Félagsmálaráðuneyti

550/1994

Reglugerð um styrki vegna námskostnaðar og verkfæra- og tækjakaup fatlaðra. - Brottfallin

I. KAFLI

Styrkir til greiðslu námskostnaðar.

1. gr.

Heimilt er að veita fötluðu fólki, 16 ára og eldra, styrk til greiðslu námskostnaðar sem ekki er greiddur samkvæmt ákvæðum annarra laga, enda teljist námið hafa gildi sem félagsleg hæfing eða endurhæfing.

Með námskostnaði er hér átt við:

1. Útlagðan kostnað vegna námsgagna.

Með námsgagni er m.a. átt við tæknilegan búnað, svo sem tölvur og annan skyldan búnað, enda sé slíkt námsgagn nauðsynlegt til að námið nýtist hinum fatlaða.

2. Útlagðan kostnað vegna námskeiðs- eða skólagjalda.

2. gr.

Skilyrði fyrir greiðslu námsstyrks eru eftirfarandi:

1. Að sýnt sé fram á námsástundun.

2. Að sýnt sé fram á, eða ljóst sé með öðrum hætti, að umsækjandi eigi ekki rétt til sams konar styrks samkvæmt öðrum lögum, svo sem lögum um almannatryggingar, (hjálpartæki).

3. gr.

Umsóknir um styrk skulu berast svæðisskrifstofu á þar til gerðu eyðublaði félagsmálaráðuneytis, ásamt ítarlegri greinargerð og áætlun um námið þar sem m.a. komi fram tilgangur náms, námstími og áætluð námslok.

4. gr.

Við umsókn um námsgagn getur svæðisskrifstofa farið fram á staðfestingu skóla eða námskeiðshaldara um að námsgagnið sé umsækjanda nauðsynlegt.

Áður en umsókn um námsgagn er afgreidd skal réttur umsækjanda til hjálpartækja fullreyndur skv. lögum um almannatryggingar.

Þegar sótt er um styrk til flókins tæknilegs búnaðar, þ.e. tölvu og annan skyldan búnað, getur svæðisskrifstofa leitað álits sérfróðra aðila, t.d. Tölvumiðstöðvar fatlaðra eða Starfsþjálfunar fatlaðra.

5. gr.

Við umsókn um námskeiðs- eða skólagjald leggi umsækjandi fram nauðsynleg vottorð til staðfestingar náminu.

6. gr.

Við úthlutun á styrk til skóla- eða námskeiðsgjalda skal miða við tiltekinn tíma hverju sinni, svo sem önn, skólaár eða tiltekið námskeið.

Eftir að styrkur hefur verið veittur getur svæðisskrifstofa krafið hlutaðeigandi styrkþega um nauðsynleg vottorð til staðfestingar á námslokum.

II. KAFLI

Styrkir til verkfæra- og tækjakaupa.

7. gr.

Heimilt er að veita fötluðu fólki, 18 ára og eldra, styrk til verkfæra- og tækjakaupa eða aðra fjárhagslega aðstoð í sambandi við heimavinnu eða sjálfstæða starfsemi, enda teljist starfsemin hafa gildi sem félagsleg hæfing eða endurhæfing sem miði að því að auðvelda fötluðum að skapa sér atvinnu. Með verkfærum og tækjum er hér einungis átt við búnað sem tengist starfsemi beinlínis, t.d. tölvubúnað, en ekki hjálpartæki, sbr. 39. gr. laga um almannatryggingar nr. 67/ 1971 með síðari breytingum. Aðstoð skal vera einstaklingsbundin og er óheimilt að styrkur renni til fyrirtækis.

8. gr.

Skilyrði fyrir styrkveitingu eru:

1. Að umsækjandi hafi notið endurhæfingar á vegum viðurkennds aðila.

2. Að umsækjandi sýni fram á að fyrirhuguð eða yfirstandandi heimavinna eða sjálfstæð starfsemi skapi honum atvinnu.

9. gr.

Umsókn um styrk sendist svæðisskrifstofu á þar til gerðu eyðublaði félagsmálaráðuneytis þar sem gerð er grein fyrir fyrirhugaðri starfsemi og hvernig undirbúningi hennar hafi verið háttað. Með umsókn fylgi læknisvottorð þar sem fram komi, m.a., hverjar horfur séu á því að umsækjandi sé fær um að stunda fyrirhugaða starfsemi.

Áður en umsókn um styrk til tækjakaupa er afgreidd skal réttur umsækjanda til hjálpartækja fullreyndur skv. lögum um almannatryggingar.

Ef starfsemi er þegar hafin skulu lagðar fram upplýsingar um hana, t.d. rekstrarreikningur, ef unnt er.

Þegar sótt er um styrk til flókins tæknilegs búnaðar, þ.e. tölvu og annan skyldan búnað, getur svæðisskrifstofa leitað álits sérfróðra aðila, t.d. Tölvumiðstöðvar fatlaðra eða Starfsþjálfunar fatlaðra.

Heimilt er svæðisskrifstofu að krefjast rekstraráætlunar vegna fyrirhugaðrar starfsemi.

III. KAFLI

Sameiginleg ákvæði.

10. gr.

Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra annast mat á þörf á styrkjum skv. reglugerð þessari og tekur ákvarðanir um greiðslu þeirra.

Við ákvörðun styrkja skulu svæðisskrifstofur gæta samræmis milli svæða varðandi fjárhæð styrkja og greiðslutilhögun. Í því skyni skulu svæðisskrifstofur setja sér sameiginlegar reglur sem staðfestar skulu af félagsmálaráðuneyti.

11. gr.

Svæðisskrifstofa skal veita fötluðum upplýsingar, nauðsynlega aðstoð og leiðbein-ingar varðandi þau atriði sem undir reglugerð þessa falla.

12. gr.

Við úthlutun á styrk til námsgagna eða verkfæra- og tækjakaupa má skipta greiðslu í tvo hluta og skal í því tilviki eigi greiða síðari hlutann fyrr en reikningi er framvísað.

13. gr.

Svæðisskrifstofa skal árlega áætla útgjöld til styrkveitinga vegna námskostnaðar og verkfæra- og tækjakaupa við gerð fjárlagatillagna sinna.

14. gr.

Verði gerður samningur við sveitarfélag um að yfirtaka þá þjónustu sem reglugerð þessi tekur til kemur sveitarfélag í stað svæðisskrifstofu eftir því sem við á.

15. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er skv. 27. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra, öðlast gildi þegar í stað. Jafnframt eru úr gildi fallnar reglugerð nr. 265/ 1985 um styrki og lán til greiðslu námskostnaðar fatlaðra og reglugerð nr. 244/1986 um styrki og lán til verkfæra- og tækjakaupa.

Félagsmálaráðuneytið, 21. september 1994.

Guðmundur Árni Stefánsson.

Þorgerður Benediktsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica