Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

504/1986

Reglugerð um menntun, réttindi og skyldur sjúkraflutningamanna - Brottfallin

1. gr.

Rétt til þess að starfa sem sjúkraflutningamaður hér á landi og kalla sig sjúkraflutninga­mann hefur sá einn, sem til þess hefir fengið leyfi heilbrigðismálaráðherra.

 

2. gr.

Leyfi skv. 1. grein má aðeins veita þeim, sem hefir menntun á sviði sjúkraflutninga, sem heilbrigðismálaráðuneytið metur gilda. Áður en leyfi er veitt skal leita álits landlæknis og Landssambands sjúkraflutningamanna um hæfni umsækjanda.

 

3. gr.

Menntun sjúkraflutningamanna skal vera:

1. Á sviði mannbjörgunar.

2. Meðferð og flutningur sjúkra og slasaðra.

3. Akstur sjúkrabifreiða, meðferð þeirra og eftirlit með búnaði.

 

4. gr.

Landlæknir gerir tillögur um nám sjúkraflutningamanna og sendir heilbrigðismálaráðu­neytinu til staðfestingar. Í tillögum skal tekið fram um nauðsynlega undirbúningsmenntun sjúkraflutningamanna svo og hvernig kennslu skuli hagað.

Heilbrigðismálaráðuneytið skal í samráði við fræðsluyfirvöld sjá til þess að vent sé nauðsynleg kennsla á þessu sviði.

 

5. gr.

Sjúkraflutningamenn stunda skipulagða sjúkraflutninga. Þeir starfa á eigin ábyrgð og eru í starfi sínu háðir faglegu eftirliti landlæknis í samræmi við lög nr. 59/1983 um heilbrigðisþjónustu og ákvæði læknalaga nr. 80/1969.

 

6. gr.

Sjúkraflutningamönnum ber að viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar varðandi starfið. Þetta ber að auðvelda eins og unnt er, m.a. með upprifjunarnámskeiðum og faglegri og verklegri tilsögn þar sem henni verður við komið.

 

7. gr.

Sjúkraflutningamenn skulu njóta sömu verndar og aðstöðu og aðrir þeir er gegna borgaralegri skyldu. Ekki má á neinn hátt tálma því að þeir geti sinnt starfi sínu. Sjálfboðaliðar, sem stunda sjúkraflutninga reglulega, skulu að öðru jöfnu njóta sömu

réttinda og aðstöðu og ráðnir starfsmenn jafnframt því sem til þeirra eru gerðar sömu kröfur.

 

8. gr.

Sjúkraflutningamönnum er skylt að gæta þagnmælsku um atriði, sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara skv. lögum eða eðli máls. Þagnarskylda helst þó þeir láti af störfum.

 

9. gr.

Um viðurlög vegna brota í starfi, sviptingu starfsleyfis og endurveitingu leyfa gilda ákvæði lækningalaga nr. 80/1969. Með mál vegna brota á reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.


 

10. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 2. gr. laga nr. 24/1985 um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, sbr og 34. gr. laga nr. 59/1985 um heilbrigðisþjónustu, öðlast gildi við birtingu.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

Þeir menn, sem starfa við sjúkraflutninga við gildistöku reglugerðar þessarar, en uppfylla ekki skilyrði 2. og 3. gr., eiga að fengnum meðmælum landlæknis, rétt á tímabundnu starfsleyfi til allt að þriggja ára.

 

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 18. nóvember 1986.

 

Ragnhildur Helgadóttir.

Páll Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica