Leita
Hreinsa Um leit

Viðskiptaráðuneyti

671/2002

Reglugerð um fjárfestingar rafeyrisfyrirtækja.

1. gr.

Fjárfestingar rafeyrisfyrirtækis skulu að minnsta kosti samsvara fjárskuldbindingum þess vegna útistandandi rafeyris. Rafeyrisfyrirtæki er aðeins heimilt að fjárfesta í eftirfarandi eignum:

  1. Nægilega seljanlegum eignum skv. a.-d. stafliðum 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. reglna nr. 693/2001, um eiginfjárhlutfall lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu, sem fá áhættuvogina núll.
  2. Sýningarinnlánum hjá lánastofnunum á svæði A eins og þær eru skilgreindar í reglum nr. 693/2001, um eiginfjárhlutfall lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu.
  3. Skuldaskjölum sem eru nægilega seljanleg, heyra ekki undir 1. tölul., eru viðurkennd sem fullgildir liðir samkvæmt reglum nr. 693/2001, um eiginfjárhlutfall lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu og eru gefin út af öðrum fyrirtækjum en þeim sem eiga virkan eignarhluta í viðkomandi rafeyrisfyrirtæki eða þeim sem koma fram í samstæðureikningum þessara fyrirtækja.


2. gr.

Fjárfestingar sem um getur í 2. og 3. tölul. 1. gr. mega ekki fara yfir tuttugufalt eigið fé viðkomandi rafeyrisfyrirtækis og skulu vera háðar sömu takmörkunum og fram koma í reglugerð nr. 34/2002, um hámark lána og ábyrgða lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu.


3. gr.

Til að baktryggja sig gegn markaðsáhættu sem leiðir af útgáfu rafeyris og fjárfestinganna sem um getur í 1. gr. er rafeyrisfyrirtækjum heimilt að nota nægilega seljanlega vaxtaberandi og vaxtatengda liði utan efnahagsreiknings í formi afleiðusamninga sem verslað er með á skipulegum verðbréfamarkaði. Afleiðusamningar skv. 1. málsl. skulu falla undir daglegar kröfur um tryggingarfé eða gjaldeyrissamninga með upphaflegan binditíma sem er í mesta lagi 14 dagar. Notkun afleiddra skjala samkvæmt 1. málsl. er því aðeins leyfileg að ætlunin sé að útrýma til fulls markaðsáhættu og að því markmiði sé náð eftir því sem unnt er.


4. gr.

Við beitingu 1. gr. skal meta eignir á kaupverði eða markaðsverði, eftir því sem lægra er.


5. gr.

Ef verðgildi eignanna, sem um getur í 1. gr., fer niður fyrir fjárhæð fjárskuldbindinga vegna útistandandi rafeyris skal viðkomandi rafeyrisfyrirtæki gera viðeigandi ráðstafanir til að ráða bót á því ástandi án tafar.

Fjármálaeftirlitið getur heimilað tímabundið að fjárskuldbindingar rafeyrisfyrirtækis skv. 1. mgr. vegna útistandandi rafeyris séu tryggðar með öðrum eignum en þeim sem um getur í 1. gr., sem nemur að hámarki fjárhæð sem er í mesta lagi 5% af þessum skuldbindingum eða af samanlögðu eigin fé rafeyrisfyrirtækisins.


6. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 9. gr. laga nr. 37/2002, um rafeyrisfyrirtæki, öðlast þegar gildi.


Viðskiptaráðuneytinu, 19. september 2002.

Valgerður Sverrisdóttir.
Benedikt Árnason.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica