Viðskiptaráðuneyti

613/1996

Reglugerð um ársreikninga og samstæðureikninga vátryggingafélaga annarra en líftryggingafélaga. - Brottfallin

I. KAFLI
Gildissvið. Skilgreiningar.
1. gr.

Reglugerð þessi gildir um vátryggingafélög önnur en líftryggingafélög með starfsleyfi sem gefið hefur verið út hér á landi, sbr. 22. gr. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi. Hún gildir einnig eftir því sem við á um starfsemi líftryggingafélaga aðra en þá sem kveðið er á um í reglugerð um ársreikninga og samstæðureikninga líftryggingafélaga. Reglugerðin gildir einnig um hvers konar starfsemi á sviði endurtrygginga.


2. gr.

Í reglugerð þessari merkir:

1. félag: fyrirtæki sem semja skal ársreikning eða samstæðureikning samkvæmt reglugerð þessari.
2. hlutdeildarfélag: félag, þó ekki dótturfélag, sem annað félag, eða annað félag og dótturfélög þess eiga eignarhluta í og hafa veruleg áhrif á. Félag er talið hafa veruleg áhrif ef það og dótturfélög þess fara með 20% eða meira af atkvæðum í hlutdeildarfélaginu.
3. móðurfélag: félag sem hefur yfirráð í öðru félagi.
4. dótturfélag: félag sem er undir yfirráðum annars félags. Dótturfélag dótturfélags telst einnig dótturfélag móðurfélagsins.
5. yfirráð: að félag (móðurfélag) ráði yfir meirihluta atkvæða í öðru félagi, eða
eigi eignarhluti í öðru félagi og hafi rétt til að tilnefna eða víkja frá meirihluta stjórnarmanna eða stjórnenda, eða
eigi eignarhluti í öðru félagi og hafi rétt til að hafa afgerandi áhrif á starfsemi þess á grundvelli samþykkta félagsins eða samninga við það, eða
eigi eignarhluti í öðru félagi og ráði meirihluta í félaginu á grundvelli samnings við aðra hluthafa eða aðra eignaraðila, eða
eigi eignarhluti í öðru félagi og hafi ráðandi stöðu í því, eða
hliðstæð tengsl einstaklinga eða lögaðila við félag.
6. félagasamstæða: móðurfélag og dótturfélög þess.
7. samstæðureikningur: ársreikningur félagasamstæðu þar sem reikningar móðurfélags og dótturfélaga þess eru sameinaðir í eitt.
8. endurtrygging: samningur sem felur í sér að vátryggingafélag, endurtryggingataki, kaupir sér vernd hjá öðru vátryggingafélagi, endurtryggjanda, vegna vátryggingaáhættu sem endurtryggingataki hefur tekið á sig gagnvart vátryggingatökum sínum.
9. vátryggingaskuld: óuppgerðar heildarskuldbindingar félags vegna gerðra vátryggingasamninga.
10. iðgjaldaskuld: sá hluti vátryggingaskuldar sem svarar til áhættu félags eftir lok reikningsársins vegna gerðra vátryggingasamninga.
11. tjónaskuld: sá hluti vátryggingaskuldar sem svarar til áfallinna óuppgerðra skuldbindinga félags vegna gerðra vátryggingasamninga.
12. útjöfnunarskuld: sá hluti vátryggingaskuldar sem svarar til skuldbindinga félags vegna sveiflna í tjónareynslu frá ári til árs og óvissu í mati tjónaskuldar.
13. ágóðaskuld: sá hluti vátryggingaskuldar sem svarar til fjárhæða sem færðar hafa verið vátryggingatökum og vátryggðum til góða.


II. KAFLI
Almenn ákvæði.
3. gr.

Ársreikning skal semja fyrir hvert reikningsár. Einnig skal semja skýrslu stjórnar sem ásamt ársreikningi mynda eina heild. Ársreikningur skal hafa að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning, fjárstreymisyfirlit og skýringar. Ákvæði reglugerðar þessarar gilda um samstæðureikning eftir því sem við getur átt, nema annað sé sérstaklega tekið fram.

Í móðurfélagi skal semja samstæðureikning. Samstæðureikningur skal hafa að geyma skýrslu stjórnar, rekstrarreikning, efnahagsreikning, fjárstreymisyfirlit og skýringar. Hlutir í eigu minnihluta skulu tilgreindir sérstaklega í efnahagsreikningi og hlutdeild minnihluta í hagnaði eða tapi skal koma fram sem sérstakur liður í rekstrarreikningi nema um óverulegar fjárhæðir sé að ræða.

Móðurfélög sem ekki falla undir skilgreiningu 1. gr. en hafa eingöngu eða aðallega þann tilgang að eiga hluti í dótturfélögum sem eingöngu eða aðallega reka vátryggingastarfsemi, skulu einnig semja samstæðureikning í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.

Þegar veruleg innbyrðis tengsl eru milli félaga og eitt þeirra er tilnefnt sem móðurfélag án þess að um félagasamstæðu sé að ræða, sbr. 4. gr. laga nr. 60/1994, skal einnig semja samstæðureikning nema þess sé ekki þörf, sbr. 4. gr.


4. gr.

Halda má dótturfélagi sem ekki er vátryggingafélag utan samstæðureiknings þegar:

1. Það hefur óverulega þýðingu fyrir rekstur eða efnahag samstæðunnar vegna smæðar þess.
2. Stjórnun þess er ekki lengur í höndum eigenda þess eða verulegar og varanlegar hindranir eru á að félag geti nýtt eignarhluta sinn í dótturfélaginu eða haft áhrif á stjórn þess.
3. Ekki er unnt að afla nauðsynlegra upplýsinga tímanlega og án óeðlilegs kostnaðar.
4. Eignarhluti í því er eingöngu ætlaður til endursölu.

Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 4. gr. skulu félög, sem hvert um sig hafa óverulega þýðingu, vera með í samstæðureikningi ef þau hafa verulega þýðingu samanlagt.

Þegar starfsemi dótturfélags er svo ólík starfsemi móðurfélags að það gæfi villandi mynd af félagasamstæðunni að hafa það með í samstæðureikningi, skal halda því utan við hann. Eignarhluti móðurfélagsins í dótturfélaginu skal þá færður samkvæmt hlutdeildaraðferð.

Sé dótturfélagi haldið utan samstæðureiknings skv. 1. eða 3. mgr. skal gerð grein fyrir því í skýringum.

Í samstæðureikningi er heimilt að færa fjárfestingartekjur og fjárfestingargjöld í líftryggingum með öðrum fjárfestingartekjum og -gjöldum og yfirfæra hluta þeirra á líftryggingarekstur.

Félög í sömu félagasamstæðu skulu hafa sama reikningsár nema sérstakar aðstæður gefi tilefni til annars, en aldrei skulu þó líða meira en sex mánuðir frá lokum reikningsárs samstæðufélags til loka reikningsárs félagasamstæðu. Ef munurinn er meiri en þrír mánuðir skal félagið fellt undir samstæðuna á grundvelli bráðabirgðauppgjörs sem miðast við uppgjörsdag samstæðunnar.

Þurfi ekki að semja samstæðureikning en hann er samt saminn, skal það gert samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar.


5. gr.

Ársreikningur og samstæðureikningur skulu gerðir í samræmi við lög, reglur og góða reikningsskilavenju og gefa glögga mynd af rekstrarafkomu á reikningsárinu og efnahag í lok þess. Nægi ákvæði laga eða góð reikningsskilavenja ekki til að gefa glögga mynd af rekstrarafkomu og efnahag skal veita frekari upplýsingar í skýringum.

Ársreikningur og samstæðureikningur skulu settir upp með hliðstæðum hætti frá ári til árs nema sérstakar aðstæður gefi tilefni til annars. Breytingar skulu tilgreindar og rökstuddar í skýringum.


6. gr.

Ársreikningurinn skal gerður í því formi sem fyrir er mælt í viðauka I, sem er hluti af þessari reglugerð, og skal heiti liða og röð þeirra vera eins og þar segir.

Sameina má liði er nema óverulegum fjárhæðum öðrum liðum. Þó skulu undirliðir iðgjalda ársins og tjóna ársins ávallt tilgreindir í rekstrarreikningi og undirliðir vátryggingaskuldar eigna- og skuldamegin í efnahagsreikningi.

Frekari greiningu má gera undir einstökum liðum sé það nauðsynlegt til að gera reikningsskilin gleggri og að því tilskildu að heiti tilgreindra liða sé ekki breytt né röð þeirra.

Fjárstreymisyfirlit skal gert sem sjóðstreymi, en í því skal m.a. gerð grein fyrir framlagi rekstrar af handbæru fé, fjárfestingu á árinu, fjármögnun og annarri breytingu á handbæru fé.


7. gr.

Í rekstrarreikningi og efnahagsreikningi skal birta fjárhæðir úr ársreikningi fyrra árs við hlið viðkomandi liða. Gæta skal þess að einstakir liðir séu samanburðarhæfir milli ára, en ef svo er ekki skal lagfæra liði fyrra árs og gera grein fyrir breytingum í skýringum.

Sé ekki um neina fjárhæð að ræða undir einhverjum lið skal hans getið í ársreikningnum hafi einhver fjárhæð verið þar árið áður.


8. gr.

Ef eigna- eða skuldaliður heyrir undir fleiri en einn lið í viðauka I skal tengsla getið annaðhvort þar sem liðurinn er færður, eða í skýringum ef slíkt er nauðsynlegt til skilnings á ársreikningnum.

Eignir sem aflað er í nafni eða fyrir hönd þriðja aðila skulu ekki koma fram í efnahagsreikningi.


III. KAFLI
Einstakir liðir rekstrarreiknings.

Tekjur og gjöld af vátryggingarekstri.

Iðgjöld.
9. gr.

Undir lið 1.1 Bókfærð iðgjöld skal færa heildarfjárhæð iðgjalda vegna þeirra vátryggingasamninga sem félagið hefur gert fyrir lok reikningsárs í frumtryggingum og endurtryggingum hvort sem iðgjöldin eru greidd eða ógreidd. Bókfærð iðgjöld skulu færð að frádregnum endurgreiddum og niðurfelldum iðgjöldum. Einnig skal draga frá afslátt af iðgjöldum sem veittur er án tillits til tjónareynslu, sbr. 14. gr.Gjöld til opinberra aðila sem innheimt eru með iðgjöldum skal ekki færa undir þennan lið. Þegar um samtryggingu er að ræða skal eingöngu færa þann hluta iðgjaldsins sem samsvarar þátttöku félagsins.

Undir lið 1.2 Hluti endurtryggjenda í bókfærðum iðgjöldum skal færa heildarfjárhæð iðgjalda til endurtryggjenda hvort sem iðgjöldin eru greidd eða ógreidd.

Undir lið 1.3 Breyting á iðgjaldaskuld skal færa mismun iðgjaldaskuldar í upphafi reikningsárs og iðgjaldaskuldar í lok reikningsárs.

Undir lið 1.4 Breyting á hluta endurtryggjenda í iðgjaldaskuld skal færa mismun á hluta endurtryggjenda í iðgjaldaskuldinni í upphafi reikningsárs og í lok þess.


Fjárfestingartekjur af vátryggingarekstri.
10. gr.

Undir lið 2 Fjárfestingartekjur af vátryggingarekstri skal færa reiknaða ávöxtun af meðaltali eigin vátryggingaskuldar í upphafi og lok reikningsársins auk reiknaðra áhrifa verðlagsbreytinga á eigin vátryggingaskuld, sbr. 20. gr. Við vaxtaútreikninginn skal nota vaxtafót sem er jafnhár og meðaltal ávöxtunarkröfu á reikningsárinu af þriggja til fimm ára verðtryggðum spariskírteinum ríkissjóðs í viðskiptum á Verðbréfaþingi Íslands og skal Vátryggingaeftirlitið birta vátryggingafélögum þessa viðmiðun. Samtala reiknaðrar ávöxtunar og reiknaðra áhrifa verðlagsbreytinga dregst frá tekjum og gjöldum af fjármálarekstri undir lið 14.

Hafi félagið núvirt hluta af vátryggingaskuldinni, sbr. 53. gr., skal draga þann hluta af aukningu vátryggingaskuldarinnar á árinu, sem leiðir af núvirðingunni, frá fjárhæðinni í lið 2.

Í skýringum skal gera nánari grein fyrir þessum lið.


Aðrar tekjur.
11. gr.

Undir lið 3 Aðrar tekjur að frádregnum hluta endurtryggjenda skal færa tekjur í vátryggingarekstri sem ekki eru taldar annars staðar. Í skýringum skal gerð grein fyrir þessum lið.


Tjón.
12. gr.

Undir lið 4.1 Bókfærð tjón skal færa heildarfjárhæð greiddra tjóna á reikningsárinu ásamt kostnaði við einstök tjón, svo sem við mat þeirra, og því sem varið er til að takmarka orðin tjón og að koma í veg fyrir frekara tjón, bæði eigin kostnað og aðkeyptan en að frádregnum yfirteknum vátryggðum fjármunum og réttindum sem félagið öðlast.

Undir lið 4.2 Hluti endurtryggjenda í bókfærðum tjónum skal færa þann hluta bókfærðra tjóna sem félagið á kröfu á sem endurtryggingataki vegna endurtryggingaverndar samkvæmt endurtryggingasamningum.

Undir lið 4.3 Breyting á tjónaskuld skal færa mismun tjónaskuldar í lok reikningsárs og tjónaskuldar í upphafi reikningsárs.

Undir lið 4.4 Breyting á hluta endurtryggjenda í tjónaskuld skal færa mismun á hluta endurtryggjenda í tjónaskuldinni í lok reikningsárs og í upphafi þess.

Hafi tjónaskuldin verið núvirt að hluta, sbr. 53. gr., skal ekki færa þann hluta af hækkun tjónaskuldarinnar, sem af því stafar, undir liði 4.3 og 4.4, heldur skal hann dreginn frá lið 2, fjárfestingartekjur af vátryggingarekstri, sbr. 2. mgr. 10. gr.


Breyting á annarri vátryggingaskuld.
13. gr.

Undir lið 5 Breyting á annarri vátryggingaskuld að frádregnum hluta endurtryggjenda skal færa breytingar á vátryggingaskuld að frádregnum hluta endurtryggjenda sem ekki eru færðar undir lið samkvæmt 9. eða 12. gr. Hér skal t.d. færa breytingar vegna vátryggingastofna sem yfirfærðir eru til annarra félaga eða eru yfirteknir frá öðrum. Í skýringum skal gerð grein fyrir þessum lið.


Ágóðahlutdeild og afsláttur.
14. gr.

Undir lið 6 Ágóðahlutdeild og afsláttur að frádregnum hluta endurtryggjenda skal færa ágóðahlutdeild til vátryggingataka og vátryggðra á reikningsárinu sem rekja má til afkomu eða tjónareynslu félagsins í heild eða í einstökum vátryggingagreinum. Þá skal færa hér afslátt af iðgjöldum, greiddan og ógreiddan á reikningsárinu, sem rekja má til reynslu á einstökum vátryggingasamningum.

Sundurliða skal þennan lið á ágóðahlutdeild og afslátt í skýringum þegar um verulegar fjárhæðir er að ræða og skal þá einnig greina frá breytingum á ágóðaskuld og ógreiddum afslætti.


Rekstrarkostnaður.
15. gr.

Undir lið 7 Rekstrarkostnaður skal færa kostnað félagsins við öflun vátrygginga og rekstur vátryggingastofnsins svo sem launakostnað vegna þessa rekstrarþáttar, umboðslaun, kostnað við markaðssetningu og sölu, leigukostnað, skrifstofu- og stjórnunarkostnað, þar með talinn kostnað við skrifstofubúnað, og afskriftir á eignum sem færðar eru undir eignarlið 6.1 í efnahagsreikningi.

Hér skal færa sem frádráttarlið þóknun sem félagið kann að fá vegna hliðarstarfsemi í sérstökum félögum eða vegna starfsemi samstæðufélaga og talin skal til vátryggingarekstrar. Færa má þóknunina undir lið 7.1 eða 7.2 eða sem sérstakan undirlið við þá liði. Gera skal nánari grein fyrir færslum í skýringum.

Undir lið 7.1 Sölukostnaður skal færa kostnað við öflun og gerð vátryggingasamninga svo sem umboðs- og sölulaun, markaðskostnað og skrifstofukostnað við sölu og útgáfu vátryggingasamninga.

Undir lið 7.2 Breyting á yfirfærðum sölukostnaði skal færa breytingu á reikningsárinu þegar hluti sölukostnaðar er yfirfærður milli ára.

Undir lið 7.3 Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður skal færa kostnað við rekstur vátryggingastofnsins svo sem starfsmannakostnað, kostnað við innheimtu og endurnýjun vátryggingasamninga, kostnað við endurtryggingar og afskriftir skrifstofubúnaðar, svo fremi að ekki beri að færa kostnaðinn undir lið 7.1 Sölukostnaður, 4 Tjón eða 12 Fjárfestingargjöld.

Undir lið 7.4 Umboðslaun og ágóðahluti frá endurtryggjendum eru færð sem frádráttarliður, fengin umboðslaun og ágóðahluti frá endurtryggjendum vegna endurtryggingaverndar félagsins.


16. gr.

Undir lið 8 Annar kostnaður að frádregnum hluta endurtryggjenda skal færa áður ótalinn kostnað vegna vátryggingarekstrarins og skal nánari grein gerð fyrir honum í skýringum.


Breyting á útjöfnunarskuld.
17. gr.

Undir lið 9 Breyting á útjöfnunarskuld skal færa breytingu á útjöfnunarskuld á reikningsárinu, sbr. lið 10.3 í efnahagsreikningi. Skipting á greinaflokka vátrygginga skal koma fram í skýringum.


Tekjur og gjöld af fjármálarekstri.

Fjárfestingartekjur.
18. gr.

Undir lið 11 Fjárfestingartekjur skal færa allar fjárfestingartekjur félagsins.

Undir lið 11.1 Tekjur frá samstæðufélögum skal færa hlut félagsins í afkomu félaga í félagasamstæðu á reikningsárinu.

Undir lið 11.2Tekjur frá hlutdeildarfélögum skal færa hlut félagsins í afkomu hlutdeildarfélaga á reikningsárinu.

Undir lið 11.3 Tekjur af öðrum eignarhlutum skal færa arð af eignarhlutum í félögum sem ekki færist undir lið 11.1 eða 11.2.

Undir lið 11.4 Tekjur af húseignum og lóðum skal færa hagnað eða tap af rekstri húseigna og lóða félagsins, þar með taldar reiknaðar leigutekjur af húseignum og lóðum sem félagið á og notar fyrir eigin rekstur. Draga skal frá allan kostnað við reksturinn nema vexti sem skulu færðir meðal vaxtagjalda undir lið 12.2.

Undir lið 11.5Vaxtatekjur og gengismunur skal færa vaxtatekjur, verðbætur og aðrar hliðstæðar tekjur af fjárfestingum félagsins, þar með talin afföll af verðbréfum og skuldbindingum sem ekki er fært á markaðsvirði og skal þeim dreift miðað við upphaflega ávöxtunarkröfu. Hér skal einnig færa gengismun vegna umreiknings erlendra gjaldmiðla í íslenskar krónur og skal hans getið sérstaklega í skýringum.

Undir lið 11.6Tekjur vegna matsbreytinga á fjárfestingum skal færa jákvæðan mismun á bókfærðu verði þessara eigna í lok reikningsársins og bókfærðu verði þeirra í upphafi reikningsársins, sem ekki ber að færa undir aðra liði. Hafi verið fjárfest á reikningsárinu skal miða við kostnaðarverð fjárfestingar.

Undir lið 11.7Hagnaður af sölu fjárfestinga skal færa hreinan hagnað af sölu fjárfestinga. Hagnaðurinn er mismunur söluverðs og bókfærðs verðs á söludegi.

Fjárfestingartekjur frá samstæðufélögum og hlutdeildarfélögum sem falla undir liði 11.4- 11.7 skulu sérgreindar í skýringum.


Fjárfestingargjöld.
19. gr.

Undir lið 12 Fjárfestingargjöld skal færa öll fjárfestingargjöld félagsins.

Undir lið 12.1Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður skal færa kostnað á reikningsárinu við umsýslu og stjórnun vegnafjárfestinga félagsins.

Undir lið 12.2Vaxtagjöld skal færa vaxtagjöld, verðbætur og önnur hliðstæð gjöld af skuldum og reiknuðum skuldbindingum félagsins, þar með talin afföll af verðbréfum og skuldbindingum sem ekki eru færð á markaðsvirði og skal þeim dreift miðað við upphaflega ávöxtunarkröfu.

Undir lið 12.3Gjöld vegna matsbreytinga á fjárfestingum skal færa neikvæðan mismun á bókfærðu verði þessara eigna í lok reikningsársins og bókfærðu verði þeirra í upphafi reikningsársins sem ekki ber að færa undir aðra liði. Hafi verið fjárfest á reikningsárinu skal miða við kostnaðarverð fjárfestingar.

Undir lið 12.4Tap af sölu fjárfestinga skal færa hreint tap af sölu fjárfestinga. Tapið er mismunur söluverðs og bókfærðs verðs á söludegi.


Áhrif verðlagsbreytinga.
20. gr.

Undir lið 13 Reiknaðar tekjur eða gjöld vegna verðlagsbreytinga skal færa áhrif verðlagsbreytinga á peningalegar eignir og skuldir miðað við breytingu á vísitölu neysluverðs.


Yfirfærðar fjárfestingartekjur.
21. gr.

Undir lið 14 Fjárfestingartekjur yfirfærðar á vátryggingarekstur skal færa fjárfestingartekjur vegna ávöxtunar vátryggingaskuldarinnar sbr. 10. gr.


Aðrar tekjur og gjöld af reglulegri starfsemi.
22. gr.

Undir liði 16.1 Aðrar tekjur og 16.2 Önnur gjöld skal færa tekjur og gjöld af reglulegri starfsemi sem ekki teljast til vátryggingarekstrarins eða fjárfestinga félagsins svo sem tekjur og gjöld vegna umboðsstarfsemi, þjónustu við önnur félög og annarrar hliðarstarfsemi. Hér skal einnig færa niðurfærslu á kröfum sbr. 47. gr.

Undir lið 17 Tekju- og eignarskattur skal færa tekjuskatt vegna reglulegrar starfsemi á reikningsárinu. Tekjuskatt skal færa þegar til hans er stofnað án tillits til þess hvenær hann kemur til greiðslu. Tekjuskatt sem gjaldfellur eftir meira en eitt ár skal færa sem skattskuldbindingu meðal langtímaskulda, sbr. lið 11.2 Skattskuldbinding í efnahagsreikningi. Hér skal einnig færa eignarskatt sem kemur til greiðslu innan árs.

Séu fjárhæðir undir þessum liðum verulegar skal gerð grein fyrir þeim í skýringum.


Óreglulegar tekjur og gjöld.
23. gr.

Undir lið 19 Óreglulegar tekjur og gjöld skal færa óreglulegar tekjur undir lið 19.1 og óregluleg gjöld undir lið 19.2. Þessir liðir taka til atvika og viðskipta sem eru óvenjuleg og óvænt og varða ekki meginstarfsemi félagsins, enda sé um verulegar fjárhæðir að ræða.

Undir lið 19.3 Tekjuskattur af óreglulegum tekjum og gjöldum skal færa reiknaðan tekjuskatt vegna óreglulegra rekstrarliða.
Gerð skal nánari grein fyrir þessum liðum í skýringum.


IV. KAFLI
Einstakir liðir efnahagsreiknings.

Eignir.

Hlutafjár- eða stofnfjárloforð.
24. gr.

Undir lið 1 Hlutafjár- eða stofnfjárloforð skal færa skráð en óinnkallað hlutafé eða stofnfé í félaginu.


Óefnislegar eignir.
25. gr.

Undir lið 2 Óefnislegar eignir skal færa keypta viðskiptavild, eignfærðan rannsóknar- og þróunarkostnað og annan langtímakostnað og önnur óefnisleg réttindi sem aflað hefur verið gegn greiðslu. Í skýringum skal sundurliða þennan lið. Kostnað við stofnun félagsins má ekki eignfæra.


Fjárfestingar.
26. gr.

Undir lið 3.1 Húseignir og lóðir skal færa húseignir og lóðir í eigu félagsins, fullgerðar og í byggingu, þar með taldar fyrirframgreiðslur vegna húsbygginga eða lóða og réttinda sem þeim fylgja. Í skýringum skal sérgreina húseignir og lóðir til eigin nota.

Undir lið 3.2 Samstæðu- og hlutdeildarfélög skal færa eignarhluti í samstæðu- og hlutdeildarfélögum og lán til þeirra sem talin eru til fjárfestinga félagsins og ekki eru almennar viðskiptakröfur.

Undir lið 3.3.1 Verðbréf með breytilegum tekjum skal færa framseljanleg verðbréf svo sem hlutabréf, hlutdeildarskírteini og önnur slík verðbréf með breytilegum tekjum eða verðbréf sem háð eru afkomu útgefanda og ekki falla undir lið 3.2.

Undir lið 3.3.2 Verðbréf með föstum tekjum skal færa framseljanleg skuldabréf og önnur verðbréf með föstum tekjum sem gefin eru út af lánastofnunum, opinberum aðilum eða öðrum félögum en samstæðu- eða hlutdeildarfélögum. Með skuldabréfum og öðrum verðbréfum er hér átt við bréf sem t.d. eru bundin við vísitölu eða gengi gjaldmiðla hvort sem vextir eru fastir eða hafa tiltekna vaxtaviðmiðun.

Undir lið 3.3.3Hlutir í sameiginlegri fjárfestingu skal færa hlut félagsins í sameiginlegri fjárfestingu félaga eða sjóða sem eru undir stjórn eins þessara félaga eða sjóða.

Undir lið 3.3.4Veðlán skal færa útlán sem veitt eru gegn veði í fasteign, skipi eða öðru lausafé sem tryggingu fyrir greiðslu.

Undir lið 3.3.5Önnur útlán skal færa útlán önnur en þau sem falla undir lið 3.3.4. Nemi þessi liður verulegri fjárhæð skal gerð nánari grein fyrir honum í skýringum.

Undir lið 3.3.6Bundin innlán hjá lánastofnunum skal færa innlán sem eru bundin hjá þessum stofnunum. Önnur innlán skal færa undir lið 6.2.

Undir lið 3.3.7Aðrar fjárfestingar skal færa fjárfestingar sem ekki eru færðar annars staðar. Nánari grein skal gerð fyrir þessum lið í skýringum nemi hann verulegri fjárhæð.

Undir lið 3.4 Geymslufé vegna endurtrygginga skal færa geymslufé vegna endurtrygginga sem félagið tekur að sér og er samkvæmt endurtryggingasamningum í vörslu endurtryggingataka eða þriðja aðila. Geymslufé má ekki sameina öðrum kröfum félagsins á endurtryggingataka eða jafna á móti skuldum félagsins við þá. Verðbréf sem komið er fyrir í vörslu endurtryggingataka eða þriðja aðila og eru eign félagsins skulu færð undir viðeigandi liði fjárfestinga.


Hluti endurtryggjenda í vátryggingaskuld.
27. gr.

Undir lið 4 Hluti endurtryggjenda í vátryggingaskuld skal færa hluta endurtryggjenda í vátryggingaskuld félagsins, sbr. lið 10, með sundurliðun á iðgjaldaskuld, tjónaskuld, ágóðaskuld og afslátt og aðra vátryggingaskuld undir liðum 4.1 - 4.4 og má ekki sameina þessa liði.


Kröfur.
28. gr.

Undir lið 5.1 Kröfur á samstæðu- og hlutdeildarfélög skal færa heildarfjárhæð krafna á samstæðu- og hlutdeildarfélög sem ekki falla undir lið 3.2. Í skýringum skal sundurgreina þessar kröfur eftir eðli þeirra, sbr. liði 5.2 - 5.5.

Undir lið 5.2.1 Kröfur á vátryggingataka skal færa kröfur á vátryggingataka sem stofnað hefur verið til í frumtryggingastarfsemi félagsins svo sem iðgjaldakröfur, endurkröfur, verðbréf og kröfur vegna samninga um greiðslu sem ekki eru til lengri tíma en vátryggingaverndin. Verðbréf og samninga til lengri tíma skal færa undir viðeigandi liði fjárfestinga.

Undir lið 5.2.2 Kröfur á vátryggingamiðlara skal færa kröfur á vátryggingamiðlara sem stofnað hefur verið til í frumtryggingastarfsemi félagsins.

Undir lið 5.2.3 Aðrar kröfur vegna frumtryggingastarfsemi skal færa kröfur sem ekki falla undir 5.2.1 eða 5.2.2 svo sem kröfur á önnur vátryggingafélög og umboðsmenn.

Undir lið 5.3 Kröfur vegna endurtryggingastarfsemi skal færa kröfur sem félagið á sem endurtryggjandi eða endurtryggingataki og ekki ber að færa undir aðra liði.

Undir lið 5.4 Aðrar kröfur skal færa kröfur sem ekki falla undir aðra liði. Þegar um verulegar fjárhæðir er að ræða skal gerð grein fyrir þeim í skýringum.

Undir lið 5.5 Kröfur vegna ógreiddra hlutafjár- eða stofnfjárloforða skal færa kröfur vegna innkallaðs hlutafjár eða stofnfjár sem er ógreitt.


Aðrar eignir.
29. gr.

Undir lið 6.1 Rekstrarfjármunir og aðrar efnislegar eignir skal færa rekstrarfjármuni og efnislegar eignir aðrar en húseignir og lóðir undir lið 3.1 svo sem innréttingar, áhöld og búnað og fyrirframgreiðslur vegna þeirra.

Undir lið 6.2 Sjóður og bankainnstæður skal færa sjóð og innstæður í öllum gjaldmiðlum sem eru til frjálsrar ráðstöfunar hjá lánastofnunum.

Undir lið 6.3 Eigin hlutabréf skal færa til eignar hluti í félaginu sem það á sjálft enda hafi þeir verið keyptir á síðustu tveimur reikningsárum í þeim tilgangi að selja þá aftur. Aðrir eigin hlutir skulu færðir til lækkunar á heildarhlutafé, sbr. lið 8.1.

Undir lið 6.4 Aðrar eignir skal færa eignir sem ekki falla undir aðra liði. Ef slíkar eignir eru verulegar skal gerð grein fyrir þeim í skýringum.


Fyrirframgreiddur kostnaður og áfallnar tekjur.
30. gr.

Undir lið 7.1 Áfallnir vextir skal færa vexti sem eru áfallnir í lok reikningsárs en gjaldfalla eftir lok þess.

Undir lið 7.2 Fyrirframgreiddur kostnaður vegna sölustarfsemi skal færa þann hluta kostnaðar við öflun vátrygginga sem stofnað er til á reikningsárinu en varðar síðari reikningsár.

Undir lið 7.3 Annar fyrirframgreiddur kostnaður og áfallnar tekjur skal færa önnur gjöld sem stofnað er til á reikningsárinu en varða síðari ár, og aðrar tekjur sem varða reikningsárið en innheimtast eftir lok þess. Ef þessi liður nemur verulegum fjárhæðum skal sundurliða hann í skýringum.


Skuldir og eigið fé.

Eigið fé.
31. gr.

Undir lið 8.1 Hlutafé eða stofnfé skal færa skráð hlutafé eða stofnfé félagsins sbr. þó lið 6.3 í 29. gr.

Undir lið 8.2 Yfirverðsreikningur hlutafjár eða stofnfjár skal færa yfirverð við útgáfu nýs hlutafjár eða stofnfjár í félaginu.

Undir lið 8.3 Lögbundinn varasjóður skal í hlutafélagi færa varasjóð sem stofnað er til samkvæmt 100. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög.

Undir lið 8.4 Endurmatsreikningur skal færa endurmat fastafjármuna og önnur áhrif almennra verðlagsbreytinga á rekstur og efnahag.

Undir lið 8.5 Aðrir varasjóðir skal sundurliða varasjóði sem myndaðir eru samkvæmt lögum eða samþykktum félagsins.

Undir lið 8.6 Óráðstafað eigið fé skal færa frjálst eigið fé frá fyrra ári að viðbættum hagnaði eða að frádregnu tapi ársins. Til frádráttar færist ráðstöfun á aðra eiginfjárliði og önnur lögmæt ráðstöfun.


Víkjandi skuldir.
32. gr.

Undir lið 9 Víkjandi skuldir skal færa skuldir félagsins sem samið hefur verið um að víki fyrir öllum öðrum skuldum þess.


Vátryggingaskuld.
33. gr.

Undir lið 10.1 Iðgjaldaskuld skal færa heildarfjárhæð skuldbindinga félagsins sem ætlað er að mæta áhættu og kostnaði eftir lok reikningsársins vegna einstakra vátryggingasamninga.

Undir lið 10.2 Tjónaskuld skal færa heildarskuldbindingar félagsins vegna tjóna reikningsársins og tjóna frá fyrri árum, tilkynntra og ótilkynntra, sem eru óuppgerð og ógreidd í lok reikningsársins, ásamt áætluðum kostnaði við einstök tjón, þ.m.t. kostnaði við að takmarka og koma í veg fyrir frekara tjón.

Undir lið 10.3 Útjöfnunarskuld skal færa fjárhæðir sem lagðar eru til hliðar til að mæta sveiflum í tjónareynslu félagsins frá ári til árs og vegna óvissu um endanlegar bótafjárhæðir.

Undir lið 10.4 Ágóðaskuld og afsláttur skal færa ógreidda ágóðahlutdeild og afslátt til vátryggingataka.

Undir lið 10.5 Önnur vátryggingaskuld skal færa vátryggingaskuld sem ekki er færð undir liði 10.1 - 10.4 svo sem líftryggingaskuld vegna lífendurtrygginga félags og aðra vátryggingaskuld af sérstökum toga. Gerð skal grein fyrir þessum lið í skýringum.

Yfirtaki eða yfirfæri félag vátryggingastofn skal gera grein fyrir breytingu á vátryggingaskuld vegna þessa í skýringum.


Aðrar skuldbindingar.
34. gr.

Undir lið 11.1 Lífeyrisskuldbinding skal færa skuldbindingar félagsins vegna áunninna lífeyrisréttinda og annarra hliðstæðra réttinda starfsmanna.

Undir lið 11.2 Skattskuldbinding skal færa frestaða skattskuldbindingu félagsins, sbr. 22. gr.

Undir lið 11.3 Aðrar skuldbindingar skal færa fjárhæðir vegna annarra skuldbindinga sem ekki hefur verið stofnað til vegna vátrygginga félagsins en mæta eiga tilteknu tapi, tilteknum skuldbindingum eða kostnaði á reikningsárinu eða frá fyrri árum þegar fjárhæð þeirra er óviss eða óvíst hvenær greiðsla fer fram. Í skýringum skal gerð grein fyrir þessum lið ef um verulega fjárhæð er að ræða.


Geymslufé frá endurtryggjendum.
35. gr.

Undir lið 12 Geymslufé frá endurtryggjendum skal færa geymslufé vegna endurtrygginga félagsins sem samkvæmt endurtryggingasamningum er í vörslu þess. Þessar fjárhæðir má ekki leggja við eða draga frá öðrum fjárhæðum sem endurtryggjendur kunna að skulda eða eiga inni hjá félaginu.


Viðskiptaskuldir.
36. gr.

Undir lið 13.1 Skuldir við samstæðu- og hlutdeildarfélög skal færa heildarfjárhæð skulda við þessi félög. Í skýringum skal sundurgreina þessar skuldir eftir eðli þeirra, sbr. liði 13.2 - 13.7.

Undir lið 13.2 Skuldir vegna frumtryggingastarfsemi skal færa skuldir við vátryggingataka, vátryggingafélög, umboðsmenn og vátryggingamiðlara sem stofnað hefur verið til í frumtryggingastarfsemi félagsins og ekki ber að færa annars staðar.

Undir lið 13.3 Skuldir vegna endurtryggingastarfsemi skal færa skuldir félagsins sem endurtryggjanda eða endurtryggingataka, og ekki ber að færa annars staðar.

Undir lið 13.4 Breytanleg skuldabréfalán skal færa skuldir félagsins í formi breytanlegra skuldabréfalána.

Undir lið 13.5 Skuldir við lánastofnanir skal færa allar skuldir félagsins við lánastofnanir.

Undir lið 13.6 Önnur skuldabréfalán skal færa skuldabréfalán félagsins sem ekki ber að færa annars staðar.


Undir lið 13.7 Aðrar skuldir skal færa skuldir sem ekki falla undir aðra liði, þ.m.t. ógreidda skatta. Þegar um verulegar fjárhæðir er að ræða skal gerð grein fyrir þeim í skýringum.


Áfallinn kostnaður og fyrirfram innheimtar tekjur.
37. gr.

Undir lið 14 Áfallinn kostnaður og fyrirfram innheimtar tekjur skal færa gjöld sem varða reikningsárið en koma til greiðslu síðar, og tekjur sem innheimtar hafa verið á reikningsárinu en varða síðari reikningsár og falla ekki undir aðra liði. Verulegar fjárhæðir undir þessum lið skal sundurgreina í skýringum.


V. KAFLI
Matsreglur.

Almenn ákvæði.
38. gr.

Mat á einstökum liðum ársreikningsins skal byggt á tilhlýðilegri varkárni og skal eingöngu færa tekjur sem áunnar eru fyrir lok reikningsárs og taka tillit til allra fyrirsjáanlegra skuldbindinga sem hafa myndast á reikningsárinu eða á fyrri reikningsárum. Hliðstæðum aðferðum skal beitt við matið frá ári til árs.


39. gr.

Beita skal sömu matsaðferðum innan sama liðar ársreiknings þegar um fjárfestingar er að ræða sbr. 26. gr. Í skýringum skal greint frá þeim matsaðferðum sem beitt er við hvern lið fjárfestinga.


Varanlegir rekstrarfjármunir o.fl.
40. gr.

Óefnislegar eignir samkvæmt lið 2, húseignir og lóðir samkvæmt lið 3.1 og varanlegir rekstrarfjármunir samkvæmt lið 6.1 skulu færðir á framreiknuðu kaup- eða kostnaðarverði. Framreiknað kaupverð er endurmetið verð samkvæmt breytingu á vísitölu neysluverðs, sbr. 57. gr.

Ef raunvirði varanlegra rekstrarfjármuna er verulega hærra en framreiknað kostnaðarverð þeirra af ástæðum sem taldar eru varanlegar er heimilt að hækka bókfært verð þeirra í ársreikningi.

Um myndun endurmatsreikninga meðal eiginfjárliða, sbr. 1. og 2. mgr., og ráðstöfun þeirra fer að lögum um ársreikninga.

Endurmetið kostnaðarverð eigna skv. 1. og 2. mgr., sem hafa takmarkaðan endingartíma, skal afskrifa á kerfisbundinn hátt þannig að afskriftir svari til verðrýrnunar eignanna. Óefnislegar eignir skulu þó ekki afskrifaðar á lengri tíma en fimm árum.

Þegar eignir samkvæmt þessari grein hafa verið seldar eftir lok reikningsársins, en áður en ársreikningur er gerður, eða ákveðið hefur verið að selja innan skamms, skal færa eignirnar á söluverði eða áætluðu söluverði að frádregnum útlögðum eða áætluðum sölukostnaði.


41. gr.

Ef raunvirði eigna skv. 40. gr. er lægra en bókfært verð þeirra og ástæður þess verða ekki taldar skammvinnar ber að færa bókfært verð þeirra niður til samræmis við hið lægra verðgildi. Niðurfærsluna skal færa á rekstrarlið 19.2 óregluleg gjöld. Endurmatsreikningur sem myndaður er með endurmati skv. 2. mgr. 40. gr., skal þó leystur upp áður en kemur til gjaldfærslu.

Ef eignir hafa verið færðar niður og ástæður lækkunarinnar eiga ekki lengur við ber að færa bókfært verð þeirra til fyrra horfs.


Verðbréf.
42. gr.

Skuldabréf skal færa til eignar miðað við þau vaxtakjör sem um var samið þegar bréfið var keypt eða móttekið, enda séu vaxtakjörin í samræmi við það sem almennt gerist á markaði. Hafi orðið breyting á markaðsvöxtum, sem telst varanleg og er talin hafa mikil áhrif, skal taka tillit til slíkrar breytingar við mat á skuldabréfaeign.

Skuldabréf skal færa með áföllnum verðbótum og gengismun á reikningsskiladegi. Verðbætur skal miða við viðeigandi vísitölu næsta mánaðar eftir lok reikningsárs. Skuldabréf í erlendum gjaldmiðli skal færa við kaupgengi í lok reikningsárs.

Óverðtryggð skuldabréf sem bera hæfilega nafnvexti miðað við vaxtakjör á markaði skal færa á nafnverði.

Við mat á skuldabréfaeign skal með hæfilegri niðurfærslu taka tillit til þeirrar tapshættu sem kann að vera fyrir hendi á uppgjörsdegi og skal færa niðurfærsluna undir lið 12.3 í rekstrarreikningi.


43. gr.

Hlutabréf skal færa á framreiknuðu kaupverði eða markaðsverði, hvort sem lægra er í lok reikningsárs, sbr. þó 44. gr.

Hlutdeildarskírteini skal færa á markaðsverði í lok reikningsárs.


44. gr.

Verðbréf, sem ekki eru ætluð til varanlegrar eignar og skráð eru á opinberu verðbréfaþingi, er heimilt að færa á markaðsverði. Tilgreina skal í skýringum ef þessu ákvæði er beitt. Hækkun eða lækkun á matsverði slíkra eigna skal færa í rekstrarreikning. Sé þessi heimild notuð og verðbréf sem falla undir sama lið eru jafnframt metin skv. 42. eða 43. gr. skal skipta viðkomandi lið í efnahagsreikningi með hliðsjón af 39. gr.


45. gr.

Þegar fjárfestingar eru færðar á framreiknuðu kaupverði skal tilgreina markaðsverð þeirra í skýringum ársreikningsins og með sama hætti skal tilgreina framreiknað kaupverð þeirra fjárfestinga sem færðar eru á markaðsverði.

Þegar fjárfestingar eru skráðar á opinberu verðbréfaþingi telst markaðsverð vera verðið á síðasta skráningardegi reikningsársins.

Þegar markaðsverð fjárfestinga sem ekki eru skráðar á opinberu verðbréfaþingi er til, skal miða við meðalverð þeirra á síðasta skráningardegi reikningsársins ef meðalverð liggur fyrir þá, annars á næsta degi á undan þegar meðalverð lá fyrir.

Þegar fjárfestingar samkvæmt 2. og 3. mgr. hafa verið seldar eftir lok reikningsársins, en áður en ársreikningur er gerður, eða ákveðið hefur verið að selja innan skamms, skal færa eignirnar á söluverði eða áætluðu söluverði að frádregnum útlögðum eða áætluðum sölukostnaði.


Eignarhluti í dóttur- og hlutdeildarfélögum.
46. gr.

Eignarhluti félags í dótturfélögum og hlutdeildarfélögum skal færður samkvæmt hlutdeildaraðferð í samræmi við hlutdeild félagsins í eigin fé þessara félaga.

Séu eignir og skuldir dótturfélags metnar á annan hátt en hjá móðurfélaginu skulu þessar eignir og skuldir endurmetnar eftir aðferðum móðurfélagsins, nema sá munur sé óverulegur.


Kröfur.
47. gr.

Meta skal kröfur með hliðsjón af tapshættu og færa framlag í afskriftarreikning eftir niðurstöðu slíks mats. Afskriftarreikningur skal myndaður með sérstökum og almennum niðurfærslum sem draga skal frá viðkomandi liðum í efnahagsreikningi. Framlag í afskriftarreikning skal færa undir lið 16.2 Önnur gjöld í rekstrarreikningi.


48. gr.

Eignir og skuldir í erlendri mynt skulu umreiknaðar í íslenskar krónur á opinberu gengi í lok reikningsárs.


Vátryggingaskuld.
49. gr.

Vátryggingaskuldin skal metin þannig að ætla megi að félagið geti á hverjum tíma mætt öllum skuldbindingum sínum, vegna vátryggingasamninga, hverju nafni sem nefnast, sem unnt er að sjá fyrir með bestu yfirsýn.


50. gr.

Iðgjaldaskuld skal að jafnaði reiknuð fyrir hverja vátryggingu fyrir sig. Þó má nota tölfræðilegar aðferðir og reikna iðgjaldaskuldina sem ákveðið hlutfall iðgjalda eða hlutfallslega eftir mánaðareglu ef ætla má að útreikningur samkvæmt þeim gefi fullnægjandi nálgun fyrir þann hluta iðgjalda sem yfirfærist á næsta eða næstu reikningsár. Beita skal hliðstæðum reglum við útreikning á yfirfærðum sölukostnaði og beitt er við ákvörðun iðgjaldaskuldarinnar. Sé beitt aðferðum samkvæmt 2. málsl. skal félagið endurskoða reglulega aðferðir sem notaðar eru.

Þegar vátryggingaáhættan dreifist misjafnlega á vátryggingatímabilið þannig að iðgjaldaskuldin, reiknuð samkvæmt 1. mgr., myndi ekki samsvara skuldbindingu félagsins skal taka tillit til þess þannig að iðgjaldaskuldin svari til áhættunnar á þeim hluta vátryggingatímabilsins sem eftir er í lok reikningsársins.

Þegar iðgjöld í gildi í árslok eru ekki talin næg til að mæta áhættu og kostnaði á tímabilinu og iðgjaldaskuldin, reiknuð samkvæmt 1. og 2. mgr., svarar ekki til skuldbindinga félagsins skal hækka iðgjaldaskuldina sem svarar mati á því sem á vantar. Gerð skal grein fyrir hækkuninni í skýringum ef um verulega fjárhæð er að ræða.
Hluta endurtryggjenda í iðgjaldaskuld skal meta með hliðstæðum aðferðum og iðgjaldaskuld í heild og í samræmi við endurtryggingasamninga félagsins.


51. gr.

Tjónaskuldina skal að jafnaði reikna á grundvelli áætlunar í hverju tjónstilviki fyrir sig um þann tjónakostnað, sbr. 2. mgr. 33. gr., sem búast má við að félagið sé skuldbundið að greiða. Heimilt er að beita tölfræðilegum aðferðum við matið enda séu þær aðferðir miðaðar við tegund og eðli viðkomandi vátyggingagreina og þann kostnað sem fylgir tjónsuppgjöri.

Þegar bætur eiga að greiðast í formi jafngreiðslna skal tjónaskuldin metin samkvæmt viðurkenndum tryggingafræðilegum aðferðum.

Við ákvörðun tjónaskuldar skal einnig leggja mat á tjónakostnað vegna orðinna en ótilkynntra tjóna í lok reikningsársins. Matið skal reist á reynslu fyrri ára að teknu tilliti til breytinga sem kunna að hafa orðið á fjölda og stærð þeirra tjóna sem að jafnaði eru tilkynnt eftir lok reikningsárs. Félagið skal reglulega endurskoða þær aðferðir sem beitt er að teknu tilliti til breytinga sem kunna að hafa orðið á vátryggingastofni og tjónareynslu.

Hluta endurtryggjenda í tjónaskuld skal meta með hliðstæðum aðferðum og tjónaskuld í heild og í samræmi við endurtryggingasamninga félagsins.


52. gr.

Tjónaskuldin skal ákvörðuð þannig að hún nægi til að mæta öllum greiðslum í framtíðinni vegna tjóna og beins og óbeins kostnaðar sem á þau falla. Óheimilt er að beita innbyggðri lækkun eða núvirtu mati tjónaskuldarinnar eða á annan hátt víkja frá því sem endanleg áætlun um fjárhæð hennar segir til um, sbr. þó 53. gr. Taka skal tillit til allra þátta þar að lútandi, þar með talinn kostnað sem kann að taka breytingum þar til að greiðslu kemur. Til frádráttar skal koma varfærnislegt mat á þeim eignum og réttindum sem félagið hefur yfirtekið eða búist er við að það muni öðlast yfirráð yfir vegna tjónanna. Gera skal grein fyrir þeim í skýringum sé um verulegar fjárhæðir að ræða.

Þegar félag er aðili að samtryggingu með öðrum vátryggingafélögum á Evrópska efnahagssvæðinu skal tjónaskuldin aldrei vera lægri hlutfallslega en sú tjónaskuld sem ákvörðuð er af því félagi sem er í forystu á samtryggingarsamningnum.


53. gr.

Heimilt er að núvirða eða lækka tjónaskuld með tilliti til tekna af fjárfestingum því aðeins að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:

1. Uppgjör tjóna sem núvirt eru, eða færð eru niður, fari að jafnaði fram eftir fjögur ár eða meira frá lokum reikningsárs.
2. Núvirðingu er beitt samkvæmt viðurkenndum varfærnislegum aðferðum. Allar breytingar á aðferðum sem beitt er skulu tilkynntar Vátryggingaeftirlitinu fyrirfram.
3. Þegar tjónsfjárhæð er metin skal taka með alla kostnaðarþætti sem mögulega geta hækkað fjárhæðina fram til uppgjörsdags.
4. Félagið hafi undir höndum fullnægjandi gögn til að unnt sé að byggja áreiðanlegt líkan á þeim um uppgjörshraða tjónbóta.
5. Vextir til að reikna núvirði skuldbindinga miðist við varlegt mat á vöxtum í framtíðinni af eignum sem fjárfest er í til að mæta tjónaskuldinni á því tímabili sem greiða á tjónbæturnar. Þeir mega ekki vera hærri en sem svarar því sem lægra er:
- ávöxtun af slíkum eignum að meðaltali á næstliðnum fimm árum,
- ávöxtun af slíkum eignum á næstliðnu reikningsári.

Í skýringum skal tjónaskuldin koma fram eins og hún er fyrir lækkun eða núvirðingu samkvæmt 1. mgr. með sundurliðun á tegundir bóta. Greint skal frá þeim aðferðum sem beitt er samkvæmt 3. og 5. tölul. 1. mgr. og aðferðum við að ákvarða lengd tímabilsins sem miðað er við í 1. tölul. 1. mgr.


54. gr.

Útjöfnunarskuldin svarar til þeirrar fjárhæðar sem lögð er til hliðar til að mæta sveiflum í tjónareynslu félagsins frá ári til árs svo og vegna óvissu um endanlegar bótafjárhæðir samanborið við mat þeirra við ákvörðun tjónaskuldarinnar hverju sinni.

Útjöfnunarskuldin skal reiknuð út frá tjónareynslu félagsins yfir lengra tímabil í einstökum greinum eða greinaflokkum vátrygginga hjá félaginu og samkvæmt fyrirfram ákveðnum almennum tölfræðilegum aðferðum.

Vátryggingaeftirlitið ákveður hámark útjöfnunarskuldarinnar í einstökum vátryggingagreinum og setur nánari reglur um útreikninginn, sbr. þó 4. mgr. Hámarkið skal m.a. ákveðið á grundvelli fyrirliggjandi tölfræðilegra gagna þannig að yfirgnæfandi líkur séu taldar á því að útjöfnunarskuldin nægi til að mæta sveiflum í tjónareynslu í fyrirsjáanlegri framtíð. Breyting á útjöfnunarskuldinni færist sem sérstakur liður í rekstrarreikningi undir tekjum og gjöldum í vátryggingarekstri. Vátryggingaeftirlitið getur heimilað við sérstakar aðstæður, að útjöfnunarskuld sé ráðstafað með öðrum hætti en til að mæta tapi á vátryggingarekstrinum.

Þegar bókfærð iðgjöld greiðsluvátrygginga nema meiru en 4% af bókfærðum iðgjöldum félags samanlagt eða 200 milljónum kr. eða meiru, skal árlega gjaldfæra framlag til myndunar útjöfnunarskuldar í þessum greinaflokki. Gjaldfærslan skal á hverju reikningsári nema 75% af rekstrarniðurstöðu þessara vátrygginga, þó aldrei meiru en nemur 12% af bókfærðum iðgjöldum greiðsluvátrygginga. Framlög skulu falla niður nemi útjöfnunarskuldin 150% bókfærðra iðgjalda eins og þau hafa hæst verið á einu ári á síðasta fimm ára tímabili.

55. gr.

Ágóðaskuldin svarar til fjárhæða sem færðar eru vátryggingatökum og vátryggðum til góða og rekja má til afkomu eða tjónareynslu félagsins í heild eða í einstökum vátryggingagreinum.

Vátryggingaeftirlitið getur heimilað að sá hluti ágóðaskuldar sem ekki hefur verið ráðstafað til einstakra vátryggingataka og vátryggðra verði notaður til að mæta tapi á vátryggingarekstrinum enda hafi útjöfnunarskuldin verið tekjufærð að fullu.

Þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi, svo sem þegar skilyrði laga um vátryggingastarfsemi um lágmarksgjaldþol vátryggingafélaga eru ekki uppfyllt, getur Vátryggingaeftirlitið heimilað að óráðstöfuð ágóðaskuld verði reiknuð sem hluti af gjaldþoli félagsins.


56. gr.

Þegar vátryggingar eru þess eðlis að upplýsingar um iðgjöld eða tjón á upphafsári samninga eru ófullnægjandi í lok reikningsárs, þannig að ekki er unnt að beita aðferðum 49.- 55. gr. við ákvörðun vátryggingaskuldar vegna hlutaðeigandi samninga, skal annarri hvorri eftirfarandi aðferða beitt:

1. Mismunur bókfærðra iðgjalda annars vegar og bókfærðra tjóna og kostnaðar hins vegar skal færður sem tjónaskuld.
2. Tiltekið hlutfall bókfærðra iðgjalda skal fært sem tjónaskuld. Þeirri aðferð skal beitt þegar það á við með tilliti til þess hvers eðlis hin vátryggða áhætta er.

Þegar þörf er á, vegna þess að skuldbindingar félagsins eru taldar meiri, skal tjónaskuld samkvæmt 1. eða 2. tölul. hækkuð sem því nemur.

Aðferðinni sem valin er skal beitt kerfisbundið árin á eftir nema aðstæður breytist. Í skýringum skal getið þeirrar aðferðar sem beitt er og ástæðum þess. Sé aðferðinni breytt skal þess getið sérstaklega hvaða áhrif það hefur á eignir, skuldbindingar, fjárhagsstöðu og rekstrarniðurstöðu hjá félaginu. Einnig skal getið tímalengdarinnar þar til tjónaskuldin verður metin samkvæmt hefðbundnum aðferðum.

Jafnskjótt og fullnægjandi upplýsingar hafa borist félaginu skal tjónaskuldin metin með aðferðum 49. - 55. gr. og eigi síðar en í lok 3. árs frá lokum upphafsárs samninga.


Áhrif verðlagsbreytinga.
57. gr.

Áhrif verðlagsbreytinga á rekstur og fjárhagsstöðu félags skal reikna með eftirfarandi hætti og færa í ársreikninginn, enda sé það í samræmi við góða reikningsskilavenju:

1. Áhrif verðlagsbreytinga á peningalegar eignir og skuldir, þ.m.t. vátryggingaskuld, skulu reiknuð og færð undir lið 13 í rekstrarreikningi.
2. Eignir skv. 40. og 43. gr. skulu endurmetnar með því að framreikna upphaflegt stofnverð þeirra og afskriftir til loka reikningsársins og skal breytingin færð á viðkomandi eignaliði.

Hin reiknuðu áhrif verðlagsbreytinga skulu færð á endurmatsreikning meðal eiginfjárliða. Einnig skulu eiginfjárliðir leiðréttir vegna áhrifa verðlagsbreytinga eftir því sem við getur átt og færist mótfærsla þess endurmats á endurmatsreikninginn. Við útreikninginn skal miða við breytingu á vísitölu neysluverðs.

Í skýringum skal gera grein fyrir útreikningi á áhrifum verðlagsbreytinga samkvæmt þessari grein.


VI. KAFLI
Skýringar.

Almenn ákvæði.
58. gr.

Í skýringum skal veita upplýsingar um þau atriði sem tilgreind eru í II. - V. kafla. Í eftirtöldum liðum kafla III og IV er gert ráð fyrir upplýsingum í skýringum:
Í rekstrarreikningi:

Kafla III: lið 2 í 10. gr.,lið 3 í 11. gr., lið 5 í 13. gr., lið 6 í 14. gr., lið 7 í 15. gr., lið 8 í 16. gr., lið 9 í 17. gr., liðum 11.4 - 11.7 í 18. gr., liðum 16 og 17 í 22. gr. og lið 19 í 23. gr.

Í efnahagsreikningi:
Kafla IV: lið 2 í 25. gr.,liðum 3.1, 3.3.5 og 3.3.7 í 26. gr., liðum 5.1 og 5.4 í 28. gr., lið 6.4 í 29. gr., lið 7.3 í 30. gr., lið 10.5 í 33. gr., lið 11.3 í 34. gr., liðum 13.1 og 13.7 í 36. gr. og lið 14 í 37. gr.


59. gr.

Gera skal grein fyrir þeim aðferðum sem beitt er við mat á hinum ýmsu liðum ársreiknings. Greint skal frá aðferðum við endurmat, afskriftir og útreikning verðbreytinga svo og við uppfærslur og niðurfærslur. Einnig skal tilgreina það gengi sem miðað er við þegar einstakir liðir eru umreiknaðir frá öðrum gjaldmiðli í íslenskar krónur.

60. gr.

Þegar fjárhæðir eru ekki samanburðarhæfar milli ára í efnahagsreikningi eða rekstrarreikningi skal í skýringum gera grein fyrir ástæðum þess og áhrifum sem það hefur á samanburðarhæfi einstakra liða.


61. gr.

Tilgreina skal nöfn, heimilisföng og félagsform dótturfélaga og hlutdeildarfélaga. Geta skal hlutdeildar í hverju þeirra, eigin fjár og rekstrarniðurstöðu samkvæmt síðasta ársreikningi. Þegar félagið er dótturfélag skal tilgreina nafn og heimilisfang móðurfélags sem gerir samstæðureikning.

Víkja má frá ákvæðum 1. mgr. um upplýsingar um eigið fé og rekstrarárangur einstakra félaga annarra en vátryggingafélaga, ef eignarhlutur er undir 50% af eigin fé viðkomandi félags og upplýsingarnar hafa óverulega þýðingu eða þær geta valdið viðkomandi félagi tjóni, enda sé ástæðunnar getið.


62. gr.

Í skýringum skal tilgreina nöfn, heimilisföng og form félaga með ótakmarkaðri ábyrgð sem félagið er aðili að. Ekki þarf að gefa þessar upplýsingar ef þær hafa óverulega þýðingu.


63. gr.

Hafi samningar verið gerðir eða færslur átt sér stað sem teljast meiri háttar milli félagsins annars vegar og félaga sem beint eða óbeint eru tengd því hins vegar, skal gerð grein fyrir eðli þeirra og umfangi og hvernig aðilar ákvarða verð sín í milli.


Eignarliðir.
64. gr.

Fyrir hvern eignarliðanna 2Óefnislegar eignir, 3.1Húseignir og lóðir og 6.1Rekstrarfjármunir og aðrar efnislegar eignir skal eftirfarandi koma fram:

1. Bókfært verð í upphafi reikningsárs.
2. Eignfært á árinu.
3. Selt og niðurlagt á árinu.
4. Fært á aðra liði á árinu.
5. Endurmat á árinu.
6. Afskrifað alls í upphafi reikningsárs.
7. Afskrifað og niðurfært á árinu.
8. Leiðréttingar vegna fyrri afskrifta og niðurfærslna þess sem selt er eða látið er af hendi á árinu.
9. Samanlagðar afskriftir og niðurfærslur til loka reikningsárs.
10. Bókfært verð í lok reikningsárs.


65. gr.

Upplýsa skal um síðasta opinbert fasteignamat og um vátryggingaverðmæti varanlegra rekstrarfjármuna.

Gera skal grein fyrir bókfærðu verði húseigna og lóða sem félagið hefur til eigin nota. Noti félagið hluta húseignar skal reikna verðið hlutfallslega.


66. gr.

Tilgreina skal fjárhæðir lána svo og veðsetningar, ábyrgðir og tryggingar sem veittar hafa verið félagsaðilum eða stjórnendum félags eða móðurfélags þess, vegna tengsla þessara aðila við félögin, sundurliðað á hvern flokk fyrir sig ásamt upplýsingum um vexti, greiðslukjör og aðra helstu skilmála.

Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við gagnvart einstaklingum nátengdum þeim sem þar eru taldir.


67. gr.

Í hlutafélagi skal tilgreina fjölda hluta, nafnverð og bókfært verð. Sundurliða skal hlutafé eftir hlutaflokkum og tilgreina fjölda hluta og nafnverð þeirra.

Gerð skal grein fyrir eign félagsins á eigin hlutum í lok reikningsársins, bókfærðu verði þeirra, fjölda og nafnverði ásamt hlutfalli af heildarhlutafé. Greint skal frá fjölda og nafnverði eigin hlutabréfa sem aflað hefur verið á reikningsárinu og bréfa sem félagið hefur látið af hendi á reikningsárinu, kaup- og söluverði þeirra ásamt hlutfalli af heildarhlutafé. Upplýst skal um ástæður öflunar eigin hlutabréfa á reikningsárinu.

Sömu upplýsingar og getið er í 2. mgr. skal veita ef tekið hefur verið veð í eigin hlutum.

Upplýsa skal með sama hætti um hluti í félagi sem dótturfélag hefur eignast eða látið af hendi á reikningsárinu.Skulda- og eiginfjárliðir.
68. gr.

Sundurliða skal allar breytingar á eiginfjárliðum félagsins á reikningsárinu.

Upplýst skal um reiknað gjaldþol félagsins í lok reikningsárs og lágmarksgjaldþol samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi, og gerð grein fyrir mismuninum ef gjaldþol er annað en bókfært eigið fé samkvæmt efnahagsreikningi.


69. gr.

Þegar verulegur munur er á tjónagreiðslum og tjónaskuld til næsta árs vegna tjóna sem tilheyra fyrri reikningsárum annars vegar, og tjónaskuld frá fyrra ári vegna tjóna sömu reikningsára hins vegar, skal tilgreina mismuninn í skýringum með sundurliðun heildarfjárhæða og fjárhæða í eigin hlut eftir greinaflokkum vátrygginga. Sé félagið endurtryggjandi skal við samanburðinn taka með iðgjöld og umboðslaun á reikningsárinu vegna fyrri vátryggingaára.

Greint skal frá því hafi frá vátryggingaskuldinni verið dregið virði eigna eða réttinda sem félagið hefur yfirtekið eða mun yfirtaka við greiðslu bóta og fjárhæð þeirra sé það verulegt. Séu veruleg verðmæti af þessu tagi í vörslu félagsins skal sundurliða þau eftir tegund og greint frá hluta endurtryggjenda í þeim. Samsvarandi upplýsingar skal tilgreina fyrir reikningsárið á undan.


70. gr.

Greina skal frá samningum sem gerðir hafa verið við stjórn, framkvæmdastjóra og starfsmenn um eftirlaun og hliðstæð réttindi, og tilgreina heildarfjárhæðir. Áfallnar skuldbindingar félags vegna þessa skulu sundurliðaðar á stjórn, framkvæmdastjóra og aðra stjórnendur annars vegar og aðra starfsmenn hins vegar.


71. gr.

Veita skal upplýsingar um þann hluta áhvílandi lána sem á hverju ári fellur til greiðslu næstu fimm árin frá lokum reikningsárs og það sem fellur til greiðslu síðar.


72. gr.

Hafi félagið tekið skuldabréfalán er veitir lánardrottnum rétt til að breyta kröfum sínum á hendur félaginu í hluti í því, skal tilgreina eftirstöðvar hvers láns, skiptihlutfall og frest þann sem veittur hefur verið til breytingar í hluti.

Hafi skuldabréfalán með rétti til vaxta verið tekið og vaxtakjörin ráðast að nokkru eða öllu leyti af rekstrarárangri félagsins skal tilgreina eftirstöðvar hvers láns og hina umsömdu ávöxtun.

Sams konar upplýsingar skal veita um hlutdeildarskírteini og önnur sambærileg réttindi eftir því sem við á, m.a. um fjölda þeirra.


73. gr.

Upplýsa skal um heildarfjárhæð skatta vegna rekstrar á reikningsárinu og eigna í lok þess og óvenjulegar skattalegar tekjur eða gjöld sem áhrif hafa á niðurstöðuna á reikningsárinu.

Gefa skal upplýsingar um frestaða skattskuldbindingu, sbr. lið 17 í rekstrarreikningi og lið 11.2 í efnahagsreikningi, vegna mismunar á gjaldfærðum sköttum á reikningsárinu og fyrri árum annars vegar, og þeim sköttum sem álagðir eru vegna sömu ára hins vegar, nema þessar upplýsingar hafi óverulega þýðingu. Upplýsingarnar skulu bera með sér á hvaða liðum ársreiknings skattkvöðin hvílir.


74. gr.

Hafi félag sett eignir að veði skal veita upplýsingar um fjárhæð veðsetninganna og bókfært verð veðsettra eigna sundurliðað eftir eignum. Heildartryggingar í þágu dótturfélaga og annarra félaga innan sömu félagasamstæðu skulu tilgreindar sérstaklega.


75. gr.

Gera skal grein fyrir virkum afleiðuviðskiptum þar sem sérstaklega komi fram, fyrir hverja tegund viðskipta, fjárhæðir samninga og áhrif þeirra á ársreikninginn. Þá skal koma fram í hvaða tilgangi þeir eru gerðir svo sem til að draga úr áhrifum vaxtabreytinga, gengisbreytinga eða breytinga á markaðsverði. Tekjur og gjöld vegna þessara viðskipta eru færð í rekstrarliði 11Fjárfestingartekjur eða 12Fjárfestingargjöld.


76. gr.

Veita skal upplýsingar um heildarfjárhæðir ábyrgðar- og tryggingaskuldbindinga, seld viðskiptabréf og aðrar fjárskuldbindingar sem ekki eru tilfærðar í efnahagsreikningi, að því leyti sem það skiptir máli við mat á fjárhagsstöðu. Hafi félagið gert leigusamninga sem nema verulegum fjárhæðum skulu slíkar skuldbindingar tilgreindar sérstaklega. Skuldbindingar gagnvart móðurfélagi og dótturfélögum þess skal einnig tilgreina sérstaklega.


Rekstrarliðir.
77. gr.

Sundurliða skal liði rekstrarreiknings samkvæmt 78. gr. á eftirfarandi greinaflokka vátrygginga:

1. Eignatryggingar.
2. Sjótryggingar, flugtryggingar og farmtryggingar.
3. Lögboðnar ökutækjatryggingar.
4. Aðrar ökutækjatryggingar.
5. Almennar ábyrgðartryggingar.
6. Greiðslu- og efndavátryggingar.
7. Slysa- og sjúkratryggingar.
8. Réttaraðstoðartryggingar.
9. Ferðamannaaðstoð.
10. Aðrar frumtryggingar.
11. Innlendar endurtryggingar.
12. Erlendar endurtryggingar.

Geti vátryggingar tilheyrt fleirum en einum flokki 1 - 9, skulu þær taldar til þess flokks þar sem meginhluti áhættunnar er.

Nái bókfærð iðgjöld frumtrygginga ekki 50 milljónum króna í greinaflokki má telja hann til greinaflokks 10 Aðrar frumtryggingar. Nemi bókfærð iðgjöld vegna endurtrygginga minna en 10% af bókfærðum iðgjöldum félagsins samanlagt má telja endurtryggingar í einum greinaflokki. Ávallt skal að lágmarki sundurliða þá þrjá greinaflokka félagsins þar sem bókfærð iðgjöld eru mest.


78. gr.

Eftirfarandi rekstrarliði skal sundurliða á greinaflokka vátrygginga, sbr. 77. gr.:

1. Bókfærð iðgjöld.
2. Iðgjöld ársins.
3. Tjón ársins.
4. Ágóðahluta og afslátt að frádregnum hluta endurtryggjenda.
5. Rekstrarkostnað og annan kostnað að frádregnum hluta endurtryggjenda.
6. Til endurtryggjenda.
7. Breytingu á útjöfnunarskuld.
8. Fjárfestingartekjur og aðrar tekjur að frádregnum hluta endurtryggjenda.
9. Hagnað eða tap af vátryggingarekstri.

Einstakir liðir svara til samsvarandi liða rekstrarreiknings eftir því sem við á og skal tilgreina samtölu allra greinaflokka.

Tilgreina skal niðurstöðu gagnvart endurtryggjendum samkvæmt 6. tölul. í heild á reikningsárinu, þ.e. mismun iðgjalda og tjóna að umboðslaunum, ágóðahluta, vöxtum af geymslufé og breytingum á vátryggingaskuld endurtryggjenda meðtöldum.

Bókfærð iðgjöld innlendra og erlendra endurtrygginga skal sundurliða á skaðatryggingar og líftryggingar eftir því sem við verður komið.

Nemi bókfærð iðgjöld frumtrygginga vegna starfsemi félags erlendis meiru en 5% samanlagðra bókfærðra iðgjalda, skal sundurliða iðgjöldin á önnur aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins og ríki utan þess.


79. gr.

Greint skal frá meðalfjölda starfsmanna miðað við fullt starf á reikningsárinu og starfsmannakostnaði. Kostnaðinn skal sundurliða á laun, eftirlaun og launatengd gjöld.

Gefa skal upplýsingar um heildarlaun og þóknun til stjórnar og framkvæmdastjóra, sundurliðað á laun og þóknun, gjaldfærð áunnin eftirlaunaréttindi og launatengd gjöld sem tengjast þessum gjaldfærslum.

Greina skal frá heildarfjárhæð umboðslauna vegna frumtrygginga á reikningsárinu þ.m.t. umboðslaunum vegna öflunar vátrygginga, vegna endurnýjunar og innheimtu og vegna rekstrar vátryggingastofnsins.


Fimm ára yfirlit.
80. gr.

Ársreikningur skal hafa að geyma yfirlit með helstu niðurstöðutölum og kennitölum úr rekstri og efnahag félagsins í heild á reikningsárinu og samsvarandi upplýsingum fjögurra undangenginna reikningsára. Í yfirlitinu skal að lágmarki koma fram:

1. Eigin iðgjöld.
2. Eigin tjón.
3. Hreinn rekstrarkostnaður.
4. Fjárfestingartekjur og aðrar tekjur af vátryggingarekstri.
5. Hagnaður eða tap af vátryggingarekstri.
6. Hagnaður eða tap af fjármálarekstri.
7. Hagnaður eða tap ársins fyrir skatta.
8. Skattar.
9. Hagnaður eða tap ársins.
10. Eigin vátryggingaskuld.
11. Eigið fé.
12. Eignir samtals.

Í yfirlitinu skulu eftirfarandi kennitölur koma fram:

1. Tjónahlutfall. Hlutfallið milli eigin tjóna og eigin iðgjalda.
2. Kostnaðarhlutfall. Hlutfallið milli hreins rekstrarkostnaðar og eigin iðgjalda.
3. Hlutfall milli fjárfestingartekna og annarra tekna af vátryggingarekstri, og eigin iðgjalda.
4. Samanlögð hlutföll í 1. og 2. tölul. að frádregnu hlutfalli í 3. tölul.
5. Hlutfall milli eigin fjár og eigin iðgjalda.
6. Hlutfall milli eigin vátryggingaskuldar og eigin iðgjalda.
7. Samanlögð hlutföll í 5. og 6. tölul.
8. Gjaldþolshlutfall. Hlutfallið milli gjaldþols og lágmarksgjaldþols samkvæmt lögum um
vátryggingastarfsemi.

Upplýsingar skv. 1. og 2. mgr. skulu eins og frekast er unnt vera sambærilegar milli ára. Þess skal getið sérstaklega ef svo er ekki og ástæðna þess. Sé ekki unnt að birta tölur sem bera má saman milli ára er heimilt að birta yfirlit yfir skemmra tímabil en fimm ár.


VII. KAFLI
Skýrsla stjórnar.
81. gr.

Í skýrslu stjórnar með ársreikningi skal upplýsa um atriði sem eru mikilvæg við mat á fjárhagslegri stöðu félags og afkomu þess á reikningsárinu og ekki koma fram í rekstrarreikningi eða efnahagsreikningi eða í skýringum með þeim, nema sérstakar ástæður séu til að ætla að slíkt geti skaðað félagið. Einnig skal veita upplýsingar um mikilvæg atvik sem orðið hafa eftir lok reikningsársins, um framtíðarhorfur félagsins og um útibú erlendis ef einhver eru. Í skýrslunni skal gera grein fyrir tillögu stjórnar um ráðstöfun hagnaðar eða jöfnun taps á reikningsárinu.

Í hlutafélögum skal upplýsa um fjölda hluthafa í upphafi og lok reikningsárs og greina frá eignarhluta þeirra hluthafa sem eiga a.m.k. 10% hlutafjár í félaginu í lok reikningsárs. Í öðrum félögum skal greina frá því hvernig eignaraðild að þeim er háttað og upplýsa skal um atkvæðavægi og hvernig stjórnarkjör fer fram.


82. gr.

Ársreikningur ásamt ársskýrslu og áritun löggilts endurskoðanda skal liggja frammi, og til afhendingar ef óskað er, á afgreiðslustað félagsins eftir samþykkt hans á aðalfundi. Krefjast má hóflegs gjalds fyrir afhendingu ársreikningsins, sem ekki má vera hærra en nemur kostnaði félagsins þar að lútandi.


VIII. KAFLI
Gildistökuákvæði.
83. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 5. mgr. 44. gr. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi og með hliðsjón af tilskipun ráðherraráðs ESB frá 19. desember 1991 91/674/EBE um ársreikninga og samstæðureikninga vátryggingafélaga, tilskipun ráðsins 78/473/EBE um samtryggingar, svo og tilskipun 87/343/EBE um greiðslu- og efndavátryggingar með breytingu samkvæmt tilskipun 92/49/EBE. Reglugerðin öðlast þegar gildi og kemur í fyrsta sinn til framkvæmda við gerð ársreiknings fyrir árið 1996.

Ákvæði til bráðabirgða.

Við gerð ársreiknings fyrir árið 1996 er heimilt að víkja frá ákvæðum 60. gr.

Áhættusjóður, sem myndaður var samkvæmt 19. gr. laga nr. 50/1978 um vátryggingarstarfsemi, skal við gildistöku reglugerðar þessarar vera óbundið eigið fé. Geta skal um ráðstöfun áhættusjóðs á árinu í skýringum.


Viðskiptaráðuneytinu, 26. nóvember 1996.

Finnur Ingólfsson.
Halldór J. Kristjánsson.

fylgiskjal við rg. 613/1996
fylgiskjal við rg. 613/1996
fylgiskjal við rg. 613/1996

fylgiskjal_613_1996_4


Þetta vefsvæði byggir á Eplica