Viðskiptaráðuneyti

794/2002

Reglugerð um löggildingu sjálfvirkra voga. - Brottfallin

1. gr.
Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til prófana og löggildinga sjálfvirkra voga af öllum stærðum sem löggildingarskyldar eru sbr. 5. og 16. gr. laga nr. 100/1992 um vog, mál og faggildingu. Sjálfvirkar vogir nefnast hér eftir vogir.


2. gr.
Skilgreiningar.
Frumsannprófun (EBE-frumsannprófun)

er aðferð til að sannreyna að framleiðsla tækis sé í samræmi við viðurkennda frumgerð og standist mælifræðilegar kröfur, m.a. um heimiluð hámarksfrávik og merkingar. Aðferðinni er lýst nánar í viðeigandi reglugerðum.

Gerðarviðurkenning (EBE-gerðarviðurkenning) byggir á ítarlegri gerðarprófun, þar sem prófað hefur verið eftir kröfum viðkomandi tilskipana og reglugerða eða annarra kröfuskjala. Gerðarviðurkenning er forsenda frumsannprófunar og markaðssetningar eftir öðrum leiðum.

Heimiluð hámarksfrávik eru stærstu gildi sem leyfð eru fyrir frávik í reglugerðum, stöðlum og öðrum kröfuskjölum fyrir tiltekin mælitæki.

Mæligrunnur merkir áþreifanlegan mælikvarða, mælitæki eða mælibúnað til þess að skilgreina, raungera, varðveita eða birta einingu eða gildi eðlisfræðistærðar til þess að flytja þessa einingu eða stærð yfir á önnur mælitæki með samanburði.


3. gr.
Hæfniskröfur.

Löggildingaraðili skal uppfylla hæfniskröfur sem settar eru fram í reglugerð nr. 648/2000 um starfshætti þeirra sem annast löggildingar mælitækja í umboði Löggildingarstofu.

Prófunarmaður skal vera vél- eða raffræðingur eða hafa sambærilega menntun og hafa nægilega tæknikunnáttu til að annast löggildingar voga og meta ástand þeirra út frá prófunum eða skoðunum. Tryggt skal að kunnáttu hans sé haldið við með endurmenntun. Hann skal kunna skil á þeim reglum sem iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið setur varðandi sjálfvirkar vogir.

Tæknilegur stjórnandi skal vera verkfræðingur eða tæknifræðingur og hafa þekkingu á vogum og reynslu af löggildingum þeirra. Undanþágu má gera frá framangreindum skilyrðum um þekkingu og reynslu ef viðkomandi hefur menntun eða starfsreynslu og þjálfun sem faggildingarsvið Löggildingarstofu telur fullnægjandi. Tæknilegur stjórnandi er ábyrgur fyrir öllum löggildingum sem löggildingaraðili vinnur.

Tæknilegur stjórnandi og prófunarmaður aðila með B-faggildingu á sviði löggildinga skulu uppfylla sömu hæfniskröfur og prófunarmaður.


4. gr.
Mælitæki notuð við löggildingu.

Allir mæligrunnar, sem löggildingaraðili notar í tengslum við löggildingar voga, skulu vera kvarðaðir og skal kvörðunin rekjanleg til landsmæligrunna á Íslandi.

Löggildingaraðili skal hafa yfir að ráða nauðsynlegum mælitækjum til að staðfesta að umhverfi vogar henti henni.

Lóð, sem notuð eru við löggildingu voga, skulu vera í samræmi við kröfur gildandi reglugerða um lóð og skulu þau henta aðstæðum og vog þeirri sem verið er að prófa. Lóðin skulu a.m.k. standast nákvæmniskröfur sem gerðar eru til lóða í flokki M1.


5. gr.
Aðstæður.

Undirlag voga skal hæfa vogargerð og notkun og það skal vera traust og stöðugt. Festingar skulu þola það vinnsluálag sem voginni er ætlað. Vog skal vera lárétt og ekki má vera hætta á að vogin skríði undan hallanum. Umhverfishiti skal hæfa vog. Hlífar og annar búnaður má ekki hafa áhrif á niðurstöður vigtunar.

Óheimilt er að löggilda vog ef hitastig þar sem vogin er notuð er utan þess sviðs sem vogin er gerð fyrir. Vog skal ekki löggilt nema veðuráraun og aðrir umhverfisþættir hafi hverfandi áhrif á niðurstöður.


6. gr.
Löggildingarhæfni.

Löggildingarhæfni vogar skal staðfest með því að skoða eða prófa hvort hún uppfylli eftirfarandi atriði:

1. Ákvæði um markaðssetningu í reglugerð nr. 781/2002 um sjálfvirkar vogir.
2. Að merkingar og áletranir séu í samræmi við gerðarviðurkenningu. Þegar vog uppfyllir ekki þessar kröfur skal gerð athugasemd um að vogin verði ekki endurlöggilt nema úr verði bætt.
3. Að aðstæður og notkun henti voginni.
4. Að aðgengilegt sé að prófa, stilla og löggilda vogina.
5. Að mælifræðilegir eiginleikar séu í samræmi við kröfur reglugerðar nr. 781/2002 um sjálfvirkar vogir, þetta skal staðfest með prófun. Einkum er um að ræða staðfestingu þess að kröfum um heimiluð hámarksfrávik sé fullnægt.
6. Að hægt sé að innsigla vogina.


7. gr.
Löggilding voga.

Þegar vog er löggilt í fyrsta skipti skal löggildingaraðili meta mælifræðilega þætti gaumgæfilega í samræmi við mælifræðilegar kröfur í reglugerð nr. 781/2002 um sjálfvirkar vogir, enda er ekki gerð önnur krafa um frumsannprófun.

Ekki má taka vog til þeirra nota, sem eru löggildingarskyld skv. lögum nr. 100/1992 um vog, mál og faggildingu, nema að vogin teljist löggilt.

Í samræmi við 10. gr. laga nr. 100/1992 um vog, mál og faggildingu ber ábyrgðarmanni vogar að sjá til þess að hún sæti reglubundnu eftirliti og uppfylli þær kröfur sem til hennar eru gerðar samkvæmt lögum og reglugerðum og að hún sé ætíð með gilda löggildingu.

Vog má löggilda hafi löggildingarhæfni hennar verið staðfest með skoðun og prófun. Sé vog löggildingarhæf er festur á hana löggildingarmiði og telst vogin þá löggilt. Hafi vogin búnað, sem notanda er óheimilt að fjarlægja eða stilla, skal tryggja gegn slíku með innsigli áður en löggildingarmiði er festur á vogina.

Prófunarstofa með starfsleyfi til löggildingar mælitækja má ekki gera við vog. Þegar frávik vogar reynist vera komið út fyrir leyfileg fráviksmörk er löggildingaraðila þó heimilt að stilla vogina sé slík stilling gerð í samræmi við leiðbeiningar framleiðanda eða viðurkenndar aðferðir þegar leiðbeiningarnar eru ekki til.

Eigandi vogar skal veita alla aðstoð með aðstöðu og efni sem nota þarf við prófun vogarinnar.


8. gr.
Tíðni löggildinga.

Gildistími löggildinga voga er sem hér segir:

1. Löggilding voga, sem notaðar eru í framleiðslu, iðnaði, við matvælavinnslu, utanhúss, hvers konar annarri framleiðslu eða þar sem þær verða fyrir mikilli áraun, gildir í eitt ár.
2. Löggilding annarra voga gildir í tvö ár.


9. gr.
Afturköllun löggildingar.

Löggilding fellur úr gildi, þrátt fyrir að gildistími skv. 8. gr. sé ekki liðinn, ef:

1. Vog bilar.
2. Innsigli er rofið.
3. Viðgerð er framkvæmd á voginni sem áhrif getur haft á mæliniðurstöður hennar.
4. Vog er tekin niður og sett upp aftur.
5. Frávik eru meiri en tvöföld heimiluð hámarksfrávik, nema fyrir sjálfvirkar sekkjunarvogir, gildir 1,43 x heimiluð hámarksfrávik. Heimiluð hámarksfrávik eru gefin upp í reglugerð nr. 781/2002 um sjálfvirkar vogir.


10. gr.
Skýrslugerð.

Skýrslugjöf til Löggildingarstofu skal vera í samræmi við reglugerð nr. 648/2000 um starfshætti þeirra sem annast löggildingar mælitækja í umboði Löggildingarstofu.

Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram í prófunarskýrslum sem lagðar eru til grundvallar löggildingu:

1. Frávik í þeim punktum sem prófaðir eru.
2. Aðstæður.

Þessar upplýsingar skulu vera aðgengilegar starfsmönnum Löggildingarstofu.


11. gr.
Málskot.

Komi upp ágreiningur um úrskurð Löggildingarstofu um einhver atriði varðandi ákvæði eða beitingu þessarar reglugerðar má skjóta málinu til ráðherra.


12. gr.
Ákvæði til bráðabirgða.
1. Heimilt er að löggilda vogir einu sinni eftir gildistöku reglugerðar þessarar þótt þær hafi ekki hlotið gerðarviðurkenningu hafi vogirnar verið löggiltar áður. Sækja skal um gerðarviðurkenningu fyrir vogir sem löggilda þarf oftar. Finnist enginn ábyrgðaraðili, þ.e. framleiðandi eða fulltrúi hans, má eigandi óska eftir gerðarviðurkenningu.
2. Hyggist söluaðili vogargerðar, sem heimilt hefur verið að nota án gerðarviðurkenningar við löggildingarskylda starfsemi, halda áfram að selja hana skal hann sækja um gerðarviðurkenningu fyrir 1. júní 2003.
3. Hafi notkun vogar verið látin átölulaus við starfsemi sem nú er löggildingarskyld með því skilyrði að notuð væri önnur löggilt vog til úrtaksviktunar er heimilt að hafa sama hátt á til loka ársins 2003.


13. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum nr. 100/1992 um vog, mál og faggildingu og öðlast þegar gildi.


Viðskiptaráðuneytinu, 4. nóvember 2002.

Valgerður Sverrisdóttir.
Þorgeir Örlygsson.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica