Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

787/2007

Reglugerð um heilsugæslustöðvar. - Brottfallin

I. KAFLI

Gildissvið, markmið og aðgengi.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um starfsemi og þjónustu heilsugæslustöðva sem reknar eru af ríkinu eða á grundvelli samnings við ríkið hvort sem þær er reknar sem sjálfstæðar heilbrigðisstofnanir eða sem hluti af stærri heilbrigðisstofnun.

2. gr.

Markmið.

Markmið með rekstri heilsugæslustöðva er að tryggja öllum landsmönnum fullnægjandi heilsugæslu í heimabyggð.

Skipulag heilsugæslu og annarrar heilbrigðisþjónustu í heilbrigðisumdæmum, sbr. reglugerð um heilbrigðisumdæmi, skal miðað við að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga.

3. gr.

Aðgengi.

Hver einstaklingur skal eiga rétt á skráningu á heilsugæslustöð í sinni heimabyggð, að jafnaði þá stöð sem er næst heimili hans. Einstaklingur skal að jafnaði skráður sem skjólstæðingur tiltekins heilsugæslulæknis á heilsugæslustöð og skal heilbrigðisstofnun sem heilsugæslustöð tilheyrir leitast við að tryggja það. Ef ekki reynist unnt að skrá einstakling sem skjólstæðing tiltekins heilsugæslulæknis á heilsugæslustöð skal þess þó gætt að hann njóti sambærilegrar þjónustu á stöðinni og aðrir.

Heimilt er að skjóta ákvörðun forstjóra heilbrigðisstofnunarinnar um að synja einstaklingi um skráningu á heilsugæslustöð til ráðherra með kæru. Um málsmeðferð fer samkvæmt stjórnsýslulögum.

Heilbrigðisstofnanir skulu, a.m.k. einu sinni á ári, senda landlækni upplýsingar um hvaða einstaklingar eru skráðir á heilsugæslustöðvar sem þær reka. Landlæknir getur gefið heilbrigðisstofnunum fyrirmæli um hvernig staðið skuli að miðlun þessara upplýsinga til embættisins. Landlæknir skal hafa eftirlit með því að skrár heilsugæslustöðva séu upp­færðar reglulega. Landlæknir veitir ráðherra upplýsingar um fjölda skráðra einstaklinga á hverja heilsugæslustöð í landinu.

Heilbrigðisstofnanir í hverju heilbrigðisumdæmi skulu í samræmi við ákvæði reglugerðar um heilbrigðisumdæmi hafa með sér samráð um skipulag heilsugæslunnar í umdæminu og aðgengi að henni. Komi upp ágreiningur milli heilbrigðisstofnana um skipulag heilsu­gæslu í heilbrigðisumdæmi sker ráðherra úr.

Þrátt fyrir skiptingu landsins í heilbrigðisumdæmi skulu sjúklingar jafnan eiga rétt á að leita til þeirrar heilsugæslustöðvar sem þeir eiga auðveldast með að ná til hverju sinni.

II. KAFLI

Stjórn heilsugæslustöðva.

4. gr.

Heilsugæslustöðvar sem reknar eru sem sjálfstæðar heilbrigðisstofnanir.

Um stjórn heilsugæslustöðva sem reknar eru af ríkinu sem sjálfstæðar heilbrigðis­stofnanir fer samkvæmt III. kafla laga um heilbrigðisþjónustu.

5. gr.

Heilsugæslustöðvar sem reknar eru sem hluti af stærri heilbrigðisstofnun.

Á hverri heilsugæslustöð sem rekin er sem hluti af stærri heilbrigðisstofnun skulu starfa yfirlæknir og yfirhjúkrunarfræðingur sem bera faglega ábyrgð á þjónustu stöðvarinnar, annars vegar gagnvart framkvæmdastjóra lækninga og hins vegar gagnvart framkvæmda­stjóra hjúkrunar, sbr. III. kafla laga um heilbrigðisþjónustu.

Forstjóra og framkvæmdastjórn heilbrigðisstofnunar sem heilsugæslustöð tilheyrir er skylt að hafa samráð við yfirlækni og yfirhjúkrunarfræðing stöðvarinnar þegar sérmál hennar eru til ákvörðunar.

Ákvæði 1. mgr. á ekki við ef um er að ræða starfsstöð eða heilsugæslusel sem rekið er sem útibú frá heilsugæslustöð.

6. gr.

Heilsugæslustöðvar sem reknar eru á grundvelli samnings við ríkið.

Um stjórn heilsugæslustöðva sem reknar eru á grundvelli samnings við ríkið gilda ákvæði 10. og 12. gr. laga um heilbrigðisþjónustu eftir því sem við getur átt.

III. KAFLI

Faglegir yfirmenn heilsugæslustöðva.

7. gr.

Yfirlæknar heilsugæslustöðva.

Yfirlæknir á heilsugæslustöð skipuleggur og ber faglega ábyrgð á læknisþjónustu sem veitt er á stöðinni.

Ef heilsugæslustöð er rekin sem sjálfstæð heilbrigðisstofnun gegnir yfirlæknir stöðu framkvæmdastjóra lækninga.

8. gr.

Yfirhjúkrunarfræðingar heilsugæslustöðva.

Yfirhjúkrunarfræðingur á heilsugæslustöð skipuleggur og ber faglega ábyrgð á hjúkrunar­þjónustu sem veitt er á stöðinni.

Ef heilsugæslustöð er rekin sem sjálfstæð heilbrigðisstofnun gegnir yfirhjúkrunar­fræðingur stöðu framkvæmdastjóra hjúkrunar.

9. gr.

Erindisbréf.

Forstjóri heilbrigðisstofnunar getur sett yfirlækni og yfirhjúkrunarfræðingi og öðrum starfsmönnum á heilsugæslustöð erindisbréf og skulu að jafnaði sett slík fyrirmæli ef starfsmaður óskar þess.

IV. KAFLI

Þjónusta heilsugæslustöðva.

10. gr.

Hlutverk heilsugæslustöðva.

Heilsugæslustöðvar sinna heilsugæslu. Með heilsugæslu er m.a. átt við almennar lækn­ingar, hjúkrun, heilsuvernd og forvarnir og bráða- og slysamóttöku, sbr. nánar ákvæði 11. - 16. gr. Ráðherra er þó heimilt að semja við aðra aðila um rekstur tiltekinna þátta heilsugæsluþjónustu.

11. gr.

Almennar lækningar.

Á heilsugæslustöð skal veitt almenn læknisþjónusta. Heilsugæslulæknar skulu einnig veita ráðgjöf og fræðslu um heilsuvernd og forvarnir. Heilsugæslulæknar sinna hverju því vandamáli sem leitað er með til þeirra, svo sem bráðum og langvinnum sjúkdómum, meiðslum, eitrunum og slysum. Læknir skal meta hverju sinni, hvar best sé að athugun og meðferð fari fram, á heilsugæslustöð eða annars staðar, með hliðsjón af velferð sjúklings.

12. gr.

Hjúkrun.

Á heilsugæslustöð eða á vegum hennar skal veitt almenn hjúkrunarþjónusta. Hjúkrunar­fræðingar skulu meta og sinna hjúkrunarþörfum einstaklinga, fjölskyldna og hópa. Þeir skulu einnig veita ráðgjöf og fræðslu um heilsuvernd og forvarnir.

Einnig skal starfrækt heimahjúkrunarþjónusta fyrir þá einstaklinga sem hennar þarfnast og skal þeirri þjónustu einkum sinnt af hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum.

13. gr.

Mæðravernd.

Á heilsugæslustöð eða á vegum hennar skal vera mæðravernd á meðgöngutíma og skal hún veitt af ljósmóður ef þess er kostur. Með mæðravernd er átt við eftirlit með heilbrigði móður og barns m.a. í þeim tilgangi að greina áhættuþætti meðgöngu á byrjunarstigi og bregðast við þeim. Einnig skal leitast við að stuðla að auknu öryggi og vellíðan foreldra og búa þá undir foreldrahlutverk sitt með fræðslu og ráðgjöf um meðgöngu, fæðingu og sængurlegu.

14. gr.

Ungbarna- og smábarnavernd.

Á heilsugæslustöð eða á vegum hennar skal vera ungbarna- og smábarnavernd, m.a. eftirlit með heilbrigði ungbarna og smábarna þ.e. líkamlegum, andlegum og félagslegum þroska þeirra og framkvæmd ónæmisaðgerða og foreldrafræðsla.

15. gr.

Heilsugæsla í grunnskólum.

Heilsugæslustöðvar annast heilsugæslu í grunnskólum. Þjónustan skal að jafnaði veitt í skólanum. Heilsugæslustöðvar skulu, í samræmi við lög um grunnskóla, hafa samráð við skólanefnd og skólastjóra um skipulagningu og fyrirkomulag heilsugæslunnar.

16. gr.

Heilsuvernd, forvarnir og önnur heilbrigðisþjónusta.

Á heilsugæslustöðvum eða á vegum þeirra skal jafnframt, eftir atvikum, í samræmi við nánari ákvörðun stjórnenda heilbrigðisstofnunar og stefnumótun og ákvarðanir ráðherra um skipulag þjónustunnar m.a. sinna eftirtalinni heilsuvernd:

  1. Kynsjúkdómavörnum.
  2. Geðvernd.
  3. Áfengis- og fíkniefnavörnum.
  4. Tóbaksvörnum.
  5. Sjón- og heyrnarvernd.
  6. Hópskoðunum og skipulagðri sjúkdómaleit.
  7. Sóttvörnum.
  8. Heilsuvernd unglinga (unglingamóttöku)
  9. Heilsuvernd aldraðra.
  10. Slysavörnum.

Heimilt er veita aðra heilbrigðisþjónustu á heilsugæslustöðvum, svo sem þjónustu sér­greinalækna, sálfræðiþjónustu, félagsráðgjöf, iðju- og sjúkraþjálfun, næringarráðgjöf o.fl., í samræmi við ákvörðun ráðherra eða á grundvelli samninga sem gerðir eru samkvæmt ákvæðum VII. kafla laga um heilbrigðisþjónustu.

Ráðherra getur falið forstjóra heilbrigðisstofnunar sem heilsugæslustöð tilheyrir að sjá um rekstur lyfjabúðar í tengslum við heilsugæslustöðina í samræmi við ákvæði lyfjalaga.

18. gr.

Faglegar kröfur.

Heilsugæsluþjónusta skal fullnægja faglegum lágmarkskröfum sem gerðar eru til þjónust­unnar skv. lögum um heilbrigðisþjónustu og lögum um landlækni og reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra og vera í samræmi fagleg fyrirmæli landlæknis um veitingu þjónustunnar.

V. KAFLI

Starfsnám og vísindarannsóknir.

19. gr.

Kennsla heilbrigðisstétta.

Heilbrigðisstofnanir og heilsugæslustöðvar innan þeirra taka að sér kennslu heilbrigðis­stétta á grundvelli samninga við menntastofnanir, háskólasjúkrahús eða kennslu­sjúkrahús.

20. gr.

Vísindarannsóknir.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins skal stunda eða taka þátt í vísindarannsóknum á sviði heilsugæslu, eftir atvikum í samstarfi við aðrar heilbrigðisstofnanir sem sinna heilsu­gæslu, menntastofnanir, háskólasjúkrahús eða kennslusjúkrahús.

Öðrum heilbrigðisstofnunum sem sinna heilsugæslu er jafnframt heimilt að stunda eða taka þátt í vísindarannsóknum á sviði heilsugæslu eftir atvikum í samstarfi við aðrar heilbrigðisstofnanir sem sinna heilsugæslu, menntastofnanir, háskólasjúkrahús eða kennslu­sjúkrahús.

VI. KAFLI

Gildistaka.

21. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 3. mgr. 17. gr. laga um heilbrigðisþjónustu og öðlast þegar gildi. Við gildistöku reglugerðarinnar fellur úr gildi reglugerð nr. 160/1982, fyrir heilsugæslustöðvar, með síðari breytingum.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 30. ágúst 2007.

Guðlaugur Þór Þórðarson.

Davíð Á. Gunnarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica