Velferðarráðuneyti

145/2016

Reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratryggðra vegna dvalar í hjúkrunarrýmum, dvalarrýmum og dagdvalarrýmum á stofnunum sem ekki eru á föstum fjárlögum árið 2016 og sem eru án samnings við Sjúkratryggingar Íslands. - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið.

Í reglugerð þessari er kveðið á um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga almannatrygginga í kostnaði sjúkratryggðra heimilismanna vegna dvalar í hjúkrunarrýmum, dvalarrýmum og dagdvalarrýmum stofnana sem ekki eru á föstum fjárlögum árið 2016 og sem eru án samnings við Sjúkratryggingar Íslands, sbr. IV. kafla laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, með síðari breytingum.

2. gr.

Sjúkratryggðir.

Sjúkratryggður er sá sem er búsettur á Íslandi og hefur verið það a.m.k. síðustu sex mánuðina áður en bóta er óskað úr sjúkratryggingum að uppfylltum öðrum skilyrðum laga um sjúkra­tryggingar, nema annað leiði af milliríkjasamningum, sbr. 10. gr. laga um sjúkratryggingar. Með búsetu er átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga. Að öðru leyti gilda um það hverjir teljist sjúkratryggðir hér á landi 10.-16. gr. laga um sjúkratryggingar.

Sjúkratryggingar Íslands ákvarða hvort einstaklingur teljist sjúkratryggður.

3. gr.

Gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands.

Sjúkratryggingum Íslands er heimilt að taka þátt í kostnaði sjúkratryggðra vegna dvalar í hjúkr­unar­rýmum, dvalarrýmum og dagdvalarrýmum stofnana samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar, á grundvelli gjaldskrár sem stofnunin gefur út, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um sjúkra­tryggingar. Gjaldskráin skal rúmast innan gildandi fjárlaga. Heimildin gildir frá 1. janúar 2016 til og með 31. desember 2016.

4. gr.

Skilyrði fyrir greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands.

Forsenda fyrir greiðsluheimild Sjúkratrygginga Íslands er að mat á þörf sjúkratryggðs fyrir dvöl hafi farið fram samkvæmt lögum nr. 125/1999 um málefni aldraðra, með síðari breytingum.

5. gr.

Gjald fyrir þjónustu í hjúkrunarrýmum og dvalarrýmum.

Gjaldi fyrir dvöl í hjúkrunarrýmum og dvalarrýmum er ætlað að mæta hvers konar þjónustu sem heimilismönnum er látin í té á stofnununum. Gjaldinu er einnig ætlað að mæta rekstri stofn­unar­innar þó án þeirra rekstrarkostnaðarliða sem húsnæðisgjaldinu er ætlað að mæta skv. 7. gr.

Gjald skal greitt þrátt fyrir að heimilismaður hverfi af stofnun í stuttan tíma, svo sem til aðstand­enda yfir helgi eða hátíðar, enda hafi heilbrigðisyfirvöld ekki aukakostnað af dvölinni.

Fari heimilismaður á sjúkrahús til skammtímainnlagnar skal greiða 70% af gjaldi vegna hans til stofnunarinnar í allt að 45 daga.

Við andlát heimilismanns eða þegar heimilismaður flytur fyrir fullt og allt af stofnun skal greiða fullt gjald í allt að sjö daga frá andláti eða brottför.

Ef heimilismaður í hvíldarrými andast skal greiða fullt gjald í allt að tvo daga frá andláti.

Viðbótargjald skal greitt fyrir hvern heimilismann með langvinnan nýrnasjúkdóm sem þarf blóð­skilun á sjúkrahúsi. Sjúkrahúsið greiðir kostnað vegna lyfjagjafar eins og fyrir aðra blóð­skil­unar­sjúklinga sem skráðir eru inn á sjúkrahúsið.

Gjald vegna hjúkrunarrýmis og dvalarrýmis er greitt frá upphafi dvalar og til loka þess mánaðar sem heimilismaður er tekinn inn á heimilið. Þann mánuð heldur hinn nýi heimilismaður þó óskertum bótum frá Tryggingastofnun ríkisins.

6. gr.

Gjald fyrir þjónustu í dagdvalarrými.

Gjaldi fyrir dvöl í dagdvalarrými er ætlað að mæta þeirri þjónustu sem notendum hennar er látin í té á meðan á dvalartíma stendur. Gjaldinu er einnig ætlað að mæta rekstrarútgjöldum stofn­unar­innar, þó ekki vegna viðhalds húsnæðisins. Nauðsynlegur flutningskostnaður notenda er innifalinn í dagdvalargjaldi.

Notendur dagdvalar skulu greiða 1.100 kr. á dag, sbr. 19. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.

7. gr.

Húsnæðisgjald.

Sjúkratryggingar Íslands greiða húsnæðisgjald til að mæta kostnaði vegna fasteignagjalda, trygg­inga, viðhalds, eftirlits og umsýslu húsnæðis sem nýtt er til reksturs hjúkrunarrýma. Gjaldið reikn­ast að hámarki á 60 m² fyrir hvert hjúkrunarrými að meðtöldu sameiginlegu rými. Gjaldið reikn­ast aldrei á stærra rými en sem nemur stærð húsnæðisins.

Sjúkratryggingar Íslands greiða gjald til að mæta viðhaldskostnaði húsnæðis sem nýtt er til reksturs á dvalar- og dagdvalarrýmum. Gjaldið reiknast að hámarki á 60 m² fyrir hvert dvalarrými að meðtöldu sameiginlegu rými og að hámarki á 30 m² fyrir dagdvalarrými að meðtöldu sam­eigin­legu rými. Gjaldið reiknast aldrei á stærra rými en sem nemur stærð húsnæðisins.

Viðhaldshluta í húsnæðisgjaldi er ætlað að standa undir öllu almennu viðhaldi húsnæðis, þó ekki stofnkostnaði, afskriftum og meiriháttar breytingum og endurbótum á húsnæði.

8. gr.

Framkvæmd.

Sjúkratryggingar Íslands annast framkvæmd reglugerðar þessarar.

9. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 2. mgr. 22. gr., 24. gr., 2. mgr. 38. gr. og 55. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, með síðari breytingum, sbr. 1. mgr. 21. gr. og 29. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, gildir frá 1. janúar 2016, nema 2. mgr. 6. gr. sem gildir frá 1. mars 2016.

Velferðarráðuneytinu, 18. febrúar 2016.

Kristján Þór Júlíusson
heilbrigðisráðherra.

Vilborg Ingólfsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica