhagsvanda sveitarfélagsins ásamt áætlun um með hvaða hætti þeim verði fylgt eftir.


15. gr.
Beri aðgerðir sveitarstjórnar til lausnar á fjárhagsvanda sveitarfélags, sbr. 2. mgr. 14. gr., ekki tilætlaðan árangur eða fjárhagsstaða þess er það slæm að mati eftirlitsnefndar, sbr. 13. gr., að sveitarfélagið hafi ekki burði til að leysa vandann án utanaðkomandi fjárhagslegrar aðstoðar, er nefndinni heimilt að kanna möguleika á fjölþættum fjárhags- og stjórnunarlegum aðgerðum til lausnar fjárhagsvanda sveitarfélagsins með þátttöku ríkisvalds, sveitarfélags, Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, Lánasjóðs sveitarfélaga og annarra lánardrottna.

Leiði könnun skv. 1. mgr. til þess, að mati nefndarinnar, að möguleikar séu á raunhæfum aðgerðum til lausnar á fjárhagsvanda sveitarfélagsins skal nefndin gefa sveitarstjórn kost á samningi um aðgerðir, eftirlit og eftirfylgni, sbr. 17. gr.


16. gr.
Beri samningur, sbr. 14. og 15. gr., ekki tilætlaðan árangur án þess að við sveitarstjórn sé að sakast er nefndinni heimilt að gefa sveitarstjórn kost á nýjum samningi eða á fjölþættum samningi, sbr. 1. mgr. 15. gr., telji nefndin það nauðsynlegt, enda hafi könnun leitt í ljós möguleika til raunhæfra aðgerða til lausnar á fjárhagsvanda sveitarfélagsins.


17. gr.
Eftirlitsnefnd getur gert samning við sveitarstjórn, sbr. 14., 15. og 16. gr., um aðgerðir, eftirlit og eftirfylgni er leitt geti til lausnar á fjárhagsvanda sveitarfélags.

Í samningi skv. 1. mgr. skal m.a. tilgreina:

A. Markmið samningsins.
B. Fjárhags- og/eða stjórnunarlega aðkomu annarra aðila en sveitarstjórnar.
C. Fjárhags- og/eða stjórnunarlegar aðgerðir sveitarstjórnar.
D. Ýmis viðmið m.a. varðandi:
i. hámark heildarskulda og hreinna skulda,
ii. framlegð og rekstur málaflokka,
iii. ráðstöfun fjármuna til afborgana og fjármagnsgjalda af lánum,
iv. ráðstöfun fjármuna til viðhalds,
v. ráðstöfun fjármuna til framkvæmda.
E. Kröfur um fjárhagsáætlanagerð er lúta m.a. að:
i. hvað fjárhagsáætlanir skuli ná til langs tíma,
ii. hversu ítarlegar áætlanir skuli vera,
iii. forsendum,
iv. skilum.
F. Eftirlitshlutverk og ábyrgð eftirlitsnefndar:
Eftirlitsnefnd skal hafa heildaryfirsýn yfir fjármál og stjórnun sveitarfélags og taka virkan þátt í stefnumörkun þess. Engar ákvarðanir, sem telja verður að skipti verulegu máli í stjórnun, rekstri og framkvæmdum sveitarfélags og geti m.a. haft áhrif á þætti er fram koma í D-lið þessarar greinar, skulu teknar án samþykkis nefndarinnar. Enn fremur skal eftirlitsnefndin hafa aðgang að upplýsingum úr bókhaldi og öðrum gögnum er sýna þróun í fjármálum sveitarfélagsins hverju sinni.
G. Ákvæði um vinnuframlag starfsmanns á vegum eftirlitsnefndar ef þurfa þykir. Þar komi fram m.a. hlutverk og ábyrgðarsvið starfsmannsins ásamt nánari ákvæðum um tegund og umfang starfsins.
H. Lengd samnings.


18. gr.
Leiði aðgerðir eftirlitsnefndar, sbr. 14. og 15. gr., hvorki til samnings milli aðila né raunhæfra viðbragða sveitarstjórnar í rekstri og fjármálastjórn sveitarfélags eða fari sveitarfélag ekki eftir ákvæðum samnings í verulegum mæli að mati nefndarinnar skal nefndin meta hvort leggja skuli til við ráðherra að sveitarstjórn verði svipt fjárforræði. Sama máli gegnir lýsi sveitarstjórn sig mótfallna nýjum samningi, sbr. 16. gr.


19. gr.
Ráðuneytinu er heimilt að tillögu eftirlitsnefndar að veita sveitarfélagi styrk eða lán úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að koma fjárhag þess á réttan kjöl með þeim skilyrðum sem ráðuneytið setur, enda hafi komið í ljós við rannsókn að fjárhagur sveitarfélagsins sé slíkur að það geti ekki með eðlilegum rekstri staðið straum af lögboðnum útgjöldum.

Ráðuneytið getur einnig heimilað eða lagt fyrir viðkomandi sveitarstjórn, að fengnum tillögum eftirlitsnefndar, að álag sé lagt á útsvar og fasteignaskatt sem nemi allt að 25%.


20. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt ákvæðum 74. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, öðlast þegar gildi.


Félagsmálaráðuneytinu, 3. maí 2001.

Páll Pétursson.
Garðar Jónsson.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica