Fjármála- og efnahagsráðuneyti

258/2015

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 397/2000, um rafræna eignarskráningu verðbréfa í verðbréfamiðstöð. - Brottfallin

1. gr.

Á eftir 4. gr. reglugerðarinnar kemur ný grein, 4. gr. a., er orðast svo:

Hafi félag ákveðið að greiða arð í gegnum kerfi verðbréfamiðstöðvar skal allur arður sem félagið greiðir vera greiddur fyrir tilstilli verðbréfamiðstöðvar.

2. gr.

11. gr. reglugerðarinnar breytist svo:

  1. Reikningsstofnun er heimilt að stofna reikninga í verðbréfamiðstöð án könnunar per­sónu­skilríkja skv. 10. gr. enda hafi reikningseigandi þegar stofnað reikning í lána- eða fjármálastofnun sem hlotið hefur starfsleyfi á Íslandi eða samsvarandi lögaðila sem hlotið hefur starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu og hann er jafnframt lög­legur viðtakandi á öllum greiðslum sem verðbréfamiðstöð er rétt að miðla greiðslum til samkvæmt greiðslufyrirmælum sem berast til hennar, sbr. 5. tölul. 9. gr. Leiki grunur á að viðskiptin tengist broti gegn ákvæðum laga nr. 64/2006 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er stofnun reiknings sam­kvæmt þessari grein óheimil.
  2. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Könnun persónuskilríkja.

3. gr.

2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

Reikningsstofnun og verðbréfamiðstöð ber að taka við beiðni um eignarskráningu á venju­legum afgreiðslutíma alla virka vikudaga þó ekki á helgidögum, sbr. ákvæði laga um helgi­daga­frið.

4. gr.

2. málsl. 51. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

Tengiliðurinn skal hafa lokið meistaraprófi (mag. jur.) eða embættisprófi (cand. jur.) í lögfræði.

5. gr.

2. mgr. 52. gr. reglugerðarinnar fellur brott.

6. gr.

2. mgr. 53. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

Jafnframt því að auglýsa innköllun tvisvar í Lögbirtingablaði ber útgefandi ábyrgð á því að birta auglýsingu um innköllun réttindanna í öðrum fjölmiðlum með áberandi hætti, s.s. í einu eða fleiri dagblöðum sem hafa víðtæka útbreiðslu á Íslandi og öðrum miðlum sem ástæða þykir til að nota svo upplýsingar um innköllun komist til eigenda útgefinna hluta­bréfa í félaginu.

7. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 12. og 17. gr. laga nr. 131/1997 um rafræna eignar­skráningu verðbréfa, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 2. mars 2015.

F. h. r.

Tómas Brynjólfsson.

Guðmundur Kári Kárason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica