Viðskiptaráðuneyti

959/2003

Reglugerð um breyting á reglugerð nr. 809/2000 um lögboðna brunatryggingu húseigna.

1. gr.

2. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Vátrygging á húsi í smíðum, hvort sem um er að ræða nýbyggingu eða viðbyggingu við eldra hús, hefst um leið og vátryggingartaki hefur sannanlega afhent vátryggingafélagi beiðni þar um. Vátryggingarfjárhæð húss í smíðum fer eftir samkomulagi milli eigenda og vátryggingafélags.

Vátrygging húss, sem tekið hefur verið í notkun, gengur í gildi þegar vátryggingafélagið, einhver á vegum þess eða Fasteignamat ríkisins hefur sannanlega tekið við vátryggingarbeiðni, enda liggi fyrir beiðni um brunabótamat eignarinnar, sbr. 6. gr. Sama á við um gildistöku endurmats.

Vátryggingafélag skal ekki fella úr gildi brunatryggingu, hvort heldur er vegna eigendaskipta eða af öðrum ástæðum, nema fyrir liggi staðfesting á að húseigandi hafi tekið nýja vátryggingu hjá öðru félagi. Sé um eigendaskipti að ræða, gengur vátrygging í gildi á afhendingardegi, sem tiltekinn er í kaupsamningi um húseign eða öðrum eignarheimildarskjölum. Séu liðnir meira en 14 dagar frá afhendingu eignar við skráningu eigendaskiptanna í Landskrá fasteigna eða upplýsingar liggja ekki fyrir um afhendingardag, skal vátrygging taka gildi á skráningardegi eigendaskiptanna í Landskrá fasteigna.


2. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 8. gr. laga um brunatryggingar nr. 48/1994, öðlast þegar gildi.


Viðskiptaráðuneytinu, 11. desember 2003.

Valgerður Sverrisdóttir.
Þóra M. Hjaltested.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica