Fjármála- og efnahagsráðuneyti

1070/2020

Reglugerð um próf í verðbréfaviðskiptum. - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um skipan prófnefndar og framkvæmd prófs í verðbréfaviðskiptum, þar á meðal prófkröfur, prófgreinar, lágmarksárangur til að standast próf og heimildir til að veita undan­þágur frá einstökum hlutum prófs eða prófi í heild.

 

2. gr.

Prófnefnd.

Prófnefnd verðbréfaviðskipta hefur umsjón með prófi í verðbréfaviðskiptum skv. 53. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Ráðherra skipar fimm manna prófnefnd til fjögurra ára í senn. Tveir nefndarmenn skulu vera tilnefndir af samstarfsnefnd háskólastigsins, sbr. 26. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006. Skal annar þeirra gegna fullu starfi hjá viðskiptadeild háskóla sem hefur leyfi til að útskrifa viðskiptafræðinga og hinn skal gegna fullu starfi við lagadeild háskóla sem hefur leyfi til að útskrifa lögfræðinga sem metnir eru fullnægjandi að lögum til að öðlast málflutningsréttindi fyrir héraðsdómstólum, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga um lögmenn, nr. 77/1998. Einn nefndarmaður skal tilnefndur af Sam­tökum fjármálafyrirtækja og einn sameiginlega af kauphöllum og skipulegum verðbréfa­mörk­uðum, sbr. lög um kauphallir, nr. 110/2007. Einn skal skipa án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndar­innar. Varamenn skal skipa með sama hætti.

Ákvarðanir prófnefndar eru endanlegar á stjórnsýslustigi.

 

3. gr.

Fyrirkomulag prófa og prófgjöld.

Próf í verðbréfaviðskiptum skulu að jafnaði haldin ekki sjaldnar en einu sinni á ári. Ekki er skylt að standa fyrir prófi nema að lágmarki tíu þátttakendur hafi skráð sig í próf. Prófnefnd ákveður fjölda prófa. Próf skulu að jafnaði vera skrifleg.

Próf skulu auglýst með að lágmarki átta vikna fyrirvara. Í auglýsingu skal koma fram hvar og hvenær próf eru haldin, tímalengd þeirra, hvaða hjálpargögn eru leyfileg og hvaða lágmarks­einkunnar er krafist. Í auglýsingunni skal einnig koma fram hvar upplýsingar um prófkröfur og prófsefni er að finna.

Ekki er skylt að halda sérstakt sjúkra- eða upptökupróf í tengslum við próf samkvæmt 1. mgr.

Ráðherra ákveður prófgjöld að fenginni tillögu prófnefndar og skulu þau greidd fyrir tiltekna dag­setningu sem prófnefnd ákveður. Upplýsingar um fjárhæð prófgjalda skulu liggja fyrir í síðasta lagi tveimur vikum fyrir próf.

 

4. gr.

Efni til verðbréfaviðskiptaprófs.

Prófnefnd tekur ákvörðun um efni sem prófað er úr á verðbréfaviðskiptaprófi, sbr. 3. og 4. mgr., sem og fjölda prófa og lengd próftíma. Prófnefnd semur prófsefnislýsingu og skal hún liggja fyrir á vefsíðu ráðuneytisins þegar próf er auglýst skv. 2. mgr. 3. gr.

Í prófinu skal látið reyna á hagnýta og fræðilega þekkingu sem varðar umsjón með daglegri starf­semi í tengslum við viðskipti með fjármálagerninga. Prófið skiptist í tvo hluta: lögfræði og viðskipta­fræði. Í lögfræðihlutanum reynir á eftirfarandi greinar:

 1. lög og reglur á fjármálamarkaði,
 2. almenna siðfræði og tengda löggjöf á fjármálamarkaði, og
 3. aðrar greinar á sviði lögfræði að því marki sem þær skipta máli við umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við viðskipti með fjármálagerninga:
  1. félagarétt,
  2. samninga- og kröfurétt, og
  3. gjaldþrotaskipti og sambærilega málsmeðferð.

Í viðskiptafræðihlutanum reynir á eftirfarandi greinar:

 1. verðbréf, afleiður og gjaldeyri,
 2. fjárfestingarferli,
 3. viðskiptahætti, og
 4. aðrar greinar á sviði viðskiptafræði að því marki sem þær skipta máli við umsjón með dag­legri starfsemi í tengslum við viðskipti með fjármálagerninga:
  1. skattaleg atriði, og
  2. þjóðhagfræði.

 

5. gr.

Skráning og undanþágur frá töku prófa.

Öllum er heimilt að skrá sig til verðbréfaviðskiptaprófs.

Þeir sem lokið hafa prófi, eða öðlast réttindi á Evrópska efnahagssvæðinu sem krafist er í við­komandi ríki til að vera heimilt að hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við viðskipti með fjármálagerninga, eiga rétt á að fá útgefið skírteini um próf í verðbréfaviðskiptum, sbr. tilskipun Evrópu­þingsins og ráðsins 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og 2. gr. laga nr. 26/2010 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi. Beiðnum um skírteini skv. 1. málsl. skal beint til prófnefndar.

 

6. gr.

Einkunnagjöf - lágmarkskröfur til að standast próf.

Einkunnir á prófi skulu gefnar í heilum og hálfum tölum frá 0-10. Til þess að standast verð­bréfa­viðskiptapróf þarf próftaki að hljóta að lágmarki 7,0 í meðaleinkunn úr þeim prófum sem krafist er að hann ljúki. Próftaki telst ekki hafa staðist einstök próf hljóti hann lægri einkunn en 5,0.

Próftaki á rétt á að sjá prófúrlausn sína innan 15 daga frá birtingu einkunnar óski hann þess. Próf­taka er heimilt að skjóta mati á úrlausn sinni til prófnefndar til endurmats innan tveggja mánaða frá birtingu einkunnar. Prófnefnd getur skipað prófdómara til að endurskoða úrlausn próf­taka á ábyrgð prófnefndar.

Ákvörðun prófnefndar um úrlausn er endanleg.

Ef taka þarf fleiri en eitt próf til að standast próf í verðbréfaviðskiptum skal próftaki hafa lokið öllum nauðsynlegum prófum með fullnægjandi árangri innan þriggja ára frá því hann tók fyrsta prófið.

Prófnefnd staðfestir að próftaki hafi staðist próf í verðbréfaviðskiptum.

 

7. gr.

Samningar prófnefndar.

Prófnefnd er heimilt að fela óháðum aðilum að semja prófefnislýsingu í viðkomandi grein, semja prófverkefni, fara yfir og gefa einkunn fyrir prófúrlausn. Þá er prófnefnd heimilt að semja við óháðan aðila um framkvæmd prófa.

Nú er ekki boðið upp á námskeið vegna verðbréfaviðskiptaprófs og er prófnefnd verðbréfa­viðskipta þá heimilt að standa fyrir námskeiði í einstökum greinum til undirbúnings prófsins. Í slíkum tilfellum er prófnefnd heimilt að semja við aðra aðila um að halda námskeið samkvæmt þessari málsgrein. Gjöld fyrir námskeiðin skulu þá ákveðin af ráðherra að fenginni tillögu próf­nefndar, nema samn­ingar takist við framkvæmdaraðila um að hann beri fjárhagslega ábyrgð á nám­skeiðinu.

 

8. gr.

Starfsmaður prófnefndar.

Prófnefnd er heimilt að ráða sér starfsmann til að hafa umsjón með undirbúningi og framkvæmd prófa og námskeiða skv. 2. mgr. 7. gr.

 

9. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 53. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 633/2003 um próf í verðbréfaviðskiptum, ásamt síðari breytingum, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða við reglugerð þessa.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

Prófnefnd verðbréfaviðskipta getur veitt próftaka sem hefur staðist eitt eða fleiri próf í I.-III. hluta verðbréfaviðskiptaprófs, skv. 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 633/2003 um próf í verðbréfa­viðskiptum, undanþágu frá töku prófs í einstökum greinum verðbréfaviðskiptaprófs skv. 4. gr. reglu­gerðar þessarar. Skilyrði þess að slík undanþága sé veitt er að prófið sem undanþágan byggir á sé sambærilegt gildandi prófefnislýsingu á hverjum tíma og ekki eldra en þriggja ára, sbr. 4. mgr. 6. gr.

 

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 21. október 2020.

 

F. h. r.

Guðrún Þorleifsdóttir.

Guðmundur Kári Kárason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica