Viðskiptaráðuneyti

207/1995

Reglugerð um gildistíma löggildinga.

Gildissvið.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um mælitæki sem eru löggildingarskyld.

Fyrsta löggilding.

2. gr.

Fyrsta löggilding skal fara fram áður en nýtt tæki er tekið í notkun í fyrsta sinn. Ávallt skal setja löggildingarmerki á tækið og innsigli þegar við á.

3. gr.

Umfang prófunar vegna fyrstu löggildingar fer eftir eðli og gerð mælitækja eins og nánar er kveðið á um í reglugerðum um viðkomandi mælitæki. Það getur verið allt frá ítarlegri prófun, sem vinna skal á faggiltri prófunarstofu, til þess að sannprófa viðeigandi gögn frá framleiðanda.

Sérstakar löggildingar.

4. gr.

Löggilda skal tæki að nýju, eftir viðgerð eða viðhald sem áhrif kann að hafa á nákvæmni og hæfi tækis til að fullnægja tilskildum kröfum.

Ef tæki er breytt þannig, að vafi leiki á hvort gerð tækis falli enn undir yfirlýsingu um samræmi við frumgerð skal Löggildingarstofan skera úr um hvort löggilda megi tækið á ný, hvort það þurfi nýja gerðarprófun eða hvort banna skuli notkun þess.

Ef tæki verður fyrir hnjaski eða tjóni og/eða eitthvað bendir til þess að nákvæmni tækis hafi skaðast skal tæki löggilt að nýju.

Hafi innsigli verið rofið skal tæki ávallt löggilt að nýju.

Reglubundin löggilding.

5. gr.

Reglubundin löggilding skal að jafnaði fram í sama ársfjórðungi og síðasta löggilding þar á undan að loknum þeim árafjölda sem reglur um gildistíma löggildinga fyrir viðkomandi mælitæki segja til um.

Vilji eftirlitsaðili færa mælitæki yfir í næsta ársfjórðung á eftir skal það stutt rökum og gert með samþykki Löggildingarstofu. Vilji eftirlitsaðili færa mælitæki yfir í næsta ársfjórðung á undan skal það stutt rökum og gert með samkomulagi við eiganda mælitækis.

6. gr.

Gildistími löggildinga ósjálfvirkra voga er sem hér segir:

 1. Löggilding voga gildir allt að tveimur árum.
 2. Löggilding voga sem notaðar eru í iðnaði eða utanhúss gildir allt að einu ári.

7. gr.

Tímabil löggildingar raforkumæla miðast við heilt ár og telst löggildingartímabilið hefjast 1. næsta mánaðar, þannig að fari löggilding fram í desember telst tímabilið hefjast 1. janúar næsta ár. Gildistími löggildinga raforkumæla er sem hér segir:

 1. Löggilding ein- eða fjölfasa raforkumæla tengdum straum- eða spennuspennum, sem hafa takmarkaða gerðarviðurkenningu eða eru notaðir til reynslu, gildir í allt að 5 ár.
 2. Löggilding raforkumæla fyrir fjölþrepa gjaldskrá og aflmæla gildir í allt að 8 ár.
 3. Löggilding raforkumæla fyrir markmælingu gildir í allt að 8 ár. Ekki er krafist endurlöggildingar markmæla við aflstillingu þeirra, sbr. þó 1.-3. mgr. 4. gr. um sérstakar löggildingar.
 4. Löggilding ein- eða fjölfasa raforkumæla tengdum straum- eða spennuspennum, annarra en getið er í 1. tölulið, gildir í allt að 10 ár.
 5. Löggilding ein- eða fjölfasa raforkumæla þar með talið tvígjaldsmæla gildir í allt að 16 ár.
 6. Straum- og spennuspennar þurfa aðeins fyrstu löggildingu, sbr. þó 4. gr. um sérstakar löggildingar.
 7. Ef unnt er að sýna fram á með prófun á slembiúrtaki að raforkumælar skv. 3. og 5. tölul. standist settar kröfur, sem um mælana gilda, er heimilt að framlengja gildistíma löggildinga viðkomandi mælasafns um allt að 4 ár í hvert sinn.

8. gr.

Gildistími löggildinga mæla fyrir heitt vatn er sem hér segir:

 1. Löggilding rennslismæla fyrir heitt vatn gildir í allt að 5 ár.
 2. Löggilding vélbúnaðar orkumæla fyrir heitt vatn gildir í allt að 5 ár.
 3. Löggilding rafbúnaðar orkumæla fyrir heitt vatn gildir í allt að 10 ár.
 4. Ef unnt er að sýna fram á með prófun á slembiúrtaki að mælar fyrir heitt vatn standist settar kröfur, sem um mælana gilda, er heimilt að framlengja gildistíma viðkomandi mælasafns skv. 1. og 2. tölul. um allt að 2 ár og skv. 3. tölul. um allt að 5 ár í hvert sinn.

9. gr.

Gildistími löggildinga rennslismæla fyrir kalt vatn er sem hér segir:

 1. Löggilding rennslismæla fyrir málrennsli allt að 2,5 m3/h gildir í allt að 9 ár.
 2. Löggilding rennslismæla fyrir málrennsli yfir 2,5 m3/h, allt að 10 m3/h gildir í allt að 6 ár.
 3. Löggilding rennslismæla fyrir málrennsli yfir 10 m3/h gildir í allt að 5 ár.
 4. Ef unnt er að sýna fram á með prófun á slembiúrtaki að mælar fyrir kalt vatn standist settar kröfur, sem um mælana gilda, er heimilt að framlengja gildistíma viðkomandi mælasafns um allt að 5 ár í hvert sinn.

10. gr.

Löggilding rennslismæla fyrir olíu (bensín, hráolíu, steinolíu) gildir í eitt ár.

11. gr.

Rennslismælar fyrir smurolíu þurfa aðeins fyrstu löggildingu.

12. gr.

Vínmál og vínskammtarar þurfa aðeins fyrstu löggildingu.

13. gr.

Metrakvarðar og málbönd þurfa aðeins fyrstu löggildingu.

14. gr.

Löggilding gjaldmæla leigubifreiða og sendibifreiða gildir í eitt ár.

15. gr.

Reglugerð þessi um tíðni löggildinga, er sett skv. 5. gr. laga um vog, mál og faggildingu nr. 100 frá 16. desember 1992 til að taka gildi við birtingu hennar og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Viðskiptaráðuneytið, 31. mars 1995.

F. h. r.
Þorkell Helgason.

Sveinn Þorgrímsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica