Viðskiptaráðuneyti

369/1993

Reglugerð um starfsemi og markaðssetningu erlendra verðbréfasjóða á Íslandi. - Brottfallin

1. gr.

Reglugerð þessi tekur til erlendra verðbréfasjóða sem uppfylla skilyrði laga um verðbréfasjóði og hyggjast hefja starfsemi eða markaðssetningu hlutdeildarskírteina sinna hér á landi.

2. gr.

Starfsleyfi verðbréfasjóðs með staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, sem veitt er af lögbærum yfirvöldum þess ríkis, gildir einnig hér á landi. Áður en slíkur verðbréfasjóður hefur starfsemi eða markaðssetningu hlutdeildarskírteina hér á landi skal hann senda bankaeftirliti Seðlabanka Íslands eftirfarandi gögn:

1. Yfirlýsingu lögbærra eftirlitsaðila í heimaríki verðbréfasjóðsins um að hann hafi starfsleyfi í því ríki og uppfylli að öðru leyti settar kröfur í tilskipunum Evrópubandalagsins um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum.

2. Reglur eða samþykktir verðbréfasjóðsins.

3. Útboðslýsingu. Utboðslýsing skal hafa að geyma upplýsingar samkvæmt 6. tölul. þessarar greinar.

4. Endurskoðan ársreikning næstliðins árs, sé hann fyrirliggjandi, og síðari hálfsársuppgjör.

5. Lýsingu á framkvæmd fyrirhugaðrar starfsemi eða markaðssetningar hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðsins.

6. Upplýsingar um fyrirhugaðar ráðstafanir verðbréfasjóðsins til að tryggja rétt viðskiptamanna til útgreiðslu hagnaðar, innlausnar hlutdeildarskírteina og þeirra upplýsinga sem fyrirtækinu er skylt að miðla.

Breytingar á áður tilkynntum atriðum samkvæmt þessari grein skulu þegar tilkynntar bankaeftirlitinu.

3. gr.

Hyggist verðbréfasjóður með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins hefja starfsemi eða markaðssetningu hlutdeildarskírteina sinna hér á landi skal hann senda bankaeftirlitinu upplýsingar og gögn samkvæmt 2. gr., eftir því sem við getur átt.

4. gr.

Upplýsingar sem sendar eru bankaeftirlitinu samkvæmt 2. og 3. gr. skulu vera á íslensku, nema það heimili annað sérstaklega.

Skjöl og aðrar upplýsingar sem verðbréfasjóði er skylt að gera opinberar í heimaríki sínu skulu einnig gerðar opinberar hér á landi í íslenskri þýðingu, nema bankaeftirlitið heimili annað sérstaklega. Upplýsingar um eftirfarandi atriði skulu þó ávallt liggja frammi þýddar á íslensku:

1. Ávöxtun á undanförnum árum í íslenskum krónum og erlendri mynt.

2. Fjárfestingarstefnu og eignasamsetningu sjóðsins.

3. Kostnað við stjórnun sjóðsins, kaup og sölu verðbréfa og við flutning milli verðbréfasjóða.

4. Fyrirkomulag og tímamörk, þ.e. hvernig staðið skuli að kaupum og innlausn og hversu langan tíma það tekur.

5. Útgreiðslu hagnaðar.

5. gr.

Verðbréfasjóði sem reglugerð þessi tekur til er heimilt að hefja starfsemi eða markaðssetningu hlutdeildarskírteina sinna hér á landi tveimur mánuðum eftir að bankaeftirliti hafa borist upplýsingar samkvæmt 2. eða 3. gr., enda hafi bankaeftirlitið ekki tilkynnt verðbréfasjóðnum að ráðstafanir hans samkvæmt 6. tölul. 2. gr. séu ófullnægjandi eða fyrirhuguð starfsemi eða markaðssetning stríði að öðru leyti gegn ákvæðum laga.

Verðbréfasjóði er heimilt að nota sama heiti og hann notar í heimaríki sínu í starfsemi sinni eða markaðssetningu hlutdeildarskírteina sinna hér á landi. Sé heitið villandi eða feli í sér hættu á ruglingi er bankaeftirlitinu þó heimilt að krefjast þess að nafn verðbréfasjóðs verði auðkennt sérstaklega til skýringar.

6. gr.

Bankaeftirlitið getur krafist þess að verðbréfasjóður hætti starfsemi eða markaðssetningu hlutdeildarskírteina hér á landi ef

1. ráðstafanir sjóðsins samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. 2. gr. teljast ekki nægilegar til að tryggja rétt viðskiptamanna eða

2. verðbréfasjóðurinn brýtur ítrekað eða með alvarlegum hætti gegn ákvæðum laga eða reglugerðar þessarar.

7. gr.

Ákvæði laga um verðbréfasjóði og samkeppnislaga eiga við um starfsemi eða markaðssetningu verðbréfasjóða samkvæmt reglugerð þessari hér á landi, eftir því sem við getur átt.

8. gr.

Verðbréfasjóðir sem reglugerð þessi tekur til og þegar bjóða fram þjónustu sína hér á landi skulu fullnægja ákvæðum hennar eigi síðar en 31. desember 1993.

9. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 2. og 3. mgr. 37. gr., sbr. 40. gr., laga nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, öðlast gildi 15. september 1993.

Viðskiptaráðuneytið, 31. ágúst 1993.

F. h. r.

Björn Friðfinnsson.

Páll Ásgrímsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica