Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

507/2000

Reglugerð um kærunefnd skv. lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.

1. gr. Kæra ákvörðunar.

Eftirlitsskyldir aðilar og aðrir sem eru aðilar máls geta skotið ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins um réttindi sín og skyldur til sérstakrar kærunefndar. Úrskurðir kærunefndar eru endanlegir á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til viðskiptaráðherra.

2. gr. Kærunefnd.

Kærunefnd er skipuð af viðskiptaráðherra til þriggja ára í senn. Í kærunefnd sitja þrír menn, og jafnmargir til vara. Þeir skulu allir tilnefndir af Hæstarétti. Formaður og varamaður hans skulu uppfylla hæfisskilyrði hæstaréttardómara en aðrir nefndarmenn skulu hafa faglega kunnáttu á sviði fjármagnsmarkaðar. Nefndarmenn mega ekki vera stjórnendur, starfsmenn, endurskoðendur, lögmenn eða tryggingastærðfræðingar eftirlitsskyldra aðila.

Kostnaður við störf kærunefndar greiðist úr ríkissjóði. Þóknun til nefndarmanna er ákveðin af viðskiptaráðherra.

Nefndinni er heimilt að kveðja sér til ráðuneytis sérfróða aðila við úrskurð einstakra mála.

3. gr. Kærufrestur.

Skrifleg kæra skal berast nefndinni innan þriggja mánaða frá því að aðila máls skv. 1. gr. var tilkynnt um ákvörðunina. Kæru sem berst eftir lok kærufrests skal að öllu jöfnu vísa frá nefndinni.

4. gr. Réttaráhrif kæru.

Kæra til kærunefndar frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins. Kærunefnd er þó heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar meðan kæra er til meðferðar þegar sérstakar ástæður mæla með því í samræmi við stjórnsýslulög.

5. gr. Störf og valdssvið kærunefndar.

Formaður boðar fundi eftir þörfum. Fundir kærunefndar eru því aðeins lögmætir að nefndin sé fullskipuð.

Kærunefndin skal ákveða tímafresti sem tryggja hraða málsmeðferð kærumála. Nefndin skal setja sér starfsreglur, sem viðskiptaráðherra staðfestir.

Fjármálaeftirlitinu og viðkomandi eftirlitsskyldum aðila er skylt að afhenda nefndinni þau gögn sem hún óskar eftir vegna máls sem er til úrskurðar hjá nefndinni.

Heimilt er að gefa aðilum máls og Fjármálaeftirlitinu kost á að koma gögnum og sjónarmiðum á framfæri við nefndina áður en mál er tekið til úrskurðar innan þess frests sem nefndin setur hverju sinni.

6. gr. Úrskurðir kærunefndar.

Nefndin úrskurðar sjálf um hvort mál heyrir undir nefndina og hvort málskotsaðili hafi rétt til málskots. Hún úrskurðar á grundvelli gagna sem fyrir hana eru lögð eða hún aflar sér.

Úrskurðir nefndarinnar skulu vera rökstuddir og skulu liggja fyrir innan átta vikna frá því að kæra berst henni.

Birta skal kæranda, viðkomandi eftirlitsskyldum aðila og Fjármálaeftirlitinu úrskurð án ástæðulausra tafa.

Meirihluti nefndarinnar ræður niðurstöðu úrskurðar.

Um meðferð mála hjá kærunefnd og störf hennar fer að öðru leyti eftir stjórnsýslulögum.

Úrskurðir nefndarinnar skulu teknir saman eftir þörfum og gefnir út í aðgengilegu formi.

7. gr. Frávísun.

Nefndin vísar máli frá sé það svo óljóst, illa upplýst eða krafa aðila svo óskýr að það sé ekki tækt til úrskurðar. Slík frávísun skal rökstudd. Mál sem vísað er frá á þessari forsendu skal taka til meðferðar að nýju samkvæmt málskoti hafi nauðsynlegra upplýsinga verið aflað og kröfugerð skýrð.

8. gr. Endurupptaka máls.

Nefndin getur ákveðið að mál sem úrskurðað hefur verið af henni skuli tekið fyrir að nýju á grundvelli nýrra upplýsinga, sem málskotsaðila var ekki unnt að afla eða koma á framfæri þegar mál var tekið fyrir og geta haft áhrif á niðurstöðu þess. Um endurupptöku máls fer að öðru leyti samkvæmt stjórnsýslulögum.

9. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 6. mgr. 18. gr., sbr. 19. gr., laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, með síðari breytingum, og öðlast hún þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 761/1999, um kærunefnd skv. lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Viðskiptaráðuneytinu, 7. júlí 2000.

Valgerður Sverrisdóttir.

Þorgeir Örlygsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.