Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 9. júní 2023

244/2004

Reglugerð um heimildir fyrirtækja sem tengjast fjármálasviði og dótturfélaga lánastofnana með staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, til að stunda fjármálastarfsemi hér á landi.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um fyrirtæki sem tengjast fjármálasviði og dótturfélög lánastofnana, eða sameiginleg dótturfélög tveggja eða fleiri lánastofnana, með staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og heimildir þeirra til að stunda fjármálastarfsemi hér á landi. Jafnframt gildir reglugerð þessi um tilkynningaskyldu Fjármálaeftirlitsins vegna innlendra fjármálafyrirtækja sem starfrækja útibú í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu.

Með fyrirtæki tengdu fjármálasviði er átt við fyrirtæki sem ekki er lánastofnun og starfar einkum að öflun eignarhluta eða stundar einhverja þá starfsemi sem um getur í 2.-12. tölul. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Með lánastofnun er átt við fjármálafyrirtæki sem hefur fengið starfsleyfi skv. 1.-4. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

2. gr.

Fyrirtæki frá öðru ríki innan hins Evrópska efnahagssvæðis, sem heimilt er samkvæmt samþykktum sínum að stunda þá starfsemi sem tilgreind er í 1. mgr. 20. gr. laga um fjármálafyrirtæki, er heimilt að stofna útibú eða veita þjónustu hér á landi án stofnunar útibús séu eftirtalin skilyrði uppfyllt:

  1. Fyrirtækið skal vera dótturfélag lánastofnunar eða sameiginlegt dótturfélag tveggja eða fleiri lánastofnana skv. 2. mgr. 97. gr. laga um fjármálafyrirtæki.
  2. Dótturfélagið skal lúta löggjöf í því ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins sem veitt hefur móðurfélagi eða móðurfélögum skv. 1. tölul. starfsleyfi og skal dótturfélagið jafnframt stunda umrædda starfsemi í því ríki.
  3. Móðurfélagið eða móðurfélögin skulu fara með a.m.k. 90% af atkvæðamagni því sem fylgir hlutum í félaginu.
  4. Móðurfélagið eða móðurfélögin skulu uppfylla skilyrði Fjármálaeftirlitsins um heilbrigða og trausta stjórnun dótturfélagsins og skulu jafnframt lýsa því yfir með samþykki lögbærra yfirvalda í heimaríki þeirra að þau beri óskipta ábyrgð á skuldbindingum þeim sem dótturfélagið tekur á sig.
  5. Dótturfélagið skal heyra undir eftirlit á samstæðugrundvelli sem móðurfélagið eða sérhvert móðurfélaganna lýtur. Þetta á sérstaklega við um eftirlit með útreikningi á eiginfjárhlutfalli, eftirlit með útreikningi á lánum og til einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila og eftirlit með takmörkunum á eignarhlutdeild í öðrum fyrirtækjum.

Með tilkynningu um starfsemi hér á landi skv. 1. mgr. skal fylgja staðfesting lögbærs yfirvalds í heimaríki móðurfélags eða móðurfélaga á því að framangreind skilyrði séu uppfyllt. Jafnframt skulu lögbær yfirvöld í heimaríki móðurfélagsins eða móðurfélaga lýsa því yfir að þau muni hafa fullnægjandi eftirlit með starfsemi fyrirtækisins. Að öðru leyti skal beita ákvæðum V. kafla laga um fjármálafyrirtæki, eftir því sem við á.

Ákvæði 1. og 2. mgr. taka einnig til fyrirtækis sem er í eigu eða undir áhrifum eins eða fleiri dótturfélaga, sbr. ákvæði 97. gr. laga þessara, eftir því sem við getur átt.

3. gr.

Dótturfélag lánastofnunar, eða sameiginlegt dótturfélag tveggja eða fleiri lánastofnana, með staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, er heimilt að stunda umsýslu greiðslukorta skv. 4. tölul. 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki, enda sé þeim heimilt að stunda starfsemina í heimaríkinu.

Félag skv. 1. mgr. skal tilkynna starfsemi sína til Fjármálaeftirlitsins. Með tilkynningu skal fylgja staðfesting á því að félagið sé í eigu eftirlitsskyldra aðila og sé heimilt að stunda viðkomandi starfsemi í heimaríkinu. Óheimilt er að hefja starfsemi félagsins fyrr en Fjármálaeftirlitið hefur gengið úr skugga um starfsheimildir þess og starfsemi.

Fjármálaeftirlitinu er heimilt að afla upplýsinga um starfsemi félagsins og setja starfsemi þess hér á landi skilyrði. Brjóti félagið gegn skilyrðum samkvæmt þessari gr., eða brjóti að öðru leyti gegn heilbrigðum og eðlilegum viðskiptaháttum, er Fjármálaeftirlitinu heimilt að banna starfsemi þess hér á landi.

4. gr.

Nú starfrækir fjármálafyrirtæki útibú í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, skv. heimild í 36. gr. laga nr. 161/2002, og skal þá Fjármálaeftirlitinu skylt að tilkynna til lögbærra yfirvalda þess ríkis þar sem fjármálafyrirtækið starfrækir útbú um hverjar þær breytingar sem kunna að verða á áður veittum upplýsingum um bótakerfi sem vernda viðskiptavini útibús hins innlenda fjármálafyrirtækis, sbr. 3. mgr. 36. gr. laga nr. 161/2002.

5. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 35. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki og 19. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, öðlast þegar gildi.

Viðskiptaráðuneytinu, 5. mars 2004.

Valgerður Sverrisdóttir.

Kristján Skarphéðinsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.