Fara beint í efnið

Prentað þann 19. apríl 2024

Breytingareglugerð

255/2016

Reglugerð um (1.) breytingu á reglugerð nr. 241/2004, um val, geymslu og meðferð lyfja á sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum.

1. gr.

Í stað orðsins "þeirra" í 7. mgr. 3. gr. kemur: afgreiddra rafrænna pantana.

2. gr.

8. gr. orðast svo:

Pöntun lyfja á deild skal vera dagsett og undirrituð af þeim sem pantar. Heimilt er að nota rafrænt pöntunarkerfi. Í pöntun lyfja á deild skal koma fram hvaða lyf eru pöntuð, af hverjum og fyrir hvaða deild.

Eftirritunarskyld lyf skulu ávallt pöntuð sérstaklega og óheimilt er að panta önnur lyf í sömu pöntun. Sérstakir pöntunarseðlar vegna eftirritunarskyldra lyfja skulu vera í tvíriti og skal afriti af seðlinum haldið eftir á þeirri deild sem pantar lyfið. Sé pöntun eftirritunarskyldra lyfja gerð í rafrænu pöntunarkerfi skal tryggja að sú deild sem pantar geti nálgast afrit pöntunar í rafræna pöntunarkerfinu eftir að pöntun er gerð.

Við afgreiðslu lyfja frá sjúkrahúsapóteki, lyfjabúri eða lyfjabúð á deildir skal tryggt að hægt sé að rekja hvaða lyf var afgreitt, hver afgreiddi og afhenti lyfið og hver tók á móti lyfinu á deildinni.

Yfirlæknir deildar, sbr. 5. mgr. 2. gr., ásamt hjúkrunardeildarstjóra eða ljósmóður sem fer með deildarstjórn, sbr. 2. mgr. 7. gr., skulu ákveða hvaða starfsmenn deildar hafa heimild til að panta lyf.

3. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 50. gr. lyfjalaga, nr. 93/1994, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Velferðarráðuneytinu, 4. mars 2016.

Kristján Þór Júlíusson
heilbrigðisráðherra.

Margrét Björnsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.