Leita
Hreinsa Um leit

Viðskiptaráðuneyti

964/2000

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 852/2000, um viðbótareiginfjárlið fyrirviðskiptabanka, sparisjóði, aðrar lánastofnanir og fyrirtæki í verðbréfaþjónustu

1. gr.

Í stað núverandi 3. tl. 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar komi eftirfarandi:

Vaxtagreiðslur eru einungis heimilar innan þeirra marka sem óráðstafað eigið fé leyfir, enda séu lágmarks eiginfjárkröfur jafnframt uppfylltar eftir að tekið hefur verið tillit til vaxtagreiðslna. Komi ekki til vaxtagreiðslna á tilteknu ári eða árabili safnast þær ekki upp. Heimilt er að endurskoða í eitt skipti þá vexti sem kveðið er á um í skuldabréfinu, fyrst að 10 árum liðnum frá útgáfu bréfsins. Endurskoðunin má ekki leiða til þess að fjármagnskostnaður útgefanda á síðara tímabilinu verði hærri en endurskoðaður vaxtagrunnur að viðbættu upphaflegu áhættuálagi en að frádregnum mismuninum á endurskoðaða vaxtagrunninum miðað við upphaflega útgáfu bréfsins annars vegar og upphaflega vaxtagrunninum hins vegar og að viðbættu 1% stigi eða 50% af upphaflega áhættuálaginu, sbr. ennfremur formúlu síðar í þessum tölulið. Með upphaflegu áhættuálagi er átt við áhættuálag, svonefnt útlánaálag, ofan á upphaflegan vaxtagrunn, t.d. vexti af ríkisskuldabréfum með svipaðri tímalengd og endurskoðunarákvæði vaxta miðast við. Vaxtagreiðslur samkvæmt þessum tölulið skulu miðast við niðurfærðan höfuðstól, sbr. 4. tl., sé um slíkt að ræða. Formúla fyrir endurskoðaða vexti er eftirfarandi: Endurskoðaðir vextir = EVG + UÁÁ - (EVGU - UVG) + 1% eða + (50%*UÁÁ), þar sem EVG er endurskoðaður vaxtagrunnur; UÁÁ er upphaflegt áhættuálag; EVGU er endurskoðaður vaxtagrunnur miðað við upphaflega útgáfu bréfsins og UVG er upphaflegur vaxtagrunnur.

 

2. gr.

Reglugerð þessi er sett á grundvelli 7. mgr. 54. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, 10. gr. laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, og 9. mgr. 32. gr. laga nr. 13/1996, um fyrirtæki í verðbréfaþjónustu, og öðlast þegar gildi.

 

Viðskiptaráðuneytinu, 20. desember 2000.

 

Valgerður Sverrisdóttir.

Benedikt Árnason.

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica