Viðskiptaráðuneyti

272/1994

Reglugerð um hlutverk fjármálastofnana við aðgerðir gegn peningaþvætti - Brottfallin

I. KAFLI

Ákvæði sem treysta þekkingu fjármálastofnana á viðskiptamönnum sínum.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um eftirtaldar fjármálastofnanir:

1. Viðskiptabanka, sparsjóði og dótturfélög þeirra.

2. Stofnanir samkvæmt lögum um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.

3. Líftryggingafélög og séreignalífeyrissjóði.

4. Verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði.

5. Hérlend útibú erlendra fjármálastofnana, sem hafa með höndum starfsemi skv. 1.-4. tölulið.

2. gr.

Framvísun skilríkja.

Starfsmaður fjármálastofnunar skal krefjast þess af viðskiptamanni að hann sanni á sér deili með framvísun persónuskilríkja í eftirgreindum tilvikum:

1. Við upphaf viðskiptasambands. Með orðinu viðskiptasamband er átt við, að samningur sé gerður á milli fjármálastofnunar og viðskiptamanns um viðskipti, sem framhald verður fyrirsjáanlega á, s.s. stofnun bankareiknings, gerð lánssamnings eða fjárvörslusamnings eða opnun bankahólfs.

2. Þegar viðskiptamaður, sem ekki er í föstu viðskiptasambandi á í viðskiptum með hærri fjárhæð en 1.100.000 kr.

3. Ef fjárhæðin er ekki þekkt á þeim tíma er viðskiptin eiga sér stað eða viðskiptin fara fram í fleiri en einni aðgerð sem virðast tengjast hver annarri skal krefjast framvísunar persónuskilríkja um leið og vitneskja fæst um fjárhæðina og ljóst er að hún er hærri en að framan greinir.

4. Ávallt þegar grunur leikur á að rekja megi uppruna eignar til brots á almennum hegningarlögum eða lögum um ávana- og fíkniefni, jafnvel þótt um sé að ræða viðskipti með lægri fjárhæð en skv. 3. tl. eða að greiðsla fyrir viðskiptin verði færð til skuldar á viðskiptareikningi í nafni viðskiptamanns í sambærilegri stofnun, skv. 3. gr.

3. gr.

Nánar um persónuskilríki.

Persónuskilríki sem framvísað er, skulu vera skilríki útgefin af stjórnvöldum, með ljósmynd, nafni, og kennitölu viðkomandi manns, s.s. vegabréf, ökuskírteini eða nafnskírteini.

Fjármálastofnun skal varðveita afrit af persónuskilríkjum þeim sem krafist er samkvæmt 1. mgr. eða eftirgreindar upplýsingar í a.m.k. fimm ár frá því að viðskiptum eða viðskiptasambandi lýkur:

1. Nafn og kennitala viðskiptamanns.

2. Tegund og númer persónuskilríkis.

3. Staðfesting starfsmanns á að hann hafi skoðað persónuskilríki.

Þessar upplýsingar skulu vera aðgengilegar ríkissaksóknara eða lögreglu sem rannsakar peningaþvættismál.

4. gr.

Undanþágur frá kröfu um framvísun persónuskilríkja.

Í eftirfarandi tilvikum er ekki skylt að krefjast framvísunar persónuskilríkja né skráningar og varðveislu upplýsinga:

1. Þegar viðskiptaaðili er fjármálastofnun sem starfar innan Evrópska efnahagssvæðisins.

2. Þegar staðfest er að greiðsla fyrir viðskiptin verði færð til skuldar á viðskiptareikningi á nafni viðskiptamanns í sambærilegri stofnun, sem starfar innan Evrópska efnahagssvæðisins.

3. Við gerð líftryggingarsamnings hjá fjármálastofnun ef árlegt iðgjald er lægra en 80.000 kr. eða um er að ræða eingreiðslu iðgjalds sem er lægri en 200.000 kr. Ef árlegt iðgjald er hækkað, þannig að það verði hærra en 80.000 kr. skal krefjast framvísunar skilríkja.

5. gr.

Upplýsingar um þriðja mann og lögpersónur.

Hafi starfsmaður fjármálastofnunar vitneskju um eða ástæðu til að ætla að tiltekin viðskipti fari fram í þágu þriðja manns skal viðskiptamaður krafinn upplýsinga um hver sá þriðji maður er.

Þegar til viðskiptasambands er stofnað fyrir hönd lögaðila skal krafist upplýsinga um nafn (firma), kennitölu, heimilisfang og starfsemi fyrirtækis. Prókúruhafar lögaðila skulu sanna á sér deili með sama hætti og í einstaklingsviðskiptum, auk þess sem þeir skulu sanna að þeir hafi prókúru. Sé lögaðilinn skráð fyrirtæki í öðru ríki skal uppgefið hvaða stjórnvald geti staðfest upplýsingarnar.

Upplýsingar samkvæmt þessari grein skulu skráðar og vera aðgengilegar með sama hætti og upplýsingar um stofnun viðskiptasambands, skv. 2. gr.

6. gr.

Viðskiptum hafnað.

Framvísi viðskiptamaður ekki fullnægjandi persónuskilríkjum samkvæmt reglugerð þessari eða neiti að veita upplýsingar skv. 5. gr. skal fjármálastofnun hafna viðskiptum.

II. KAFLI

Ákvæði um aðgerðir þegar rekja má viðskipti til refsiverðs athæfis.

7. gr.

Sérstök athugun fjármálastofnana á viðskiptum.

Fjármálastofnun skal athuga sérstaklega öll viðskipti sem eru óvenjuleg, mikil eða flókin, með hliðsjón af venjubundinni starfsemi viðskiptamanns. Hún skal ennfremur athuga öll viðskipti, sem virðast ekki hafa efnahagslegan eða lögmætan tilgang. Athuga skal bakgrunn og tilgang slíkra viðskipta í þeim mæli sem hægt er. Skrifleg skýrsla skal gerð um niðurstöður þeirrar athugunar. Skýrslan skal vera aðgengileg bankaeftirliti, endurskoðendum viðkomandi stofnunar, ríkissaksóknara og lögreglu.

8. gr.

Tilkynning til ríkissaksóknara.

Þegar athugun í samræmi við 7. gr. eða önnur atvik leiða til þess að grunur leikur á að rekja megi viðskipti til brots á almennum hegningarlögum eða lögum um ávana- og fíkniefni, skal fjármálastofnun tilkynna ríkissaksóknara um viðskiptin.

Ríkissaksóknari veitir leiðbeiningu um form og efnisatriði slíkra tilkynninga, t.d. með útgáfu sérstaks eyðublaðs í þessu skyni.

9. gr.

Upplýsingagjöf til lögreglu.

Samkvæmt beiðni ríkissaksóknara eða lögreglu, sem rannsakar peningaþvættismál, skal fjármálastofnun láta í té allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru taldar vegna rannsóknarinnar. Slíka beiðni skal bera fram skriflega. Ekki er þörf á dómsúrskurði vegna veitinga upplýsinga samkvæmt þessari grein.

10. gr.

Stöðvun viðskipta.

Forðast skal viðskipti þegar fyrir hendi er vitneskja eða grunur um að rekja megi þau til brots á almennum hegningarlögum eða lögum um ávana- og fíkniefni þar til ríkissaksóknara hefur verið tilkynnt um viðskiptin. Ef ekki er unnt að koma í veg fyrir viðskiptin eða stöðvun þeirra gæti hindrið saksókn á hendur þeim sem hafa hagnað af viðskiptunum skal ríkissaksóknara tilkynnt um viðskiptin um leið og þau hafa farið fram.

11. gr.

Þagnarskylda.

Stjórnendur, starfsmenn og aðrir, sem vinna í þágu fjármálastofnunar, skulu sjá til þess að viðskiptamaður eða annar utanaðkomandi aðili fái ekki frá stofnuninni vitneskju um að ríkissaksóknara hafi verið sendar upplýsingar samkvæmt reglugerð þessari eða að rannsókn sé hafin vegna gruns um brot á almennum hegningirlögum eða lögum um ávana- og fíkniefni.

III. KAFLI

Innra eftirlit og þjálfun starfsmanna.

12. gr.

Ábyrgðarmaður og innra eftirlit.

Sérhver fjármálastofnun skal útnefna starfsmann meðal stjórnenda, sem ber ábyrgð á því að ákvæðum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og reglugerðar þessarar sé fylgt. Slíkur ábyrgðarmaður skal sjá til þess að mótaðar séu starfsaðferðir í fjármálastofnuninni í þessu skyni og þær samræmdar verklagsreglum samráðsnefndar skv. 14. gr.

Ábyrgðarmaður samkvæmt þessari grein ber jafnframt ábyrgð á innra eftirliti stofnunarinnar um aðgerðir gegn peningaþvætti, tekur ákvörðun um sérstaka athugun skv. 7. gr. og um tilkynningu til ríkissaksóknara skv. 8. gr.

13. gr.

Þjálfun starfsmanna.

Fjármálastofnun skal sjá til þess að starfsmenn hljóti fræðslu um skyldur sínar samkvæmt reglugerð þessari og lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og jafnframt sérstaka þjálfun sem auðveldi þeim að staðreyna hvaða viðskipti gætu tengst peningaþvætti.

IV. KAFLI

Ýmis ákvæði.

14. gr.

Samráðsnefnd.

Viðskiptaráðherra skipar samráðsnefnd um aðgerðir gegn peningaþvætti. Í henni sitja fulltrúar viðskiptaráðuneytisins, Seðlabanka Íslands, ríkissaksóknaraembættisins, rannsóknarlögreglu ríkisins, lögreglustjórans í Reykjavík og fulltrúar fjármálastofnana þeirra er greinir í 1. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti.

Hlutverk nefndarinnar er að fylgjast með framkvæmd aðgerða gegn peningaþvætti, samræma verklagsreglur og vera stjórnvöldum til ráðuneytis um aðgerðir gegn peningaþvætti og framkvæmd þeirra.

15. gr.

Fjárhæðir

Fjárhæðir sem getið er um í reglugerð þessari skulu bundnar gengi evrópsku mynteiningarinnar ECU. Seðlabanki Íslands auglýsir nýjar fjárhæðir í Lögbirtingablaði, miðað við 1. janúar ár hvert.

16. gr.

Viðurlög.

Um brot gegn ákvæðum þessarar reglugerðar fer eftir ákvæðum 14. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti.

17. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 13. gr. laga nr. 80 18. maí 1993, um aðgerðir gegn peningaþvætti, öðlast þegar gildi.

Viðskiptaráðuneytið, 16. maí 1994.

F. h. r.

Þorkell Helgason.

Gunnar Viðar.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica