Velferðarráðuneyti

365/2017

Reglugerð um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85. - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana samkvæmt staðlinum ÍST 85 um jafnlaunakerfi.

2. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðarinnar er að jafnlaunakerfi fyrirtækja og stofnana verði vottuð í samræmi við alþjóðlegar kröfur sem gilda um vottun og vottunaraðila.

3. gr.

Orðskýringar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

  1. Jafnlaunavottun: Skrifleg staðfesting, að undangenginni úttekt á jafnlaunakerfi fyrirtækis/stofn­unar, á því að jafnlaunakerfið og framkvæmd þess uppfylli kröfur staðalsins ÍST 85.
  2. Vottunaraðili: Aðili sem framkvæmir vottun og hefur hlotið faggildingu, sbr. 4. og 5. gr.
  3. Úttektarmaður: Einstaklingur sem framkvæmir úttekt á vegum vottunaraðila.
  4. Faggilding: Staðfesting á því að vottunaraðili uppfylli kröfur staðalsins ÍST ISO/IEC 17021 og kröfur þessarar reglugerðar til að framkvæma vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana samkvæmt staðlinum ÍST 85.

4. gr.

Faggilding vottunaraðila.

Vottunaraðili fær faggildingu hjá faggildingarsviði Einkaleyfastofu eða sambærilegum aðila á Evrópska efnahagssvæðinu.

5. gr.

Vottun á grundvelli staðalsins ÍST 85.

Vottunaraðili sem vottar jafnlaunakerfi skal vera faggiltur skv. 4. gr. Til staðfestingar skal vott­unar­­aðili geta framvísað faggildingarskírteini samkvæmt staðlinum ISO/IEC 17011 þar sem fram komi að faggildingin eigi við ÍST 85 og kröfur þessarar reglugerðar.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er vottunaraðilum, sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt ÍST ISO/IEC 17021, heimilt að framkvæma úttektir og votta jafnlaunakerfi fyrirtækja og stofnana samkvæmt ÍST 85 til 31. desember 2019. Vottunaraðilar skulu tilkynna ráðuneytinu um úttektir sem þeir fram­kvæma og skulu á tímabilinu hafa reglulegt samráð við ráðuneytið um framkvæmd úttekta og inn­leið­ingu vinnuferla.

6. gr.

Námskeið vegna jafnlaunavottunar.

Ráðuneytið skal sjá til þess að haldið verði námskeið fyrir úttektarmenn í jafnréttis- og vinnu­mark­aðs­málum sem þýðingu hafa fyrir vottun í samræmi við kröfur staðalsins ÍST 85 svo uppfylla megi kröfur faggildingarstaðalsins ÍST ISO/IEC 17021 um sérfræðiþekkingu á því sviði sem um ræðir.

Námskeiðið skal haldið á þriggja ára fresti og oftar ef nauðsyn krefur. Á námskeiðinu skal meðal annars fjallað um lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, vinnurétt, kjarasamninga, launagreiningar og flokkun og mat á verðmæti starfa.

Námskeiðinu skal lokið með útgáfu skírteinis. Úttektarmenn skulu ljúka námskeiði með prófi.

7. gr.

Úttekt, vottun, notkun jafnlaunamerkis og eftirlit.

Vottunaraðili stýrir og framkvæmir úttekt á jafnlaunakerfi fyrirtækis/stofnunar. Þegar vottunaraðili hefur lokið við að sannreyna að launakerfi fyrirtækis/stofnunar uppfylli kröfur staðalsins ÍST 85 tekur vottunaraðili ákvörðun um vottun og gefur út vottunarskírteini því til staðfestingar.

Endurvottun skal fara fram innan þriggja ára frá því að vottun skv. 1. mgr. er veitt.

Ráðuneyti velferðarmála veitir fyrirtæki/stofnun jafnlaunamerki á grundvelli vottunarskírteinis vottunaraðila skv. 1. mgr.

Jafnlaunamerki skal gilda jafn lengi og jafnlaunavottun fyrirtækis/stofnunar skv. 1. mgr. og aldrei lengur en í þrjú ár. Um gildistíma vottunar skal miða við vottunarferli ÍST ISO/IEC 17021. Leiði endurvottun faggilts vottunaraðila í ljós að launakerfi fyrirtækis/stofnunar uppfyllir ekki lengur kröfur staðalsins ÍST 85 skal vottunaraðili tilkynna velferðarráðuneytinu um það. Ráðuneyti velferðar­mála tekur slík mál til meðferðar og skal þá fylgja reglum stjórnsýslulaga, m.a. um and­mæla­rétt aðila. Ef niðurstaða ráðuneytisins er sú að rétt sé að fella niður rétt fyrirtækis/stofn­unar til að nota jafnlaunamerkið skal hlutaðeigandi tilkynnt um þá niðurstöðu í sam­ræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.

Um notkun jafnlaunamerkisins fer samkvæmt reglum um notkun jafnlaunamerkis sem ráðherra setur.

Upplýsingar um veitingu jafnlaunamerkis skulu koma fram í skýrslu ráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála skv. 11. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, með síðari breytingum.

8. gr.

Lagastoð, gildistaka og brottfall eldri reglugerðar.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 4. mgr. 19. gr. og 33. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, með síðari breytingum, sem og skv. 1. mgr. 4. gr. laga um faggildingu o.fl., nr. 24/2006, að höfðu samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur þá úr gildi reglugerð nr. 929/2014, um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85:2012.

Velferðarráðuneytinu, 24. apríl 2017.

Þorsteinn Víglundsson
félags- og jafnréttismálaráðherra.

Ellý Alda Þorsteinsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica