Viðskiptaráðuneyti

769/1997

Reglugerð um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.

I. KAFLI

Hlutverk og starfsemi.

1. gr.

Hlutverk.

Hlutverk Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins er að stuðla að uppbyggingu, vexti og alþjóðavæðingu íslensks atvinnulífs.

Sjóðurinn gegnir hlutverki sínu með því að taka þátt í fjárfestingarverkefnum á sviði nýsköpunar, einkum með hlutafjárþátttöku, en einnig með því að veita lán og ábyrgðir í þessu skyni. Einnig skal sjóðurinn styðja við þróunar- og kynningarverkefni.

Þá starfrækir sjóðurinn tryggingardeild útflutningslána.

2. gr.

Starfsemi Nýsköpunarsjóðs.

Starfsemi Nýsköpunarsjóðs skiptist í fjögur eftirtalin svið:

1.Stofnsjóður: Í Stofnsjóði Nýsköpunarsjóðs er eigið fé sjóðsins, upphaflega að fjárhæð

4.000 m.kr., eins og það er varðveitt og ávaxtað á hverjum tíma. Tekjum af ávöxtun og öðru ráðstöfunarfé er varið til almennrar starfsemi Nýsköpunarsjóðs annarrar en þeirrar er greinir í 2.-4. tölul. Undir Stofnsjóð heyrir allur almennur rekstur Nýsköpunarsjóðs, deilda hans og sjóða. Kveðið er á um starfsemi Stofnsjóðs í III.- VI. kafla reglugerðar þessarar og starfsreglum Nýsköpunarsjóðs sem stjórn sjóðsins setur og viðskiptaráðherra staðfestir.

2.Framtakssjóður: Framtakssjóði er ætlað að hafa með höndum umsjón og eftirlit með ráðstöfun 1.000 m.kr., sem ríkissjóður skal samkvæmt lögum um Nýsköpunarsjóð greiða Nýsköpunarsjóði af söluandvirði hlutafjár ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., og varið skal til hlutafjárkaupa í því skyni að stuðla að nýsköpun og atvinnuuppbyggingu með áherslu á landsbyggðina, einkum á sviði upplýsinga- og hátækni. Kveðið er á um starfsemi sjóðsins í reglum sem viðskiptaráðherra setur að fengnum tillögum stjórnar.

3.Vöruþróunar- og markaðsdeild: Deildin veitir framlög til vöruþróunar- og markaðsaðgerða á fyrstu þremur starfsárum sjóðsins. Kveðið er á um starfsemi deildarinnar í reglum sem stjórn Nýsköpunarsjóðsins setur og viðskiptaráðherra staðfestir.

4.Tryggingardeild útflutningslána: Deildinni er ætlað að tryggja lán, kröfur, þjónustu, fjárfestingar og búnað er tengist útflutningi og starfsemi innlendra aðila erlendis. Kveðið er nánar á um starfsemi deildarinnar í starfsreglum sem stjórnarnefnd tryggingardeildar setur og fjármálaráðherra samþykkir.

Svið samkvæmt 2. - 4. tölul. 1. mgr. skulu aðgreind í bókhaldi og reikningum sjóðsins. Er þeim ætlað að standa undir kostnaði við rekstur sinn, og greiða Stofnsjóði fjárhæð er samsvarar rekstrarkostnaði.

Starfsemi Stofnsjóðs Nýsköpunarsjóðs skal beinast að öllum sviðum atvinnulífs og landsvæðum, þrátt fyrir áherslur í annarri starfsemi sjóðsins á tiltekin svið atvinnulífsins og svæði.

3. gr.

Starfssvið.

Nýsköpunarsjóði er ætlað að starfa að áhættufjármögnun á þeim sviðum þar sem bæta þarf þjónustu og framboð áhættufjármagns að mati sjóðstjórnar. Starfssvið sjóðsins skal á hverjum tíma skilgreina með hliðsjón af framboði áhættufjármagns á mismunandi sviðum áhættufjármögnunar.

II. KAFLI

Stjórnun og rekstur.

4. gr.

Skipun stjórnar.

Í stjórn Nýsköpunarsjóðs sitja fimm menn og eru þeir skipaðir af viðskiptaráðherra til tveggja ára í senn. Stjórnin skal þannig skipuð: einn eftir tilnefningu iðnaðarráðherra, einn eftir tilnefningu iðnaðarráðherra samkvæmt ábendingum samtaka atvinnufyrirtækja í iðnaði, einn eftir tilnefningu sjávarútvegsráðherra, einn eftir tilnefningu sjávarútvegsráðherra samkvæmt ábendingum samtaka atvinnufyrirtækja í sjávarútvegi og einn samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands. Varamenn eru skipaðir með sama hætti. Ráðherra ákveður þóknun stjórnarmanna.

5. gr.

Stjórnarfundir.

Stjórn Nýsköpunarsjóðs skiptir með sér verkum og ákveður starfshætti sína og fundahöld. Stjórnarfundir skulu haldnir eftir þörfum. Skylt er að halda fund þegar a.m.k. tveir stjórnarmenn óska þess. Fundur er ályktunarhæfur ef þrír stjórnarmanna sækja fund. Að jafnaði skal boða fund með viku fyrirvara. Halda skal gerðabók.

6. gr.

Verkefni stjórnar.

Stjórn Nýsköpunarsjóðs hefur yfirumsjón með starfsemi hans í samræmi við lög um sjóðinn og reglugerð þessa. Verkefni stjórnar eru m.a. þessi:

1. Ráðning framkvæmdastjóra.

2. Stefnumótun og gerð starfsreglna sem staðfestar skulu af ráðherra.

3. Samþykkt rekstraráætlunar.

4. Ákvarðanir um þátttöku sjóðsins í fjármögnun, svo sem hlutafjárkaupum, lánveitingu,

sjóðsins, veitingu styrkja og ábyrgða og ákvarðanir um tryggingar og lánakjör.

5. Ákvarðanir um ávöxtun eigin fjár sjóðsins.

6. Ákvarðanir um lántöku og aðra fjáröflun til starfsemi sjóðsins.

Rekstraráætlun sjóðsins skal gerð fyrirfram, eitt ár í senn. Áætlunin skal vera í tveimur hlutum: rekstraráætlun og nýsköpunaráætlun. Í rekstraráætlun skal m.a. koma fram hvaða tekjur sjóðurinn hefur til ráðstöfunar á árinu og hvernig þeim skuli ráðstafað í rekstur og starfsemi. Þar skal vera ítarleg afskriftaáætlun. Í nýsköpunaráætlun skal vera stefnumótun fyrir hlutafjárþátttöku, lán, ábyrgðir og styrki.

7. gr.

Verkefni framkvæmdastjóra.

Framkvæmdastjóri fer með daglegan rekstur sjóðsins samkvæmt umboði stjórnar. Stjórn sjóðsins getur veitt framkvæmdastjóra heimild til að taka ákvarðanir um hlutafjárþátttöku og veitingu lána, ábyrgða eða styrkja innan tiltekinna marka. Slíkar heimildir skulu koma fram í starfsreglum sjóðsins eða í bókunum stjórnar.

Framkvæmdastjóri situr fundi stjórnar og hefur þar málfrelsi og tillögurétt.

8. gr.

Þagnarskylda.

Stjórnendur Nýsköpunarsjóðs og aðrir þeir sem vinna fyrir sjóðinn eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirboðara og eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

III. KAFLI

Forathuganir, þróunar- og kynningarverkefni.

9. gr.

Ráðstöfun og skilgreiningar.

Heimilt er að verja allt að 15% af árlegu ráðstöfunarfé Stofnsjóðs Nýsköpunarsjóðs til sérstakra styrkja til forathugana, þróunarverkefna og kynningarverkefna.

Til forathugana teljast hagkvæmnisathuganir, gerð viðskiptaáætlana og annar undirbúningur verkefna sem falla undir meginverksvið sjóðsins og sjóðurinn gæti síðar fjárfest í. Til þróunarverkefna teljast hagnýtar rannsóknir og þróun á vöru eða viðskiptahugmynd. Til kynningarverkefna teljast markaðsathuganir og kynning á fjárfestingarkostum.

Nýsköpunarsjóði er heimilt að semja við aðila utan sjóðsins um ráðstöfun fjár samkvæmt 1. mgr. eða taka þátt í samstarfi við slíka aðila um sameiginlega ráðstöfun.

10. gr.

Hámarksfjárhæð styrks.

Styrkir samkvæmt 9. gr. sem veittir eru einstökum aðila mega ekki nema hærri fjárhæð samanlagt á hverju þriggja ára tímabili en jafngildir 100.000 ECU, að meðtalinni fjárhæð annarrar fjárhagslegrar aðstoðar sem viðkomandi aðili kann á sama tímabili að hafa fengið frá öðrum opinberum aðilum á grundvelli lágmarksreglunnar (de minimis reglunnar) samkvæmt ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA um málsmeðferð og efni reglna á sviði ríkisaðstoðar, og að teknu tilliti til frekari takmarkana á veitingu opinberrar aðstoðar á grundvelli lágmarksreglunnar samkvæmt ákvæðum fyrrgreindrar ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA sem í gildi eru á hverjum tíma.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur Nýsköpunarsjóður þegar sérstaklega stendur á veitt einstökum aðilum hærri styrki en þar greinir, enda uppfylli slíkar styrkveitingar ákvæði fyrrgreindrar ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA sem í gildi eru á hverjum tíma um aðstoð við lítil og meðalstór fyrirtæki, aðstoð við rannsóknir og þróunarverkefni eða um aðra tegund aðstoðar, allt eftir því sem við á í hverju tilviki.

IV. KAFLI

Fjárfestingarverkefni.

11. gr.

Skilgreining fjárfestingarverkefnis.

Með fjárfestingarverkefni er í reglugerð þessari átt við afmörkuð verkefni á starfssviði sjóðsins, sbr. 3. gr., þar sem lagt er fram fé til ákveðinna verkefna, einstakra eða sem hluta af ákveðnum fjárfestingaráætlunum.

Fjárfestingarverkefni skiptast í eftirtalda flokka:

1.Innlend fjárfestingarverkefni, en með því er átt við innlend verkefni sem fela í sér nýjungar eða

ný vaxtartækifæri.

2.Fjárfestingar innlendra aðila erlendis, en með því er átt við fjárfestingu innlendra fyrirtækja eða

einstaklinga í starfandi fyrirtækjum eða nýjum atvinnurekstri erlendis.

3.Fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi, en með því er átt við atvinnurekstur hér á landi með

umtalsverðri eignaraðild erlendra fyrirtækja eða einstaklinga og þátttöku þeirra í stjórnun

rekstrarins.

12. gr.

Tegund fjármögnunar.

Nýsköpunarsjóður skal fjármagna fjárfestingarverkefni með hlutafjárframlagi, þ.e. kaupum á hlutabréfum. Við kaup á hlutafé skal ávallt gerður hluthafasamningur.

Þegar ekki er talið mögulegt að mati sjóðstjórnar að taka þátt í verkefni með hlutafjárkaupum, eða sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, er sjóðnum heimilt að veita sérstök lán, svo sem lán með breytirétti í hlutafé eða lán með kauprétti hlutafjár. Skal þá gera sérstakan lánssamning þar sem meðal annars skal kveðið á um hlutdeild sjóðsins í ávöxtun af viðkomandi fjárfestingu, hugsanlegar tryggingar og um rétt sjóðsins til eftirlits og/eða stjórnunarlegra áhrifa.

Stjórn sjóðsins er í sérstökum tilvikum heimilt að veita ábyrgðir með það að markmiði að laða fram fjármagn annarra aðila í nýsköpunarverkefni. Slíkar ábyrgðir skal veita gegn gjaldi sem tekur mið af áhættu sjóðsins í verkefninu. Í samningum um ábyrgðarveitingar er heimilt að kveða á um rétt sjóðsins til eftirlits.

13. gr.

Stærðarmörk fjármögnunar.

Nýsköpunarsjóði er óheimilt að verja hærri fjárhæð en sem nemur 4% af eigin fé Stofnsjóðs til fjármögnunar einstaks verkefnis. Ekki skal verja hærri fjárhæð en sem nemur 8% af eigin fé Stofnsjóðs til fjárfestingarverkefna á vegum eins aðila eða tengdra aðila.

Stjórn sjóðsins setur reglur um lágmarksviðmiðun fjármögnunar í einstökum verkefnum.

14. gr.

Hlutdeild Nýsköpunarsjóðs í fjármögnun.

Hlutdeild Nýsköpunarsjóðs í fjármögnun hvers verkefnis skal ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur 49% af heildarfjármögnun viðkomandi verkefnis. Heimilt er við sérstakar aðstæður að víkja frá þessu skilyrði.

Hlutdeild Nýsköpunarsjóðs í fjármögnun hvers verkefnis skal miðast við að sjóðurinn fái stjórnunarleg áhrif.

15. gr.

Almenn skilyrði fjárfestingarþátttöku.

Almenn skilyrði fyrir þátttöku Nýsköpunarsjóðs í fjárfestingarverkefnum eru þessi:

1. Þátttaka í verkefninu geti skilað Nýsköpunarsjóði viðunandi arðsemi í ljósi áhættu og staðið undir kostnaði við skoðun og þátttöku.

2. Samstarfsaðilar hafi fjárhagslegan styrk til að standa við sinn hlut í fjármögnun verkefnisins.

3. Samstarfsaðilar búi yfir nægri þekkingu, rekstrarreynslu, tæknilegri getu, hæfni og

viðskiptatengslum.

4. Fjárfestingarverkefni sé vel skilgreint og afmarkað frá öðrum rekstri.

5. Heildarfjármögnun verkefnisins sé tryggð.

6. Fyrir liggi ítarleg viðskiptaáætlun og hægt sé að meta viðskiptalega og fjárhagslega áhættu á

grundvelli hennar.

Nýsköpunarsjóði er heimilt að setja að skilyrði fyrir þátttöku í fjárfestingarverkefni að tiltekins hlutfalls fjármagns sé aflað á almennum markaði.

Nýsköpunarsjóði er óheimilt að veita fyrirtækjum bjargráðaaðstoð eins og hún er skilgreind í ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA um málsmeðferð og efni reglna á sviði ríkisaðstoðar sem í gildi er á hverjum tíma, nema slíkt samræmist ákvæðum hennar.

V. KAFLI

Eftirlit með fjárframlagi og fjárfestingarþátttöku.

16. gr.

Skilyrði um eftirlit og ákvarðanatöku í samningum um aðild sjóðsins.

Í skilmálum um styrkveitingar samkvæmt 9. gr., hluthafasamningi samkvæmt 1. mgr. 12. gr. og lánssamningi samkvæmt 2. mgr. 12. gr. skal sérstaklega kveðið á um rétt Nýsköpunarsjóðs til að hafa eftirlit með nýtingu fjármagns sem sjóðurinn innir af hendi. Í hluthafasamningi og lánssamningi skal að auki kveðið á um rétt sjóðsins til áhrifa við ákvarðanatöku í hlutfalli við framlag. Kveða skal á um rétt til afturköllunar ógreiddra hlutafjár- eða lánsfjárloforða vegna vanefnda á hluthafasamningum og lánssamningum. Í skilmálum um styrkveitingar skal kveðið á um reglulega upplýsingagjöf vegna verkefnis.

17. gr

Hlutdeild í arði og ávöxtun.

Í hluthafasamningi og lánssamningi er heimilt að semja um aukinn rétt Nýsköpunarsjóðs til vaxta- og arðgreiðslna umfram samstarfsaðila.

18. gr.

Beiting atkvæðisréttar.

Nýsköpunarsjóður skal nýta afl atkvæða sinna í samræmi við hlutafjáreign með það að markmiði að vernda hagsmuni sjóðsins.

VI. KAFLI

Eigið fé Stofnsjóðs.

19. gr.

Varðveisla stofnfjár.

Nýsköpunarsjóði er óheimilt að skerða stofnfé Stofnsjóðs Nýsköpunarsjóðs. Fyrstu fimm starfsár Nýsköpunarsjóðs skal miða við að upphafleg krónutala stofnfjár haldist óbreytt. Varðveisla stofnfjárins skal miðuð við vísitölu neysluverðs frá þeim tíma.

20. gr.

Afskriftareikningur.

Fyrir Stofnsjóð Nýsköpunarsjóðs skal halda afskriftareikning samkvæmt góðri reikningsskilavenju og eftir mati á áhættu þannig að efnahagsreikningurinn gefi á hverjum tíma sem raunhæfasta mynd af fjárhagsstöðunni. Samhliða ákvörðunum um hlutafjárþátttöku, lánveitingar og ábyrgðir skal ákveða framlög á afskriftareikninginn. Fjárhæðirnar sem bætt er við afkriftareikninginn skulu í hverju tilviki samsvara þeirri áhættu sem tekin er að mati stjórnar.

Til verkefna Stofnsjóðs Nýsköpunarsjóðs má ekki verja hærri upphæð en svo að afskriftir vegna verkefnanna rúmist innan ramma rekstraráætlunar. Rekstraráætlun sjóðsins skal miðast við að stofnfé hans sé ekki skert.

21. gr.

Afskriftamat.

Við mat á framlagi í afskriftareikning skal taka tillit til hvort um hlutafjárþátttöku eða lán er að ræða, tapshættu vegna atvinnugreina, fjárhagsstöðu samstarfsaðila og samninga að öðru leyti.

Við mat á afskriftum er Nýsköpunarsjóði heimilt að miða við reynslu hliðstæðrar starfsemi hérlendis og í nágrannalöndum. Í þessu skyni skal vinna líkan sem m.a. sýnir endurheimtuferli hlutafjárþátttöku.

Endurmeta skal framlög á afskriftareikning á sex mánaða fresti.

Hlutafé eða lán skal færa sem endanlega tapað þegar eitthvert eftirtalinna skilyrða eru uppfyllt:

1. Við lok gjaldþrotaskipta.

2. Við skuldaeftirgjöf eða niðurfærslu hlutafjár eða skulda.

3. Þegar sjóðurinn hefur tekið ákvörðun um lok innheimtu.

4. Þegar ljóst má vera að eign eða krafa er endanlega töpuð.

Stjórn sjóðsins setur nánari reglur um framlag á afskriftareikning sem ráðherra staðfestir.

22. gr.

Ávöxtun eigin fjár.

Nýsköpunarsjóði ber að leita allra leiða til að ávaxta eigið fé Stofnsjóðs Nýsköpunarsjóðs á sem árangursríkastan hátt og hámarka þannig árlegt ráðstöfunarfé sjóðsins.

23. gr.

Fjárfestingarstefna.

Við ávöxtun eigin fjár, sem ekki er ráðstafað til fjárfestingarverkefna skv. IV. kafla, skal gætt að eðlilegri áhættudreifingu í eignasamsetningu, í samræmi við 2.-4. mgr.

Nýsköpunarsjóði er einungis heimilt að fjárfesta í framseljanlegum verðbréfum sem skráð hafa verið á skipulegum verðbréfamarkaði samkvæmt skilgreiningu laga um verðbréfaviðskipti.

Sjóðnum er óheimilt að fjárfesta meira en 10% af eignum sínum í verðbréfum útgefnum af sama útgefanda. Þrátt fyrir þetta er honum þó heimilt að fjárfesta allt að 35% af eignum sínum í verðbréfum sem eitt eða fleiri ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða sveitarfélög þeirra, alþjóðlegar stofnanir, sem eitt eða fleiri þessara ríkja eru aðilar að, eða ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins gefa út eða ábyrgjast.

Óheimilt er sjóðnum að eiga meira en 25% hlutafjár í einu hlutafélagi.

24. gr.

Skráning hlutabréfa.

Nú eru hlutabréf, sem Nýsköpunarsjóður hefur keypt vegna fjárfestingarverkefna skv. IV. kafla, skráð á skipulegum verðbréfamarkaði samkvæmt skilgreiningu laga um verðbréfaviðskipti, og taka þá ákvæði 23. gr. til fjárfestingarinnar.

VII. KAFLI

Eftirlit, gildistaka o.fl.

25. gr.

Eftirlit bankaeftirlits.

Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur eftirlit með því að starfsemi Nýsköpunarsjóðs sé í samræmi við ákvæði laga um sjóðinn, reglugerðar þessarar og reglna. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga um Seðlabanka Íslands.

Um mat bankaeftirlits á afskriftum fer samkvæmt 21. gr. reglugerðarinnar.

26. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 18. gr. laga nr. 61/1997 um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.

Reglugerðin tekur gildi 1. janúar 1998.

Ákvæði til bráðabirgða.

Nú er samsetning eigin fjár Nýsköpunarsjóðs ekki í samræmi við ákvæði 23. gr. reglugerðar þessarar þegar hann tekur til starfa, og skal stjórn sjóðsins þá hafa frest til 1. janúar 1999 til að uppfylla skilyrði greinarinnar.

Viðskiptaráðuneytinu, 30. desember 1997.

Finnur Ingólfsson.

Halldór J. Kristjánsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica