Viðskiptaráðuneyti

121/1999

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 264/1971 um raforkuvirki, með áorðnum breytingum. - Brottfallin

Stofnreglugerð:

Felld brott með:

1. gr.

§ 330 Rafgirðingar

Þessar reglur gilda um varanlegar girðingar, sem eru rafvæddar.

a)             Uppsetning rafgirðinga og lega þeirra.

1.             Uppsetningu og rekstri rafgirðinga skal þannig háttað, að hvorki mönnum né dýrum stafi hætta af þeim.

2.             Ekki má vera skemmra milli stakra girðinga en 2 metrar, hvort sem um er að ræða rafgirðingar eða ekki. Ef loka þarf bili á milli þeirra, skal það gert með einangrunarefni. Ekki má tengja rafgirðingu við eldri girðingar, svo sem gaddavírs- eða netgirðingar.

3.             Þar sem rafgirðingar liggja þvert yfir gönguslóðir, skal vera hlið úr einangrunarefni eða girðingarþrep (tröppur/príla). Þar skulu girðingarstrengirnir merktir með varanlegum viðvörunarskiltum. Rísi ágreiningur um hvað telja skuli gönguslóða, skal vísa honum til hlutaðeigandi sveitarstjórnar til úrskurðar. Þar sem opna þarf rafgirðingu, skulu girðingarhlutar, sem snerta þarf til að opna girðinguna, vera úr einangrunarefni eða einangraðir frá girðingunni.

4.             Rafgirðingar skulu auðkenndar með viðvörunarmerkjum. Skulu þau tryggilega fest á efsta streng girðingar eða merkihólkar settir efst á staura hennar. Við vegi og gönguslóða skal bil milli viðvörunarmerkja miðast við, að alls staðar sjáist á milli merkja og bil vera að hámarki 100 metrar, en að öðru leyti má bil milli þeirra vera allt að 500 metrar.

                Stærð viðvörunarmerkjanna skal vera 210x105 mm og grunnlitur þeirra gulur. Á báðum hliðum skiltanna skal vera mynd af háspennuör og áletrunin:

_VIÐVÖRUN - RAFGIRÐING"

Áletrun skal vera með svörtum lit, hæð stafa a.m.k. 25 mm og áprentunin óafmáanleg. Ekki á að vera annað skráð á skiltin en fyrrnefnd viðvörun. Grunnlitur girðingarstaura má ekki vera hinn sami og grunnlitur viðvörunarmerkjanna.

5.             Þegar rafstrengur (samtengingarstrengur) er lagður þvert undir veg skal leggja hann í einangrunarpípu.

6.             Ef nauðsynlegt er, að rafgirðing eða aðtaugar hennar liggi yfir akvegi og notuð er loftlína eða loftstrengur, skal lóðrétt fjarlægð tengilínunnar eða strengsins vera minnst 6 metrar frá yfirborði vegar. Við slíkar aðstæður skal farið eftir ákvæðum 311. gr. b), 312. gr., 315. gr. og 403. gr. reglugerðar þessarar og 33. gr. vegalaga nr. 45/1994.

b)             Fjarlægð rafmagnsgirðinga og jarðskauta þeirra frá öðrum raforkuvirkjum.

1.             Ef fyrirhugað er að setja upp rafgirðingu nær fjarskiptalögnum en nemur 15 metrum, eða reisa fjarskiptavirki innan 15 metra frá rafgirðingu, sem fyrir er, skal haft samráð við eiganda þeirra mannvirkja og samið um framkvæmdina, áður en verkið er hafið og koma þannig í veg fyrir truflanir eða hagsmunaárekstra.

2.             Fjarlægð rafgirðinga frá rafbúnaði í dreifikerfum rafveitna, s.s. dreifiskápum o.þ.h., má ekki vera minni en 2,5 metrar.

3.             Milli jarðskauta rafgirðinga og jarðskauta rafveitna skal að jafnaði ekki vera skemmra en 20 metrar. Hafa skal samráð við viðkomandi rafveitu um legu jarðskauta húsveitna og spennistöðva, leiki vafi á um bil milli jarðskauta.

4.             Þegar rekstrarjarðskaut rafgirðingar er í nágrenni húsveitna, skal jarðskaut girðingarinnar vera aðskilið frá hlífðarjarðskautum húsveitnanna og rekstrarjarðskautum veitukerfa, þannig að minnst 10 metrar séu á milli. Þegar koma þarf jarðskauti rafgirðingar út fyrir áhrifasvæði annarra jarðskauta, skal jarðskautstaug girðingarinnar a.m.k. vera rekstrareinangruð, og lögð í einangrunarpípu á nógu löngum kafla til þess að fyrrgreind fjarlægð náist.

5.             Þurfi varanleg rafgirðing að liggja nær háspennulínum eða öðrum háspennuvirkjum en nemur 15 metrum, skal sótt um leyfi viðkomandi rafveitu.

Varast skal að setja upp langar rafgirðingar samsíða háspennulínunum vegna spanáhrifa frá línunum

6.             Sé nauðsynlegt að setja upp varanlega rafgirðingu nærri loftlínu, skal hæð efsta girðingarstrengsins frá jörðu vera minni en 2 metrar. Þetta markgildi á við alls staðar þar sem:

a)             fjarlægð frá lóðréttri línu ysta vírs loftlínu (ofanvarpi) er minni en 2,5 metrar og spenna loftlínunnar er 1 kV eða minni (lágspenna) eða

b)            fjarlægð frá háspennulínu er minni en 15 metrar og spenna línunnar meiri en 1 kV (háspenna), sjá b)-lið, 5. tölulið.

Forðast skal að leggja rafgirðingu þvert á háspennulínur. Sé það nauðsynlegt skal rafgirðingin vera sem næst hornrétt á háspennulínuna. Sótt skal um leyfi til eiganda háspennulínunnar í hverju tilviki.

Ef rafgirðing liggur þvert á háspennulínu, skal hún vera í a.m.k. 2,5 metra fjarlægð frá línumöstrum.

7.             Rafgirðingar og aðtaugar þeirra skulu vera í 2 metra fjarlægð frá símaloftlínum hið skemmsta. Haft skal samráð við eiganda fjarskiptavirkis um tilhögun framkvæmda.

8.             Strengi rafgirðinga eða aðtaugar þeirra má ekki festa á raflínu- eða símastaura.

c)             Búnaður og frágangur.

1.             Aldrei má nota gaddavír í rafgirðingar, sjá a)-lið, 2. tölulið.

2.             Hver einstök rafgirðing skal aðeins vera tengd einum spennugjafa.

Útgangsspenna spennugjafa fyrir rafgirðingar skal undantekningarlaust vera í samræmi við gildandi reglur.

Girðingar með einum streng má aðeins tengja við eina rás spennugjafa, en fjölstrengja rafgirðingar má tengja við fleiri rásir sama spennugjafa með því skilyrði, að hver girðingarstrengur sé aðeins tengdur við eina rás.

3.             Rafgirðingar og spennugjafa rafgirðinga skal ekki setja þar sem um eldhættu getur verið að ræða. Spennugjafa skal komið fyrir, þar sem börn ná ekki til, og jafnframt gengið þannig frá þeim, að slysahætta sé sem minnst.

4.             Spennugjafar rafgirðinga skulu fullnægja kröfum, sem gerðar eru til raffanga með tilliti til öryggis og markaðssetningar. Þar sem spennugjafar tengjast veitukerfi rafveitu (neysluveitu), skulu þeir settir upp og tengdir af fagmönnum í samræmi við gildandi reglugerðir.

5.             Ef spennugjafi rafgirðingar er festur á eða í byggingu með eldingavara, skal tengja saman jarðskaut eldingavara og jarðskaut girðingarinnar.

6.             Rafgirðingar og aðtaugar þeirra skulu ekki vera í leiðnu sambandi við málmhluta, sem ekki tilheyra girðingunni, t.d. byggingahluta, handrið á brúm og þess háttar.

7.             Aðtaugar rafgirðinga skulu festar á einangrara með fullnægjandi einangrunarhæfni og efnisstyrk.

Inni í byggingum skulu aðtaugar rafgirðinga með meira en 1 kV rekstrarspennu vera sérstaklega einangraðar frá byggingahlutum, sem eru í beinu leiðandi sambandi við jörðu.

Þetta skal gert annaðhvort með nægilegu loftbili eða með háspennustrengjum, sem gerðir eru a.m.k. fyrir þá spennu, sem notuð er.

Einangrurum skal komið þannig fyrir, að aðtaugar og strengir girðingarinnar verði minnst í 3 sm fjarlægð frá byggingahlutum, pípum, leiðandi hlutum og öðru þvílíku, þannig að ekki verði óbeint leiðið samband við byggingahluta, sem geta brunnið t.d. um nagla og aðra leiðandi hluti.

                Aðtaugum spennugjafa, sem eru með leiðandi umgerð, skal komið þannig fyrir, að ekki myndist leiðið samband við umgerðina.

8.             Ef nauðsynlegt er að leggja aðtaugar girðinga neðanjarðar, skal tryggja örugga einangrun þeirra gagnvart jörðu með pípum úr einangrunarefni eða háspennustrengjum.

9.             Rekstrarjarðskauti girðingar skal helst komið fyrir, þar sem jarðvegur er rakur, til þess að tryggja sem besta jarðtengingu. Ef notuð eru stafskaut, skal nota jarðskautsteina af viðurkenndri gerð og skulu þeir ekki vera styttri en 2 metrar skv. ákvæðum 242. gr. þessarar reglugerðar um fyrirkomulag og gerð jarðskauta og jarðskautstauga.

Ekki skal vera skemmra milli samtengdra stafskauta (teina) en nemur tvöfaldri lengd þeirra. Tengivírar milli skautsteina skulu tengdir með tengiklemmum og tengivírarnir grafnir niður milli teinanna.

Viðnám rekstrarjarðskauta rafgirðinga skal hið hæsta vera 30 ohm.

Í stafskaut skal nota a.m.k. þrjá teina og reka þá niður þannig, að þeir myndi þríhyrning, og hringtengja.

Vír eða borðaskaut skulu grafin niður á a.m.k. 0,5 metra dýpi. Dýpt jarðskauts má þó vera minni þegar um er að ræða afllitla spennugjafa, sem fá afl sitt frá rafgeymum.

2. gr.

Reglugerð þessi um breytingu á reglugerð um raforkuvirki nr. 264 31. desember 1971, með áorðnum breytingum, er sett samkvæmt heimild í 13. gr. laga nr. 146/1996 um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga og öðlast þegar gildi.

Viðskiptaráðuneytinu, 8. febrúar 1999.

F. h. r.

Þórður Friðjónsson.

______________________

Atli Freyr Guðmundsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica