Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

184/1991

Reglugerð um menntun, réttindi og skyldur fótaaðgerðafræðinga. - Brottfallin

1. gr.

Rétt til að kalla sig fótaaðgerðafræðing og starfa sem slíkur hefur sá einn sem til þess hefur leyfi heilbrigðisráðherra.

2. gr.

Leyfi skv. 1. gr. má veita þeim íslenskum ríkisborgurum sem lokið hafa námi í fótaaðgerðafræði skv. námsskrá sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið samþykkir. Í námsskrá skal fjallað um bóklegan og verklegan hluta námsins og hvar verklegi hlutinn skuli stundaður.

Leyfi má og veita þeim íslenskum ríkisborgurum sem lokið hafa námi í fótaaðgerðafræði frá skólum erlendis, sem viðurkenndir eru af heilbrigðisyfirvöldum viðkomandi lands. Umsækjendur skulu hafa næga kunnáttu í réttarreglum er lúta að starfinu.

Leita skal umsagnar landlæknis og stéttarfélags áður en leyfi er veitt.

3. gr.

Nú uppfyllir umsækjandi skilyrði 2. gr. að öðru leyti en því að hann hefur ekki íslenskt ríkisfang og er þá heilbrigðisráðherra heimilt að veita honum ótakmarkað eða tímabundið leyfi að fenginni umsögn landlæknis og stéttarfélags, enda sanni hann nægilega kunnáttu í íslensku máli.

4. gr.

Starfsvettvangur fótaaðgerðafræðinga er á heilbrigðisstofnunum og á eigin stofum. Með fótaaðgerð er átt við meðhöndlun fótameina, t.d. að fjarlægja harða húð og líkþorn, klippa og hreinsa neglur, þynna óeðlilegar þykkar neglur, sérsmíða spangir á niðurgrónar neglur og veita fræðslu og faglega ráðgjöf.

Fótaaðgerðafræðingar mega á stofum sínum ekki veita aðra þjónustu en meðhöndlun fótameina og fræðslu á því sviði nema sú starfsemi sé aðgreind frá fótaaðgerðum.

Fótaaðgerðafræðingur má ekki, án samráðs við lækni, taka til meðferðar einstakling með augljós sjúkdómseinkenni, s.s. sýkingu í fótum, sykursýki, hjarta-, blóð- eða æðasjúkdóma.

5. gr.

Fótaaðgerðafræðingi er heimilt að hafa starfsfólk sér til aðstoðar, við annað en meðhöndlun fótameina og fræðslu, sem ávallt skal starfa á ábyrgð hans.

6. gr.

Fótaaðgerðafræðingi er skylt að gæta þagmælsku um atriði sem hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara skv. lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt hann láti af störfum. Sömu reglur skulu gilda um starfsfólk það, sem fótaaðgerðafræðingar kunna að hafa í starfi.

7. gr.

Fótaaðgerðafræðingi ber að þekkja skyldur sínar, viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar er varða starfið.

8. gr.

Fótaaðgerðafræðingi er skylt að halda dagbók um þá sem leita til hans og aðrar skýrslur í samræmi við fyrirmæli landlæknis.

9. gr.

Verði landlæknir þess var að fótaaðgerðafræðingur vanrækir skyldur sínar, fari út fyrir verksvið sitt eða brjóti í bága við fyrirmæli laga eða heilbrigðisyfirvalda, skal hann áminna viðkomandi. Nú kemur áminning ekki að haldi og ber þá landlækni að kæra málið fyrir ráðherra. Um fótaaðgerðafræðinga gilda að öðru leyti reglur læknalaga nr. 53/1988 með síðari breytingum.

10. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er skv. lögum nr. 24/1985 um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, öðlast gildi þegar við birtingu.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. reglugerðarinnar er heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra heimilt að veita leyfi þeim, sem starfað hafa sem fótaaðgerðafræðingar í a.m.k. þrjú ár fyrir gildistöku reglugerðar þessarar og sem eru í starfi við gildistöku hennar. Sama gildir um þá sem starfað hafa sem fótaaðgerðafræðingar í a.m.k. þrjú ár en hættu störfum á síðustu tveimur árum fyrir gildistöku hennar.

Umsóknum skal skilað fyrir 31. desember 1991 til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Umsóknum skulu fylgja ítarlegar upplýsingar um nám og starfsreynslu í fótaaðgerðum.

Matsnefnd, skipuð fulltrúa frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, landlækni og læknadeild Háskóla Íslands skal meta umsóknir og umsækjendur.

Nú hefur umsækjandi ekki starfað að fótaaðgerðum í a.m.k. þrjú ár eða hefur starfað að fótaaðgerðum í a.m.k. þrjú ár en var ekki í starfi á síðustu tveimur árum fyrir gildistöku hennar og skal heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra þá heimilt að veita umsækjanda leyfi, enda hafi hann staðist námskeið í faginu sem matsnefndin telur nauðsynlegt.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 17. apríl 1991.

Guðmundur Bjarnason.

Páll Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica