Velferðarráðuneyti

1184/2014

Reglugerð um greiðslu kostnaðar vegna heilbrigðisþjónustu í hjúkrunarrýmum öldrunarstofnana sem eru án samnings við Sjúkratryggingar Íslands. - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið.

Í reglugerð þessari er kveðið á um þátttöku sjúkratrygginga almannatrygginga í kostnaði sjúkratryggðra vegna heilbrigðisþjónustu í hjúkrunarrýmum öldrunarstofnana sem eru án samnings, við Sjúkratryggingar Íslands um þjónustuna, sbr. IV. kafla laga um sjúkra­tryggingar.

Sjúkratryggingar Íslands annast framkvæmd reglugerðar þessarar.

2. gr.

Sjúkratryggðir.

Sjúkratryggður er sá sem er búsettur á Íslandi og hefur verið það a.m.k. síðustu sex mánuðina áður en bóta er óskað frá sjúkratryggingum að uppfylltum öðrum skilyrðum laga um sjúkratryggingar, nema annað leiði af milliríkjasamningum, sbr. 10. gr. laga um sjúkratryggingar. Með búsetu er átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga. Börn yngri en 18 ára sem búsett eru hér á landi eru sjúkratryggð með foreldrum sínum. Sama á við um stjúpbörn og fósturbörn. Að öðru leyti gilda um það hverjir teljist sjúkratryggðir hér á landi 10.-16. gr. laga um sjúkratryggingar.

Sjúkratryggingar Íslands ákvarða hvort einstaklingur teljist sjúkratryggður.

3. gr.

Gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands.

Sjúkratryggingum Íslands er heimilt að taka þátt í kostnaði sjúkratryggðra vegna heil­brigðis­þjónustu sem veitt er í hjúkrunarrýmum öldrunarstofnana samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar, á grundvelli gjaldskrár sem stofnunin gefur út, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um sjúkratryggingar. Heimildin gildir frá 1. janúar 2015 til og með 31. maí 2015.

4. gr.

Skilyrði fyrir greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands.

Forsenda fyrir greiðsluheimild Sjúkratrygginga Íslands er að mat á þörf sjúkratryggðs fyrir þjónustuna hafi farið fram samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu.

5. gr.

Greiðsla fyrir heilbrigðisþjónustu.

Greiðsla sjúkratrygginga fyrir heilbrigðisþjónustu í hjúkrunarrýmum öldrunarstofnana kemur til viðbótar daggjaldi samkvæmt reglugerð um daggjöld fyrir dvalarrými, dag­dvalar­rými og hjúkrunarrými sem ekki eru á föstum fjárlögum árið 2015 og greiðist hlut­aðeig­andi stofnunum með sama hætti og daggjaldið.

6. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 2. mgr. 38. gr. og 55. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, öðlast gildi 1. janúar 2015 og gildir til og með 31. maí 2015.

Velferðarráðuneytinu, 19. desember 2014.

Kristján Þór Júlíusson
heilbrigðisráðherra.

Anna Lilja Gunnarsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica