Viðskiptaráðuneyti

94/1997

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 264, 31. desember 1971 um raforkuvirki, með áorðnum breytingum. - Brottfallin

Stofnreglugerð:

Felld brott með:

1. gr.

                1.9. gr. I. kafla, eftirlitsgjöld, hljóði svo:

1.9          Eftirlitsgjöld.

1.9.1        Gjald vegna yfireftirlits og úrtaksskoðana Löggildingarstofu.

                Vegna yfireftirlits Löggildingarstofu með rafveitum og vegna yfireftirlits Löggildingarstofu og þeirra úrtaksskoðana sem stofnunin lætur framkvæma á nýjum neysluveitum og neysluveitum í rekstri skulu rafveitur greiða gjald til stofnunarinnar. Gjaldið skal reiknast af heildarandvirði raforkusölu þeirra og heildarendurgjaldi fyrir leigu mælitækja að frádregnu andvirði aðkeyptrar raforku, virðisaukaskatti og verðjöfnunargjaldi. Gjaldið skal vera 0,8% frá 15. janúar 1997.

                Sérhver gjaldskyldur aðili skal ótilkvaddur mánaðarlega skila skýrslu til Löggildingarstofu ásamt greiðslu. Í skýrslunni komi fram fjárhæð raforkukaupa og raforkusölu í síðasta almanaksmánuði, allir gjalda- og skattstofnar, svo og gjald það sem inna ber af hendi. Skýrslan skal undirrituð af þeim aðila, manni eða mönnum sem heimild hafa til að skuldbinda gjaldskylda aðila eða öðrum þeim sem til þess hafa sérstakt umboð samkvæmt stöðu sinni. Skýrslunni skal skilað í þríriti og áritar Löggildingarstofa eitt afritið um móttöku skýrslunnar og dagsetningu móttöku. Skili gjaldskyldur aðili ekki skýrslu á réttum tíma skal Löggildingarstofa áætla orkusölu þess aðila á grundvelli raforkusölu síðustu 12 mánaða og annarra atriða er máli skipta.

                                Ef eigandi raforkuvers notar sjálfur alla þá orku sem þar er unnin eða verulegan hluta hennar og hún er ekki mæld eða verðlögð eða ekki er vitað um tekjur af raforkusölu skal hann greiða gjald af áætlaðri orkunotkun.

1.9.2        Gjald af eftirlitsskyldum rafföngum.

                                Vegna yfireftirlits Löggildingarstofu og vegna eftirlits með rafföngum á markaði sem stofnunin lætur framkvæma skulu innflytjendur og innlendir framleiðendur greiða gjald til stofnunarinnar. Gjaldið skal vera 0,15% af tollverði innfluttrar vöru, eða af verksmiðjuverði innlendrar vöru. Tollstjórar annast innheimtu þessa gjalds fyrir hönd Löggildingarstofu.

                                Gjaldskyldan nær til allra raffanga sem flutt eru til landsins eða framleidd eru hér á landi og flokkast undir tollskrárnúmer sem talin eru upp í viðauka 6. Rafföng sem seld eru úr landi eru þó ekki gjaldskyld. Um gjaldstofn, gjalddaga, uppgjörstímabil og innheimtu skulu ákvæði laga nr. 97/1987 um vörugjald, með síðari breytingum, gilda eftir því sem við getur átt.

1.9.3        Gjald vegna prófunar raffanga.

                                Löggildingarstofu er heimilt að láta prófa rafföng innlendra framleiðenda sem sett eru á markað í fyrsta sinn. Framleiðendur raffanga greiða Löggildingarstofu fyrir slíkar prófanir samkvæmt gjaldskrá sem Löggildingarstofa gefur út og ráðherra staðfestir.

1.9.4        Gjald vegna úrtaksskoðana Löggildingarstofu.

                                Vegna úrtaksskoðana sem Löggildingarstofa lætur framkvæma á búnaði rafveitna og skoðana á innri öryggisstjórnun þeirra skulu rafveitur greiða skoðunarkostnað samkvæmt gjaldskrá sem Löggildingarstofa gefur út og ráðherra staðfestir.

                                Vegna yfireftirlits Löggildingarstofu og úrtaksskoðana sem stofnunin lætur framkvæma á búnaði stóriðjuvera sem kaupa eða framleiða raforku sem undanskilin er gjaldtöku skv. 1. tölul. skulu eigendur þeirra greiða skoðunarkostnað samkvæmt gjaldskrá sem Löggildingarstofa gefur út og ráðherra staðfestir.

                                Vegna yfireftirlits Löggildingarstofu og þeirra úrtaksskoðana sem stofnunin lætur framkvæma á aðstöðu, búnaði og innri öryggisstjórnun rafverktaka skulu rafverktakar greiða skoðunarkostnað samkvæmt gjaldskrá sem Löggildingarstofa gefur út og ráðherra staðfestir.

1.9.5        Innheimta eftirlitsgjalda.

                                Gjalddagi rafveitueftirlitsgjalds er 15. dagur næsta mánaðar eftir sölumánuð. Gjalddagi reikninga fyrir önnur eftirlitsgjöld skv. þessari grein eru 20 dagar eftir dagsetningu reikninga. Eindagi er 10 dögum síðar. Beri eindaga upp á helgidag eða almennan frídag færist eindagi á næsta virkan dag á eftir. Séu eftirlitsgjöld eigi greidd á eindaga falla á hæstu leyfilegir dráttarvextir á hverjum tíma fyrir hvern byrjaðan mánuð, talið frá gjalddaga. Eftirlitsgjöld og dráttarvexti má taka lögtaki skv. lögum nr. 29/1885.

                Ágreining um gjaldskyldu eða gjaldstofn skv. þessari grein má bera undir ráðherra orkumála.

 

2. gr.

                Reglugerð þessi er sett skv. heimild í 14. gr. laga um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga nr. 146/1996, 27. desember 1996, til að taka gildi við birtingu.

 

Viðskiptaráðuneytinu, 3. febrúar 1997.

 

Finnur Ingólfsson.

Halldór J. Kristjánsson.

 

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica