Viðskiptaráðuneyti

433/1999

Reglugerð um upplýsingaskyldu útgefenda, kauphallaraðila og eigenda verðbréfa sem skráð eru í kauphöll. - Brottfallin

I. KAFLI

Inngangur og almenn ákvæði.

1. gr.

Kauphöll sem hefur starfsleyfi samkvæmt 3. gr. laga nr. 34/1998 telst vera lögbært yfirvald í skilningi Evrópuréttarins, sbr. 31. gr. þessarar reglugerðar.

Kauphöll ber að framfylgja lögum, svo og öðrum reglum sem gilda um verðbréf sem skráð hafa verið í kauphöll. Brot á því getur varðað afturköllun starfsleyfis skv. 37. gr. laga nr. 34/1998.

2. gr.

Útgefandi skal með tilkynningu opinbera án tafar allar áður óbirtar upplýsingar um ákvarðanir eða atvik sem hann vissi eða mátti vita, að hefðu verulega þýðingu fyrir verðmyndun verðbréfa hans sem tekin hafa verið til opinberrar skráningar í kauphöll. Auk reglna sem settar eru í þessari reglugerð og í reglugerð um opinbera skráningu verðbréfa í kauphöll skal í reglum kauphallar setja nánari leiðbeiningar um þau atriði sem geta haft áhrif á skyldu útgefanda til að veita upplýsingar samkvæmt þessari grein.

3. gr.

Jafn aðgangur fjárfesta að upplýsingum.

Útgefandi skal gæta jafnræðis fjárfesta um aðgang að upplýsingum sem þessi reglugerð nær til og tryggja að óviðkomandi hafi ekki aðgang að þeim áður en þær eru gerðar opinberar. Óheimilt er að veita slíkar upplýsingar án þess að senda kauphöll þær áður eða eigi síðar en um leið og þær eru veittar öðrum.

4. gr.

Form tilkynningar til kauphallar.

Útgefandi skal í allri upplýsingagjöf sinni gæta þess að gefin sé skýr mynd af því sem fjallað er um hverju sinni. Orðalag í tilkynningum til kauphallar skal vera skýrt og ótvírætt þannig að fjárfestum verði strax ljóst hvað fjallað er um í tilkynningunni og hvaða áhrif það hefur á félagið, til dæmis á afkomu og efnahag.

Um form tilkynninga, sendingarhátt og móttöku þeirra fer að öðru leyti eftir reglum sem kauphöll setur.

5. gr.

Tungumál.

Tikynningar skulu vera á því tungumáli sem kveðið er á um í reglum kauphallar.

II. KAFLI

Um birtingu ársreiknings, milliuppgjörs o.fl.

6. gr.

Breytingar á fjármögnun félagsins.

Senda skal kauphöll upplýsingar þegar ákvörðun hefur verið tekin um verulegar breytingar eða áætlanir liggja fyrir um breytingar á fjármögnun, þar með talin áform um aukningu hlutafjár og verulega útgáfu skuldabréfa.

Þegar hækkun hlutafjár er áformuð skal jafnframt senda kauphöll upplýsingar um skilmála vegna hlutafjárhækkunar um leið og þeir liggja fyrir, þar á meðal:

1. fjárhæð hlutafjáraukningarinnar;

2. forkaupsrétt núverandi hluthafa og/eða annarra og hvort útboðinu á að beina til sérstakra hópa eða til almennings;

3. áskriftar- og sölufyrirkomulag, útboðsverð og áskriftar- og sölutímabil.

Að lokinni breytingu, svo sem hækkun eða niðurfærslu hlutafjár, jöfnun eða samruna, skal senda kauphöll staðfestar upplýsingar um endanlegt nafnverð hlutafjár og eigið fé.

7. gr.

Ársreikningur.

Skráð félag skal leitast við að láta reikningsskil sín ávallt uppfylla ströngustu kröfur sem almennt eru gerðar til félaga í þeirri grein sem það starfar í. Reikningsskilin skulu vera í samræmi við gildandi lög, góða reikningsskilavenju og viðmiðanir kauphallar hverju sinni.

Ef félagið er hluti af samstæðu skal birta samstæðureikninga.

Ef reikningar dótturfélaga skráðra íslenskra móðurfélaga eru ekki endurskoðaðir af sama endurskoðunarfélagi og reikningar móðurfélagsins eða samstarfsfélagi framangreinds endurskoðunarfélags skal þess getið.

Reikningar erlends félags skulu vera í samræmi við lög og venjur sem gilda í heimalandi þess. Kauphöll getur óskað sérstaklega eftir skýringum ef mikil frávik eru frá þeim reikningsskilaaðferðum sem hér þekkjast.

Ársreikning skal senda kauphöll um leið og hann er fullgerður og eigi síðar en þremur mánuðum frá lokum þess reikningsárs sem hann nær til. Hann skal jafnframt sendur þeim kauphallaraðilum sem þess óska og lagður fram opinberlega og gerður aðgengilegur fyrir fjölmiðla og aðra sem vilja kynna sér efni hans. Í upplýsingakerfi kauphallar skal tekið fram hvar almenningur getur nálgast hann án endurgjalds.

Kauphöll leggur skráðum félögum til lista yfir kauphallaraðila.

8. gr.

Fréttatilkynning vegna birtingar ársreiknings.

Í kjölfar þess stjórnarfundar þar sem ársreikningur félagsins er formlega samþykktur skal félagið senda frá sér fréttatilkynningu vegna hans, sbr. ákvæði 4. gr. Í slíkri fréttatilkynningu skulu vera svo ítarlegar upplýsingar að ársreikningurinn feli ekki í sér að mati félagsins viðbótarupplýsingar sem gætu haft veruleg áhrif á verðmyndun skráðra verðbréfa viðkomandi félags.

Eigi síðar en fimmtán dögum fyrir birtingu slíkrar tilkynningar skal félagið senda kauphöll upplýsingar um áætlaða birtingarviku. Verði um breytingu að ræða á áætlun um birtingarviku skal tilkynna kauphöll það eins fljótt og unnt er.

Ef veruleg frávik eru fyrirsjáanleg frá þeim upplýsingum er fram hafa komið í fréttatilkynningu samkvæmt 1. mgr. og þeim er fram koma í endanlegum ársreikningi skal senda kauphöll upplýsingar um það án tafar.

9. gr.

Hálfsársuppgjör.

Skráð félag skal ganga frá reikningsskilum er ná til fyrstu sex mánaða reikningsárs. Í kjölfar þess stjórnarfundar þar sem fjallað er um þau, og eigi síðar en tveimur mánuðum frá lokum þess tímabils sem reikningsskilin ná til skulu þau send kauphöll.

Milliuppgjör skv. 1. mgr. skal endurskoðandi félags hafa kannað og könnunaráritun fylgja. Ef milliuppgjörið er endurskoðað skal áritun endurskoðanda fylgja. Milliuppgjörið skal að öðru leyti vera í samræmi við viðmiðanir kauphallar hverju sinni.

Ef félagið er hluti af samstæðu skal senda kauphöll samstæðumilliuppgjör.

Eigi síðar en sjö dögum fyrir birtingu uppgjörsins skal félagið senda kauphöll upplýsingar um áætlaða birtingarviku. Verði um breytingu að ræða á áætlun um birtingarviku skal tilkynna kauphöll það eins fljótt og unnt er.

Hálfsársuppgjör skal liggja frammi opinberlega og almenningur hafa aðgang að því hjá útgefanda án endurgjalds.

10. gr.

Upplýsingar um áætlaða afkomu og rekstraráætlun.

Ef félag gerir opinbert álit sitt um áætlaða afkomu annað hvort fyrir yfirstandandi eða ókomin ár, skal það greina frá þeim meginforsendum sem gengið er út frá, sérstaklega hvað varðar helstu óvissuþætti.

Um leið og félaginu er kunnugt um veruleg frávik frá því sem áður hefur verið sagt um afkomu og rekstraráætlanir eða það sem eðlilegt væri að álykta út frá áður gefnum upplýsingum skal það senda kauphöll upplýsingar um slíkt, hvort sem ætla má að þau frávik leiði til betri eða verri afkomu en áætlað hafði verið.

III. KAFLI

Innherjaviðskipti og meðferð trúnaðarupplýsinga.

11. gr.

Innri reglur um meðferð trúnaðarupplýsinga og upplýsingaskyldu.

Útgefandi skráðra verðbréfa skal setja nánari reglur til þess að tryggja að farið sé eftir reglum um upplýsingaskyldu. Hann skal ennfremur setja nánari reglur um meðferð trúnaðarupplýsinga, sbr. ákvæði laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti.

Í reglum settum skv. þessari grein skal að minnsta kosti kveða á um að:

1. Mikilvægar upplýsingar sem snerta starfsemi útgefanda séu birtar án tafar.

2. Kauphöll séu sendar viðeigandi upplýsingar ekki seinna en um leið og þær eru birtar öðrum.

3. Upplýsingar sem ekki eru opinberar komist ekki í hendur óviðkomandi aðila.

4. Ákvarðanir aðalfunda og sambærilegra funda sem kallað er til milli aðalfunda séu gerðar opinberar án tafar.

5. Kröfur um form og birtingarmáta upplýsinga séu virtar.

6. Ársreikningar, hálfsársuppgjör og upplýsingar tengdar þeim séu birtar á réttan hátt.

Kauphöll er heimilt að setja nánari reglur um meðferð trúnaðarupplýsinga í félögum sem þar hafa fengið verðbréf sín opinberlega skráð.

Eintak af framangreindum reglum útgefanda skal sent kauphöll og Fjármálaeftirliti.

12. gr.

Viðskipti innherja.

Skylt er að tilkynna kauphöll þegar í stað um viðskipti innherja með verðbréf sem þar eru skráð.

Tilkynning verðbréfamiðstöðvar til kauphallar um viðskipti innherja er fullgild tilkynning samkvæmt þessari reglugerð ef um er að ræða rafrænt eignarskráð verðbréf.

Með innherja er átt við aðila sem starfs eða stöðu sinnar vegna hefur aðgang að trúnaðarupplýsingum. Til trúnaðarupplýsinga teljast upplýsingar sem ekki hafa verið gerðar opinberar, en líklegar væru til að hafa áhrif á verðmyndun viðkomandi verðbréfa ef opinberar væru.

Félag sem hefur fengið verðbréf sín opinberlega skráð í kauphöll skal halda lista yfir innherja sína þar sem fram kemur nafn viðkomandi, kennitala, heimilisfang og tengsl hans við félagið. Slíkan lista skal leiðrétta jafnóðum vegna allra breytinga einnig þó þær séu aðeins tímabundnar og senda kauphöll þar sem bréfin eru skráð.

Í tilkynningu samkvæmt þessari grein skulu að minnsta kosti koma fram þær upplýsingar sem taldar eru upp í 1.-6. tl. 1. mgr. 21. gr. og upplýsingar sem leiðir af 4. mgr. þessarar greinar.

13. gr.

Viðskipti félagsins sjálfs með eigin bréf.

Viðskipti félagsins sjálfs, svo og viðskipti dótturfélaga þess með skráð verðbréf félagsins, skal tilkynna kauphöll þar sem bréfin eru skráð þegar í stað, sbr. 12. gr. Einnig skal tilkynna fyrirætlanir um slík viðskipti.

IV. KAFLI

Tilkynning um breytingu á eignarhaldi verulegs eignarhluta.

14. gr.

Flöggun.

Skylt er að tilkynna kauphöll og félaginu þegar í stað er atkvæðisréttur eða eignarhlutur í félaginu nær eftirfarandi mörkum, hækkar upp fyrir eða lækkar niður fyrir þau: 5, 10, 20, 331/3, 50 og 662/3%, sbr. ákvæði 2. mgr. 26. gr. laga nr. 34/1998 um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða. Um heimildir og viðskipti þar til greindra aðila í veltubók fer þó samkvæmt ákvæðum 18. gr.

Tilkynning verðbréfamiðstöðvar til kauphallar um að framangreindum mörkum sé náð er fullgild tilkynning samkvæmt þessari reglugerð ef um er að ræða rafrænt eignarskráð hlutabréf.

15. gr.

Afmörkun verulegs eignarhluta.

Í hlutafélögum sem hafa fengið verðbréf sín skráð í kauphöll á Íslandi, landi á Evrópska efnahagssvæðinu eða í landi sem gerður hefur verið samstarfssamningur við skal við afmörkun á verulegum eignarhlut í skilningi 1. og 2. mgr. 26. gr. laga nr. 34/1998 fara eftir nánari ákvæðum í 2. mgr.

Þegar ákvarðað er hvort eignarhlutur eiganda hlutabréfa eða samsvarandi atkvæðisréttur aðila í hlutafélagi sem skráð hefur hlutabréf sín í kauphöll hefur náð, hækkað upp fyrir eða lækkað niður fyrir þau mörk sem kveðið er á um í 1. mgr. 14. gr. skal litið til eftirtalinna atriða:

1. hlutabréfa sem viðkomandi aðili á sjálfur eða aðili sem hann er í fjárfélagi við,

2. hlutabréfa sem annar eða aðrir ráða yfir í eigin nafni fyrir hönd viðkomandi,

3. hlutabréfa sem eru í eigu lögaðila sem viðkomandi hefur yfirráð yfir,

4. hlutabréfa sem eru í eigu þriðja aðila sem viðkomandi hefur gert skriflegan samning við um að taka upp varanlega, sameiginlega stefnu um stjórnun þess félags sem í hlut á,

5. hlutabréfa sem viðkomandi hefur gert skriflegan samning um að þriðji maður skuli fara með atkvæðisrétt yfir samkvæmt endurgjaldi,

6. hlutabréfa sem viðkomandi hefur selt að veði, nema veðhafinn ráði yfir atkvæðisréttinum og lýsi því yfir að hann hyggist notfæra sér réttinn, enda skal rétturinn þá talinn veðhafans,

7. hlutabréfa sem viðkomandi nýtur arðs af,

8. hlutabréfa sem viðkomandi á rétt á að öðlast eingöngu að eigin ákvörðun samkvæmt formlegum samningi, t.d. um kauprétt, og skal tilkynning samkvæmt 14. gr. í slíkum tilvikum fara fram á samningsdegi,

9. hlutabréfa sem viðkomandi varðveitir og hann getur að eigin ákvörðun neytt atkvæðisréttar yfir án sérstakra fyrirmæla eiganda.

16. gr.

Tilkynning um verulegan eignarhluta.

Sérhver sem ræður yfir verulegum eignarhlut samkvæmt 1. mgr. 14. gr. skal þegar í stað senda tilkynningu til félagsins og kauphallarinnar þar sem hlutabréf félagsins eru skráð.

Í tilkynningunni skal koma fram nafn og heimilisfang, nafnverð hlutafjár og hlutfall þess af heildarhlutafé félagsins, svo og hlutabréfaflokkur ef það á við, fyrir og eftir hin tilkynningarskyldu viðskipti, ásamt upplýsingum um á hvaða grundvelli viðkomandi varð tilkynningarskyldur skv. 15. gr.

Ef tilkynningin er vegna samnings skv. 4. tl. 15. gr. skulu allir aðilar samningsins standa að henni. Í tilkynningunni skal upplýsa um eignarhlut hvers og eins sem er aðili að samkomulaginu og fer yfir þau mörk sem kveðið er á um í 1. mgr. 14. gr.

Tilkynning um eignarhlut samkvæmt 8. tl. 15. gr. leysir ekki eiganda hlutabréfanna undan tilkynningarskyldu samkvæmt 1. tl. þeirrar greinar.

Með orðalaginu _þegar í stað" í 1. mgr. er átt við viðskiptadag ef um er að ræða viðskipti fyrir milligöngu kauphallaraðila en í öðrum tilvikum þann dag þegar réttur stofnast eða tekur breytingum.

17. gr.

Birting upplýsinga um verulegan eignarhluta.

Kauphöll skal miðla upplýsingunum í viðskipta- og upplýsingakerfi sínu.

Félög sem hafa hlutabréf sín skráð í kauphöll í öðru landi á Evrópska efnahagssvæðinu eða í landi sem gerður hefur verið samstarfssamningur við skulu sjá til þess að upplýsingar um verulega eignarhluti séu birtar þar samkvæmt þeim reglum sem þar gilda.

18. gr.

Undanþága frá tilkynningarskyldunni.

Undanþegnir tilkynningarskyldu skv. 14. gr. eru viðskiptabankar, sparisjóðir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu, lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir, ef um er að ræða veltubókarviðskipti og ekki er farið yfir 10% af hlutafé eða samsvarandi hluta atkvæðisréttar, enda ekki ætlunin að hafa afskipti af stjórn félagsins og viðskiptin eru innan venjubundinnar starfsemi framangreindra aðila.

Undanþága samkvæmt 1. mgr. takmarkast við það að eignarhald fyrirtækis sem þar getur, standi ekki lengur en 5 viðskiptadaga frá því að tilkynningarskylda stofnast samkvæmt 14. gr.

V. KAFLI

Um tilkynningarskyldu vegna viðskipta með opinberlega skráð verðbréf.

19. gr.

Öll viðskipti með verðbréf sem skráð eru í kauphöll eru tilkynningarskyld í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar. Um tilkynningarskyldu viðskipta með verðbréf sem eru skráð á skipulegum tilboðsmarkaði fer samkvæmt reglum sem stjórn hans setur, sbr. 32. gr. laga nr. 34/1998 um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

20. gr.

Kauphallaraðilum, sbr. 14. gr. laga nr. 34/1998 um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, sem annast eða taka þátt í samningsgerð vegna kaupa á verðbréfum sem skráð eru í kauphöll er skylt að tilkynna um kaupin. Tilkynningin skal send hlutaðeigandi kauphöll.

Ákvæði 1. mgr. taka einnig til viðskipta Seðlabanka Íslands eða annarra opinberra aðila sem eiga aðild að kauphöll.

Skylt er að tilkynna um viðskipti sem vörslufyrirtæki annast vegna umsjár og varðveislu verðbréfa verðbréfasjóðs skv. lögum nr. 10/1993 um verðbréfasjóði, í samræmi við ákvæði 1. mgr., nema gagnaðili að viðskiptunum sé kauphallaraðili sem á hvílir tilkynningarskylda skv. 1. mgr.

Tilkynningarskyldir skv. 1. mgr. eru jafnframt allir eigendur hlutabréfa sem skyldir eru til að tilkynna um eignarhlut sinn í félagi í samræmi við ákvæði 26. gr. laga nr. 34/1998, enda hvíli tilkynningarskyldan ekki á kauphallaraðila sem annast viðskiptin.

21. gr.

Í tilkynningu sem gefin er út samkvæmt ákvæði 20. gr. skulu koma fram eftirfarandi upplýsingar:

1. Alþjóðlegt auðkennisnúmer verðbréfsins (ISIN).

2. Dagsetning og stund þegar viðskiptin fóru fram.

3. Tilvísunarnúmer kaupanna eða sölunnar ef það á við.

4. Verð og magn þess sem keypt hefur verið eða selt.

5. Tegund viðskipta.

6. Dagsetning og stund lokauppgjörs.

7. Tilgreining þess hver gagnaðili sé ef hann er kauphallaraðili.

Í tilkynningu á grundvelli 4. mgr. 20. gr. skulu koma fram sömu upplýsingar og nefndar eru í 1.-6. tl. 1. mgr.

Kauphöll er heimilt að óska eftir nánari upplýsingum í tilefni af tilkynningum samkvæmt þessum kafla, enda sé um að ræða upplýsingar er skipta máli fyrir gagnsæi og sýnileika á verðbréfamarkaði, svo og verðmyndun þar.

22. gr.

Kauphallaraðilum ber að skila inn upplýsingum um öll tilkynningarskyld viðskipti samkvæmt þessum kafla eigi síðar en 5 mínútum eftir að samningur var gerður um kaup eða sölu verðbréfa.

Viðskipti annarra aðila skulu tilkynnt fyrir lok þess viðskiptadags er samningur var gerður. Kauphöll er heimilt að setja nánari reglur um tilkynningu viðskipta skv. þessari grein. Jafnframt er heimilt að veita undanþágu frá tilkynningarskyldu ef um er að ræða endurhverf viðskipti með verðbréf.

23. gr.

Kauphallaraðilar, svo og aðrir aðilar sem skylt er að tilkynna um viðskipti samkvæmt ákvæðum þessa kafla reglugerðarinnar, skulu tryggja að í viðskiptum þeirra við aðra kauphallaraðila hafi átt sér stað réttur samanburður á tilkynntum viðskiptum í lok hvers viðskiptadags og áður en viðskiptakerfinu er lokað.

Eigi viðskiptin sér stað utan viðskiptakerfisins og utan reglulegs afgreiðslutíma þess skal það tilkynnt þegar í stað eftir að kerfið hefur verið opnað aftur til viðskipta.

24. gr.

Tilkynningar um viðskipti er einungis unnt að ógilda samkvæmt sérstökum reglum sem kauphöll setur.

25. gr.

Tilkynningar samkvæmt ákvæðum 20. gr. skulu sendar rafrænt nema annað leiði af reglum sem kauphöll setur.

Kauphöll skal setja nánari reglur um tilkynningar samkvæmt ákvæðum þessa kafla.

26. gr.

Kauphallaraðilar, svo og aðrir tilkynningarskyldir aðilar, skulu varðveita upplýsingar um tilkynnt viðskipti og tilkynningar sem sendar eru vegna þeirra í 4 ár eftir að tilkynnt var um þau, nema lög áskilji geymslu gagnanna lengur.

27. gr.

Tilkynningarskyld viðskipti á hinu Evrópska efnhagssvæði og víðar.

Kauphallaraðili skal tilkynna lögbæru yfirvaldi um öll viðskipti með verðbréf sem skráð eru í kauphöll eða á sambærilegum verðbréfamarkaði í ríki á Evrópska efnahagssvæðinu eða sem Evrópusambandið hefur gert samstarfssamning við.

Hafi kauphallaraðili tilkynnt lögbæru yfirvaldi í viðkomandi ríki um viðskipti skv. 1. mgr. þarf ekki að senda tilkynningu í samræmi við ákvæði hennar.

Þegar verðbréf er jafnframt skráð í íslenskri kauphöll skulu ákvæði 20.-26. gr. þessarar reglugerðar jafnframt eiga við um tilkynningar varðandi þau viðskipti.

Í tikynningu skulu koma fram eftirfarandi upplýsingar:

1. Auðkenni verðbréfsins.

2. Viðskiptadagur.

3. Landsnúmer verðbréfsins.

28. gr.

Viðskipti samkvæmt 27. gr. skulu tilkynnt í síðasta lagi daginn eftir að þau áttu sér stað.

Ákvæði 25. og 26. gr. gilda um tilkynningar vegna viðskipta samkvæmt þessari grein, eftir því sem við getur átt.

29. gr.

Kauphöll er heimilt að setja nánari reglur um gjaldtöku vegna tilkynninga sem ákvæði þessa kafla taka til.

VI. KAFLI

Viðurlög, gildistaka o.fl.

30. gr.

Kauphöll skal setja nánari reglur, að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins, um viðskiptakerfi sitt, með hvaða hætti tilboð eru sett fram, um uppgjör viðskipta, svo og um söfnun og miðlun upplýsinga um viðskipti með verðbréf sem þar eru skráð.

Í reglum sem kauphöll setur skv. 1. mgr. skal kveðið á um viðurlög vegna brota á reglum sem gilda um starfsemina í formi févítis. Févíti getur numið allt að tíföldu árgjaldi markaðsaðila að viðkomandi markaði ef brot eru alvarleg, nema þyngri refsing liggi við að lögum.

31. gr.

Reglugerð þessi er sett í samræmi við ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um að fella inn í EES-samninginn og að taka upp í innlendan rétt ákvæði eftirtalinna tilskipana: Tilskipunar ráðsins 79/279/EBE til samræmingar á skilmálum fyrir opinberri skráningu verðbréfa á verðbréfaþingi, eins og henni var breytt með tilsk. 88/627/EBE um upplýsingar sem birta skal þegar aflað er eða ráðstafað verulegum eignarhlut í félagi sem skráð er á verðbréfaþingi, tilskipunar ráðsins 82/121/EBE um þær upplýsingar sem félög sem hafa fengið hlutabréf sín tekin til opinberrar skráningar á verðbréfaþingi eiga að birta reglulega, tilskipunar ráðsins 89/592/EBE um samræmingu á reglum um innherjaviðskipti og tilskipunar ráðsins 93/22/EBE um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta.

32. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 42. gr. laga nr. 34/1998, um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, ásamt síðari breytingum og öðlast gildi 1. júlí 1999.

Ákvæði til bráðabirgða.

Ákvæði 22. gr. reglugerðarinnar tekur gildi 1. janúar 2000.

Viðskiptaráðuneytinu, 24. júní 1999.

Finnur Ingólfsson.

Tryggvi Axelsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica