Leita
Hreinsa Um leit

Velferðarráðuneyti

262/2011

Reglugerð um framkvæmd og skipulag sjúkraflutninga.

1. gr.

Sjúkraflutningar.

Til sjúkraflutninga teljast allir flutningar sjúkra og slasaðra utan sjúkrahúsa, hvort sem er í lofti, á láði eða legi.

2. gr.

Skipulag sjúkraflutninga.

Skipulagðir sjúkraflutningar skulu vera á vegum:

  1. Rekstraraðila sjúkraflutninga sem eru með samning, sbr. 1. gr., um rekstur sjúkraflutninga á skilgreindu svæði.
  2. Heilbrigðisstofnana.
  3. Aðila sem vegna sérstöðu starfsemi sinnar þurfa að starfrækja sjúkraflutninga.

Með rekstraraðila er hér átt við þá sem sjá um sjúkraflutninga á skilgreindu svæði og þá sem reka farartæki til sjúkraflutninga, svo sem sjúkrabifreiðar, sjúkraflugvélar og þyrlur.

3. gr.

Rekstur sjúkraflutninga.

Rekstur sjúkraflutninga er háður samþykki landlæknis um að faglegum kröfum sé fullnægt.

4. gr.

Yfirlæknir bráðaþjónustu og umsjónarlæknar sjúkraflutninga.

Yfirlæknir bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa fer með læknisfræðilega forsjá sjúkraflutninga á landinu öllu.

Í hverju heilbrigðisumdæmi skal vera umsjónarlæknir sjúkraflutninga sem valinn er af samráðsnefnd heilbrigðisumdæmis. Umsjónarlæknir heyrir faglega undir yfirlækni bráða­þjónustu utan sjúkrahúsa.

5. gr.

Fagráð.

Velferðarráðherra skipar sjö manna fagráð sjúkraflutninga til fjögurra ára í senn samkvæmt tilnefningum frá heilbrigðisumdæmum, kaupendum þjónustu, menntastofnun sjúkraflutningafólks sem veitir nám á æðsta stigi, rekstraraðilum sjúkraflutninga, rekstraraðilum farartækja og fulltrúa fagráðs sjúkraflutningamanna. Yfirlæknir bráða­þjónustu utan sjúkrahúsa skal vera formaður ráðsins.

Hlutverk ráðsins er að veita velferðarráðuneytinu ráðgjöf um öll fagleg málefni sem varða sjúkraflutninga. Ráðið gerir tillögur til velferðarráðherra um þjónustuviðmið um sjúkraflutninga á landinu. Ráðið starfar að öðru leyti samkvæmt fyrirmælum ráðherra.

6. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett skv. 33. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 503/1986, um sjúkraflutninga.

Velferðarráðuneytinu, 28. febrúar 2011.

Guðbjartur Hannesson.

Sveinn Magnússon.

Reglugerð sem fellur brott:
Þetta vefsvæði byggir á Eplica