Viðskiptaráðuneyti

21/1997

Reglugerð um Tryggingarsjóð viðskiptabanka og tilhögun á greiðslum úr tryggingasjóðum innlánsstofnana. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um Tryggingarsjóð viðskiptabanka
og tilhögun á greiðslum úr tryggingasjóðum innlánsstofnana.

 

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

                Tryggingarsjóður viðskiptabanka er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins með sérstakan fjárhag. Allir viðskiptabankar með staðfestu hér á landi skulu eiga aðild að Tryggingarsjóði. Aðilar að sjóðnum bera ekki ábyrgð á skuldbindingum hans.

 

2. gr.

                Hlutverk Tryggingarsjóðs viðskiptabanka er að tryggja innstæðueiganda skil á greiðslu innstæðu sem hann hefur krafist endurgreiðslu á og viðskiptabanka eða útibú eru ekki fær um að inna af hendi samkvæmt X. kafla laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, að því leyti sem eignir sjóðsins hrökkva til og mælt er fyrir um í ákvæðum þessarar reglugerðar.

 

3. gr.

                Stjórn sjóðsins skal skipuð þremur mönnum til þriggja ára í senn og þremur til vara. Einn stjórnarmanna skal tilnefndur af Sambandi íslenskra viðskiptabanka. Ráðherra skipar tvo stjórnarmenn án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum.

                Stjórnarfundir eru ályktunarhæfir þegar meiri hluti nefndarmanna situr fund. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á fundum stjórnar. Falli atkvæði jafnt ræður atkvæði formanns stjórnar.

                Stjórnarmaður, sem vanhæfur er til meðferðar máls, skal yfirgefa fundarsal við afgreiðslu þess.

                Formaður stjórnar skal boða fulltrúa bankaeftirlits Seðlabanka Íslands til stjórnarfundar þegar ástæða þykir til. Fulltrúi bankaeftirlitsins situr fundi með málfrelsi og tillögurétt.

                Ráðherra ákveður þóknun stjórnarmanna.

 

4. gr.

                Stjórn Tryggingarsjóðs heldur fundi svo oft sem þurfa þykir og hvenær sem stjórnarmaður æskir þess. Stjórnin skal halda gerðarbók.

 

5. gr.

                Heimilt er að veita stjórn Tryggingarsjóðs þær upplýsingar sem getið er um í 3. og 4. mgr. 67. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði.

 

6. gr.

                Verkefni stjórnar Tryggingarsjóðs eru eftirfarandi:

1.             gera tillögu til ráðherra um árlegt gjald viðskiptabanka til Tryggingarsjóðs og sjá um innheimtu á því, sbr. ákvæði II. kafla,

2.             afla ábyrgðaryfirlýsinga frá viðskiptabönkum, sbr. ákvæði II. kafla,

3.             taka ákvarðanir um ávöxtun á fé sjóðsins, sbr. 11. gr.,

4.             taka ákvarðanir um greiðslur úr sjóðnum, sbr. IV. kafla,

5.             semja ársreikning og ráða löggiltan endurskoðanda, sbr. VI. kafla,

6.             taka ákvarðanir sem snerta starfsemi Tryggingarsjóðs að öðru leyti en talið er upp í 1.-5. tl. hér að framan.

 

7. gr.

                Tryggingarsjóði viðskiptabanka er heimilt að starfrækja sjálfstæða lánadeild með aðskilinn fjárhag og reikningshald. Eignir annarrar deildarinnar verða ekki notaðar til að standa skil á skuldbindingum hinnar. Hlutverk lánadeildar er að tryggja fjárhagslegt öryggi viðskiptabanka, svo sem með lánveitingum, yfirtöku eigna, ábyrgðum og öðrum aðgerðum sem samræmast tilgangi deildarinnar.

                Stofnfé getur að hámarki numið því eigin fé sjóðsins sem er umfram kröfur um lögbundið lágmark í innstæðutryggingadeild samkvæmt ákvæðum í 8. gr.

                Heimilt er að veita viðskiptabanka víkjandi lán úr lánadeild í því skyni að efla eiginfjárstöðu hans, enda verði fjár til þess aflað sérstaklega með lántöku. Stjórn sjóðsins er heimilt að láta rannsaka rekstur og efnahag viðskiptabanka sem veitt er víkjandi lán og getur í þessu sambandi krafist nauðsynlegra upplýsinga frá hlutaðeigandi viðskiptabanka. Stjórn sjóðsins ákveður nánar um skilyrði lánveitinga lánadeildar.

 

II. KAFLI

Greiðslur til Tryggingarsjóðs viðskiptabanka.

8. gr.

                Stefnt skal að því að heildareign innstæðudeildar Tryggingarsjóðs viðskiptabanka skuli nema a.m.k. 1% af meðaltali tryggðra innstæðna viðskiptabanka á næstliðnu ári. Hafi heildareign ekki náð lágmarki skv. 1. málsl. skulu allir viðskiptabankar greiða eigi síðar en 1. mars ár hvert gjald til sjóðsins er nemur 0,15% af meðaltali tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi viðskiptabanka á næstliðnu ári, sbr. þó viðmiðunarmörk skv. 1. málsl. þessarar greinar. Þar til heildareign deildarinnar hefur náð tilskildu lágmarki skal hver viðskiptabanki leggja fram ábyrgðaryfirlýsingu. Í yfirlýsingunni skal hver viðskiptabanki ábyrgjast að hann muni inna af hendi sérstaka greiðslu til Tryggingarsjóðs í þeim tilvikum sem Tryggingarsjóði ber að endurgreiða innstæður skv. IV. kafla í einhverjum þeim viðskiptabanka sem aðild á að sjóðnum. Sú greiðsla skal hljóða upp á jafnháan hlut af þeirri fjárhæð sem á vantar og nemur hlut tryggðra innstæðna hlutaðeigandi viðskiptabanka af samanlögðum innstæðum. Kröfur um innborgun í sjóðinn á grundvelli ábyrgðaryfirlýsinga geta á ári hverju þó ekki verið hærri en sem nemur einum tíunda af lágmarksstærð sjóðsins. Viðskiptabanka er skylt að inna greiðsluna af hendi þegar Tryggingarsjóður krefst þess og ofangreindar aðstæður eru fyrir hendi. Greiðslur til sjóðsins eru óendurkræfar.

 

9. gr.

                Nýr viðskiptabanki skal greiða sérstaklega til sjóðsins 1. mars ár hvert í sjö ár frá því að hann hefur starfsemi hér á landi 0,15% af meðaltali tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi viðskiptabanka á næstliðnu ári, í fyrsta sinn fullu ári eftir upphaf starfseminnar. Auk þess leggur hlutaðeigandi viðskiptabanki fram ábyrgðaryfirlýsingu er stjórn sjóðsins metur gilda fyrir mismun á greiðslu til sjóðsins og lágmarki skv. 1. málsl. 8. gr.

                Nú uppfyllir viðskiptabanki ekki skyldur sínar gagnvart tryggingarsjóði samkvæmt reglugerð þessari eða lögum nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, skal stjórn sjóðsins tilkynna það ráðherra án tafar. Um fresti, málsmeðferð og önnur úrræði fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði.

 

10. gr.

                Með innstæðu er átt við innstæðu sem tilkomin er vegna innláns í innlendum eða erlendum gjaldmiðli, eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka ber að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum. Trygging nær hins vegar ekki til skuldabréfa, víxla og annarra krafna sem útgefnar eru af viðskiptabanka í formi verðbréfa.

                Undanskildar tryggingu eru innstæður í eigu annarra viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana fyrir þeirra eigin reikning og innstæður dóttur- eða móðurfélags þessara stofnana, svo og innstæður sem tengjast málum þar sem sakfellt hefur verið fyrir peningaþvætti.

                Innstæðudeild Tryggingarsjóðs viðskiptabanka verður ekki tekin til gjaldþrotaskipta og aðför er ekki heimil í eignum hennar.

 

11. gr.

                Ávöxtun á fé Tryggingarsjóðs skal við það miðuð, að sjóðurinn verði sem hæfastur til að gegna hlutverki sínu. A.m.k. 1/4 hluti af fé sjóðsins skal bundinn í skuldabréfum með ábyrgð ríkissjóðs.

 

III. KAFLI

Aðild erlendra útibúa að Tryggingarsjóði viðskiptabanka.

12. gr.

                Nú eru innstæður útibús erlends viðskiptabanka með staðfestu í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu tryggðar með lakari hætti en innstæður viðskiptabanka með aðild að Tryggingarsjóði viðskiptabanka, er þá útibúi hins erlenda viðskiptabanka heimilt að eiga aðild að Tryggingarsjóði og skal Tryggingarsjóður veita útibúinu viðbótartryggingu, þannig að innstæður útibúsins séu tryggðar með sama hætti og innstæður annarra aðila að Tryggingarsjóði.

                Um greiðslu útibúsins til Tryggingarsjóðs skal fara eftir ákvæðum reglugerðar þessarar svo og um greiðslu Tryggingarsjóðs til innstæðueiganda eftir því sem við á.

                Útibú skal upplýsa innstæðueigendur um það innlánatryggingakerfi sem útibúið á aðild að og skulu upplýsingarnar vera í samræmi við V. kafla þessarar reglugerðar.

 

13. gr.

                Útibú erlends viðskiptabanka með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins sem starfar hér á landi skal vera aðili að Tryggingarsjóði viðskiptabanka, enda sé útibúið ekki aðili að sambærilegu innlánatryggingakerfi í heimaríki sínu. Skal trygging innstæðna útibúsins vera með sama hætti og útibús viðskiptabanka með staðfestu hér á landi.

                Útibú skal upplýsa innstæðueigendur um það innlánatryggingakerfi sem útibúið á aðild að og skulu upplýsingarnar vera í samræmi við V. kafla þessarar reglugerðar.

 

14. gr.

                Erlend útibú sem óska eftir aðild að Tryggingarsjóði viðskiptabanka skv. 12. eða 13. gr. skulu leggja fram skriflega aðildarumsókn til stjórnar Tryggingarsjóðs viðskiptabanka. Stjórn Tryggingarsjóðs viðskiptabanka skal meta þær tryggingar, eða viðbótartryggingar, sem útibúinu er skylt að vera aðili að, iðgjöld sem því ber að greiða svo og gerð samstarfssamninga sem kunna að vera nauðsynlegir milli Tryggingarsjóðs viðskiptabanka og erlendra innlánatryggingakerfa ef útibúið getur ekki innt af hendi endurgreiðslu á innláni hér á landi.

                Trygging á innstæðum erlends útibús hér á landi skal hvorki vera hærri né víðtækari en trygging á innstæðum viðskiptabanka hér á landi samkvæmt lögum nr. 113/1996 og reglugerð þessari.

 

IV. KAFLI

Tilhögun á greiðslum úr Tryggingarsjóði viðskiptabanka.

15. gr.

                Nú gerir innstæðueigandi kröfu á hendur viðskiptabanka eða útbúi um endurgreiðslu á innstæðu samkvæmt þeim skilmálum sem um hana gilda og án árangurs, er honum rétt að óska eftir áliti bankaeftirlitsins á greiðslufærni viðskiptabankans eða útibúsins. Bankaeftirlitið metur hvort innlánsstofnun er fær um að endurgreiða innstæðueiganda tafarlaust eða í nánustu framtíð innstæðuna. Álit bankaeftirlitsins skal liggja fyrir innan þriggja vikna frá því það fyrst fær staðfestingu á því að viðkomandi viðskiptabanki eða útibú hafi ekki greitt innstæðu eins og skylt er. Sé það mat bankaeftirlitsins að viðskiptabanki eða útibú geti ekki greitt kröfu innstæðueiganda tafarlaust eða í nánustu framtíð vegna greiðsluerfiðleika skal Tryggingarsjóður endurgreiða innstæðueiganda kröfu hans.

 

16. gr.

                Tryggingarsjóður viðskiptabanka skal tryggja innstæðueiganda skil á greiðslu innstæðu sem hann hefur krafist endurgreiðslu á og viðskiptabanki eða útibú eru ekki fær um að inna af hendi. Nú hrökkva eignir Tryggingarsjóðs ekki til þess að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi viðskiptabanka eða útibúi og skal þá greiðslu úr sjóðnum skipt þannig milli innstæðueiganda að heildarinnstæða hvers innstæðueiganda allt að 1,7 milljónir króna er bætt að fullu en allt sem umfram er þessa fjárhæð skal bætt hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir sjóðsins hrökkva til. Fjárhæð þessi skal bundin við gengi evrópsku mynteiningarinnar ECU miðað við kaupgengi hennar 3. janúar 1995. Sjóðurinn verður ekki síðar krafinn um frekari greiðslu þótt innstæða hafi ekki verið bætt að fullu. Telji stjórn sjóðsins brýna ástæðu til er henni heimilt að taka lán til að greiða innstæðueigendum hrökkvi eignir sjóðsins ekki til. Hvíli greiðsluskylda á Tryggingarsjóði til innlánseiganda ber að inna greiðslu af hendi eigi síðar en þremur mánuðum frá því að álit bankaeftirlitsins liggur fyrir, sbr. 15. gr. Unnt er að draga greiðslu uns dómur liggur fyrir í málum sem varða 2. mgr. 10. gr.

                Við greiðslu til innstæðueiganda öðlast Tryggingarsjóður viðskiptabanka rétt til að ganga inn í kröfuréttindi innstæðueiganda við skiptameðferð sem svarar til þeirrar fjárhæðar sem greidd hefur verið.

 

17. gr.

                Nú er bú viðskiptabanka tekið til gjaldþrotaskipta í samræmi við ákvæði VIII. kafla laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, ber þá skiptaráðanda að staðreyna heildarfjárhæð inneigna viðskiptamanna hans á innlánsreikningum, að meðtöldum þeim vöxtum og verðbótum, sem á inneignarfjárhæð hafa fallið á þeim degi sem búið var tekið til skipta. Innlánsreikningar í erlendum gjaldmiðli skulu umreiknaðir til skráðs gengis íslensks gjaldmiðils þess sama dags. Skal skiptaráðandi tilkynna stjórn Tryggingarsjóðs án tafar um heildarfjárhæð þessa.

                Ákvæði þessarar greinar eiga við um slit viðskiptabanka eftir því sem við getur átt.

 

18. gr.

                Nú er innlánsreikningur sameiginlegur, skal þá hlutur hvers innstæðueiganda gilda við útreikning á greiðslu.

 

19. gr.

                Nú á innstæðueigandi ekki ótvíræðan rétt til innstæðna á reikningi, skal þá sá sem á ótvíræðan rétt njóta greiðslu frá Tryggingarsjóði, að því gefnu að hlutaðeigandi finnist eða unnt sé að finna hann fyrir þann dag sem skiptaráðandi tilkynnir Tryggingarsjóði um inneignir viðskiptamanna viðskiptabankans. Ef fleiri en einn eiga ótvíræðan rétt til innstæðna skal hlutur hvers þeirra tekinn til greina við útreikning á greiðslu.

 

V. KAFLI

Upplýsingaskylda viðskiptabanka.

20. gr.

                Viðskiptabankar sem aðilar eru að Tryggingarsjóði viðskiptabanka skulu í útibúum sínum hafa til reiðu skriflegar upplýsingar um aðild bankans að Tryggingarsjóði. Skulu upplýsingarnar vera til reiðu þannig að auðvelt sé fyrir innstæðueiganda að nálgast þær.

 

21. gr.

                Hinar rituðu upplýsingar skulu a.m.k. geyma upplýsingar um:

1.             aðild viðskiptabankans að Tryggingarsjóði,

2.             umfang tryggingar innstæðna hjá Tryggingarsjóði,

3.             útreikninga á því hversu háar upphæðir eru tryggðar,

4.             hvaða innstæður eru tryggðar að fullu,

5.             hvaða innstæður eru ekki tryggðar,

6.             hvert innstæðueigandi á að snúa sér neiti viðskiptabanki að greiða innstæðuna eins og honum ber að gera,

7.             önnur tryggingakerfi sem viðskiptabanki eða útibú er aðili að, sbr. 3. mgr. 12. gr.

 

22. gr.

                Þær upplýsingar sem greindar eru í 21. gr. skulu allar vera á íslensku og settar fram á skýran og auðskilinn máta.

                Auglýsingar viðskiptabanka eða útibús um aðild að Tryggingarsjóði skal takmörkuð við beina tilvísun til aðildarinnar.

 

VI. KAFLI

Ýmis ákvæði.

23. gr.

                Reikningsár Tryggingarsjóðs skal vera almanaksárið. Ársreikning skal semja fyrir hvert reikningsár. Um ársreikning og endurskoðun fer samkvæmt VII. og XIV. kafla laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði.

 

24. gr.

                Seðlabanki Íslands hefur með höndum vörslu Tryggingarsjóðs. Um þóknun fyrir vörslu sjóðsins fer samkvæmt samningi stjórnar og Seðlabanka Íslands.

 

25. gr.

                Stjórn Tryggingarsjóðs er bundin þagnarskyldu í samræmi við ákvæði 43. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði.

 

26. gr.

                Ákvæði III., IV. og V. kafla þessarar reglugerðar eiga við um Tryggingarsjóð sparisjóða eftir því sem við getur átt.

 

27. gr.

                Reglugerð þessi er sett skv. heimild í 97. gr. og með vísan til X. kafla laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

                Jafnframt er úr gildi felld reglugerð nr. 54 31. janúar 1986, um Tryggingarsjóð viðskiptabanka, ásamt síðari breytingum.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

                Ákvæði 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar gildir til 31. desember 1999.

 

Viðskiptaráðuneytinu, 6. janúar 1997.

 

Finnur Ingólfsson.

Halldór J. Kristjánsson.

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica