Leita
Hreinsa Um leit

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

460/2007

Reglugerð um menntun, réttindi og skyldur stoðtækjafræðinga. - Brottfallin

1. gr.

Rétt til þess að kalla sig stoðtækjafræðing og starfa sem slíkur hér á landi hefur sá einn sem til þess hefur leyfi heilbrigðisráðherra.

Sama gildir um þann sem fengið hefur staðfestingu heilbrigðisráðherra á stoðtækja­fræðingsleyfi í landi sem er aðili að samningi um Evrópskt efnahagssvæði eða stofn­samningi Fríverslunarsamtaka Evrópu.

2. gr.

Leyfi skv. 1. málsgr. 1. gr. má aðeins veita þeim sem lokið hefur viðurkenndu námi í stoð­tækjafræði. Áður en leyfi er veitt skal leita álits Félags stoðtækjafræðinga og embættis landlæknis.

3. gr.

Starf stoðtækjafræðinga felst í smíði, ábyrgð á smíði, viðhaldi og eftirliti stoðtækja.

Með stoðtæki er átt við vélrænan og/eða tæknilegan búnað, sem er liður í meðferð sjúk­dóma eða aðlögunar útlima og sem festir eru eða settir á eða við líkama og limi svo sem:

1)

gervilim sem koma skal algjörlega eða að hluta í stað útlims,

2)

spelkur eða umbúðir sem koma eiga í staðinn fyrir eða laga skerta getu líkamshluta.

Óheimilt er að ráða sem stoðtækjafræðing annan en þann sem hefur leyfi skv. 2. gr.

Stoðtækjafræðingar starfa á eigin ábyrgð en eru í starfi sínu háðir faglegu eftirliti land­læknis.

Stoðtækjafræðingum er heimilt að ráða aðstoðarfólk enda starfar það undir handleiðslu og á ábyrgð hans.

4. gr.

Stoðtækjafræðingum ber að viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar varðandi starfið. Þeir skulu eftir því sem unnt er eiga kost á upprifjunarnámskeiðum og faglegri og verklegri tilsögn þar sem henni verður við komið.

5. gr.

Um þagnarskyldu stoðtækjafræðinga gilda ákvæði laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997.

6. gr.

Verði landlæknir þess var að stoðtækjafræðingur vanrækir skyldur sínar, fari út fyrir verksvið sitt eða brjóti í bága við fyrirmæli laga eða heilbrigðisyfirvalda, skal hann áminna viðkomandi, sbr. ákvæði læknalaga. Nú kemur áminning ekki að haldi og skal landlæknir þá senda málið til ráðherra með tillögu um hvað gera skuli, sbr. ákvæði læknalaga.

7. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 2. gr. laga nr. 24/1985 um starfsheiti og starfs­réttindi heilbrigðisstétta öðlast þegar gildi.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 9. maí 2007.

Siv Friðleifsdóttir.

Davíð Á. Gunnarsson.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica