Viðskiptaráðuneyti

571/1996

Reglugerð um hámark lána og ábyrgða lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um hámark lána og ábyrgða lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu.

 

1. gr.

                Reglugerð þessi tekur til lánveitinga, verðbréfaeignar, eignarhluta og veittra ábyrgða lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu vegna einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila svo og annarra skuldbindinga sömu aðila gagnvart lánastofnunum og fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu, hér eftir nefndar áhættuskuldbindingar, og mats á áhættu vegna slíkra skuldbindinga. Reglurnar taka einnig til samstæðu lánastofnunar eða fyrirtækis í verðbréfaþjónustu og fyrirtækja sem stunda starfsemi samkvæmt 44. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði.

 

2. gr.

                Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

                Áhættuskuldbinding: Eignaliðir og liðir utan efnahagsreiknings sem um getur í A, B og C liðum viðauka I með reglugerð þessari, þó ekki eignaliðir sem dragast frá eigin fé samkvæmt eiginfjárákvæðum laga um þær stofnanir sem reglugerð þessi tekur til.

                Eigið fé: Samtala eiginfjárþáttar A og B sbr. skilgreiningu eiginfjárákvæða þeirra laga sem gilda um þær stofnanir og fyrirtæki sem reglugerð þessi tekur til.

                Fjárhagslega tengdir aðilar:

                a. tveir eða fleiri einstaklingar eða lögpersónur þar sem annar eða einn hefur bein eða óbein yfirráð yfir hinum og því teljist skuldbindingar þeirra vegna mynda eina áhættuskuldbindingu og

                b. tveir eða fleiri einstaklingar eða lögpersónur sem teljast mynda eina áhættuskuldbindingu þar sem þeir eru svo fjárhagslega tengdir innbyrðis að líkur séu á að fjárhagserfiðleikar annars eða eins leiði til greiðsluerfiðleika hins eða hinna.

                Fjölþjóða þróunarbankar: Alþjóðabankinn, Alþjóðalánastofnunin, Endurreisnar- og þróunarbanki Evrópu, Fjárfestingarsjóður Evrópu, Fjárfestingarlánastofnun Ameríkuríkja, Norræni fjárfestingarbankinn, Þróunarbanki Afríku, Þróunarbanki Ameríkuríkja, Þróunarbanki Asíu, Þróunarbanki Mið-Ameríkuríkja og Viðreisnarsjóður Evrópuráðsins.

                Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu: Verðbréfafyrirtæki og verðbréfamiðlanir samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.

                Lánastofnun:        Viðskiptabankar og sparisjóðir, sbr lög nr. 113/1996 svo og lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir sbr. lög nr. 123/1993.

                Stór áhættuskuldbinding:                 Áhættuskuldbinding lánastofnunar eða fyrirtækis í verðbréfaþjónustu vegna einstaks viðskiptamanns eða fjárhagslega tengdra aðila, sem nemur 10% eða meira af eigin fé stofnunarinnar eða fyrirtækisins.

 

3. gr.

                Stórar áhættuskuldbindingar vegna einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila mega ekki fara fram yfir 25% af eigin fé lánastofnunar eða fyrirtækis í verðbréfaþjónustu.

                Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. mega stórar áhættuskuldbindingar lánastofnunar og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu vera allt að 40% af eigin fé til og með 31. desember 1998. Síðan skal hlutfall þeirra fara lækkandi og vera að hámarki 35% þann 31. desember 1999, að hámarki 30% miðað við 31. desember 2000 og að hámarki 25% þann 31. desember 2001. Teljist einhver hluti viðkomandi áhættuskuldbindingar vera staða í veltubók skal við mat á áhættugrunni fara með þá stöðu sem umframáhættu sbr. ákvæði 7. kafla reglna Seðlabanka Íslands nr. 348/1996.

                Heildarfjárhæð stórra áhættuskuldbindinga lánastofnunar eða fyrirtækis í verðbréfaþjónustu má ekki fara yfir 800% af eigin fé stofnunar.

                Ákvæði 1.-3. mgr. eiga ekki við um áhættuskuldbindingar lánastofnunar eða fyrirtækis í verðbréfaþjónustu vegna fyrirtækja sem stunda starfsemi samkvæmt 44. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði og mynda samstæðu með hlutaðeigandi stofnun eða fyrirtæki.

 

4. gr.

                Við útreikning hlutfalla samkvæmt 1.-3. mgr. 3. gr. er heimilt að undanskilja eftirtalda liði í samræmi við eftirfarandi. Sé ekki annað tekið sérstaklega fram eiga einstakir liðir við bæði lánastofnanir og fyrirtæki í verðbréfaþjónustu:

                1.             Kröfur á eða með ábyrgð ríkissjóða og seðlabanka á svæði A, sbr. viðauka II með reglugerð þessari, svo og kröfur á eða með ábyrgð Evrópusambandsins.

                2.             Kröfur á eða með ábyrgð ríkissjóða og seðlabanka á svæði B, sbr. viðauka II með reglum þessum, enda sé um að ræða kröfur í þarlendri mynt og sem fjármagnaðar eru í sömu mynt.

                3.             Kröfur lánastofnunar tryggðar með handveði í innstæðum og innlánsskírteinum útgefnum af stofnuninni sjálfri eða lánastofnun sem er móðurfyrirtæki eða dótturfyrirtæki hennar.

                4.             Kröfur tryggðar með handveði í verðbréfum útgefnum af aðilum sem tilgreindir eru í 1. tölulið.

                5.             Kröfur á eða með ábyrgð innlendra sveitarfélaga og sveitarfélaga og svæðisbundinna stjórnvalda á svæði A, sbr. viðauka II að 80% hluta.

                6.             Kröfur á lánastofnanir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins, viðurkenndra fyrirtækja í verðbréfaþjónustu utan Evrópska efnahagssvæðisins, skipulegra verðbréfamarkaða og viðurkenndra greiðslujöfnunarstöðva og kröfur með ábyrgð sömu aðila með lánstíma eftirstöðva yfir einu ári og allt að þremur árum má undanskilja að 80% hluta, en kröfur með lánstíma eftirstöðva yfir þremur árum eða lengur má undanskilja að 50% hluta. Ákvæðin varðandi kröfur með lánstíma eftirstöðva lengri en eitt ár eru háð því skilyrði að kröfurnar séu í formi skuldaskjala sem eru gefin út af einhverjum þeirra aðila sem getið er í 1. málslið þessa töluliðar sem eru framseljanleg á markaði sem er starfræktur af viðurkenndum aðilum og að söluverð þeirra sé daglega skráð. Kröfur íslenskra sparisjóða með eftirstöðvatíma yfir einu ári á hendur eða með ábyrgð Sparisjóðabanka Íslands má þó undanskilja að 80% hluta. Víkjandi kröfur eru undanskildar ákvæðum þessa töluliðar.

                7.             Kröfur sem tryggðar eru á fullnægjandi hátt með veði í fullbúnu íbúðarhúsnæði sem lántaki nýtir eða leigir út allt að 50% af fasteignamati eða sérstöku mati Fasteignamats ríkisins á markaðsverði íbúðarhúsnæðis með sama viðmiðunartíma og fasteignamatið.

                8.             Kröfur tryggðar með handveði í verðbréfum öðrum en þeim sem tilgreind eru í 4. og 5. tölul. að því tilskyldu að þau séu ekki gefin út af viðskiptamanni lánastofnunar eða fyrirtækis í verðbréfaþjónustu eða hópi tengdra viðskiptamanna. Verðbréfin þurfa að vera skráð á skipulegum verðbréfamarkaði sbr. 10. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti. Þau skulu metin á markaðsvirði og vera meira virði en áhætturnar sem tryggðar eru. Umframverð sem krafist er skal vera 100%. Þó skal það vera 150% þegar um hlutabréf er að ræða og 50% þegar um er að ræða skuldabréf útgefin af lánastofnunum, sveitarstjórnum sbr. 5. tölul., Fjárfestingarbanka Evrópu og fjölþjóða þróunarbönkum. Víkjandi kröfur eru undanskildar ákvæðum þessa töluliðar.

                9.             Þann hluta sölutryggingar verðbréfaútgáfu sem nemur niðurfærslu samkvæmt 1. mgr. 32. gr. reglna nr. 348/1996 um mat á áhættugrunni við útreikning á eiginfjárhlutfalli lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu.

                10.           Liði utan efnahagsreiknings samkvæmt lið B.3. í viðauka I með reglugerð þessari að 50% hluta.

                11.           Liði utan efnahagsreiknings samkvæmt lið B.4. í viðauka I með reglugerð þessari að undanskildum ónotuðum yfirdráttarheimildum, enda leiði samningur um lánsheimild eða sambærilega skuldbindingu við viðskiptamann eða fjárhagslega tengda aðila ekki til þess að áhættuskuldbinding vegna viðkomandi aðila fari yfir mörkin sem miðað er við í 3. gr.

                12.           Áhættuskuldbindingar í gjaldeyrisviðskiptum sem verða til í tengslum við eðlilegt uppgjör á 48 klukkustundum eftir greiðslu og áhættur í viðskiptum vegna kaupa og sölu á verðbréfum sem verða til í tengslum við eðlilegt uppgjör á fimm virkum dögum eftir greiðslu verðbréfanna, eða afhendingu þeirra, ef sú dagsetning fer á undan.

 

5. gr.

                Fari áhættuskuldbindingar lánastofnunar eða fyrirtækis í verðbréfaþjónustu yfir þau mörk sem kveðið er á um í 1.-3. mgr. 3. gr. skal það tilkynnt bankaeftirliti Seðlabanka Íslands sem er þá heimilt, ef aðstæður leyfa, að veita hlutaðeigandi stofnun eða fyrirtæki tiltekinn frest til að laga sig að gildandi takmörkum.

                Þrátt fyrir ákvæði 1.-3. mgr. 3. gr. gilda ákvæði 7. kafla reglna nr. 348/1996 um mat á áhættugrunni við útreikning á eiginfjárhlutfalli lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu að því er varðar heimildir til að fara yfir tilgreind mörk.

 

6. gr.

                Lánastofnanir og fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skulu hafa yfir að ráða traustu stjórnunar- og upplýsingakerfi og innra eftirlitskerfi þar sem allar stórar áhættuskuldbindingar og breytingar á þeim eru auðkenndar og skráðar þannig að unnt sé að hafa eftirlit með þeim.

 

7. gr.

                Eigi sjaldnar en tvisvar á ári skulu lánastofnanir og fyrirtæki í verðbréfaþjónustu tilkynna bankaeftirlitinu, með þeim hætti sem það ákveður, um einstaka viðskiptamenn eða fjárhagslega tengda aðila þar sem áhættuskuldbindingar eru yfir þeim mörkum sem um getur í 2. tölul. 2. gr.

                Áhættuskuldbindingar samkvæmt 1. og 3. tölul. 4. gr. eru undanþegnar tilkynningarskyldu samkvæmt 1. mgr.

 

8. gr.

                Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 1. mgr. 46. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, 5. mgr. 8. gr. laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 366, 28. júní 1994, um hámark lána og ábyrgða viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

                Hafi áhættuskuldbindingar lánastofnunar eða fyrirtækis í verðbréfaþjónustu verið yfir þeim mörkum sem getið er í 1.-3. mgr. 3. gr. við gildistöku reglugerðar þessarar skal hlutaðeigandi stofnun eða fyrirtæki grípa til viðeigandi ráðstafana til að slíkar skuldbindingar verði innan þeirra marka miðað við þau tímamörk sem þar er kveðið á um.

                Áætlun lánastofnunar eða fyrirtækis í verðbréfaþjónustu um aðlögun samkvæmt þessu ákvæði er háð samþykki bankaeftirlitsins.

                Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. er lánastofnun eða fyrirtæki í verðbréfaþjónustu heimilt að halda áhættuskuldbindingum með lengri lánstíma en til ársloka 2001, enda sé stofnunin bundin samningsskilmálum þar að lútandi út lánstímann.

 

Viðskiptaráðuneytinu, 25. október 1996.

 

Finnur Ingólfsson.

Halldór J. Kristjánsson.

 

 

VIÐAUKI I

Eignarliðir og liðir utan efnahagsreiknings sem vísað er til

við skilgreiningu á áhættuskuldbindingu í 2. gr. reglugerðarinnar.

 

A. Liðir innan efnahagsreiknings.

                Allir eignaliðir í efnahagsreikningi.

 

B. Liðir utan efnahagsreiknings aðrir en vaxta- og gjaldeyrissamningar sbr. C. lið.

 

                B.1.         Mikil áhætta

                a)             Ábyrgðir sem jafna má til beinna lána.

                b)            Samþykktir víxlar.

                c)             Sölu- og endurkaupatryggingar þar sem lánaáhættan helst hjá lánastofnuninni.

                d)            Aðrir liðir með mikla áhættu.

                B.2.         Miðlungsáhætta

a)             Útgefnar skjalaábyrgðir og staðfestar skjalaábyrgðir.

b)            Ábyrgðir og tryggingar (þar með taldar tilboðs-, fullnustu-, tolla- og skatta-ábyrgðir) og ábyrgðir sem ekki verður jafnað til beinna lána.

c)             Ónotaðar lánsheimildir (skuldbindingar um að lána, kaupa verðbréf, afla trygginga eða samþykkis á víxla) upphaflega til lengri tíma en 1 árs.

d)            Sölutryggingar vegna verðbréfaútgáfu og hlaupandi sölutryggingar vegna verðbréfa.

e)             Aðrir liðir með miðlungsáhættu.

                B.3.         Miðlungslítil áhætta

                a)             Skjalaábyrgðir þar sem vörusending er sett sem veð og önnur áþekk viðskipti.

                b)            Aðrir liðir með miðlungs/litla áhættu.

                B.4.         Lítil áhætta

a)             Ónotaðar lánsheimildir (skuldbindingar um að lána, kaupa verðbréf, afla trygginga eða samþykkis á víxla) upphaflega til eins árs eða skemmri tíma eða sem hægt er að segja upp skilyrðislaust án fyrirvara hvenær sem er.

                b)            Aðrir liðir með litla áhættu.

 

C. Vaxtasamningar og gjaldeyrissamningar.

                C.1.         Vaxtasamningar

                a.- Vaxtaskipti innan sama gjaldmiðils.

                b.-"Basis" vaxtaskiptasamningar.

                c.- Framvirkir vaxtasamningar.

                d.- Samningar um vaxtaviðskipti í framtíðinni.

                e.- Keyptur valréttur að vöxtum.

                f.- Aðrir svipaðir samningar.

                C.2. Gjaldeyrissamningar að undanskildum samningum til 14 daga eða skemmri tíma

                a.- Vaxtaskipti milli gjaldmiðla.

                b.- Framvirkir gjaldeyrissamningar.

                c.- Samningar um gjaldeyrisviðskipti í framtíðinni.

                d.- Keyptur valréttur að erlendum gjaldeyri.

                e.- Aðrir svipaðir samningar.

 

D. Útreikningur á áhættu í tengslum við vaxta- og gjaldeyrissamninga.

                Þegar um er að ræða vaxtasamninga og gjaldeyrissamninga sbr. C. lið, skal áhættan vera hin sama og útlánaígildi slíkra samninga. Útlánaígildi slíkra samninga skal reikna samkvæmt aðferð markaðsvirðis eða aðferð upprunalegrar áhættu, sbr. 14. gr. reglna nr. 348/1996 um mat á áhættugrunni við útreikning á eiginfjárhlutfalli lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu, án beitingar vægis vegna viðkomandi mótaðila.

 

VIÐAUKI II

Flokkun ríkja í svæði A og B sbr. 4. gr. reglugerðarinnar.

 

                Eftirtalin ríki falla undir svæði A:

                Austurríki

                Ástralía

                Bandaríkin

                Belgía

                Danmörk

                Finnland

                Frakkland

                Grikkland

                Holland

                Írland

                Ísland

                Ítalía

                Japan

                Kanada

                Lúxemborg

                Mexíkó

                Noregur

                Nýja Sjáland

                Portúgal

                Saudi-Arabía

                Spánn

                Stóra Bretland

                Sviss

                Svíþjóð

                Tyrkland

                Þýskaland

 

                Svæði B:

                Öll önnur ríki en þau sem falla undir svæði A.

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica