1. gr.
Reglugerð þessi gildir um desemberuppbætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði í desember 2012.
2. gr.
Sá sem hefur staðfest atvinnuleit á tímabilinu frá 20. nóvember til 3. desember 2012 og verið skráður á atvinnuleysisskrá í samtals tíu mánuði á árinu 2012 á rétt á desemberuppbót úr Atvinnuleysistryggingasjóði að fjárhæð kr. 50.152 enda hafi viðkomandi verið að fullu tryggður skv. III. eða IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar á umræddum tíma.
Biðtími eftir atvinnuleysisbótum skal teljast með við útreikninga skv. 1. mgr. enda hafi viðkomandi verið skráður á atvinnuleysisskrá þann tíma.
3. gr.
Sá sem hefur staðfest atvinnuleit á tímabilinu frá 20. nóvember til 3. desember 2012 og verið skráður á atvinnuleysisskrá samtals í tíu mánuði á árinu 2012 en tryggður hlutfallslega á umræddum tíma á rétt á hlutfallslegri desemberuppbót skv. 1. mgr. 2. gr. í samræmi við það tryggingarhlutfall sem um ræðir.
Biðtími eftir atvinnuleysisbótum skal teljast með við útreikninga skv. 1. mgr. enda hafi viðkomandi verið skráður á atvinnuleysisskrá þann tíma.
4. gr.
Sá sem hefur staðfest atvinnuleit á tímabilinu frá 20. nóvember til 3. desember 2012 en verið skráður á atvinnuleysisskrá í skemmri tíma en tíu mánuði á árinu 2012 á rétt á hlutfallslegri desemberuppbót skv. 1. mgr. 2. gr. í samræmi við þann tíma sem hann hefur verið skráður á atvinnuleysisskrá enda hafi viðkomandi verið að fullu tryggður skv. III. eða IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar á umræddum tíma, sbr. þó 5. gr.
Sá sem hefur staðfest atvinnuleit á tímabilinu frá 20. nóvember til 3. desember 2012 en verið skráður á atvinnuleysisskrá í skemmri tíma en tíu mánuði á árinu 2012 ásamt því að hafa verið hlutfallslega tryggður á umræddum tíma á rétt á hlutfallslegri desemberuppbót skv. 1. mgr. 2. gr. í samræmi við það tryggingarhlutfall sem um ræðir og þann tíma sem hann hefur verið skráður á atvinnuleysisskrá á árinu 2012, sbr. þó 5. gr.
Biðtími eftir atvinnuleysisbótum skal teljast með við útreikninga skv. 1. eða 2. mgr. enda hafi viðkomandi verið skráður á atvinnuleysisskrá þann tíma.
5. gr.
Desemberuppbót skv. 4. gr. skal aldrei nema lægri fjárhæð en 12.538 kr. miðað við að viðkomandi hafi átt rétt á óskertu tryggingarhlutfalli skv. III. eða IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar á umræddum tíma. Lágmarks desemberuppbót er ¼ hluti sömu fjárhæðar.
6. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 3. mgr. 33. gr. og 64. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.
Desemberuppbætur samkvæmt reglugerð þessari skulu greiddar út eigi síðar en 15. desember 2012.
Velferðarráðuneytinu, 16. nóvember 2012.
Guðbjartur Hannesson.
Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir.