Leita
Hreinsa Um leit

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

618/1987

Reglugerð um menntun, réttindi og skyldur talmeinafræðinga - Brottfallin

1. gr.

       Rétt til þess að kalla sig talmeinafræðing og starfa sem slíkur hefur sá einn, sem til þess hefur leyfi heilbrigðismálaráðherra.

 

2. gr.

       Leyfi samkvæmt 1. gr. má veita þeim íslenskum ríkisborgurum, sem lokið hafa prófi eftir að minnsta kosti 3ja ára nám í talmeinafræði við háskóla, sem heilbrigðisráðuneytið viðurkennir og jafnframt eru viðurkenndir af heilbrigðisstjórn þess lands, þar sem námið er stundað. Ennfremur skulu umsækjendur hafa lokið 6 mánaða verklegri þjálfun undir leiðsögn talmeinafræðings.

 

3. gr.

       Heimilt er að veita erlendum ríkisborgurum takmarkað og/eða tímabundið leyfi, enda uppfylli þeir skilorð annarrar greinar að öðru leyti og sanni kunnáttu sína í töluðu og rituðu íslensku máli.

 

4. gr.

       Áður en leyfi er veitt samkvæmt 2. og 3. gr. skal leita umsagnar landlæknis og yfirlæknis Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands.

 

5. gr.

            Starfssvið talmeinafræðinga er við greiningu, meðhöndlun og rannsóknir talmeina. Starfsvettvangur talmeinafræðinga er á heilbrigðisstofnunum, í skólum og eigin stofum. Þeir starfa á eigin ábyrgð en þó eingöngu samkvæmt tilvísun og í samráði við lækni sé um að ræða meðferð í lækninga-, rannsókna- eða endurhæfingarskyni.

 

6. gr.

       Óheimilt er að ráða sem talmeinafræðinga aðra en þá, sem hafa starfsleyfi samkvæmt reglugerð þessari.

 

7. gr.

       Talmeinafræðingi er heimilt að hafa sér til aðstoðar fólk, sem ávallt skal starfa á ábyrgð og undir handleiðslu hans. Aðstoðarfólk þetta hefur ekki heimild til þess að taka að sér sjálfstæð verkefni á neinu sviði, sem undir talmeinafræðing fellur.

 

8. gr.

       Talmeinafræðingi er skylt að gæta þagmælsku um atriði, sem hann fær vitneskju um í starfi og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Sama þagnarskylda gildir um starfsfólk það, sem talmeinafræðingur kann að hafa í starfi. Þagnarskyldan helst þótt viðkomandi láti af störfum.

 

9. gr.

       Talmeinafræðingi ber að þekkja skyldur sínar, viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar er varða starfið.

 

10. gr.

Talmeinafræðingi er skylt að halda skýrslur um þá, er leita til hans í samræmi við fyrirmæli landlæknis.

 

11. gr.

       Verði landlæknir þess var, að talmeinafræðingur vanrækir skyldur sínar, fer út fyrir verksvið sitt eða brýtur í bága við fyrirmæli laga eða heilbrigðisyfirvalda skal hann áminna viðkomandi. Nú kemur áminning ekki að haldi og ber þá landlækni að leggja málið fyrir ráðherra. Getur þá ráðherra úrskurðað, að viðkomandi skuli sviptur starfsleyfi, en skjóta má þeim úrskurði til dómstóla.

 

12. gr.

       Um talmeinafræðinga gilda að öðru leyti og eftir því sem við getur átt, reglur laga um lækningaleyfi, réttindi og skyldur lækna og annarra, er lækningaleyfi hafa og um skottulækningar.

       Reglur laga um þessi efni gilda um refsingu vegna brota talmeinafræðinga og um sviptingu og um endurveitingu starfsleyfa.

       Með mál út af brotum gegn reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

 

13. gr.

       Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, öðlast gildi þegar við birtingu.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

       Heilbrigðisráðherra er heimilt til 31. desember 1988 að víkja frá skilyrðum 2. gr. þegar í hlut eiga umsækjendur sem hafa menntun á þessu sviði, þótt hún jafngildi ekki þeim kröfum sem fram koma í 2. gr., enda séu þeir í starfi sem talmeinafræðingar við gildistöku reglugerðarinnar og hafi starfað sem slíkir samfellt síðustu 3 ár fyrir gildistöku.

       Aðeins má þó veita slík leyfi að landlæknir og yfirlæknir Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands mæli með leyfisveitingu.

 

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 21. desember 1987.

 

Guðmundur Bjarnason.

Ingimar Sigurðsson
Þetta vefsvæði byggir á Eplica