1.gr.
Þeir sem hyggjast stunda miðlun vátrygginga skulu leggja fram vottorð um gilda starfsábyrgðartryggingu sem bætir það tjón sem kann að hljótast vegna starfsemi þeirra og þeir eru bótaskyldir fyrir.
2. gr.
Starfsleyfi til miðlunar vátrygginga er háð því skilyrði að í gildi sé starfsábyrgðartrygging hjá vátryggingafélagi sem hefur leyfi til starfsemi hér á landi.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að leggja fram samsvarandi bankaábyrgð í stað vátryggingar enda veiti hún sambærilega vernd að mati viðskiptaráðuneytis.
Vátryggingafjárhæð skal miðuð við þá áhættu sem í starfseminni felst, en skal að lágmarki nema eftirtöldum fjárhæðum vegna tjóna sem valdið er af gáleysi innan hvers vátryggingarárs:
1. 25 milljónum kr. þegar starfað er á sviði persónutrygginga.
2. 150 milljónum kr. sé starfað við miðlun greinaflokka sem teljast til stóráhættu samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi að greiðsluvátryggingum undanteknum, eða í atvinnurekstri þar sem eru fleiri en 100 ársverk.
3. 50 milljónum kr. í öðrum vátryggingum en þeim sem tilgreindar eru í töluliðum 1 og 2.
Sé starfað á fleiri en einu sviði samkvæmt 1.-3. tölul. 3. mgr., gildir sú lágmarksfjárhæð sem hæst er.
Vátryggingaeftirlitið getur gert kröfu um að vátryggingafjárhæðir séu hærri en segir í 3. mgr. telji eftirlitið það nauðsynlegt vegna umfangs og eðlis starfseminnar og skal slík krafa rökstudd.
3. gr.
Vátryggingin skal greiða bætur vegna tjóns sem tjónþoli verður fyrir vegna miðlunar vátrygginga og valdið er af gáleysi. Vátryggingafélagi er heimilt að undanskilja ábyrgð sína vegna tjóns sem valdið er af stórkostlegu gáleysi.
Heimilt er að áskilja sjálfsáhættu vátryggingataka í vátryggingaskilmálum en slíkt ákvæði má ekki skerða réttarstöðu þriðja manns. Sjálfsáhættu skal getið í vátryggingaskilmálum, skírteini eða iðgjaldskvittun. Heimilt er að semja svo um að vátryggingafélag greiði ekki sjálfsáhættu til þriðja manns ef vátryggingataki leggur fram bankaábyrgð sem Vátryggingaeftirlitið samþykkir. Samþykki Vátryggingaeftirlitsins skal háð þeim skilyrðum að komi til greiðslu úr vátryggingunni greiði viðkomandi banki sjálfsáhættuna skilyrðislaust út til þriðja aðila og að bankaábyrgðin nemi á hverjum tíma fimmfaldri fjárhæð sjálfsáhættu.
Vátryggingin skal taka til miðlunar vátrygginga hvar sem er innan hins Evrópska efnahagssvæðis nema um annað hafi verið samið sérstaklega.
4. gr.
Falli starfsábyrgðartrygging úr gildi skal hlutaðeigandi vátryggingafélag tilkynna það vátryggingataka og Vátryggingaeftirlitinu þegar í stað. Vátryggingartímabili telst ekki lokið fyrr en liðnir eru 4 dagar frá því að vátryggingafélagið tilkynnti Vátryggingaeftirlitinu og vátryggingataka sannanlega um lok vátryggingar. Að liðnum nefndum 4 daga fresti telst leyfi til vátryggingamiðlunar fallið úr gildi, nema önnur fullnægjandi starfsábyrgðartrygging hafi verið keypt.
Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við um bankaábyrgð sem heimiluð er samkvæmt 2. mgr. 2. gr. eða 2. mgr. 3. gr.
Breytingar á vátryggingaskilmálum starfsábyrgðartryggingar skulu sendar Vátryggingaeftirlitinu áður en þær taka gildi.
5. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 81. og 98. gr. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi með síðari breytingum og öðlast hún þegar gildi.
Viðskiptaráðuneytinu, 5. júní 1997.
Finnur Ingólfsson.
Halldór J. Kristjánsson.