Leita
Hreinsa Um leit

Viðskiptaráðuneyti

777/1998

Reglugerð um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

1. gr.

Eftirlitsskyldir aðilar sem falla undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins skulu standa undir kostnaði við rekstur þess. Reglugerð þessi segir til um með hvaða hætti Fjármálaeftirlitið leggur á eftirlitsgjald og hvernig hinir eftirlitsskyldu aðilar skuli standa skil á því.

2. gr.

Eftirlitsskyldir aðilar tilnefna menn til setu í samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila skv. 7. gr. laga nr. 87/1998. Í nefndinni skulu eiga sæti einn maður tilnefndur sameiginlega af félögum og einstaklingum sem stunda miðlun vátrygginga, Kvótaþingi Íslands, Verðbréfaþingi Íslands og Verðbréfaskráningu Íslands, einn tilnefndur af Sambandi íslenskra viðskiptabanka, einn tilnefndur af samtökum verðbréfafyrirtækja, einn tilnefndur af samtökum lífeyrissjóða, einn tilnefndur af Sambandi íslenskra tryggingafélaga, einn tilnefndur af Sambandi íslenskra sparisjóða og einn tilnefndur af samtökum lánastofnana. Berist ósk um slíkt frá aðilum sem lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins og ekki eru upp taldir hér að framan er heimilt að fjölga um allt að tvo menn í nefndinni enda sé meirihluti nefndarmanna því samþykkur. Tilkynna skal stjórn Fjármálaeftirlitsins um slíka ráðstöfun.

Eftirlitsskyldir aðilar bera kostnað af starfi samráðsnefndar.

3. gr.

Fyrir 1. september ár hvert skal stjórn Fjármálaeftirlitsins senda samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila áætlun um heildarlaunakostnað, húsnæðiskostnað og samandreginn annan kostnað úr rekstraráætlun fyrir næsta ár.

Eigi síðar en 15. september boðar stjórn Fjármálaeftirlitsins samráðsnefndina til fundar þar sem samráðsnefndinni er gefinn kostur á því að tjá sig um áætlað rekstrarumfang.

Fyrir 20. september sendir stjórn Fjármálaeftirlitsins endanlegar niðurstöðutölur vegna þeirra útgjaldaliða sem tilgreindir eru í 1. mgr. til samráðsnefndar. Samráðsnefnd sendir stjórn Fjármálaeftirlitsins álit sitt á áætluðu rekstrarumfangi fyrir 25. september. Berist álit samráðsnefndar eigi fyrir þann tíma skal svo litið á að nefndin hafi ekki talið tilefni til þess að gefa álit.

Eigi síðar en 25. september skal stjórn Fjármálaeftirlitsins senda viðskiptaráðherra rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins til samþykktar. Skal álit samráðsnefndar fylgja áætluninni. Samþykki ráðherra skal liggja fyrir eigi síðar en 5. október.

Viðskiptaráðuneytið auglýsir í Stjórnartíðindum hundraðshluta álagðs eftirlitsgjalds á einstaka flokka eftirlitsskyldra aðila samkvæmt samþykktri rekstaráætlun.

4. gr.

Til þess að standa undir rekstri Fjármálaeftirlitsins greiða eftirlitsskyldir aðilar eftirlitsgjald til Fjármálaeftirlitsins í samræmi við ákvæði 16. gr. laga nr. 87/1998.

Álagningargrunnur eftirlitsgjalds er ársreikningur eftirlitsskylds aðila vegna næstliðins árs þegar helstu kennitölur áætlunar Fjármálaeftirlits fyrir næsta ár eru lagðar fyrir samráðsnefnd. Falli starfsemi eftirlitsskylds aðila undir fleiri en eitt svið getur Fjármálaeftirlitið óskað eftir nauðsynlegum gögnum til að unnt sé að leggja á eftirlitsgjald í samræmi við ákvæði 4. mgr. 16. gr. laga nr. 87/1998.

Hafi tveir eða fleiri eftirlitsskyldir aðilar sameinast á yfirstandandi ári skal miða álagningu við samanlagða ársreikninga þeirra vegna næstliðins árs.

Sé ársreikningur ekki fyrir hendi þar sem eftirlitsskyldur aðili er nýr á markaði skal miða álagningu við áætlun hans um rekstur fyrir næsta ár. Eftirlitsgjald vegna fyrsta starfsárs nýs eftirlitsskylds aðila skal miðast við áætlun hans um rekstur á því ári. Mismunur álagðs eftirlitsgjalds samkvæmt þessari reikniaðferð og þess sem það hefði orðið samkvæmt rauntölum skal gerður upp þegar ársreikningar vegna viðkomandi ára liggja fyrir. Heimilt er Fjármálaeftirlitinu að semja um að greiðslum vegna þessa mismunar verði dreift á fjóra mánuði. Sé mismunur á þann veg að lagt hafi verið á hærra gjald en lagt hefði verið á samkvæmt ársreikningi skal mismunur dreginn frá næstu greiðslu viðkomandi aðila á álögðu eftirlitsgjaldi.

Sé ársreikningur ekki fyrir hendi þar sem eftirlitsskyldur aðili hefur ekki skilað inn ársreikningi skal Fjármálaeftirlitið áætla niðurstöðutölur ársreiknings á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga og miða álagningu við þá áætlun.

Verði álagningu eftirlitsgjalds að öðru leyti ekki við komið í samræmi við ákvæði greinar þessarar skal um hana fara skv. 7. gr. þessarar reglugerðar.

5. gr.

Að fengnu samþykki ráðherra sendir Fjármálaeftirlitið fyrir 1. desember ár hvert hverjum einstökum eftirlitsskyldum aðila tilkynningu um álagningu eftirlitsgjalds næsta árs.

6. gr.

Eftirlitsgjald greiðist ársfjórðungslega með fjórum jafnháum greiðslum. Það greiðist þannig að gjalddagi 1. ársfjórðungs er 1. janúar og eindagi 15. janúar, gjalddagi 2. ársfjórðungs er 1. apríl og eindagi 15. apríl, gjalddagi 3. ársfjórðungs er 1. júlí og eindagi 15. júlí og gjalddagi 4. ársfjórðungs er 1. október og eindagi 15. október.

Sé eftirlitsgjald ekki greitt fyrir eindaga hverrar greiðslu reiknast dráttarvextir á greiðsluna frá gjalddaga í samræmi við lög um dráttarvexti.

               

7. gr.

Fyrir eftirlit með starfsemi annarri en þeirri sem upp er talin í 1.-7. tölul. 3. mgr. l6. gr. laga nr. 87/1998 greiðist samkvæmt reikningi.

Gjaldskrá fyrir eftirlit samkvæmt þessari grein skal samþykkt af stjórn Fjármálaeftirlitsins og liggja þar frammi.

Sé nauðsynlegt að sinna eftirliti samkvæmt þessari grein utan starfsstöðvar Fjármálaeftirlitsins skal akstur, og eftir atvikum annar flutnings- og dvalarkostnaður, greiddur í samræmi við útlagðan kostnað.

8. gr.

Telji Fjármálaeftirlitið að eftirlit með einstökum eftirlitsskyldum aðila sé umtalsvert kostnaðarsamara og krefjist meiri mannafla en áætlun um reglubundið eftirlit gerir ráð fyrir, og að ekki sé eðlilegt að jafna þeim kostnaði á aðra eftirlitsskylda aðila, skal hún gera stjórn stofnunarinnar grein fyrir slíku. Stjórn Fjármálaeftirlitsins getur þá ákveðið að viðkomandi eftirlitsskyldum aðila verði gert að greiða samkvæmt reikningi það umframeftirlit sem nauðsynlegt var að viðhafa. Ákvæði 7. gr. eiga við eftir því sem kostur er í slíkum tilvikum.

9. gr.

Verði rekstrarafgangur af starfsemi Fjármálaeftirlitsins skal hann ganga hlutfallslega upp í álagt eftirlitsgjald næsta árs.

Verði rekstrartap af starfsemi Fjármálaeftirlitsins skal lagt á eftirlitsskylda aðila viðbótareftirlitsgjald næsta ár á eftir sem nemur rekstrartapinu. Álagning þessi kemur til framkvæmda þegar niðurstöðutölur rekstrar Fjármálaeftirlitsins liggja fyrir og skal hún vera í sömu hlutföllum og álagning yfirstandandi árs. Heildarálagning afmarkast af hámarki því sem tilgreint er í 3. mgr. 16. gr. laga nr. 87/1998.

10. gr.

Um álagningu eftirlitsgjalds sem eftirlitsskyldir aðilar skulu greiða til þess að standa undir kostnaði við starfsemi Fjármálaeftirlitsins á árinu 1999 fer samkvæmt eftirfarandi:

 a.            Stjórn Fjármálaeftirlitsins kynnir samráðsnefnd skv. 2. gr., eins og hún er tilnefnd við gildistöku reglugerðar þessarar, drög að helstu útgjaldaliðum rekstraráætlunar fyrir árið 1999. Skal nefndinni gefinn kostur á að láta í ljós álit á áætluðu rekstrarumfangi Fjármálaeftirlitsins áður en áætlunin er send ráðherra til samþykktar.

 b.            Að liðnum fresti samráðsnefndar til þess að skila áliti sendir stjórn Fjármálaeftirlitsins ráðherra eins fljótt og kostur er rekstraráætlun fyrir árið 1999 til samþykktar. Álit samráðsnefndar skal fylgja rekstraráætluninni hafi það borist innan tilskilins tíma.

 c.            Þegar ráðherra hefur samþykkt rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 1999 auglýsir viðskiptaráðuneytið þá þegar í Stjórnartíðindum hundraðshluta álagðs eftirlitsgjalds á einstaka flokka eftirlitsskyldra aðila samkvæmt samþykktri rekstraráætlun.

 d.            Eins fljótt og kostur er í ársbyrjun 1999 skal senda hverjum einstökum eftirlitsskyldum aðila tilkynningu um álagningu eftirlitsgjalds fyrir árið 1999. Gjalddagi fyrstu greiðslu skal vera 20. janúar 1999 og eindagi 1. febrúar 1999.

 e.            Að öðru leyti en greinir í a.-d. lið þessarar greinar gilda ákvæði reglugerðar þessarar um álagningu og innheimtu eftirlitsgjalds sem lagt er á eftirlitsskylda aðila á árinu 1999.

11. gr.

Reglugerð þessi er sett með vísan til 7. gr. og 8. mgr. 16. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, og öðlast hún gildi þann 1. janúar 1999.

Viðskiptaráðuneytinu, 23. desember 1998.

Finnur Ingólfsson.

Þórður Friðjónsson.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica