Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

1260/2007

Reglugerð um styrki vegna kostnaðar við meðferð húðsjúkdóma, veitta af öðrum en læknum. - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið.

Í reglugerð þessari er kveðið á um styrki Tryggingastofnunar ríkisins vegna nauðsynlegs kostnaðar sjúkratryggðra einstaklinga við meðferð húðsjúkdóma, veitta af öðrum en læknum, samkvæmt fyrirmælum læknis.

Sjúkratryggðir eiga rétt til styrkja frá Tryggingastofnun ríkisins vegna nauðsynlegrar húðsjúkdómameðferðar samkvæmt reglugerð þessari. Sjúkratryggður telst sá sem verið hefur búsettur hér á landi í sex mánuði nema annað leiði af milliríkjasamningum, sbr. 37. gr. og 12. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Með búsetu er átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga. Börn og unglingar eru sjúkratryggð með foreldrum sínum. Sama á við um stjúpbörn og fósturbörn.

Tryggingastofnun ríkisins ákvarðar hvort einstaklingur teljist sjúkratryggður. Að öðru leyti gildir um það hverjir teljist sjúkratryggðir hér á landi reglugerð nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá.

2. gr.

Meðferð.

Meðferð húðsjúkdóma skal fara fram á starfsstöð rekstraraðila sem hlotið hefur stað­festingu landlæknis skv. 6. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni og starfar samkvæmt samningi sem samninganefnd heilbrigðisráðherra skv. 28. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu hefur gert. Meðferð má einungis veita samkvæmt tilvísun læknis.

Meðferð skal veitt samkvæmt fyrirmælum læknis, sérfræðings í húðsjúkdómum þar sem því verður við komið. Að meðferðinni skulu starfa hjúkrunarfræðingar eða aðrir heilbrigðis­starfsmenn sem hafa nægilega kunnáttu til starfans.

3. gr.

Styrkir.

Tryggingastofnun ríkisins greiðir 80% af kostnaði við meðferð húðsjúkdóma, sbr. 2. gr., sem felst í B-geislum og/eða B- og A-geislum, með eða án smyrsla.

Tryggingastofnun ríkisins greiðir 90% af kostnaði við meðferð húðsjúkdóma, sbr. 2. gr., sem felst í PUVA-meðferð.

4. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 3. mgr. 38. gr., sbr. f-lið 1. mgr. 38. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, öðlast gildi 1. janúar 2008. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 660/1998 um greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins fyrir meðferð húð­sjúkdóma, veitta af öðrum en læknum, með síðari breytingum.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 21. desember 2007.

Guðlaugur Þór Þórðarson.

Berglind Ásgeirsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica